13.05.1942
Neðri deild: 57. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 877 í B-deild Alþingistíðinda. (2427)

38. mál, stjórnarskipunarlög

*Frsm. meiri hl. (Ásgeir Ásgeirsson):

Hv. síðasti ræðumaður stóð í þeirri meiningu, að ég hefði verið að vitna til meistarans frá Nazareth. Ég gerði það aldrei í minni ræðu, en ég sagði, að viss guðsmaður, og þar átti ég við guðsmanninn frá Breiðabólsstað, hefði sagt, að mannssálirnar væru allar jafnar. Ég átti líka við það, að slík skoðun í trúmálum og kirkjumálum hlyti að hafa áhrif á framkomu manna í stjórnmálum, en hv. þm. svarar þessu með því að segja: „Mitt ríki er ekki af þessum heimi!“ Við skulum láta hann um það, að hann hafi sinn kristindóm í einu hólfi og pólitíkina í öðru, og vatnsþétt sé á milli. En ég hef í minni framsöguræðu gert grein fyrir þessu, að þarna gæti verið eitthvert samband á milli og eitthvað af lýðræðisþroska Norðurálfuþjóðanna sé til orðið fyrir áhrif kristindómsins. Sumir vilja blanda þessu saman og láta það móta þessa tilveru, sem við lifum í, og þess vegna eru til þroskaðar lýræðisþjóðir, þó að hér sé verið að reyna að spyrna fótum við, þegar verið er að reyna að stíga spor í rétta átt.

Hv. þm. talaði um, að það væri óskaplega ranglátt í tvímenningskjördæmunum, að kjósenda skyldi hafa jafnan rétt á móti 2/3 í sama kjördæmi. Þarna heldur hv. þm., að þessi kjördæmi séu heild út af fyrir sig, alveg eins og kristindómurinn átti að vera í vatnsheldu hólfi og pólitíkin í öðrum brúsa við hliðina á honum. Ef í kjördæmi eins og t.d. Rangárvallasýslu væri verið að kjósa í sýslun.; væri nokkuð til í þessu. En þegar kosið er um allt land, hvaða réttlæti er þá í, að 1/3 hafi jafnmikinn rétt og hans krafa fyrir hönd tvímenningskjördæmanna á eingöngu við, þegar hvert kjördæmi er skilið frá öllum öðrum, og hans kröfur vera honum sjálfum áþægilegastar, þegar talað er um landspólitíkina og kosningar til Alþ., því að þar fellur hann á eigin röksemdum. (SvbH: Hvernig?)

Hv. þm. vildi gera mig hlægilegan, af því að ég sagði, að Osló hefði 1/20 af stórþingsmönnunum norsku. Til þess að hrekja þetta upplýsir hann, að Osló hafi 7 þm., en stórþingsmennirnir séu 150. Menn brostu við, án þess að hann birti þennan útreikning. Ef hann vill birta sinn útreikning, skal ég birta minn, sem er þannig, að 7 sé um það bil 1/20 af 150. (SvbH: Er það 1/20?) Nei, það er 1 á móti 213/7, en þegar maður tekur svona samanburðartölur, þá reynir maður að hafa þær sem einfaldastar, og þessi munur, 13/7, er ekki meiri en það, sem skakkar í Rvík, sem hún ætti að fá fleiri en 8 þm., ef nákvæmlega væri reiknað, svo að þessi smáa ónákvæmni í tölum upphefur sjálfa sig, en hlutföllin voru rétt.

