13.05.1942
Neðri deild: 57. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 883 í B-deild Alþingistíðinda. (2429)

38. mál, stjórnarskipunarlög

Einar Olgeirsson:

Herra forseti! Það er afar gott, að menn tali af mikilli virðingu um stjskr. og álíti, að vanda beri mjög til allra breyt. á henni. Og nú tala þessir menn af miklum fjálgleik um, að það sé voðalegt að hugsa til þess að breyta kjördæmaskipuninni. En í fyrra, þegar þessir sömu menn voru að brjóta stjskr. með því að fresta kosningunum, þá var annað hljóð í strokknum. Hvað sögðu þeir þá? Ekki neitt. Það er sérstaklega óviðkunnanlegt að heyra þessa sömu menn, sem frestuðu kosningunum í fyrra, tala af miklum hita um, að ekki megi hreyfa við stjórnskipunarl. — Annars er miklu eðlilegra að fresta kosningum nú en í fyrra. Þessi rök þeirra eru alveg út í bláinn.

Það er vitanlegt, af hverju þetta mál er tekið fyrir nú. Það er af því, að það er harðvítugt deilumál á milli flokka. Hins vegar er sjálft sjálfstæðismálið, framtíðarfyrirkomulag þjóðskipulagsins, ekki deilumál á milli flokka. Það er ekki kunnugt um neinn flokk, sem hefur þær skoðanir á því máli, að aðrir flokkar geti ekki sætt sig við. Í því máli geta verið misjafnar skoðanir milli manna, en ekki heilla flokka. Má því búast við, að hægt sé að afgreiða það mál deilu- og hávaðalaust.

Ég ætla svo að víkja að hv. 1. þm. Rang. Hann reyndi ekki einu sinni að svara því með rökum, að kosningafrestun væri ólýðræðisleg. Hann reyndi ekki að afsanna, að nú væri mögulegt fyrir 1/4 hluta þjóðarinnar að ná meiri hl. á Alþ. Ég skal viðurkenna, að hættunni er ekki að fullu afstýrt enn þá, en í stað 5% þarf nú a.m.k. 35–40% af þjóðinni til þess að ná meiri hl. á Alþ. Réttur meiri hl. er því betur tryggður nú en áður . En það er vitanlegt, að þessu marki er ekki hægt að ná að fullu, nema annaðhvort með því að fjölga uppbótarþingsætum, en flestum er nú illa við þau, eða ganga á einmennings- og tvímenningskjördæmin. Það eru auðvitað fleiri breyt., sem rétt væri að gera í sambandi við kjördæmaskipunina, en það er bara svo erfitt að koma fram slíkum breyt. hér í þinginu. Vald einmennings- og tvímenningskjördæmanna er svo mikið. Það er skiljanlegt, að menn, eins og hv. 1. þm. Rang., telji það ógurlegt, ef gengið er á rétt þessara kjördæma. Menn eins og hann, sem lýsa yfir því, að ef allir í landinu hefðu jafnan atkvæðisrétt, ríkti hið herfilegasta ranglæti í þjóðfélaginu. En má ég nú spyrja: Hvar er þetta úrval, sem á að hafa þessi forréttindi? Hvaða hugsunarháttur stendur á bak við þetta? Á að ala hér upp í landinu einhvern pólitískan „raca“? Hvaða hugmyndir eru þetta eiginlega? Þessi hv. þm. minntist líka á það, að það væri nær að jafna réttinn til lífsþægindanna heldur en að jafna kosningaréttinn. En hvernig stendur þá á því, að hann hefur aldrei flutt neina till. í þá átt?

