13.05.1942
Neðri deild: 57. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 851 í B-deild Alþingistíðinda. (2422)

38. mál, stjórnarskipunarlög

*Sigurður Kristjánsson:

Ég skal ekki fara mikið út í efni þessa frv., sem hér er rætt um, eða meðferð hv. stjskrn. á því. Það hefur hv. frsm. meiri hl. gert, og sé ég því ekki ástæðu til að endurtaka það. Hann skýrði í stuttu máli frá meðferð málsins. Ekki skal ég heldur fara út í þá sálma að ræða um það, sem fram kann að hafa komið um þetta mál utan þings. Ég hef nú verið fjarverandi þinginu nú í nokkra daga vegna lasleika og þess vegna ekki lesið mikið af dagblöðunum, t.d. ekki dagblað minni hl., svo að ég er nokkuð ófróður um það, hvað þar hefur verið sagt um þetta mál að undanförnu. Ég gat ekki búizt við, að það væri neitt heilsusamlegt eða sáluhjálplegt að lesa slíkt á sjúkrabeði, svo að ég las það ekki einu sinni. En þetta framsóknarblað sýnist mér vera þess eðlis, að það megi leggja það til hliðar og láta það bíða síns dóms eða þá gleymskunnar.

En ég vil leyfa mér að rifja upp nokkur atriði málsins sjálfs frá byrjun, og skal ég þá leyfa mér að byrja á því, að strax þegar rofnaði samband Íslands við Danmörku, þá reis sú krafa upp, ég held frá einhverjum einstökum mönnum í flestum landsmálaflokkum, að taka ætti þeim afleiðingum á þann hátt að semja ný stjórnarl. fyrir Ísland, byggð á því, að Ísland væri orðið óháð öðrum ríkjum. Ég taldi þessa lausn málsins sjálfsagða og ætlaðist vitanlega til þess, eins og sjálfsagt þeir aðrir úr Sjálfstfl. og öðrum flokkum, sem þeirrar breyt. kröfðust, að þau stjórnarl. yrðu byggð upp með það fyrir augum, að þau stæðust fyllstu kröfur um lýðræðislegt stjórnarfyrirkomulag á Íslandi. Og það var í raun og veru ákaflega heppilegur tími til þess þá, sökum þess að þá var allur heimurinn að fara í blóðuga styrjöld einmitt út af ágreiningi um það, hvort þjóðirnar ættu að búa við lýðfrelsi eða einræði og kúgun. Það varð þó ekki úr þessu þá. Mótstaða reis strax gegn því. Og það er óhætt að segja það, að það, sem olli því fyrst og fremst, að ekki var hafizt handa um þetta hér hjá okkur, að taka fullkomlega á móti því frelsi, sem . kom þannig fyrirhafnarlitið upp í hendur okkar, það var framsfl. Þrátt fyrir það þótt hv. formaður þess flokks hefði gert margar ákveðnar till. í því máli um það, að Ísland lýsti fullu sjálftsæði sínu 'og hagaði sér að öðru leyti í samræmi við það, þá varð þó flokksþing Framsfl. til þess að berja þessa kröfu niður. Og þegar svo flokkarnir áttu um þetta að semja, þá var gerð miðlun, sem var mér mjög á móti skapi. Við höfum því búið við hálfgerðan óskapnað í stjórnskipuninni þessi síðustu 2–3 ár. En nú virðist svo komið, að meiri hl. hæstv. Alþ. a.m.k. hafi komizt á þá skoðun, að við eigum að stíga okkar sjálfstæðisspor að fullu. Og því hlýtur þá að fylgja það, að við byggjum upp stjskr. landsins með almennum stjórnskipunarl. Það, sem aðallega hefur staðið í vegi fyrir því, að hafizt hafði verið handa um það, var óvissan um það, hvort nokkrar kosningar mundu verða bráðlega, þ.e.a.s. hæstv. Alþ. mundi sitja áfram án nýrra kosninga eða nýjar kosningar mundu fram fara, eins og að sjálfsögðu á að vera.

