13.05.1942
Neðri deild: 57. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 887 í B-deild Alþingistíðinda. (2430)

38. mál, stjórnarskipunarlög

Jón Pálmason:

Við 1. umr. þessa máls hér í d. gerði ég nokkra grein fyrir afstöðu minni, og það atvikaðist svo; að frv. hefur tekið þeim breyt., sem ég fór fram á, þannig að tvö kjördæmin falla út. Þess vegna skal ég lýsa yfir því, að ég er sem sveitarfulltrúi ánægður, og skal ég nú skýra það, af hverju ég er ánægður. Andstæðingar frv., sem talað hafa, hafa bundið ræður sínar eingöngu við það aðalatriði að koma á hlutfallskosningum í tvímenningskjördæmunum, og hafa þeir lýst andúð sinni á hlutfallskosningum yfirleitt. Það er ástæða til að víkja að afstöðu þessara manna til hlutfallskosninga í landinu. Þeir tala fyrst og fremst um hina og aðra ófríðarmenn, en eftir því, sem ég þekki til, er það hvarvetna svo, að það eru þessir friðarmenn, sem kalla sig svo, sem til ófriðar stofna. Ég skal víkja að nokkrum atriðum, sem sýna það.

Árið 1936 hagaði svo til, að Framsfl. var í minni hl. í búnaðarþingi, en Bændafl. og Sjálfstfl. í meiri hl. og kosningafyrirkomulagið með öðrum hætti en nú. Þá beittu framsóknarmenn sér fyrir því, að hlutfallskosningar yrðu teknar upp, og nú er það svo, að hlutfallskosningar eru til búnaðarþings í 7 tvímenningskjördæmum. Þeir beittu sér fyrir því árið 1935 að koma á hlutfallskosningum til bæjarstjórna og hreppsnefnda á landinu, og það varð til þess að gera allar kosningar pólitískar kosningar. Ég get bætt því við, að svo langt gekk þetta hlutfallskosningafyrirkomulag hjá framsóknarmönnum, að þeir komu því í gegn, að hafðar yrðu hlutfallskosningar, þegar tilnefningar fóru fram um hreppstjóraefni. Þetta var í Húnavatnssýslu og var vegna þess, að þeir þóttust hafa orðið undir við tilnefningar hreppstjóraefnis í sveitinni, og þá beittu þeir sér fyrir þessari hlutfallskosningu að þrem hreppstjóraefnum.

