18.05.1942
Neðri deild: 60. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 909 í B-deild Alþingistíðinda. (2444)

38. mál, stjórnarskipunarlög

*Bergur Jónsson:

Ég ætla ekki að fara út í harmatölur þær, er síðasti ræðumaður flutti hér. Þær hefðu betur átt við innan hans flokks. Hv. þm. V.-Ísf. sagði, að það leiddi af sjálfu sér, að ef hlutfallskosningar í tvímenningskjördæmum yrðu teknar upp í stjskr., þá væri ekki hægt að breyta þeim með einföldum lögum. Leiðir það af sjálfu sér, a binda þurfi vitlaust kosningafyrirkomulag í stjskr.? Hann spurði, hví við vildum þá ekki skipta Rvík niður í einmenningskjördæmi. Við höfum leitt rök að því, að hlutfallskosningar um 15 menn eru ekki sambærilegar við hlutfallskosningar um 2 menn, er munu hvergi eiga sér stað á byggðu bóli. Og það þarf ekki að reyna að vera með þær blekkingar, að nokkur af þm. viti ekki, að hér er verið að setja vitlaust fyrirkomulag inn í kosninga- og kjördæmaskipunina.

E.t.v. vill hv. þm. V.-Ísf. stefna að því að gera einmenningskjördæmi úr Rvík. Okkur hefur aldrei komið það til hugar.

Í Englandi eru aðeins einmenningskjördæmi, og kemur ekki fram neitt ósamræmi. Meiri hl. fær meiri hl. kjörinna fulltrúa, og minni hl. fær einnig sína fulltrúa, en með þessu fyrirkomulagi væri engin trygging fyrir því. Enda er það opinberlega viðurkennt af hv. 1. þm. Reykv. (MJ), að hlutfallskosningar um 2 menn séu vitleysa ein.

Sem sagt, ég fæ ekki skilið, ef viðhafðar verða hlutfallskosningar í tvímenningskjördæmunum, að nokkuð sé að óttast, þótt löggjafanum sé heimilað að breyta tvímenningskjördæmunum í einmenningskjördæmi, ef sannara og réttara þykir reynast.

Hv. þm. Borgf. (PO) vildi gera lítið úr þeim glundroða, er tvennar kosningar hljóta að skapa. En þar veit ég, að hann talaði þvert um hug sér. Það er ekki sama, hvort fram fara einar kosningar um mikilsvert og aðkallandi mál eða tvennar kosningar um kákbreytingar einar.