Það hefur verið ákaflega mikið talað um, að okkur sé nauðsyn á friði í landinu milli pólitísku flokkanna. Engir menn hafa talað um þetta af jafnmikilli hrifningu eins og framsóknarmenn, og nú seinast hv. 1. þm. Rang. (SvbH). En í verkinu virðist ákaflega lítið benda til þess, að þessi flokkur meini nokkuð með þessu friðartali, því að hann vill enn sem fyrr eiga illt við allar stéttir þjóðfélagsins og alla flokka. Og það er vitað, að það er verk þessa flokka, að stjórnarsamvinnan, sem var, hefur brostið. Þessi flokkur, sem er byggður þannig upp, að hann telur sig eiga að beita bolmagni og ofbeldi, hvar sem því má við koma, hann vill sífellt leysa ágreiningsmálin með valdi. Þar af leiðandi er það mjög erfitt fyrir þá, sem vilja virða hag allra stétta, að eiga nokkra samvinnu við þennan flokk. Stjórnarsamvinnan, sem sagt, hefur rofnað fyrir einþykkni og kappgirni Framsfl., fyrir það, að hann vill beita valdi, en ekki leita samninga. Af þessu leiðir svo aftur það, að það er varla ástæða til annars heldur en kosningar fari fram.

Þegar ég sá hilla undir það, að kosningar mundu fara fram á næstunni, þá hreyfði ég því opinberlega, að sjálfsagt væri, að strax og kosningar færu fram, þá yrðu til undirbúin sérstök og fullkomin stjórnarl. fyrir landið. Ég hreyfði þessu, undir eins og hervernd Breta létti af landinu og Ísland fékk sér hervernd hlutlauss ríkis, Bandaríkjanna, og taldi ég þá, að kosningar ættu að fara fram og við ættum að ganga frá stjórnskipunarmálinu. Þetta varð þó ekki að framkvæmd í bráð og sú ástæða fyrir því færð, að það yrði að haldast innanlandsfriður og ekkert mætti gera, sem raskaði samvinnu þeirra stjórnmálaflokka, sem að ríkisstj. stóðu. Og þegar leið að þessu þingi, sem nú stendur yfir, þá var að sönnu búið að gefa yfirlýsingu um það af Framsfl., eða um það bil, að mig minnir, að kosningar skyldu fram fara á þessu ári. En engan veginn var það talið víst, og má m.a. sjá það á þáltill. þeirri, sem hæstv. forseti Sþ. hefur borið fram, og einnig af þeim umr., sem fram hafa farið í þinginu um það, hvort kosningar gætu farið fram, nema ný þál. yrði samþ. Minni kröfu eða till. innan míns flokks um, að flutt yrði hér strax á öndverðu þingi frv. um ný stjórnskipunarl., þar sem kosningamálið væri tekið upp, gat ekki fengið afgr. að áliti míns flokks, fyrr en fullvíst væri um það, hvort kosningar yrðu látnar fara fram á þessu ári. Og þegar frv. það, sem sér liggur fyrir, kom fram og fór í n., þá var svo langt um liðið, að við 4 nefndarmenn, sem nú myndum meiri hl. n., töldum ekki að tími gæti unnizt til þess að ganga frá fullkomnum stjórnskipunarl. nú, þar sem sjálfstæðismálið væri tekið fyrir fyrst og fremst, og töldum, að til þess yrði fyrst að vera sett nefnd, sem starfaði að því a.m.k. nokkurn tíma að undirbúa málið, áður en það yrði til lykta leitt. Hitt var álit okkar, sem oft hefur verið fram tekið, að þá töldu margir hv. þm., og sjálfsagt mikill meiri hluti hv. þm., að það væri alveg sjálfsagður hlutur, að ef kosningar færu fram í ár, þá bæri að nota það tækifæri til þess að gera breyt. á því helzta, sem breyta þyrfti í stjórnskipunarl., að því er kosningarréttinn eða kjördæmaskipunina snertir. Á móti þessu hefur það verið haft af Framsfl., að þetta vekti óróa og sundurþykki á hættulegum tímum. En ef á að ganga til kosninga á annað borð, þá veit það hver einasti maður, að kosningar geta ekki orðið á friðsamlegan hátt. Þú deila flokkarnir, eins og þeir geta, og deila þá um dauð mál, ef annað liggur ekki fyrir. Við sjálfstæðismenn álitum þá alveg eins gott að kjósa um eitthvert verulegt mál eins og að kjósa um ekki neitt eða þá kannske gamla drauga. Fyrst það á að deila á annað borð, þá er rétt, að barizt sé um ágreining þann, sem er til staðar á milli flokkanna um þessi leiðréttarmál.