Hvernig stendur þá á því, að hann og hans flokkur hafa gert allra flokka mest að því að auka efnamismun stéttanna í þjóðfélaginu? Svo þegar verkalýðurinn vill fá jafnan kosningarétt við aðra þegna þjóðfélagsins, koma þessir menn og segja, að nær sé að jafna auðnum í landinu. Þetta er of ódýrt lýðskrum, til þess að nokkrir taki það alvarlega. Þessi hv. þm. nefndi sem dæmi þess, að Alþ. væri á móti því að jafna aðstöðuna til lífsþægindanna, að það hefði ekki viljað flytja Menntaskólann í Reykjavík í sveit. En menntaskólinn er nú lokaður fyrir öllum almenningi þessa bæjar, og fyrir hvers aðverknað er það? Formanns Framsfl. öllum öðrum fremur.

Þessi sami hv. þm. sagðist hlakka til að leggja þetta mál fyrir dómstól kjósendanna í landinu. Ég vil segja honum það, að þjóðin er farin að þrá meir kosningar en þm. sjálfir. Auk þess er nú ekkert skemmtilegt fyrir framsóknarmenn að lita á feril flokks síns hér í Rvík síðustu 10 árin. Á þeim tíma hefur honum hrakað frá því að hafa 2 bæjarfulltrúa og niður í það að hafa engan nú. Svo talar þessi þm. um, að ógurlegt sé að hafa kosningar á þessum tímum.

Verkalýðurinn í landinu hefur boðið ríkisstj. Sjálfst.- og Framsfl. upp á samvinnu í atvinnumálum þjóðarinnar. Hverju hefur verið svarað' Engu. Verkalýðurinn hefur verið hundsaður alveg Auk þess hefur verkalýðnum í landinu verið rekið hnefahögg í andlitið með gerðardómi Íhalds- og Framsfl. Er þetta aðferðin til þess að sporna við því, að atvinnulífið leggist í rústir? Og svo er þessi hv. þm. fullur af fjálgleik yfir öllu saman.

En aðalhættan, sem yfir Íslandi vofir, er ofsóknaræði formanns Framsfl. Það verður að leita til hinna svörtustu einræðisríkja til þess að finna fyrirmynd að slíku, þegar form. menntamálaráðs ofsækir alla færustu og þekktustu lista- og vísindamenn þjóðarinnar. Skáld, málarar, myndhöggvarar, leikarar, yfirleitt allir færustu andlegir kraftar í landinu, eru af þessum manni ofsóttir með lygum, rógi, blekkingum og beinum hótunum um að afnema þá úr þjóðfélaginu. — Þarna er mesta hættan, sem yfir íslenzkri þjóð vofir. Svo segir þessi þm., að Reykvíkingum hafi aldrei verið neitað um neitt. Það fer víst eftir því, hverjir eiga hlut að máli. Sú var tíðin, að verkamenn í Rvík þurftu atvinnu og fóru fram á, að þeir fengju að vinna við að byggja yfir sig hús. Þá neitaði Framsfl. um innflutning á byggingarefni. Afleiðingarnar urðu svo vitanlega þær, að lítið var byggt. Og svo koma húsnæðisvandræðin í Rvík til sögunnar.

Hv. 1. þm. Rang. var að bregða sjálfstæðismönnum um drengskaparleysi, af því að þeir vildu rjúfa stjórnina. En það þurfti ekkert drengskaparleysi af framsóknarmönnum til þess að ganga í stjórn með Kveldúlfunum 1939.

Þessi hv. þm. talaði um, að ef þessar breyt. yrðu samþ., mundi ekki verða unnið eins mikið fyrir kjördæmin í landinu. Engin rök færði hann fyrir þessu. Ég held þó, að þetta verði alveg öfugt. Ef til vill verða ekki flutt eins mörg frv. til að sýnast og nú er gert. Hins vegar er nú grundvöllur undir heilbrigðara starfi fyrir kjördæmin, og frv. verða nú ef til vill flutt meira vegna nauðsynja málanna en sýndarhagsmuna þm.

