13.05.1942
Neðri deild: 57. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 863 í B-deild Alþingistíðinda. (2424)

38. mál, stjórnarskipunarlög

*Bergur Jónsson:

Ég vildi beina því til ráðh. Sjálfstfl., hvort þeir vildu ekki láta álit sitt í ljós um þetta mál. Að vísu talaði hæstv. fjmrh. um frv. við 1. umr. málsins og lét þá þung orð falla í garð hv. 5. þm. Reykv., flokksbróður síns, fyrir þau ummæli, sem hann hafði látið falla í þá átt, að hann vildi fá þetta mál fram. Ég skildi hæstv. fjmrh. þannig, þegar hann hélt þá ræðu, að hann teldi stjskrbreyt. óheppilega á þessu þingi, og ég hygg, að allir, sem á hann hlustuðu, hafi haldið það. En þar sem nú er svo komið, að fulltrúar Sjálfstfl. í stjskrn. hafa lýst yfir því, að þeir væru sammála þeim annarra flokka mönnum í n., sem vildu, að þetta mál gengi fram, þá væri mjög fróðlegt að heyra álit hæstv. ráðh. Sjálfstfl., eins og nú er málum komið.

Eins og sjá má af nál., sem hér liggur fyrir, er það mjög mikið atriði í sambandi við þetta mál, að það mundi hafa í för með sér tvennar kosningar. En þó vil ég vekja athygli manna á öðru enn stærra atriði í sambandi við þetta mál, og það er það, eftir því sem komið hefur fram í ræðum hv. 4. og 5. þm. Reykv., að þeir ætla sér á næsta þingi, eftir næstu kosningar, að setja inn í stjskr. breyt. þær, sem nauðsynlegar eru til þess að ganga frá sjálfstæðismálum þjóðarinnar, með tilliti til þess, að Ísland verði lýðveldi. Þessir menn halda því fram, að þetta gangi deilulaust í gegn. Ég ætla mér ekki að fjölyrða um það, en varlegara mun að líta ekki of björtum augum á það, því að í því sambandi geta komið fram atriði um skipun þingræðis og lýðræðis í landinu. Ég vil spyrja þessa. hv. þm., sem bera fyrir brjósti breyt. á stjskr. í sambandi við sjálfstæðismálið, hvort þeir hafi athugað, að með því stofna þeir ekki aðeins til tveggja, heldur þriggja kosninga, nema því að eins, að þeir geri breyt. á frv. eða, nánar tiltekið, ákvæðinu um stundarsakir. Ég vildi gjarnan fá skýringu á því, hvernig á þessu stendur. (GÞ: Það stendur, að þeir missi umboð sitt á kjördegi.) Ég var að biðja um skýringar á þessum leikaraskap. Nú er leikurinn byrjaður, og hver veit, hvar hann endar. (ÓTh: Hann endar með því hræðilega, að við verðum fullvalda.) Ég vona, að þessum hæstv. ráðh. verði að trú sinni. Það, sem er aðalatriðið í þessu máli, eru ekki þessar breyt. á kjördæmaskipuninni, heldur hvaða leiðir eru lagðar fyrir Alþ. til þess að leysa úr því. Frá meiri hl. stjskrn. er lagt til að gera breyt á stjskrn., en þær breyt. eru ekki í öðru fólgnar, eftir því sem hv. þm. V.-Sk. segir, en að koma á hlutfallskosningum í tvímenningskjördæmunum. Hv. þm. Borgf. hefur og borið fram brtt. í þessa átt.

Það er ekki aðalatriðið, hvort fjölgað verður þm. um þessa 3, heldur hvort sæmilegt er að ganga að stjórnarskipun landsins, eins og hér er gert. Þess mun vítanlega skammt að biða, að óhjákvæmilegt verði að breyta stjskr. á víðtækari grundvelli en hér er gert, en hingað til hefur Alþ. ekki séð sér fært að gera það. Í fyrra var það álit meiri hl. þingsins, að ekki væri ráðlegt að fara út í stjskrbreyt. að sinni. Nú er álit sumra þessara manna hið gagnstæða. Í hvers nafni gera þeir þetta? Í nafni réttlætisins, segja þeir. Ég sýndi fram á það við 1. umr. málsins, að með þessu fyrirkomulagi, sem hér er reynt að koma á, komi aðeins út öfugar og rangar niðurstöður, og á ég þar sérstaklega við hlutfallskosningar í tvímenningskjördæmum. Allir þeir, er með þessum málum fylgjast, hljóta að viðurkenna, .að með þessu fyrirkomulagi verður ranglæti aðeins læknað með öðru ranglæti. Fyrirkomulagið er óhæft, það er misnotkun á hlutfallskosningaaðferðinni, sem aðeins á að nota, þegar þrír eða fleiri eru í kjöri, en hér er aðeins um að ræða tvo menn.

Aðeins fyrir þetta eina atriði ætla menn að stofna til breyt. á stjórnarskipun ríkisins, sem jafnvel leiðir til stjórnarskipta, og það, sem er einkennilegast, setja á laggirnar stjórn, sem ekki hefur að baki sér nema fylgi lítils hluta Alþ. og loforð annars hluta til þess að vera á móti vantrausti á ríkisstj., en samkomulag um mál, sem skipta miklu meiru fyrir þjóðina, eru ekki tryggð á neinn hátt.