Því hefur verið lýst yfir af hv. frsm. meiri hl. n., að við, sem flytjum þetta frv., munum leggja til, að sett verði n. til þess að undirbúa fullkomna stjórnskipunarlöggjöf fyrir næsta þing. Og það er vitað, að ef þetta stjskrfrv., sem hér liggur fyrir, verður samþ., þá verður þess mjög skammt að bíða, að það þing verði háð.

Ég þarf ekki að endurtaka mótmælin gegn þeirri firru, að afgreiðsla breyt. á stjórnskipunarl. á næsta þingi fjölgi kosningum fram yfir það, sem vera þarf til samþykktar þessu frv., því að það er vitað, að ef stjórnskipunarl. verða samþ., hlýtur það að leiða af sér tvennar kosningar. Því að engum manni í þessu þjóðfélagi getur dottið til hugar nema framsóknarmönnum, að samþ. verði ný stjórnskipunarl. fyrir þetta land, nema með því móti, að breytt sé kjördæmaskipuninni.

Það er vert að athuga það, hver er grundvöllurinn undir stjórnskipunarl. einnar þjóðar. Ég hygg, að allir sanngjarnir menn séu sammála um það, að það eigi að vera frelsi og jafnrétti þegnanna. Ef við komum okkur saman um það, að ósæmilegt sé fyrir íslenzku þjóðina að setja stjórnarl., þar sem ekki er séð fyrir þessum grundvelli, þá verðum við einnig að viðurkenna, að kjördæmaskipun landsins verður að breytast stórkostlega. Því að það er ekki jafnrétti þegnanna, ef einn maður í þjóðfélaginu hefur kannske ekki nema 1/5 eða 1/10 hluta af rétti á við annan til þess að ráða málefnum þjóðarinnar. En svona er hlutfallið nú í ýmsum tilfellum, því að það mun sjálfsagt engum mönnum ofvaxið að skynja það, að það er fólkið í landinu, en ekki holt og hæðir, sem á að ráða. Það eru dæmi til þess í öðrum löndum, að heil kjördæmi hafa gertæmzt að fólki og horfið úr sögunni. En hitt, er þó enn alþekktara fyrirbrigði, að þar, sem mannfá svæði hafa verið, hafa komið upp blómlegar byggðir, bæði landbúnaðarbyggðir, iðnaðarbæir og verzlunarborgir. Og öllum þykir sjálfsagt, að fólkið á þeim stöðum fái réttindi til kosninga í samræmi við aðra landsmenn, eins og það þykir rétt, að réttur til þátttöku í ráðstöfunum á málum þjóðarinnar hverfi þar, sem mannlaust er orðið. Kjördæmaskipuninni verður því að sjálfsögðu að breyta.

