24.03.1942
Neðri deild: 25. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 840 í B-deild Alþingistíðinda. (2410)

38. mál, stjórnarskipunarlög

*Jón Pálmason:

Það er ekki mikil ástæða til að ræða efnishlið .þessa máls miklu meira á þessu stigi. Það verða að sjálfsögðu tækifæri til þess að minnast á einstök atriði við síðari umr. Það er víst, að ekki er hægt að gera neina leiðréttingu á kosningafyrirkomulaginu og kjördæmaskipun landsins, nema það gangi út yfir Framsfl. Það er því í rauninni eðlilegt, að framsóknarmenn reyni að halda þeirri aðstöðu, sem þeir hafa. En það, sem aðallega veldur því, að ég kvaddi mér hljóðs, er reeða hæstv. forsrh. hér í gær. Hann dró inn í þessar umr. nokkur þýðingarmikil atriði í stjórnmálum okkar, ekki sízt kosningafrestunina s.l. vor og kosningahorfur nú. Í öðru lagi veik hann í ræðu sinni áðan að því; hvernig síðasti kosningabardagi hefði reynzt. Hæstv. ráðh. endaði ræðu sína í gær með því að gefa mjög merkilega yfirlýsingu. Hann vildi mig sízt allra þm. sem stuðningsmann sinn og stjórnar sinnar. Ég ætla nú að lýsa yfir því, hæstv. ráðh. til ánægju, að mér er gleði að þessari yfirlýsingu, vegna þess að hún sannar mér það, að ég hef starfað á réttri braut. Viðvíkjandi því, sem hæstv. ráðh. talaði um kosningafrestunina, þá tók hann hreinlega á sig ábyrgð þeirra rástafana, og þykir mér vænt um það. En það kemur mjög mikið í mótsögn við bréf, sem Framsfl. sendi út um landið, þar sem hann þakkar sér það herbragð að fá Sjálfstfl. til þess að koma kosningafrestuninni í gegn. En hér í höfuðstaðnum er þetta óvinsælasta ráðstöfun, sen gerð hefur verið hin síðari ár, og hún mun verða því óvinsælli sem lengra líður. Ég skal ekki tala mikið um þetta mál, en mér þykir eftirtektarvert, að hæstv. forsrh. skuli hvað eftir annað koma með firrur eins og þá, að kosningafrestun geti ekki haldið áfram vegna þess, að það hafi verið farið fram á, að aukakosning færi fram í einu útkjálkahéraði, af því að þm. sagði af sér. Það trúir því enginn, að breyta þurfi ákvörðun Alþ., þó að aukakosning færi fram í einu eða tveimur .héruðum. Það er fjarri öllu lagi. Viðvíkjandi því, að flokkur ráðh. og hann sjálfur eru nú búnir að samþ., að kosningar skuli fara fram á næsta vori, þá er ekkert við því að segja úr því, sem komið er. Mér finnst sízt sitja á þessum ráðh. að vera að haltra á því hér, að það megi ekki samþ. nein mál vegna ófriðarástandsins, og af því þurfi ekki að kjósa um þau. Viðvíkjandi því, sem ráðh. var að tala um kosningaúrslitin hér í Reykjavík, þá er það alveg rangt, að ég hafi verið að hlakka yfir óförum Framsfl. En því er ekki að neita, að flokkurinn hafði þann mann efstan á lista, sem líklega hefur dregið til sín 1–200 atkv. í persónufylgi. En hæstv. forsrh. setti sig á oddinn í þessum kosningum, og það má telja víst, að óvinsældir hans hafi valdið því, að svo fór sem fór, að flokkurinn kom ekki inn manni. Á kosningadaginn birti hæstv. forsrh. ávarp til Reykvíkinga, þar sem hann skoraði á þá að mótmæla nú hækkuðu verði á landbúnaðarafurðum með því að fella Sjálfstfl. Ég og hv. 5. landsk. höfðum óskað eftir því í samstarfi við bændur landsins, að vörur þeirra yrðu hækkaðar í verði. Ég verð að segja það í sambandi við þetta mál, að ég hef ekki farið með neinar kröfur umfram það, sem fram hefur komið hjá þeim mönnum, sem hafa gleggstan skilning á þessum málum, og má því til nefna búnaðarmálastjóra, hv. 2. þm. Skagf. Það þýðir því ekki fyrir hæstv. ráðh. að vera með neinar dylgjur í minn garð á þessu sviði.

Ég skal ekki lengja umr. mikið, en vil eins geta þess, að ég hef því miður fengið í hendur og á í fórum mínum dálítið myndasafn um það, hvernig framkvæmdastjórn þessa hæstv. ráðh. hefur verið í ýmsum málum hér hjá því opinbera, síðan hann tók við störfum. Ég ætla ekki að draga neitt fram úr myndasafninu nú, en mun kannske síðar draga fram í dagsljósið eitthvað af þeim dæmum.