Ég skal þá víkja að því, hvernig útkoman var við síðustu alþingiskosningar, og víkja að því, hvernig aðstaðan var hjá þeim, sem studdu Sjálfstæðis- og Bændafl., og hins vegar hjá þeim, sem studdu Framsfl. Í sveitunum frá Hrútafirði, norður fyrir og austur um land til Hellisheiðar, var það svo, að á þessu svæði fengu framsóknarmenn við þessar kosningar 9709 atkv. og 16 þingmenn, en Sjálfstæðis- og Bændafl. 8121 og 2 þingmenn kosna. M.ö.o., í þessum 12 sveitakjördæmum komu 607 atkv. á hvern þm. Framsfl., en 4060 á hvern þm. Sjálfstæðis- og Bændafl., og hefði ekki þurft nema örfá atkvæði til þess, að þessir tveir þm., sem hér eru staddir, ég og hv. þm. V.- Sk., hefðu líka fallið og Sjálfstfl. hefði engan þm. haft, en Framsfl. 18. Þegar athuguð er aðstaðan um allt landið í sveitakjördæmunum, verður útkoman sú, að Framsfl. hefur 12 þús. atkv. og 19 þm., en Sjálfstfl. 10 þús. atkvæði og 6 þm. kosna. Framsfl. hefur 680 atkv. bak við hvern þm. og Sjálfstæðis- og Bændafl. 2316. Hér eru aðeins sveitakjördæmin tekin. Miðað við þessi atkvæði, er rétturinn hjá framsóknarmönnum 31/2 sinnum meiri en hinna. Þá er spurningin, hvernig standi á þessari útkomu. Með hverju fengu framsóknarmenn þessa útkomu, þótt þeir væru svona miklu færri? Það er af tveim ástæðum. Framsfl. hefur á undanförnum árum komið sinni kosningavél í gott horf. Hann notar við sínar atkvæðaveiðar allt það, sem áhrifamest er, og í flestum þessum kjördæmum hefur hann komizt að með tiltölulega litlum atkvæðamun. Í öðru lagi var hann beint og óbeint í samvinnu við jafnaðarmenn og kommúnista, og hefur því verið lýst yfir af forráðamönnum flokksins, að ekki svo fáir af þm. Framsfl. ættu sitt fylgi að þakka því, að kommúnistar fylgdu þeim við þessar kosningar. Nú skulum við athuga útkomuna, ef hlutfallskosningar hefðu verið við þessar kosningar í tvímenningskjördæmunum. Þá hefði Framsfl. 13 þm., en Sjálfstæðis- og Bændafl. 12 þm. Þá hefði útkoman verið sú, að bak við hvern Framsflþm. hefðu verið 992 atkvæði, en hjá Sjálfstæðis- og Bændafl. 1150 atkv. bak við hvern þm. Vegna þess, sem frsm. mínni hl. sagði í kvöld, er hann taldi fals í því að telja ekki uppbótarþingmennina með, vil ég skýra það, að ef þeir eru teknir með, stendur dæmið þannig, að Sjálfstæðis- og Bændafl. fengu 5 uppbótarþingmenn ár sveitakjördæmunum og fengu því raunverulega 11 þm. kosna, og á hvern þeirra þm., þegar þetta er tekið með, falla 1262 atkv., en á hvern þm. Framsfl., sem eru 19, 680 atkv. Ég vil taka það fram, að hér er aðeins um sveitakjördæmin að ræða. Kaupstaðirnir eru ekki með. Þess vegna er auðsætt, að Sjálfstæðis- og Bændaflokkskjósendur í sveitunum hafa ekki jafnmikinn rétt og kjósendur Framsfl.

Það er verið að brýna okkur með því, að við sönnum með þessu, að við viðurkennum að hafa enga von um að sigra í þessum kjördæmum. Um það er ekki hægt að fullyrða, en í raun og veru væri það undarlegt. Ef tekið er tillit til áróðursstyrkleika, ætti Sjálfstfl. að tapa, en Framsfl. að vinna, vegna þess að Sjálfstfl. gerir mjög lítið til stuðnings sínum stjórnmálamönnum, en Framsfl. gerir allt hugsanlegt til þess að gera kosningavél sína sem fullkomnasta.

Það var verið að tala um það af einum þm. Framsfl., að það væri fjarstæða að láta fari fram stjskrbreyt., án þess að taka stjórnarskrármálið fyrir í heild: Framsfl. ferst illa að tala um þetta, því að það voru fulltrúar hans í stjskrn., sem urðu fyrstir til þess að drepa till. frá hv. þm. V.-Sk. um það mál. Nú er það líka svo, að ekki þarf neinar nýjar kosningar til þess að afgreiða það, því að það var ætlunin að skipa mþn. í það og skili hún áliti á sumarþingi, en málið fengi svo afgreiðslu á haustþinginu, eftir að aðrar kosningar hafa farið fram, og er það ekkert seinna en ella muni.

Það hefur verið talað um það, að flutningsmenn þessa frv, væru að stofna til óeðlilegs ófriðar með því að samþykkja þetta mál og væru að stofna til óeirða. Ég vil segja, að eins mikil ágreiningsmál hafa komið á þessu þingi og mál, sem hafa haft eins mikla þýðingu eins og þetta, og fulltrúar Sjálfsfl. hafa aldrei hótað að stökkva burtu, þótt ekki væri farið að eins og þeir vildu. En þegar átti að taka þetta ágreiningsmál fyrir, kom hótun frá forsrh. um, að hann segði af sér, ef það væri ekki gert fyrir hann að drepa þetta mál. Þessi frammistaða er þannig, að þessum mönnum ferst sízt að brigzla öðrum um, að þeir fari með ófrið. Þeir þurfa ekki að tala um það, að flm,. þessa frv. séu me ófrið. Hér þarf sannarlega ekki að vera að tala um það, að það séu fylgismenn okkar frv., sem séu ófriðarmenn á þessu sviði. Þess ber enn fremur að geta, að það var hæstv. forsrh. (Herm.T) og flokkur hans, sem kvað upp úr um það í vetur, að nú skyldu kosningar fara fram á þessu vori. Og út frá því var ekki nema eðlilegt og sjálfsagt, að ágreiningsmál milli flokkanna mundu verða tekin fyrir, og þetta er eitt þeirra.