En ágreiningur um þetta mál er þó mjög eðlilegur. Hann stafar af þessari sívakandi eigingirni manna. Nú hagar því þannig til, að Framsfl. situr að fámennum kjördæmum víða um landið. Og af þeirri ástæðu hefur þessi flokkur fengið tækifæri til þess að hafa miklu meiri áhrif á löggjöf landsins heldur en honum ber eftir mannfjölda. Vitanlega vill ekki þessi flokkur sleppa þessum fríðindum. En það er ekki hægt að veita þessum flokki þessi réttindi öllu lengur, og sízt af öllu af því, að það má sýna fram á það með rökum, að hann hefur farið miður vel með þessi sérréttindi sín, því að hans sérréttindi hafa ekki orðið mannfólkinu í landinu til hagsbóta, en flokkum sjálfum til lítils sóma. Það hefur nú staðið svo milli 10 og 20 ár, að löggjöf sú, sem afgreidd hefur verið hér frá hæstv. Alþ., hefur í mörgum tilfellum verið andstæð vilja meiri hl. þjóðarinnar, sem stafar af því, að hér hefur farið með völd í landinu flokkur, sem ekki studdist við meiri hluta þjóðarinnar. Þessi flokkur styðst við um það bil 1/4 hluta þjóðarinnar, og hann hefur aldrei komizt hærra en að hafa 1/3 hluta þjóðarinnar á bak við kjörna þm. sína. Samt hefur hann stjórnað, og hefur mörgum verið það ráðgáta, hvernig það hefur mátt ske. En ástæðan fyrir því er sú, að hann er ekkí landsmálaflokkur, heldur samtíningur af hópum manna með gerólíkar skoðanir, frá hinum ákveðnustu afturhaldsmönnum til fullkominna stjórnleysingja. Þessi samtíningur, sem hangið hefur saman á hagsmunabandi, hefur alls ekki verið landsmálaflokkur, heldur verzlunarflokkur. Og það er rétt fyrir okkur, þegar að því líður, að þessi lofsæli flokkur liður undir lok, að gera okkur grein fyrir því, hvað landinu hefur stafað mikill gróði af þessari verzlunarpólitík. Við vitum það, að þessi flokkur hefur hvað eftir annað komið til annarra flokka og beðið um aðstoð, þegar hann hefur verið um það bil að setja alla á hausinn í landinu. 1927 tók hann við fullu húsi fjár, ágætum efnahag hjá ríkissjóði og blómlegum atvinnuvegum. En hann hafði skamma stund stjórnað hér í landinu, þegar hann var búinn að setja allt á hausinn. Fjárhagur ríkisins varð svo í höndum þessa flokks, að ríkið varð ekki aðeins ómegnugt þess að halda uppi skuldum sínum gagnvart lánardrottnum sínum, heldur varð íslenzka ríkið bókstaflega að betla. Það voru sendir menn til annarra landa til þess að knékrjúpa lánsstofnunum og biðja þær að hjálpa þessu vesala ríki um gjaldfrest fyrir skuldum sínum. Atvinnuvegirnir fóru undir stjórn þessa flokks algerlega í rústir. Þessi flokkur vildi ekki viðurkenna í landinu nema einn atvinnuveg og ekki nema eina stétt. Hann vildi ekki viðurkenna sjávarútveginn sem nytsaman atvinnuveg, þrátt fyrir það að landhagsskýrslurnar stóðu fyrir augum hans, sem báru vitni um það, að 90% af öllum útfluttum vörum frá landinu voru sjávarafurðir. Hann vildi alls ekki viðurkenna verkalýðsstétt landsins, heldur leiða til lykta öll mál verkalýðsins í landinu í óvild þessa fólks. Hann segir nú, þegar eitt vandamálið er skortur á vinnuafli í landinu, að hann vilji ekki tala um það mál við verkalýðsfélögin í landinu, heldur vill hann leysa þetta mál í fullum fjandskap við þau. Og þó segir hv.- 1. þm. Rang., að nú séu hættulegir tímar. (BJ: Hvað segir Sjálfstfl. um það?) M.a. segir hann það, sem ég segi nú. Það er aðeins ein stétt þjóðfélagsins, sem Framsfl. þykist vilja halda frið við, sem ekki stafar af öðru en atkvæðaveiðum. En hvernig vill hann, að þessi stétt sé? Hann vill ekki, að þessir menn séu sjálfstæðir menn. Hann hefur byggt fyrir það með því að hneppa þessa menn í skuldafjötra. Hann hefur gengizt fyrir því að setja skuldaklafa á alla bændur með kaupfélagsskapnum. Og jafnframt hefur hann reynt að sölsa undir ríkið jarðir bænda og lagt kapp á að breyta sjálfseignarbændum í leiguliða. Það er framtíðarhugsjón þessa flokks að halda, þannig í taumana á bændum, sem annars vegar séu skuldataumarnir um háls þeirra, en hins vegar leiguliðafjötur um fót þeirra.

