13.05.1942
Neðri deild: 57. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 895 í B-deild Alþingistíðinda. (2432)

38. mál, stjórnarskipunarlög

*Garðar Þorsteinsson:

Herra forseti Ég skal reyna að tala ekki mjög lengi. Það hefur verið siður þeirra hv. þm., sem talað hafa í þessu máli, að þeir hafa talað frá 30 og upp í 180 mínútur. En ég veit, að þetta mál er nú þannig komið, að menn sannfærast yfirleitt ekki á einn veg eða annan.

Áður en ég sný mér að aðalefni þessa máls, vil ég segja það, að mér þótti ræða hv. síðasta þm., hv. þm. Barð., dálítið einkennileg. Þessi hv. þm. ætlaði í víssum hluta ræðu sinnar að slá sig til riddara með því að segja, að hv. þm. A.-Húnv. hafi einhvern tíma slegið af sinni fyrri afstöðu í máli, sem hv. þm. Barð. taldi eitthvert mesta mál síðustu þinga, sem sé kosningafrestunin. Hann sagði, að einhver straumhvörf hefðu orðið hjá þessum hv. þm. Ég hygg, að ég háfi fylgzt með afstöðu þessa hv. þm. til þess máls engu síður en hv. þm. Barð. Það er rétt, að hv. þm. A.- Húnv. greiddi ekki atkv. með því á síðasta þingi, að kosningum yrði frestað, af því að hann skoðaði hug sinn um það tvisvar, hvort ástæða væri til þess, að þingkosningar færu ekki fram, eins og stjórnskipunarlögin ákveða; en þau mæla svo fyrir, að almennar þingkosningar skuli fara fram a.m.k. fjórða hvert ár. Hann varð ekki sömu skoðunar og meiri hl. flokks hans á Alþingi um það, að fyrir lægju þær ástæður, sem réttlættu, að kosningum yrði frestað, og greiddi ekki atkv. En hv. þm. Barð. greiddi atkv. á þann veg, að þingkosningum skyldi frestað. Ég man ekki, hvort hann tók til máls, en hann hefur sjálfsagt gert það sem lögfræðirigur Framsfl. Hitt er svo aftur annað mál, sem rétt er að athuga, hvor hefur gert sig sekan í straumhvörfum, hann eða hv. þm. A.-Húnv. Hv. þm. Barð. hefur fyrir nokkrum vikum samþ. á flokksþingi Framsfl., að kosningar skuli fara fram í vor, og ég hef ekki heyrt þennan hv. þm. koma með nein rök fyrir því, að frekar sé ástæða til að láta kosningar fara fram nú en í fyrra, og mér þætti gaman að vita það hjá þessum hv. þm., hvað það er, sem gerir það að verkum, að ekki er hægt að fresta kosningum nú eins og í fyrra. Ég skal taka það fram, að ég var með kosningafrestuninni í fyrra, og er það enn, af því að ég er þeirrar skoðunar, að eins og komið er með okkar þjóð, sem er í tveggja herja höndum, þá sé siður en svo minni ástæða til að ætla, að landið verði fyrir árásum nú en á s.l. ári. Ég vona, að ég sé ekki með neinar uppljóstranir, þó að ég segi frá því, að ræðismaður Bandaríkjanna í Rvík, Mr. Kuniholm, hefur sagt við mig, að þann dag, sem Bandaríkin færu í stríðið, mundu Þjóðverjar gera árás á Ísland. Það hefur, sem betur fer; ekki verið gerð nein árás, en samt var það hans persónulega skoðun, að hættan fyrir Ísland yrði því meiri sem stríðið nálgaðist Bandaríkin meir. Og það þarf enginn að segja mér það, að það sé minni hætta fyrir landið og þjóðina nú en í fyrra. Svo þætti mér gaman að heyra rök hv. þm. Barð. fyrir því, að það séu straumhvörf í huga hv. þm., þótt hann segi, að það sé ,minni ástæða til að ganga til kosninga nú en í fyrra. Og ég er enn þá þeirrar skoðunar, að það hafi verið mjög mikil ástæða til að fresta kosningum í fyrra, og að hún sé ekki minni nú. Hitt er annað mál, að ég mundi ekki greiða atkv. með frestun núna, úr því að meiri hl. Alþ. heimtar kosningar. Og sá flokkur, sem gengur þar fram fyrir skjöldu, er ekki Sjálfstfl., eða flokkur Jóns Pálmasonar, heldur er það Framsfl., flokkur Bergs Jónssonar, og það er hann, sem ber ábyrgðina, og hann skal sannarlega ekki skella henni á aðra. Ég verð þess vegna að segja, að þótt málin hafi nú snúizt á þann veg, að kosningar skuli fara fram í sumar, þá neita ég fyrir mitt leyti, að nokkur straumhvörf hafi orðið í huga mínum, því að það er að mínum dómi ábyrgðarmeira nú en í fyrra að láta kosningar fara fram. Ég hef aldrei dregið dul á það í mínum flokki og mun ekki heldur gera það hér.