En þá þóttist hv. þm. fyrst slá Filisteann, þegar hann fór að benda á uppbótarþm. fyrir tvímenningskjördæmin. Hv. þm. lagði höfuðáherzluna á það í fyrri ræðu sinni, að einmennings- og tvímenningskjördæmin, eða yfirleitt lögsagnarumdæmin ein, ættu að hafa rétt til að velja þm., og honum væri eingöngu spillt með því að hafa uppbótarsætin. Í síðari ræðu sinni kom hann inn á sömu braut. Þá fór hann að tala um að setja nýja bót á gamalt fat, sem gæfist aldrei vel. Þetta var röksemd á móti því að hafa uppbótarsæti. Ég vil segja, að hann hugsar sér réttlætið þannig, að helmingur kjósenda í tvímenningskjördæmunum hafi engan þm., en hinn helmingurinn hafi þá alla. Þannig hugsar hann sér réttlætið, og í þessu efni getur hann ekki farið að skjóta uppbótarþingsætunum sem skildi fyrir sig til að réttlæta sinn málstað, þegar hann er að sýna fram á, að höfuðallar kosningafyrirkomulágsins séu uppbótarþingsætin. En svona fer það. Til þess að verja málstað, sem er ekki betri en þetta, verður að skjóta sér niður í jörðina og koma upp að baki manna. En við skulum samt gefa honum það efir, að hann fái að reikna með uppbótarþm. í tvímenningskjördæmunum. Svo kemur hann að Rvík. Þá fyrst sannfærist hann um að hún hafi fengið allt, sem hún eigi skilið. Þá áætlar hann sér að bæta þar við þessum 11 þingsætum til að bæta allt misréttið, sem var á landinu, og þó er vitað, að við síðustu kosningar hefði ekki þurft 11, heldur 38 þingsæti til þess að jafna mismuninn. (SvbH: Það er ekki rétt.) Nei, 28. (SvbH: Það munar nú ekki svo miklu.) Það munar varla eins miklu g þegar hv. 1. þm. Rang. vill reikna með sömu uppbótarþingsætunum hvað eftir annað. Mér finnst að hv. þm. jafnist þar á við Hitler og hans fylgismenn, þegar þeir eru að segja, að þeir séu búnir að sökkva enska flotanum þrisvar sinnum.

Þá segir hann, að þeir, sem séu að heimta þennan jafna þegnrétt manna, ættu að snúa sér að öðru, að jafna kjörin meðal þegna þjóðfélagsins. Einn sé milljónamæringur, annar bankastjóri, sá þriðji í mjólkursölunefnd og ýmislegt fleira, og svo séu bændur og verkamenn, sem hafi úr litlu að spila. Þarna sé verkefnið. Hvað séu menn að tala um að jafna atkvæðisréttinu, þegar svona verkefni liggi fyrir höndum. Ég hélt, að þessum lærða þm. ætti að skiljast, að fyrsta skrefið í allri slíkri baráttu er að heimta mannréttindin, bæði þar, sem þarf að jafna þennan og annan mismun. Í pólitík hefur það verið algild regla og í trúarbrögðunum að leita fyrst guðsríkis, og svo muni allt hitt gefast þeim.

Hv. þm. kvartar geysilega yfir þeim yfirgangi þingsins, að það skyldi fella till. um að flytja menntaskólann frá Reykjavík og austur að Skálholti. Svona getur yfirgangurinn orðið, að Rvík, sem hefur 40 hús. íbúa, skuli vera á móti því að afhenda þennan litla menntaskóla og láta hann fara austur að Skálholti. Ekki er furða, þó að svona sveitaþm. kvarti, þegar yfirgangurinn er kominn á þetta stig. Það ætti að vera ljóst, að bæ eins og Rvík er ómögulegt að vera án menntaskóla. Þeir, sem vilja vera í sveit eða hvar sem er, eiga að hafa vit á að biðja um nýjan skóla, en ekki að taka af þeim, sem of lítið hefur í þessum mikla mannfjölda.

Hann leggur mikla áherzlu á. hvað góða aðstöðu Reykjavík hafi til að hafa áhrif á öll mál og bæta betur kjör sín en þeir, sem séu annars staðar. Ég vil segja, að meðan ég hef setið á þingi, hefur mér fundizt bera minnst á heimtufrekju Reykjavíkurþm. Ég hef stundum verið undrandi yfir, hvað Rvík hefur notið lítilla hlunninda hjá þinginu. Ég vil segja, að þetta er ekki áhættulaust, ekki aðeins fyrir Rvík, heldur fyrir alla þjóðina, því að hún á talsvert undir því, hvernig æskulýð þessa bæjar vegnar. Það er ekki nóg að rífast yfir skrílnum í Rvík og neita honum svo um framgang nauðsynjamála. (BjB: Hvaða mál eru það?) Rvík hefur þráfaldlega verið neitað um allt, sem hún hefur beðið um.