Þessi stjskrbreyt., sem hér er á ferðinni, stefnir auðvitað að því að draga úr valdi þessa flokks. Mér er sama, hvað hv. 1. þm. Rang. segir um þetta, að það sé, eins og hann talaði um, til þess að búa til minnihlutaþm. því að það er rangt. Þetta er til þess að útrýma minnihlutaþm., draga úr valdi þeirra og gera það bara eðlilegt. Það þýðir ekkert fyrir Framsfl. að neita því, að hlutfallskosning, hvort sem hún er í stærri eða minni stíl, miðar að því að gera rétt þegnanna sem jafnastan. Ég skal taka það fram, að mín persónulega skoðun er, að sú hlutfallskosning, sem hér er stofnað til, gangi miklu skemmra en nauðsynlegt er til þess að tryggja fullkomlega jafnrétti kjósendanna. Og þó við sættum okkur við það nú, þá munu rísa upp kröfur um það síðar, að hlutfallskosningar verði miklu fullkomnari og réttur þegnanna öruggari og jafnari heldur en fyrirkomulag það, sem nú er stofnað til, getur tryggt. En það er víst, að Framsfl. sér nú sína sæng upp reidda, og hann getur ekki lengur haft meiri áhrif um hlutdrægni í löggjöf landsins en honum ber. Og það er líka mjög sennilegt, að þegar fer að halla undan fæti hjá þessum flokki, þá muni fækka allverulega atkv. hans. Það þarf ekki að efast um það, og það er mannlegt, að fjöldi fólks úti um land hefur kosið með Framsfl. vegna þess eins, að hann hefur verið í stjórn landsins. Það er ekki nema eðlilegur hlutur, að fjöldi manna vill sitja í stjórnarskjólinu, og þetta hefur auðvitað aukið fylgið. En það hefur ekki verið litið eins á það, hvernig þetta vald hefur verið fengið eða með það farið. Það má því gera ráð fyrir því, að fljótt fari að halla undan fæti hjá Framsfl., þegar fara á að bæta ofurlítið hlutföllin milli flokkanna. En það þýðir ekkert fyrir þennan flokk að vera að spyrna á móti eðlilegum kröfum fólksins. Hann verður nú að sætta sig við það, að h,ann er ekki nema að litlu leyti rödd? fólksins, að minna leyti en flestir aðrir flokkar landsins. Þar af leiðandi verður hann að beygja sig fyrir almennri nauðsyn og almennum kröfum. Ég held þess vegna, að flokkurinn geri réttast í því að leita samkomulags við aðra flokka um að breyta kjördæmaskipuninni hægt og hægt. Sjálfstfl. hefur alltaf sýnt, að hann er samkomulagsflokkur. Hann er hvorki uppstökkur né blóðþyrstur. Honum hefur verið fundið það til foráttu, að hann sé seinn að ganga eftir rétti sínum. Hann hefði þess vegna tekið því vel, ef Framsfl. hefði leitað samkomulags um að breyta kjördæmaskipuninni hægt og hægt, og með sem minnstu umróti. En þetta hefur Framsfl. ekki kosið að gera. Og afleiðingin af því hlýtur að vera sú, að aðrir flokkar hafa forgöngu í þessu máli og taka réttinn, fólkinu til handa, með nokkru meiri harðneskju en ella mundi hafa verið gert. En Framsfl. má þá sjálfum sér um kenna.

Þær breyt., sem gerðar eru á kjördæmamálinu með frv. því, sem hér liggur fyrir, ef brtt. okkar meirihlutamanna verða samþ., eru að sönnu ekki stórvægilegar. Það er, eins og hv. frsm. meiri hl. tók fram, að tvímenningskjördæmin kjósa jafnmarga menn og áður, en sá munur er þó á, að meiri og minni hl. er báðum veittur nokkur réttur. En eins og nú er, er minni hl. alveg réttlaus.

Samkv. till. okkar, meiri hl. n., er bætt við einu kjördæmi, en það er Siglufjörður. Það hefur verið sýnt fram á það í nál. minni hl., að Siglufjörður hefur hér um bil jafnmarga kjósendur og koma á hvern þm. í tvímenningskjördæmunum.

Um Reykjavík er það eitt að segja, að hún er enn látin búa við skarðan hlut. Við þekkjum það, að Rvík er ekki kröfuhörð. Hér vex upp, eins og kunnugt er, kringum 1/3 hluti allra landsmanna, og eftir því ætti Rvík náttúrlega að hafa um 1/3 hluta allra ,þm. Eins og nú er ástatt, hefur Rvík þó ekki nema um 1/6 hluta af þm. og hefur samt ekki látið mjög ófriðlega út af því. hó að þingmannatala hennar sé aukin um 2, þá verður ekki sagt, að hér sé ákaflega freklega í sakirnar farið né að verið sé að búa til nýtt kjördæmi með þessu. Þetta leiðréttir dálítið hlutföllin í kjördæmaskipuninni og er spor í rétta átt, og er það sannast að segja undarlegt, að Framsfl., sem stærir sig af því að setja nýtt andlit á Rvík, skuli vera á móti þessari stéttarbót.