Aðaltrompið hjá hv. 1. þm. Rang. átti að vera það, að ég vildi ekki, að fólkið byggi í dreifbýlinu, heldur vildi ég flytja það allt til Rvíkur eða helzt til Rússlands. Heldur þessi þm. kannske, að þm. Framsfl. séu búsettir í sveitum? Nei, ónei, — ekki alveg. Helmingur þeirra býr í kaupstöðunum. Það eru skrýtnar röksemdir af hálfu þessa flokks.

Svo er það eitt, sem er bezta dæmið um rökþrot hjá þessum hv. þm., eins og hv. 5. þm. Reykv. sagði. Það er, þegar hann kom að því, að við sósíalistar vildum, að allir þm. byggju í Rússlandi. Ég veit ekki, hvernig heilinn er gerður í þeim mönnum, sem ekki hafa annað að segja, þegar verið er að rökræða kjördæmaskipun hér á Íslandi, en að íslenzkir þm. þurfi að vera búsettir í Rússlandi. Það er sannast að segja lítið orðið eftir af rökum, þegar þeir þurfa að grípa til annars eins þvaðurs. Ég veit ekki, hvað þessum hv. þm. gengur til. Hann hefur búizt við, að ég væri að segja, að hann vildi helzt vera búsettur í Finnlandi og vildi helzt vera hjá Mannerheim marskálki. Ég veit ekki, hvort maður á að fara að rifja upp gamlar þingræður til þess að svara svona vitleysum. Það er nú svo komið, að flestir þm. fyrirverða sig fyrir að nota gömlu slagorðin, og er leiðinlegt til þess að vita, að einmitt einn af þeim fáu, gömlu kommúnistum, sem eru í Framsfl., skuli endilega vilja hanga í þessum Rússlandsslagorðum.

Þá kom þessi hv. þm. að því, að kommúnistar vildu gera Thors fjölskylduna einráða á landinu. Það væri gaman, að spyrja þennan hv. þm. að því, hvað hann vildi gera til þess að minnka það einræði, sem Framsfl. hefur skapað til handa þessari fölskyldu í landinu, og hvað hann hugsar sér að gera til þess að ná meiru af auðæfum Kveldúlfs handa fjöldanum. Ég vil beina einni fyrirspurn til hans og skora á hann að svara. Hún er þessi: Í Ed. liggur nú frv., sem hefur verið skýrt dómnefndarfrv. Það kemur frá Nd. Í þessu frv. felst að banna verkamönnum að hækka kaup sitt. Það er ljóst, að með þessum gerðardómi verður gengið á rétt launastétta og verkamanna í landinu, og það er líka ljóst, að ef verkamenn fengju að hækka laun sín, yrði hlutur milljónaeigendanna minni. Ég vildi spyrja þennan mann, sem er nú allt í einu farinn að tala fjandsamlega um Thors-fjölskylduna, hvort hans flokkur vilji, þegar þessi lög koma til 2. umr. í Ed., vera með að fella þau. Ég vil spyrja þennan þm. og flokk hans, hvort hann vilji vera með að fella gerðardómsl. í Ed. Hv. þm. er runninn af hólminum. Hann er svo gerður, að þegar hann hefur kastað fram illyrðum og þau eru tekin í gegn, þá rýkur hann burtu, flýr af hólminum til þess að geta afsakað sig með því, að hann hafi ekki heyrt, hvað sagt var.

Ég gerði við 1. umr. þessa máls grein fyrir því, hvað ég áliti, að verkalýðurinn ynni á þessu. Ég skal endurtaka það, að ég álít, að fyrir auðmannastétt landsins sé þetta pólitískt tap. Menn þurfa ekki annað en lesa neyðarópin í Tímanum núna til þess að sjá, að það er á hagsmuni efnamannanna, sem forustan í Framsfl. spilar núna, þegar á að reyna að bregða fæti fyrir þetta mál í þinginu.

