18.05.1942
Neðri deild: 60. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 909 í B-deild Alþingistíðinda. (2445)

38. mál, stjórnarskipunarlög

*Eysteinn Jónsson:

Ég sé nú ekki ástæðu til að lengja þessar umr. meir, þar sem gert er ráð fyrir, að útvarpað verði þessari umr, um það og stjórnarmyndunina, og mun ég taka þátt í þeim umræðum. Ég get þó ekki látið þetta mál alveg afskiptalaust og þá breyt., sem meiri hl. stjskrn. vill gera.

Ég veit vel, að þm. hafa gert sér fulla grein fyrir því, að kosningaskipulag okkar er hreint ekki gallalaust. Hér er eiginlega um ferns konar skipulag að ræða. Í fyrsta lagi er 1. stórt kjördæmi (Rvík) með hlutfallskosningu. Í öðru lagi tvímenningskjördæmi, þar sem einfaldur meiri hl. ræður. Í þriðja lagi einmenningskjördæmi. Í fjórða lagi til viðbótar nokkur uppbótarþingsæti. Það er öllum ljóst, að þetta er mesta grautargerð, og ég veit, að það er enginn ágreiningur um það á Alþ., að þetta fyrirkomulag þurfi endurskoðunar við. Við höfum líka allir gert okkur grein fyrir því, að innan stundar ætlum við að breyta stjskr. ríkisins og stofna hér lýðveldi í staðinn fyrir konungsríki, sem við höfum haft. Og við vitum, að stjskr. þarf að ýmsu öðru leyti endurskoðunar við. Það eru ýmsar uppástungur, sem komið hafa fram í sambandi við þetta mál, sem þarf að rannsaka sérstaklega.

Fyrir einu ári síðan ákvað Alþ., að lýðveldisstofnun skyldi fara fram eigi síðar en í stríðslok, en þó mun hafa verið litið svo á, að henni yrði lokið 1944. Það eru því aðeins 2 regluleg þing, þangað til þessi meginbreyt. á að fara fram, samkv. því, sem Alþ. sjálft hefur sett sér áætlun um.

Það er geysimikið verkefni að framkvæma endurskoðun stjskr., svo að vel sé, og þá ekki hvað sízt það ákvæði, er fjallar um kosningar til Alþ., sjálft undirstöðuatriði stjórnskipunarinnar. En í stað þess að viðhafa þá aðferð, að undirbúa þessi mál gaumgæfilega, hefur nú verið horfið að því ráði að slita út úr eitt atriði og stofna til harðvítugra deilna um kjördæmamálið, sem allir vita, að hefur verið eitt viðkvæmasta mál þjóðarinnar, af því að það hafa alltaf verið skiptar skoðanir um það meðal landsmanna.

Það hefur allmikið verið um það rætt, hversu tímabært það sé að taka nú upp þessar deilur, og það mun verða gert nánar hér á Alþ., þótt ég ekki fari frekar út í það að þessu sinni. En hér er ástæða til að benda á, hvernig sú úrlausn er, sem er svo knýjandi að koma á framfæri, að meiri hl. Alþ. telur sér sæma að steypa þjóðinni út í meiri flokkadeilur en nokkru sinni hafa átt sér stað áður í landinu. Nú skyldi maður ætla, að sú lausn væri þannig, að ekki orkaði tvímælis, að hún væri til bóta á því fyrirkomulagi, sem áður hefur verið, og tvímælalaust í réttlætisátt, eins og svo mikið er talað um. En því fer svo fjarri, að hv. flm. hefur ekki tekizt að færa nokkur rök fyrir því, að þessi breyt. nái þeim tilgangi, sem fyrir þeim valir, hvað þá heldur, að hún sé í réttlætisátt.