Þegar þetta mál kom inn í Alþ. og var vísað til stjskrn., þá var það fyrsta atriðið, sem n. tók til athugunar, hvort hún ætti að afgreiða þetta mál sérstaklega eða hvort hún teldi rétt, að stjórnskipunarl. almennt yrðu afgreidd. Eins og tekið hefur verið fram í nál. meiri hl. og af hv. frsm., þm. V.- Ísf., þá var það form. n., hv. þm. V.-Sk., sem gerði það að till. sinni, að þetta mál yrði afgreitt í heild og komið yrði fram gagngerðum breyt. á stjórnskipunarl. Íslands. Þegar gengið var til atkv. um þetta með nafnakalli, þá lýstu fulltrúar Framsfl. yfir því, að þeir mundu ekki samþ. þetta, af því að þeir teldu, að engar breyt. á stjórnskipunarl. Íslands ættu yfirleitt að eiga sér stað á þessu þingi, hvorki sú breyt., sem farið er fram á í þessu frv., sem hér liggur fyrir, né önnur. Ég og hv. 5. þm. Reykv. greiddum atkv. á sama veg, ekl;i af því, að við álitum, að breyt. á stjórnskipunarl. mættu ekki eiga sér stað á þessu þingi, heldur af hinu, að við töldum, að sú breyt., sem hér er farið fram á, ætti fyrst og fremst að ná fram og að það mundi tefja fyrir málinu, ef gengið yrði lengra. Það voru þess vegna 6, sem greiddu atkv. á móti till. form., en 1 með. Hinir greiddu ekki atkv. Þegar menn þess vegna vilja leggja það niður fyrir sér, hvers vegna ekki var gerð gagngerð breyt. á stjórnskipunarl. Íslands, þá skulu menn ekki kenna neinum ákveðnum flokki það, heldur geta menn frekar sagt, að allir flokkar þingsins hafi verið sammála um það, að á þessu stigi málsins skyldi það ekki gert. Og það er áreiðanlegt, að Framsfl. getur sízt allra kennt sér eða þakkað, að svo var ekki gert, af þeirri ástæðu, að allir fulltrúar hans greiddu atkv. á þann veg, að engar breyt. skyldu gerðar á stjórnskipunarl.

Ég mun með þeim fáu orðum, sem ég ætla að segja hér í kvöld, taka nokkur atriði úr þeim ræðum, sem farið hafa fram í dag, sérstaklega úr ræðum hv. þm. Framsfl., og get ég þeirra, eftir því sem ég hef skrifað niður, en ekki eftir sérstakri röð. Ég hef minnzt á þessi atriði hér að framan aðeins til þess að benda á það, að Sjálfstfl. hefur síður en svo gengið þess dulinn. að það eigi að gera gagngerðar breyt. á stjórnskipunarl. Íslands, en hann ætlar hins vegar á þessu stigi málsins ekki að gera það, vegna þess að hann telur, að það frv., sem hér liggur fyrir, sé það atriði úr stjórnskipunarl., sem fyrst og fremst verður að breyta.

Hv. þm. Barð. minntist á það í dag, að sjálfstæðismenn mundu ekki hafa athugað, að það þyrftu að fara fram þrennar kosningar, til þess að stjskrfrv. næði fram að ganga. Hann virðist ekki hafa athugað það sjálfur, að það þarf aðeins tvennar kosningar af þeirri einföldu ástæðu, að þetta frv., sem hér liggur fyrir, verður samþ. óbreytt á næsta þingi, en jafnframt verður samþ. annað frv., sem ekki þarf tvennar kosningar, heldur einar, og það verður samþ. á síðara þinginu. Það er þess vegna misskilningur hjá þessum hv. þm., að þrennar kosningar þurfi að fara fram.