Hv. 4. þm. Reykv. talaði með fyrirlitningu um þann frið, er hér hefði ríkt, og minntist einnig á þá kúgun, sem ríkt hefði undanfarið, og þá átti hann ekki aðeins við framsóknarmenn, heldur og aðra. Ég vil nú spyrja þennan hv. þm. að því, hvort það sé leiðin til þess að komast hjá kúgun að setja á stofn nýja Kveldúlfsstjórn, eða leitar þessi hv. þm. friðar hjá Thorsurunum? Hann talaði um verzlun, er undanfarið hefði átt sér stað við Thorsarana um sveitakjördæmin. Ég veit ekki, hvað er hægt að kalla verzlun, ef ekki nú, þegar sjálfstæðismenn eru einir látnir fara með stjórn landsins til þess að breyta kosningafyrirkomulaginu og draga valdið úr höndum sveitakjördæma. Hann minntist enn fremur á þá spillingu, sem fylgdi einmenningskjördæmunum. Ég veit ekki, hvað þeir segja um það, sem standa að þessari breyt. með honum. — En hver var þessi spilling? Jú, spillingin var sú, sagði hann, að Alþ. lét leggja vegi, byggja brýr, reisa — síldarverksmiðjur o.s.frv. — Sér er nú hver spillingin. Skyldu þessir menn ætla að tala svona í kosningunum í sumar? Þeir geta gert lítið úr vandamálum, sem leysa þarf, þegar þeir segjast berjast fyrir „réttlæti“. Þeir segjast ætla að nema burtu sérréttindi Framsfl. Hver eru þessi sérréttindi? Þau eru fólgin í því, að kjósendurnir úti um landið vilja fremur fylgja þeim flokki en öðrum, vegna þess að þeim líkar betur við hann en aðra flokka, enda er engum öðrum flokk betur trúandi fyrir hagsmunum þeirra.

Ég hlustaði ekki á hv. frsm. meiri hl., en mér hefur skilizt af ræðum annarra hv. þm., að hann hafi mikið talað um það góðæri, sem hér ríki, að menn vaði nú í peningum. En ég vona, að þessi hv. þm. sjái, að framundan eru hættutímar, eða sér hann það e.t.v. ekki? Ef til vill er hann ánægður yfir því, að menn skuli setja svona mikið af peningum inn í bankann til hans. Ég get varla kallað þetta góðæri. Það er að vísu nóg til af pappírspeningum, en hvernig fer, ef siglingar teppast hingað til lands? Ísland er að vissu leyti orðið stríðsaðili, því að það hefur verið lýst á hættusvæði af öðrum styrjaldaraðilanum, og landið er nú undir hervernd hins aðilans. Ef tækist að stöðva siglingar hingað til landsins og sökkva, þó eigi væri nema hluta af skipastól okkar, á hverju á fólkið þá að lifa? Á það að lifa á peningaseðlum? (ÁÁ: Á það að lifa á tvímenningskjördæmum?) Þessi hv. þm., fyrrv. forsrh. Framsfl., leit einu sinni öðrum augum á hlutina en hann gerir nú, þegar hans eina áhugamál nú er að reyna að svipta Framsfl. þingsætum. Því hefur verið lýst yfir hér, að þetta sé aðeins bráðabirgðaáhlaup á hina ímynduðu hagsmuni Framsfl., því að önnur lausn á því máli bíði síðari tíma. Þessir hagsmunir Framsfl. voru ef til vill til staðar árið 1937, en það er alveg óvíst um þá nú. Hver veit, hvernig er í tvímenningskjördæmunum í vor, eða halda þessir menn, að tvímenningskjördæmin eigi að standa að eilífu og að hlutfallið milli flokkann3 breytist aldrei? Mörg eru dæmi þess í kjördæmunum, og get ég þar nefnt Rangárvallasýslu o Skagafjarðarsýslu.

Hv. 4. þm. Reykv. sagði, að Framsfl. hefði undanfarin 10–15 ár ráðið einn löggjöf landsins og öll l. hefðu verið til ills eins. Framsfl. hefur ekki getað sett einn l. hér á landi, svo að þessi ummæli hv. þm. sýna aðeins, í hversu miklum vandræðum hann er með röksemdir. Þá sagði hann, að Framsfl. espaði alla upp á móti sér. Hann er skynsamur þessi flokkur, eða hitt þó heldur, að hrinda öllum frá sér nema bændunum. Ég veit ekki, um hvað þessi hv. þm. var að hugsa, þegar hann sagði þetta. Þessi hv. þm. minntist afar oft á verzlun í ræðu sinni, og það er ekkert óeðlilegt, þótt honum detti verzlun í hug, þegar hann er nú orðinn stuðningsmaður Kveldúlfs og Landsbankans og þeirra manna, sem hann hefur hingað til hatað öllum öðrum mönnum fremur.

Jæja, ég ætla nú ekki að teygja þessar umr. meir að sinni. Ég óska aðeins eftir hreinum svörum hjá þeim, sem að þessu frv. standa og ætla á næsta þingi að gera fleiri breyt. á stjskr. um, hvernig þeir ætla að komast hjá þrennum kosningum. Um hitt þýðir ekki að deila hér, ábyrgðarleysi þingmeirihl. Það verður gert á öðrum vettvangi.