Aðalbreyt. er fólgin í því, að það á að koma á hlutfallskosningum; í tvímenningskjördæmum. Það á að binda það í stjskr., að þessar hlutfallskosningar skuli eiga sér stað. En hafa hv. flm. gert sér það ljóst, að með þessu er verið að binda í stjskr., að minni hl. í kjördæmum skuli hafa sama rétt og meiri hl.? Hversu lítill sem minni hl. er, ef hann aðeins nær rúmum helmingi atkv. á móti meiri hl., þá skal hann hafa sama rétt og meiri hl. Þetta er réttlætismálið. Það er þetta, sem á að gera til þess að útrýma ranglátum, stjórnskipunhrl. Og það er sama, hvernig hv. þm. reyna að berja höfðinu við steininn, það er ekki hægt að telja nokkrum heilbrigðum manni trú um, að þetta sé ekki hróplegt ranglæti, sem verður ekki þolað. Og þó þessu verði komið í framkvæmd nú, mun það ekki standa í stjskr. stundinni lengur. Við fyrstu endurskoðun, sem fram fer á stjskr., ef þetta verður samþ., verður það fyrsta atriðið, sem breytt verður. Nú skyldi maður halda, að þeir, sem standa að þessu máli, hefðu reynt að leggja sig fram um það, þegar þeir tóku sig til að breyta kosningafyrirkomulaginu og töldu það svo knýjandi, að það þyrfti að gera það núna, að reyna að gera það þannig, að það gerði stjórnskipunarl, landsins og kosningareglur einfaldari en verið hefur. — Ég benti á það áðan, hvað þær væru að mörgu leyti flóknar og grautarlegar. — En því fer svo fjarri, því að hér er bætt við einni kosningaaðferðinni enn til viðbótar þeim fjórum, sem eru fyrir, og hún er sú, að tryggja minni hl. sama rétt og meiri hl., ef hann fær 1/3 atkv. eða jafnvel minna, eins og hér hefur margsinnis verið bent á.

Nú veit ég ekki, hvort því hefur verið veitt nægileg athygli í sambandi við þetta mál, að það var til ákaflega einfalt úrræði, ef það vakti fyrir hv. flm. þess að koma í veg fyrir, að meiri hl. í tvímenningskjördæmunum hefði ráð á 2 þingsætum. Og það verð ég að játa, að tvímenningskjördæmafyrirkomulagið er í ósamræmi við það fyrirkomulag, sem er í flestum kjördæmum landsins. En ef það vakti fyrir þessum hv. þm. að koma á réttlæti, þá var til ákaflega einföld lausn á þessu máli, og hún var sú, að skipta tvímenningskjördæmunum í einmenningskjördæmi. Og þessi lausn var þannig, að það þurfti ekki stjskrbreyt. og ekki tvennar kosningar, til þess að það fyrirkomulag kæmist í framkvæmd, heldur einar kosningar. Þessi breyt. hafði líka þann kost, að hún gerði kosninga,fyrirkomulagið í landinu einfaldara en það áður var. Með því að afnema tvímenningskjördæmin voru þm. aðeins kosnir með tvennu móti, með hlutfallskosningu í einu stóru kjördæmi og mörgum smáum, sem hvert hefði einn þm. Þetta var ákaflega einföld lausn, og um hana hefði getað orðið samkomulag. Þessi lausn er réttlát vegna þess, að hún gefur kjósendunum í tvímenningskjördæmunum, sem nú eru, sama rétt og kjósendurnir í einmenningskjördæmunum hafa nú. En þessi lausn var ekki valin af formælendum réttlætisins, heldur hin, að setja það inn í stjskr., að minni hl. skuli hafa sama rétt og meiri hl.

Hvers vegna var ekki sú leið valin, sem hægt var að fara með einfaldri lagabreyt. og gerði kosningafyrirkomulagið eins í öllum kjördæmum utan Reykjavíkur? Það er á allra vitorði, af hverju þessi leið var ekki valin, þó að hún væri einfaldari og réttlátari. Hún var ekki valin vegna þess, að hún þjónaði ekki nægilega vel flokkssjónarmiðum þeirra manna, sem standa að þessari breyt. Sá slæmi galli var á þessari lausn, að hún tryggði ekki þeim þingflokkum, sem að þessu frv. standa, nógu mörg þingsæti í bili, og það réð hjá hv. formælendum þess. Ef breyt. átti að verða að pólítísku gagni fyrir Sjálfstfl. og Alþfl., þá dugði ekki minna en að tryggja þeim minnihlutaþm. úr dreifbýlinu.

Áður hefur verið heimilt með einfaldri lagabreyt. að skipta tvímenningskjördæmum, eins og ég hef drepið á, en til þess að tryggja minni hl. rétt til framdráttar þeim flokkum, sem ekki treysta sér til að lifa á fylgi meiri hl., þá var þetta ákvæði afnumið og tryggt með sjálfri stjskr., að þessir minnihlutaþm. skuli koma úr tvímenningskjördæmunum. Með einföldum láti ekki að breyta því aftur, það var ekki nægileg trygging fyrir þá flokka, sem hér eiga hlut að máli. Það, sem hér er verið að gera, er hreint ofbeldi gagnvart kjósendum í tvímenningskjördæmum landsins. Og það er svo fjarri því að vera réttlæti, að það er freklegasta ranglæti, sem nokkru sinni hefur verið sett í l. á Íslandi. Ef það vakti fyrir þeim, sem eru formælendur þessa máls hér, að ná því, sem þeir kalla meira réttlæti en verið hefur í kosningafyrirkomulaginu, þá voru til þess aðrar leiðir sem áttu að vera réttlátari frá þeirra sjónarmiði en þessi leið. En þessi var valin af því, að hún tryggði þá bezt flokkslega skoðað. Hér við bætist svo það, að því fer alls fjarri, að þessir minni hlutar, sem menn tala mikið um og eru í tvímenningskjördæmum landsins, séu eins ákaflega áhrifalausir á málefni Alþ. og af er látið. Þeir fá fulltrúa inn á þing í gegnum uppbótarsæti, eins og allir vita, og það vita hv. þm. mjög vel, að sum þessara kjördæma eiga í raun og veru ekki d þm. hér á þingi, heldur eiga þau jafnvel 5 þm.