Ég fæ aldrei skilið þá afstöðu hv. þm. Framsfl., að það sé gengið á eitthvert réttlæti, sem nú á að ríkja í kosningafyrirkomulaginu, ef hlutfallskosningar verða teknar upp í tvímenningskjördæmum. Ég fæ ekki séð, að það sé meira réttlæti í því, að sá flokkur, sem hefur allt að 1/2 atkv. í tvímenningskjördæmunum, skuli ekki fá eitthvað um það að segja, hvernig málum þessara héraða skuli lokið, ef á annað borð má segja, að þeir, sem verða kosnir, hafi áhrif á þau málefni. Við skulum hugsa okkur tvímenningskjördæmi eins og Rangárvallasýslu, að þar mundu verða um 2500 atkv. við skulum segja, að hv. 1. þm. Rang. hefði á 13. hundrað atkv., en mótparturinn hátt á 12. hundrað. Hvers vegna mætti nú andstæðingur hans ekki fá íhlutunarrétt um málefni kjördæmisins eins og hann, þótt hann hefði dálítið færri atkv.? Það fæ ég ekki skilið. Það getur vel verið, að eðli sínu samkvæmt væri réttara, að hlutfallskosning væri miðuð við fleiri en 2 frambjóðendur. Ég skal ekki neita því. En hitt er a.m.k. óeðlilegt, ef á að miða útkomuna skilyrðislaust við meiri hl., án þess að minni hl. hafi nokkuð að segja. Og það má minna á það, að til búnaðarþings er kosið með hlutfallskosningu í tvímenningskjördæmum. Líka má minna á það, að hv. 1. þn, Rang., sem situr hér á Alþ. sem skrifari Nd., er kosinn með hlutfallskosningu. Þó er ekki ætlazt til, að þeir séu nema 2. Það er því ekkert einsdæmi, að hlutfallskosning fari fram þar, sem 2 á að kjósa. Réttur meiri hl. í þessum kjördæmum er heldur ekki fyrir borð borinn, vegna þess að atkv. hans koma af eðlilegum ástæðum fram til uppbótar, þegar jafnað er niður uppbótarþingsætum, en þau eru hugsuð til þess að bæta það misrétti, sem kann að koma fram við atkvgr. í einmennings- og tvímenningskjördæmum, þegar ekki næst hlutfallsleg kosning milli kjördæma.

Hv. 1. þm. Rang. sagði um hv. þm. V.-Ísf., um hann hefði á sínum tíma verið mótfallinn því. að Rvík fengi 7 þm., en nú mundi hann vilja 8. Ég skal ekkert um það segja, em hann var á sínum tíma flokksmaður þeirra. En hitt vil ég fullyrða, að till. um 7 þm. fyrir Rvík var af framsóknarmönnum fram borin í fullu trausti þess, að Framsfl. fengi þingsætið. En röksemdafærsla þeirra hefur breytzt síðan. g veit, að Reykvíkingar muna það vel, að þá hafði Framsfl. 2 bæjarfulltrúa af 15 í Rvík og rúmlega það, þótt hann ekki næði þeim 3. Það, sem á bak við þessa till. þm. Framsfl. lá, var því ekkert annað. en það að tryggja sér þm. í Rvík. Heilindin eða réttlætistilfinningin er nú samt ekki rótgrónari en það, að nú er þetta fyrirkomulag alveg „forkastanlegt“. Það er ekki hægt að hugsa sér, að Rvík fái nú 8 þm., af því að nú fær Framsfl. ekki 1 mann kosinn af 15. Þegar réttlætiskennd þessara manna er skoðuð ofan í kjölinn, kemur í ljós, hvað fyrir þeim vakir. Þeir hafa aldrei hugsað sér að vaka yfir réttlæti eða lýðræði. Þeir hafa á hverjum tíma aldrei hugsað um annað en að vita, hvernig þeirra kaka væri sem bezt á eldinum komin. Og mér þætti gaman að spyrja, hvaða tilgangi reynt er að ná með afstöðu Framsfl. og hinna flokkanna. Er verið að tryggja eitthvert varanlegt réttlæti í þessu máli? Eða er verið að ná á kostnað Framsfl. einhverju ranglæti til framdráttar hinum flokkunum? Það er undarlegt, að Framsfl., sem alltaf er að tönnlast á lýðræði og þingræði, skuli halda því fram, að það sé réttmætt, að þeir hafi 700 atkv. á bak við hvern þm., þegar aðrir flokkar hafa 1400. Mér er ómögulegt að skilja það, og ég veit það er enginn, sem skilur það. Það eina, sem þessir þm. segja sem rök, er, að framsóknarmenn í sveit eigi að hafa sérstöðu. Að það sé í samræmi við nokkurt lýðræði eða þingræði, því verð ég algerlega að mótmæla. Hv. 1. þm. Rang. sagði, að það mætti alveg eins kjósa ríkisstj. með hlutfallskosningu. Ég vil skjóta því fram, þó að það sé ekki í anda okkar, sem fylgjum þessu máli, að það er ekkert einsdæmi, að (þetta sé gert. A.m.k. í Sviss er ríkisstj. kosin hlutfallskosningu í svissneska þinginu af þeim flokkum, sem þannig eru kosnir, og hefur svo ver ið um mörg ár. Veit ég ekkert land í heimi, sem hefur staðið varanlegar á fótum lýðræðis og þingræðis í heiminum en Sviss.