Mér þykir ákaflega undarlegt, þegar alltaf er verið að stagast á því, að vegna þess að það séu ýmsir erfiðleikar, sem þjóðin eigi við að búa, og vegna þess að hætta sé á því, að aðflutningar til landsins teppist og að loftárásahætta sé, þá. megum við þess vegna ekki tala um mál eins og þetta. Mun það breyta nokkru í þessum efnum, hvort kjördæmamálið er samþ. eða ekki? Er líklegt, að allur hagur lands og þjóðar velti á því hvort fulltrúar Framsfl. eru í ríkisstj. eða einhverjir aðrir í þeirra stað? Ég held, að hagur þjóðarinnar hafi ekki blómgazt svo fyrir þeirra tilverknað, að almenningur í landinu þurfi að harma það svo mjög, þó að þeir fari úr ríkisstj. og aðrir komi í þeirra stað. Framsfl. er nú búinn að eiga fulltrúa í stjórn í 15 ár, og aðrir flokkar hafa á því tímabili orðið að vera stjórnarandstæðingar. Og bæði minn flokkur og aðrir hafa hagað fylgi sínu við mál eftir sannfæringu, þannig að þeir hafa fylgt Framsfl., þegar þeir hafa átt samleið við hann, og ekki, þegar þeir hafa ekki átt samleið við hann. Ég býst við, að það fari ekki allt á annan endann hér í þessu landi, þó að einhverjir aðrir en framsóknarmenn fari með völdin í nokkra mánuði.

Þá vil ég aðeins víkja að því, sem kom hér fram og sýnt hefur sig að vera skoðun Framsfl., að skipta beri tvímenningskjördæmunum í einmenningskjördæmi og skipta Rvík í einmenningskjördæmi, og hafa svo enga uppbótarþingmenn. Þetta fyrirkomulag gæti haft þær afleiðingar, að 25%–30% kæmi að yfirgnæfandi meiri hl. þm. hér á Alþ., en heilir flokkar fengju engan þingfulltrúa kjörinn. Þetta er hugsjón Framsfl. Og hann verður að fyrirgefa og hans fulltrúar, þó að við, sem erum með þessu frv., viljum ekki ganga inn á þessar brautir.

Varðandi það, að þessi breyt. sé sérstaklega til þess fallin að taka valdið af dreifbýlinu, eins og þessir menn hafa orðað það, þá hef ég með þeim tölum, sem ég hef lesið upp og eru teknar upp úr kosningaskýrslum frá síðustu kosningum, sýnt fram á, að það er hin mesta fjarstæða, því að það er aðaltilgangur frv. að jafna hlutföllin yfirleitt milli þeirra flokka, sem berjast í sveitakjördæmum landsins.

Annað vil ég svo minnast á. Það hefur varla verið haldinn svo stjórnmálafundur í kjördæmum landsins, a.m.k. síðan 1931, að þar hafi ekki verið einhverjir framsóknarmenn með brigzlyrði um Sjálfsfl. og Alþfl. um það, að ef þeir kæmust til valda í þjóðfélaginu, mundu þeir gera landið að einu kjördæmi eða skipta því í stór kjördæmi og hafa þá hlutfallskosningu alls staðar. Nú liggur fyrir að breyta kosningafyrirkomulaginu, og er þá rétt, að almenningur fái að kjósa um þetta. Og auðséð er á ýmsum greinum, sem um þetta hafa verið skrifaðar, að Framsfl. reynir að glepja fólkið með því að segja, að þessi breyt., sem hér liggur fyrir, sé ekki nema byrjun, og svo eigi að gera landið allt að einu kjördæmi.