Þá er annað atriði, sem ég sé ástæðu til að minnast á í þessu sambandi, en það eru till. þær, sem hér hafa komið fram um það að fjölga þm. fyrir kaupstaði landsins, gera þá að sérstökum kjördæmum. Í þessu frv., þegar það kom fyrst fram, var gert ráð fyrir því, að Siglufjörður, Akranes og Neskaupstaður fengju sinn þm. hvert. Þar var sýnilega verið að reyna að taka upp einhverja ákveðna reglu, sem sé, að kaupstaðirnir skyldu allir hafa þm. eins og sýslurnar áður. Og þó að sú regla væri að ýmsu leyti gölluð, þá var það regla út af fyrir sig. En undir eins og farið er að semja um þetta mál milli flokkanna, kemur það upp úr dúrnum, að það passar ekki nógu vel við flokkshagsmuni þeirra, sem hér eiga hlut að máli, að láta alla kaupstaðina hafa þm. En það er til á því einföld lausn, og hún er sú, að skilja bara 2 kaupstaðina út undan, láta þá enga þm. hafa, hafa enga reglu í neinu, heldur láta það sjónarmið ráða að gera það eitt, sem mest getur orðið þessum flokkum til pólitísks framdráttar í bili. Það er samið um það, að Neskaupstaður og Akranes skuli engan þm. hafa, og því er borið við, að það sé vegna þess, að þar séu svo fáir íbúar. En hafi vakað fyrir þeim að finna eitthvert réttlæti. með þessu, að láta Akranes og Neskaupstað ekki fá þm. vegna þess, hvað þeir eru fámennir, þá áttu þeir auðvitað að taka þm. af Seyðisfirði og reyna þá að skapa sér einhverja reglu. Það er vitað, að það er hætt við af þessum flokkum, sem sameinast um þetta, að samþ. þm. fyrir Akranes og Neskaupstað. Og það vita allir, af hverju það er gert. Það er gert eftir kröfu Sjálfstfl., af því að þeir vissu, að ef Akranes yrði tekið út úr og gert að sérstöku kjördæmi, þá mundi Framsfl. sennilega fá kosinn þm. í Borgarfjarðarsýsla. Þess vegna mátti ekki framkvæma þetta réttlæti. Það vita líka allir, hvers vegna var hætt við að láta Neskaupstað fá sérstakan þm. Það var vegna þess, að þá þóttu líkur fyrir, að Framsfl. fengi kosna 2 þm. í S.- Múl., þótt hlutfallskosning væri við höfð, en það skipti engu máli um reglur. Og það, sem eitt skiptir máli í þessu sambandi, er að tryggja pólitíska hagsmuni flokkanna sem bezt. Svo koma þessir menn og berja sér á brjóst, eru fjálglegir og tala um réttlæti. Vilja ekki þeir, sem standa að þessu máli, lofa okkur að heyra rökin fyrir því, hvers vegna þeir hættu við að láta Akranes og Neskaupstað fá sérstaka þm.? Það þýðir ekkert að segja okkur, að það sé fyrir það, að þessir kaupstaðir séu fámennari en Siglufjörður, því að ef það væri nokkur vitglóra í þessu og farið eftir nokkurri reglu, og átti að fella þm. fyrir Seyðisfjörð niður. Vilji þeir ekki líka lofa okkur að heyra rök fyrir því, hvaða réttlæti gagnvart kjósendum er í því að tryggja minni hl. í tvímenningskjördæmunum sama rétt í stjskr. landsins og meiri hl.? Ég er ekki að segja, að fullkomið réttlæti sé í því kosningafyrirkomulagi, sem nú á sér stað. Það þarf endurskoðunar við, og það eru allir sammála um. En vilja ekki allir þeir, sem að þessu máli standa, gera það fyrir okkur að hætta ð tala um réttlæti í sambandi við þetta mál?