Ég vil svo segja það, að ég hef ekki fundið það í afgreiðslu þessa máls, hvorki frá því í byrjun né heldur í áframhaldi, að þeir flokkar, sem standa að því, hafi rofið samstarfið um stj.

Það var varla hægt að taka orð hv. 2. þm. Rang. öðruvísi en svo, að hann teldi þessa hlutfallskosningu í tvímenningskjördæmum nokkra réttarbót, þegar hann var að tala um að stíga fyllra spor í þá átt. Vona ég því, að hann finni það skyldu sína að ganga með mér til atkv. um einhverja viðréttingu frá því ranglæti, sem nú er. Það getur a.m.k. enginn kjósandi haldið fram, hversu miklu flokksofstæki sem hann kann að vera haldinn, að núverandi fyrirkomulag til alþingiskosninga sé réttlátt. Hitt kann að vera, eins og hv. þm. orðaði það, að það séu mismunandi leiðir til að ná því marki að fá rétta niðurstöðu á þingræðislegan hátt. Og ég hef sagt, að ég teldi eiga að ná þessu marki fyrst og fremst með því, að allir kjósendur hafi jafnan rétt til þess að fá Alþ. skipað í réttum hlutföllum við flokksafstöðu landsins, hvort sem því takmarki verður náð með hlutfallskosningu í tvímenningskjördæmum eðla svo og svo mörgum uppbótarþingsætum. Vera má einnig, að réttlátasta lausnin sé, að landið verði eitt kjördæmi, eða að kjördæmin séu mjög stór, um það skal ég ekki fella dóm. En aðalatriðið fyrir mér er að ná þessu takmarki á einhvern hátt. Ég hef talið, að hlutfallskosningar í tvímenningskjördæmum mundu veita þessa lausn, en reynslan mun skera úr því betur en spádómur minn. Hitt er svo fjarstæða, sem á ekki skilið að jafngreindur maður eins og hv. 1. þm. Rang. skuli halda fram, að það að hafa hlutfallskosningu í tvímenningskjördæmum sé sama sem að fella niður öll áhrif þeirra kjördæma á þingmál yfirleitt. Hann reyndi nú að útfæra þetta með einhverjum dæmum, en það varð mér jafnóskiljanlegt. Það má vel vera, að það sé álit framsóknarflokksmanna, að þm. fyrir sveitirnar eigi að vera úr sveit. En staðreyndin er sú, að sumir þm. þeirra fyrir sveitakjördæmi eru alls ekki sveitamenn, en eru búsettir hér í Rvík. Og þetta á sér jafnt stað, hvort heldur eru einmenningseða tvímenningskjördæmi.

Það var á það bent í sambandi við rafveitu í Ólafsfirði, að ómögulegt hafi verið að standa á móti henni, af því að 4 þm. hafi verið búsettir þar, en þeir voru allir taldir þm. Eyf. Ég held það sé almenn skoðun, að þeir, sem kosnir eru í kjördæmum, hvort heldur er einmennings eða tvímennings, reyni að vaka yfir hagsmunum síns kjördæmis, hvar sem þeir eru búsettir, og að hlutfallskosning í. tvímenningskjördæmum sé engin niðurfelling á þessum hagsmunum. Það er a.m.k. víst, að ef búseta í kjördæminu á að vera skilyrði fyrir, að gætt sé hagsmuna kjördæmisins, þegar um tvímenningskjördæmi er að ræða, þá hlýtur það alveg eins að gilda um einmenningskjördæmi.

Ég skal svo ekki tefja þennan þingfund frekar, en segja það eitt í viðbót, að ef það er í raun og veru hugsun hæstv. Alþ. að vernda lýðræði og þingræði, hvers vegna þá ekki að hafa hlutfallskosningar á einn eða annan veg? Ég verð að segja, að þeir menn, sem halda því fram, að einmenningskjördæmi séu réttlátari en hlutfallskosning, verða þá líka að taka afleiðingunum af því, að einmenningskjördæmi geta veitt minni hl. kjósenda meiri hl. á Alþ. Alveg sama hefur verið í Bandaríkjunum og, að ég hygg, í Frakklandi. En þeir, sem hins vegar telja, að meiri hl. eigi að ráða og að það sé hinn lýðræðislegi grundvöllur, verða að semja stjórnskipunarl. í samræmi við það. Og ég tel, að sú breyt. á kosningal. og stjórnskipunarl., sem hér liggur fyrir, tryggi þetta að mestu eða öllu leyti, þó að það megi verða ágreiningur um það, hvort þessi leið eða önnur eigi að vera endanleg.