Um aðrar breytingar en þessar er ekki að ræða og um verulega fyrirhöfn ekki heldur, því að þegar var búið að ákveða, að kosið yrði hvort sem væri, þá þarf engar nýjar kosningar til þess að samþ. þetta frv. En af því að svo er ákveðið í frv. sjálfu, að kosningar skuli þegar fara fram samkv. þeirri kjördæmaskipun, sem frv. felur í sér, þá er einnig unnt að breyta stjórnskipunarl., að því er snertir sjálfstæðismálið, og láta það fá fullnaðarafgreiðslu með þeim kosningum, sem fara fram seinni partinn í sumar. Það er því ekkí nema rangfærsla að segja, að hér sé stofaað til fleiri kosninga en annars mundi vera. Það hlýtur öllum Íslendingum að vera það ljóst, að stjórnskipunarl. verður að breyta. Það ástand, sem skapazt hefur hér í landinu, mun ekki verða bætt, nema við setjum okkur alveg nýja stjskr.

Ég sagði í upphafi máls míns, að ég mundi ekki fara út í annað en að lýsa minni afstöðu til málsins, og þá dálítið Sjálfstfl. í heild. Nú hafa hv. þm. séð það, að við höfum ekki alls kostar orðið sammála. Það eru til þeir menn í Sjálfstfl., sem telja, að taka eigi smá skref í þessu máli, að breyta kjördæmaskipun og kosningarrétti, og telja nægilegt, að sú breyt. verði gerð nú, að hlutfallskosningu verði komið á í tvímenningskjördæmum. Aðrir telja, að ekki megi við minna una en þessi 3 viðbótarþingsæti, sem einnig er stofnað til. Og enn eru til aðrir, sem telja, að þessu máli sé ekki sómasamlega til lykta ráðið, nema hlutfallskosningar verði teknar upp í öllum kjördæmum landsins.

Ég þarf ekki að tala fyrir hverju þessara atriða fyrir sig. Það er í góðu samræmi við vinnubrögð Sjálfstfl., að hann er hófsamur að breyta, en vill þó, að í rétta átt stefni. Ég geri ráð fyrir, að frv., eins og það er nú komið frá meiri hl. n., verði samþ. af flestum eða öllum sjálfstæðismönnum, af Alþfl. og einnig af Sósialistafl.

Það er ein breyt. þarna, sem ekki er beinlínis þörf á að skýra frá, en hún er um það, að landslisti skuli verða með sama hætti og áður. Ég geri ráð fyrir því, að Framsfl., sem er nú andstæður í þessu máli, muni ekki láta sig miklu skipta, hvort hún verður samþ. eða ekki. En það er þó alls ekki útilokað, að sá tími gæti komið, að sá flokkur fengi uppbótarsæti. Það gæti verið, að hann ætti eftir að lifa það upp að fá færri þingsæti en honum eftir atkv.-tölu bæri. Ég segi þetta ekki af því, að ég beinlínis geri ráð fyrir þessu, en það er fræðilegur möguleiki. Hitt er líklegra, að þessi flokkur, sem aldrei hefur verið landsmálaflokkur, skiptist upp, og margir af kjósendum hans og þeim mönnum, er honum hafa fylgt, sem margir eru nýtir menn, fylki sér með öðrum flokkum og lifi hreinlátara og betra pólitísku lífi en þeir hafa gert um stund.