Svo kom hv. þm. með það, að ég hefði verið að reyna að setja bændum einhver skilyrði, að ef þeir vildu fylgja verkalýðnum, gætu þeir fengið að stjórna. Ég skal endurtaka það, sem ég sagði og meinti, til þess að þm. fari þar ekki villir vegar. Verkalýðurinn er helmingur þessarar þjóðar, og svo framarlega sem kosningarétturim er jafn og verkamannastéttin notar hann rétt, hefur hann tækifæri til þess að ráða yfir helmingnum af þingsætunum. Svo framarlega sem vinnandi stéttir sveitanna taka höndum saman við verkalýð bæjanna, hafa þeir möguleika til þess að ráða þessu þingi. Það er ekkert undarlegt, þótt því sé haldið fram, að verkamenn og bændur eigi að vinna saman og að það sé nauðsynlegt að tryggja, að verkamenn hafi jafnan kosningarétt við aðra þegna þjóðfélagsins, það sem þetta er 85% af þjóðinni, og þessi vinnandi stétt ætti að hafa völdin í þjóðfélaginu, ef kosningarétturinn er jafn fyrir alla.

Áður en ég lýk máli mínu, vil ég koma að einu, sem ekki snertir þetta mál, og vil mælast til þess, að hæstv. forseti kalli á hv. 1. þm. Rang., svo að hann megi hera mál mitt. (Forseti: Hv. þm. er ekki staddur hér.) Þetta mál snertir mig persónulega. Þessi hv. þm. sagði, að mér bæri ekki að gagnrýna stjórnina, eins og ég hefði gert, sökum þess, sem stj. hefði gert fyrir mig og fjölskyldu mína í fyrra, þegar ég var sendur út. Ég ætla að lýsa yfir því, að ég álit, að hvorki hæstv. ráðh. né hæstv. forsetar hafi látið þá aðstoð og hjálp í té, sem þeir gerðu, af því, að þeir hafi ætlazt til þess, að ég léti af minni pólitísku skoðun. Ég hef aldrei orðið þess var, að þeir hafi ætlazt til þess eða álitið það mútur til mín. Það fyrsta, sem ég gerði, þegar ég kom heim aftur, var að þakka forsrh. og utanrh. fyrir mig, bæði í blöðum og munnlega, og það fyrsta, sem ég gerði hér á Alþ., var að láta þakklæti mitt í ljós. Ég hef aldrei skoðað það svo, að þeir hafi ætlazt til neins annars en þess þakklætis, sem hver maður lætur í té. Ég býst ekki við, ef maður réttir drukknandi manni hjálparhönd, að sá, sem hjálparinnar nýtur, þurfi að hætta að vera pólitískur andstæðingur hins fyrir það. Mér finnst hart, að þm. skuli segja þetta. Mér skilst, að ég eigi ekki að koma fram sem andstæðingur þeirrar stjórnar, sem hefur reynzt mér og mínum eins og þessi stjórn. Ég get ekki skilið þennan hugsunarhátt, Ég þarf ekki að æskja þess, að forsetar eða ríkisstj. láti í ljós, að þeir hafi ekki ætlazt til þessa. Hvaðan. kemur þessi hugsunarháttur? Kemur hann frá mönnum, sem eru svo vanir að heyra frá formanni flokks síns: Ég gerði þetta fyrir þig, — þú verður að vera þægur? Er hugsunarháttur hv. 1 þm. Rang. orðinn svo kúgaður af handjárnunum, sem hann er beittur, að hann leyfir sér að koma fram með svona hugsanir? Ég gæti farið út í margt í þessu sambandi. Ég gæti líka lesið fyrir hv. 1. þm. Rang. það, sem skrifað var í Tímann af Jónasi Jónssyni, daginn eftir að ég fór út. Mér var send greinin út. Ég las hana í fangelsinu. Það var ekki þokkaleg kveðja. Ég held, að þessi hv. þm., sem er orðinn svona gegnsýrður af hugsunarhætti þess manns, sem skrifaði þá grein, ætti helzt ekki að opna sinn munn.