13.05.1942
Neðri deild: 57. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 844 í B-deild Alþingistíðinda. (2420)

38. mál, stjórnarskipunarlög

*Frsm. meiri hl. (Ásgeir Ásgeirsson):

Eins og nál. ber með sér, þá hefur n. klofnað í þessu máli. Í n. var borin fram till. um það, hvort sjálfstæðismálið skyldi tekið upp í sambandi við þetta frv., en sú till. var felld. Aftur á móti gerði minni hl. ráð fyrir því að bera fram sérstaka þáltill. um, að sjálfstæðismálið væri undirbúið til afgreiðslu á næsta þingi af sérstakri mþn. Hér er lagt til, að kjördæmamálið verði afgreitt á þessu þingi. Meiri hl. fannst, að það gæti verið æskilegt að taka sjálfstæðismálið fyrir sérstaklega, þar sem um er að ræða mál, sem allur þingheimur gat orðið sammála um, eins og kom í ljós á síðasta þingi. En það mál er ekki til þess að rugla saman við önnur mál, og þegar það verður afgreitt, er æskilegt, að það verði afgreitt í einu hljóði, ef þess er nokkur kostur. Aftur á móti er það svo með kjördæmamálið, að engin von er til annars en það verði deilumál, hvenær sem það yrði tekið til afgreiðslu. Með því að afgreiða það á þessu þingi og staðfesta svo stjórnarskrárbreyt. á næsta þingi og hafa síðan aðrar kosningar samkv. nýju kosningal., þá er tækifæri til að afgreiða sjálfstæðismálið á því þingi, sem staðfestir stjórnarskrárbreyt. þá, sem hér er um að ræða. Ef hins vegar væri farin sú leið, að kjósa nú, án þess að nokkur stjórnarskrárbreyt. yrði, eins og fulltrúar Framsfl. leggja til í sínu nál., þá mundi það að öllum líkindum kosta þrennar kosningar, en ekki tvennar, eins og lagt er til af meiri hl. Þær kosningar, sem fylgja eftir stjórnarskrárbreyt., sem felur í sér breyt. á kjördæmaskipun, verða að öllum líkindum tvennar, eins og var 1933 og 1934. Ef þær kosningar, sem nú standa fyrir, eru látnar ónotaðar í sambandi við þessa breyt., þá eru þrennar kosningar óhjákvæmilegar. Þeir, sem telja það ókost að hafa margar kosningar, ættu þess vegna heldur að kjósa þá leiðina, sem meiri hl. hefur hér lagt til, að farin verði. Þær till., sem hér liggja fyrir, eru samkomulagstill. allra flokka í n. nema Framsfl. Í n. var fallizt á af öllum flokkum nema Framsfl., til samkomulags, að fella niður till. um, að Akranes og Norðfjörður yrðu sjálfstæð kjördæmi, en þær till. samþ., að í tvímenningskjördæmunum verði hlutfallskosningar og verði bætt við 2 þm. í Rvík. og einum á Siglufirði.

Þetta eru nú á engan hátt nýjar till. Allur sá undirbúningur, sem fram hefur farið í þessum málum á árunum 1931 til 1933, er í raun og veru undirbúningur að þessu frv. Hv. minni hl. n. leggur áherzlu á í sínu áliti, að sá undirbúningur hafi verið ákaflega ýtarlegur. Þá komu fram till. um hlutfallskosningar í tvímenningskjördæmunum. Þetta er nú aðaltill. frv., því að þróunin í kjördæmamálinu hefur verið á einn veg sú að gera jöfnuð milli flokkanna. 1915 var tekin upp hlutfallskosning með landkjörinu, og 1920 var einnig hlutfallskosning tekin upp í Rvík. 1933 eru tekin upp uppbótarþingsæti, sem á þessu síðasta tímabili hefur haft þau áhrif, að mismunur á tölu kjósenda, sem standa bak við hvern þm., er ekki nærri eins mikill og ella hefði orðið. Á þessu kjörtímabili hafa sumir þingflokkar helmingi fleiri kjósendur bak við hvern þm. heldur en sá flokkur, sem hefur fæsta kjósendur. En væru engin uppbótarþingsæti, yrði mismunurinn 1:3 eða miklu meiri heldur en þó yfir þennan tíma. Síðan hefur þessi aðferð verið tekin upp í Búnaðarfélagi Íslands, — en þar eru 7 kjördæmi, — fyrir forgöngu Framsfl. í þeim félagsskap. Einnig hefur verið tekin upp hlutfallskosning við sveitarstjórnarkosningar, sé þess óskað af öllum þorra kjósenda. Þannig hefur þróunin verið í þá átt að gera öllum flokkum jafnhátt undir höfði með því að hafa hlutfallskosningar og með uppbótarsætum. Það er á þessari sömu línu, sem meiri hl. n. er, og ég geri ráð fyrir því, að margir hverfi að þessari aðferð. Þá er ef til vill hugsanlegt, að gömlu kjördæmin séu lífseig, enda eru allar venjur þar rótgrónar og sterkar, en þá ætti að vera einfalt að lagfæra það með uppbótarsætum, og í þá átt hefur þróunin gengið í nágrannalöndunum. Sú aðferð að taka upp hlutfallskosningar í tvímenningskjördæmunum er aðeins til þess að jafna hlutföllin í viðkomandi sveitum. En samt næst ekki fullur jöfnuður. Það kemur í ljós, ef litið er á úrslit síðustu kosninga. Ef þessi regla hefði gilt þá, að hafa hlutfallskosningar í tvímenningskjördæmunum, hefði sá flokkur, sem var næststærstur, Framsfl., ekki fengið fullan jöfnuð, en vitanlega fengi hann uppbótarsæti í samræmi við atkvæðafjölda sinn. Í þessu frv. er þannig lagt til, að allir fái bót sinna mála.

