13.05.1942
Neðri deild: 57. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 903 í B-deild Alþingistíðinda. (2435)

38. mál, stjórnarskipunarlög

*Garðar Þorsteinsson:

Ég vil segja hv. 1. þm. Rang., að hann er þess ekki umkominn að spá um það, hvort það verður 100 atkv. meira eða minna, sem munar á honum og hv. þm. V.- Sk., ef það er satt, að hv. þm. V.-Sk. muni bjóða sig fram á móti honum. Hv. þm. hefur bæði í ræðum sínum í dag og í nál. gert lítið úr uppbótarþm. Það stendur mér ekki næst að taka málstað þeirra, en langt er til jafnað, ef þeir eru verri en sumir, sem náð hafa kosningu í kjördæmum.

Hv. þm. sagði, að ég væri lítill fulltrúi fyrir Rang., og það kann að vera rétt, en hann sagði líka, að kjósendur minni hl. í Rangárþingi, mundu ekki vilja við mér líta. Það veit hv. þm. ekkert um, en hitt vitum við, að sá minni hl. vildi alls ekki við honum líta. Hvort þeir ekki vildu mig heldur, er óreynt mál. En ég er þakklátur fyrir að vera kominn á þing fyrir atbeina hinna smekkvísu og vitru manna, sem höfnuðu hv. 1. þm. Rang.

Hv. þm. sagði, að uppbótarsætin rýrðu lýðræðið. Ég er ekki fræðimaður á þessa hluti, en ég hef alltaf skilið lýðræðið svo, að allir kjósendur ættu að hafa jafna aðstöðu til þess að hafa áhrif á það, hvaða menn kæmust til vissra valda. Ef þetta er rangt hjá mér, bið ég um frekari skýringar.

Hv. þm. segir í lítilsvirðingartón í nál. sinu, að uppbótarþm. séu ekki til bóta á Alþ., því að þeir séu skoðaðir sem flokkseign, en ekki sem menn, sem samkv. 43. gr. stjskr. eigi að greiða atkv. samkv. sannfæringu sinni. Ég skal nefna eitt dæmi, sem hv. þm. var að tala um. Hann sagði, að Magnús Torfason hefði verið kosinn á þing sem uppbótarþm. fyrir Bændafl., en svo hefði orðið ágreiningur um málefni þess flokks og Magnús sagt sig úr flokknum. Sjálfstfl. hefði síðan viljað láta þennan mann víkja af þingi, af því að hann hefði ekki lengur rétt til þess að sitja þar í uppbótarsæti Bændafl. Þetta er ekki alveg rétt hjá hv. þm., af því að Magnús hafði ekki sagt sig úr flokknum, en hann sagðist bara vera betri bændaflokksmaður en hinir, og með því vildi hann færa rök að því, að það bjargaði honum frá því að verða rekinn úr flokknum. Ég vil aðeins benda á það, að hér er einmitt atriði, sem hv. þm. hefur tekið upp í nál. sínu, sem sé, þegar hann talar um; að uppbótarþm. séu eign flokksins. Það veit hver hv. þm., að stjskr. mælir svo fyrir, að þm., greiði atkv. eftir samvizku sinni, og ég vil spyrja hv. þm. að því, hvaða rök hann hefur fyrir því, að uppbótarþm. hafi ekki fylgt sannfæringu sinni alveg eins og aðrir. Hv. þm. sagðist mótmæla því, að framsóknarmenn sætu á þingi fyrir atbeina kommúnista. Ég veit ekki betur en að kommúnistar við síðustu kosningar beindu þeirri áskorun til fylgismanna sinna að kjósa framsóknarmenn þar, sem þeir (kommúnistar) hefðu ekki mann í kjöri. Svo vil ég að síðustu aðeins segja það, að þessi hv. þm. hefur síður en svo nokkra víssu fyrir því, hvernig atkv. muni falla í einstökum kjördæmum, en hitt er aftur á móti víst, að almenningur í kjördæmunum mun dæma um það, hvort hann vilji heldur Framsfl. eða Sjálfstfl., og ég er óhræddur við að bíða þeirra úrslita.