Í fyrra báru nokkrir þm. fram till. um að stofna hér húsmæðraskóla 10–20 árum seinna en aðrir hafa fengið þá, og það kostaði mestu erfiðleika að koma þessu í gegnum þingið, vegna þess að Rvík mátti ekki í þessu litla atriði njóta neins jafnréttis við aðra staði á landinu. (BjB: Ég held, að þetta hafi verið samþ. með shlj. atkv.) Ég þekki ekki hér á, þingi þessa gífurlegu ágengni af hálfu Reykjavíkur. Ég hygg, að það ráði miklu, hvernig þm. eru og fyrir hverja staði, og það á ekki alltaf að hafa Rvík afskipta og bera henni svo á brýn heimtufrekju, þegar hún hefur sjaldan sýnt hana.

Þá segir hann, að Alþfl. hafi alltaf viljað stöðva verð á afurðum bænda, en viljað hafa allt frjálst fyrir sig og sína menn. Ég er þessu ekki svo kunnugur, en ég man, að einu sinni, þegar ég var ekki í stj., var. því haldið fram, að ómögulegt væri að skapa hæfilegt verð fyrir afurðir bænda nema í samstarfi við Alþfl. Það var svo áríðandi, að það urðu að fara fram stjórnarskipti út af því. Mér er kunnugt um. að síðan hefur Alþfl. litið á réttindi bænda í sambandi við afurðaverð a.m.k. í eins ríkum mæli og Framsfl. hefur litið á nauðsyn verkamanna.

Til dæmis um það, hvernig þessi hv. þm. svarar, vil ég benda á, að hann segir, að ég hafi viljað líkja saman þessum. tímum, sem nú eru, og árinu 1933, og þetta sýni bezt ábyrgðarleysi. mitt. Ég skal endurtaka það, sem ég sagði. Ég sagði, að þegar kjördæmabreyt. var til umr. árið 1933, hafi sumir hans flokksmanna haldið sömu ræðurnar um, hvað tímarnir væru erfiðir, og svona mál væru ekki til að bera fram, þegar þjóðin berðist fyrir lífi sínu. Þetta sagði ég, en var alls ekki að bera saman þessi tvö ár.

Ég hneykslast á því, að menn skuli nota slíkar röksemdir, þegar ástandið er betra hér en sennilega hjá nokkurri annarri smáþjóð, þar sem við eigum sjálfstæði okkar undir því stórveldi komið, sem líklegast er til þess að vernda og virða rétt okkar. Þetta er afstaða, sem margar aðrar þjóðir mundu öfunda okkur af. En þrátt fyrir þetta erum við í mikilli hættu, og það geta komið loftárásir og ýmsar aðrar hörmungar, sem við sjáum nú ekki fyrirfram eða ráðum ekki við.

Við vitum ekki, hver áhrif slíkt hefur á samgöngurnar, og það er ekki nóg, að Framsfl. hafi báða þm. í tvímennigskjördæmunum, til þess að samgöngur stöðvist ekki. (BJ: Það er nóg, að hann hafi annan, til þess að hægt sé að afstýra þessu.) Ég held, að hvorugt nægi. Hv. frsm. minni hl. gefur hér það ráð, að til þess að bægja frá okkur hættunum sé. engin leið betri en að fella frv. það, sem hér liggur fyrir. Ég hef ekki heyrt hann nefna aðra leið í þessu sambandi. Hv. þm. sagðist boða frið með stefnu Framsfl. í þessum málum og vildi ekki viðurkenna, að hann hefði notað illyrði í garð andstæðinga sinna, en rétt á eftir kallaði hann frv. gerræði og blygðunarlausan verzlunarsamning milli flokka. Sá ófriður, sem ríkir í þessu máli, h,onum er eingöngu haldið uppi af hv. frsm. minni hl., og það hafa ekki aðrir til hans stofnað. Ég skil ekki, hvers vegna hann er að halda uppi þessum ófriði, þar sem því er lýst yfir í niðurstöðu minni hl., að Framsfl. hafi engra hagsmuna að gæta í þessu sambandi. En meiri hl. telur, að Framsfl. hafi mikilla sérréttinda að gæta og að nú standi flokkarnir mjög misjafnt að vígi. Þetta álitum við, að hægt sé að lagfæra með því að gera á kjördæmaskipuninni nokkrar breyt., sem nú liggja fyrir þinginu.