Það má segja, að hér sé aðeins um að ræða að jafna aðstöðu manna í dreifbýlinu. En það eru engar röksemdir, að þeir einir séu sveitamenn, sem fylgja ákveðnum stjórnmálaflokki, en allir hinir væru taglhnýtingar þéttbýlisins, eins og framsóknarmenn halda fram. Þessi jöfnuður í dreifbýlinu mundi eftir tveimur síðustu kosningaúrslitum nægja til þess, að sæmilegur jöfnuður fengist um land allt. En þegar hafðar eru hlutfallskosningar í Rvík og tvímenningskjördæmunum, er ómögulegt að styðja fingri á eitthvert sérstakt kjördæmi og segja, að þarna og þarna séu kjósendur beittir órétti, enda er með þessari breyt. alveg útilokað, að ójöfnuður verði mikill milli kjósenda. Þessi regla, sem mér er sett við kosningar, gengur ekki út frá, að flokkarnir verði óbreyttir. Þessi regla er þannig, að þingmannafjöldinn breytist eftir því, sem flokkarnir og framboðið breytist. Þess vegna er sama aðhald fyrir flokkana að vanda framboð sitt, rétt eins og önnur kosningaaðferð væri höfð. Flokkarnir verða að sjálfsögðu ekki sterkari né einstaklingurinn veikari heldur en ella mundi. Með þessum breyt. er minni hl. gert mögulegt að starfa í félagsskap við meiri hl. Einnig er minni hl. heimilt að fylgja meiri hl. að málum, ef honum finnst það vera í meira samræmi við sínar skoðanir.

Þá var meiri hl. sammála um, að bæta við 2 þm. í Rvík, en þar býr nú 1/3 hluti allrar þjóðarinnar. Sannarlega er hér ekki of langt gengið, því að höfuðstaður landsins hefur haft allt of fáa þm. Þó hafa uppbótarsætin jafnað þetta nokkuð, enda hefur orðið sú raunin á, að uppbótarþm. hafa eiginlega verið sem þm. fyrir Rvík.

Það er engin tilviljun, að allir þeir flokkar þingsins, sem ekki hafa hagnað af þeim sérréttindum, sem núverandi kosningafyrirkomulag veitir, hafa orðið sammála um þessar till. Þingflokkar eru ekki vanir að vera sammála að ástæðulausu, og hér er ástæðan sú, að þeir gera allir hina sömu kröfu um jafnrétti þegnanna. Krafa þessi byggist á því, að fólkið sé talið jafnrétthátt, hvar sem það býr í landinu. Þetta leiðir að vísu af sér tvennar kosningar, en þá mætti jafnframt hafa það hugfast, að till. minni hl. í máli þessu mundu orsaka þrennar kosningar, ef þær yrðu samþ.

Það má ýmislegt segja um þá kosningafrestun, sem var afráðin s.l. ár, og má færa margt til málsbótar fyrir því, að sú frestun hafi verið réttlát. Þó hygg ég, að mörgum þm. komi saman um, að hún hafi ekki átt að ná lengra en til s.l., hausts. Flestir hv. þm. munu koma sér saman um, að valdi óviðráðanlegir atburðir kosningafrestun, eigi hún að vera sem allra stytzt, þar sem hún hefur óheppileg áhrif á þingið. Þó að tímar þessir séu alvarlegir, eigum við ekki að vorkenna sjálfum okkur um of, ekki verra heldur en ástandið er, samanborið við aðrar þjóðir, sem eiga um sárt að binda. Þó að við séum hertekin í vissum skilningi; þá megum við enn ræða og útkljá okkar mál sjálfstætt; og það eigum við að nota okkur, svo lengi sem tækifæri gefst. Ef óviðráðanlegir atburðir kynnu að steðja að, þá er að taka því, sem að höndum ber, en þeir mega undir öllum kringumstæðum ekki valda nema sem stytztum kosningafrestunum.

Það stóð til, að umr. þessari yrði útvarpað, en nú mun vera ákveðið, að 3. umr, verði útvarpað í byrjun næstu viku. Ég hygg því, að þessi umr. verði hvorki jafnlöng né ýtarleg og ella hefði orðið.