Áður en ég lýk hér máli mínu, skal ég aðeins minnast hér á eitt atriði sérstaklega, sem hv. 1. þm. Rang. lagði út af. Hann lagði út af því, að um þessar breyt. sameinuðust andstæðustu öflin hér í þinginu, og fannst það vera óeðlilegt, og fyrir þetta ynnu menn svo mikið, að þeir fórnuðu friðnum við Framsfl. Ég vil nú segja þessum hv. þm. það, að í þjóðmálum er það eðlilegast, að hver maður fylgi því máli, sem hann álítur vera nauðsynjamál eða réttlætismál, alveg án tillits til þess, hvort aðrir fylgja því. Og hér sameinast menn eingöngu um málefni, sem er í raun og veru til fyrirmyndar, en ekki um persónur eða annað slíkt, sem síðu er heppilegt í stjórnmálum: Ég hef t.d. margsinnis greitt hér atkv. með málefnum, sem bæði Alþfl. og Sósíalistafl. hafa flutt, og einnig hafa mál, sem ég hef flutt, margoft fengið stuðning úr þessum flokkum.

Þetta álít ég eðlilegt, því að menn eiga að fylgja málefnum eftir sannfæringu sinni. Og ef Framsfl. verður langlífur í landinu, þá verður hann það ekki fyrr en hann er kominn á það þróunarstig, að hann skilji, að menn eiga að hafa önnur málefni en persónuleg hagsmunamál og fylgja þeim.

Út af því, að friðnum hafi verið fórnað vegna þessa máls, sem mér skilst, að hv. 1. þm. Rang. leggi allmikla áherzlu á, þá vil ég benda honum á það, að friðnum er þegar spillt. Það er vitað, að sú stjórnarsamvinna, sem til var stofnað, hefur rofnað. Framsfl. hefur tekið málunum með svo mikilli frekju og einræðiskennd, að það er ekki hægt, ef maður vill vera réttsýnn gagnvart öllum stéttum þjóðfélagsins, að fylgja honum á þeirri braut. Og ég sem sjálfstæðismaður get ekki talið það óhapp, hvorki fyrir Sjálfstfl. n þjóðfélagið, þótt Sjálfstfl. hætti að vera á spyrðubandi með þessum flokki, því að hann virðist beita hörku og hlutdrægni við allar stéttir nema bændur. Það er sjálfsmorð fyrir hvern þann flokk, sem bindur trúss við hann. Hvað það snertir; að það sé háskasamlegt, að þessi flokkur yfirgefi stjórn landsins um stundarsakir, þá er ég á allt annarri skoðun. Ég verð að telja það mesta óhapp, að þessi flokkur skyldi nokkurn tíma hafa komizt í stjórn landsins, og álít, að okkur verði bezt borgið, ef áhrif hans færu sem mest dvínandi á löggjöf landsins.

Hv. 1. þm. Rang. sagði til áherzlu þessum varnaðarorðum sínum, um að rjúfa friðinn, að við værum herteknir af 2 stórveldum. Ég er búinn að heyra þetta orðtæki nógu oft mér til mikillar skapraunar, og það er leitt, að við Íslendingar sjálfir skulum alltaf vera að tyggja þetta og telja okkur trú um, að við séum herteknir af öðrum þjóðum. Við fögnuðum því mikið, þegar Bretar léttu sínu hernámi af okkur, svo að við gætum sem frjálsir menn falið öðru ríki hervernd landsins. Það er því ósatt, að við séum herteknir. Og mér liggur næst að halda, þegar alltaf er verið að tönnlast á þessu, að í því felist einhver neisti af ósk um, að svo sé. Ég skil ekki, að menn séu alltaf að tyggja þetta, nema þeim sé einhver fróun í því. Það kann að vera, að þetta sé til komið fyrir áhrif frá gömlum ánauðartímabilum, þegar við vorum undirokaðir af öðrum þjóðum, en það er leitt, ef við getum ekki hafið okkur upp á lað menningarstig, að við finnum, að við höfum slitið þetta haft af okkur.

Ég ætla nú ekki að hafa þessi orð fleiri. Það hefði verið ástæða til að svara fleiru af því, sem hv. 1. þm. Rang. fór með, en það yrði of langt mál. Að lokum vil ég svo benda honum á, af því að ég býst við, að smátt og smátt fari að draga úr áhrifum Framsfl., en hann hefur ríkt með nokkuð háum hanakambi og mun þess vegna ekki fá vægan dóm hjá sögunni, — að nokkuð gæti það bætt úr, að hann reyndi — að verða sem bezt við dauða sínum.