18.05.1942
Neðri deild: 60. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 914 í B-deild Alþingistíðinda. (2447)

38. mál, stjórnarskipunarlög

*Frsm. minni hl. (Sveinbjörn Högnason):

Hv. frsm. meiri hl. heldur áfram að hamra á því, að sú breyt., sem hér er til stofnað, verði a.m.k. til þess að jafna heildarútkomuna hjá þingflokkunum í landinu, þ.e.a.s. að þeir fái þingsæti í sem nánustu samræmi við atkvæðatölu. Ég held ég sé rækilega búinn að benda á það, svo að ekki verði um villzt, að sú breyt., sem hér er gerð með hlutfallskosningum í tvímenningskjördæmum, tryggir minni hl. á þessum stöðum sama rétt og meiri hlutanum, og getur orðið til að auka gífurlega á það misrétti, sem nú er.

Það er augljóst, eins og ég hef þegar tekið fram, að ef þeir flokkar, sem hafa flest atkv. á bak við sig í þéttbýlinu, hafa nokkra möguleika til að vinna meiri hl. í tvímenningskjördæmunum, þá jafnar það meira en þessar hlutfallskosningar. Þess vegna er það rétt, eins og hv. þm. S.M. hefur tekið fram, að hér er eingöngu um það að ræða, að þessir flokkar, sem mestu fylgi eiga að fagna í þéttbýlinu, hafa enga möguleika til að vinna meiri hl. í þessum kjördæmum. Og á þessu er stjskrbreyt. byggð. Hún er byggð á því, að það er vitund alþjóðar og fullkomin sannfæring þeirra flokka, sem að þessu samsæri standa, að þeir geti aldrei unnið traust meiri hl. kjósenda í þessum kjördæmum. Ég skora á hv. þm. V.- Ísf. að bera það til baka, ef hann treystir sér til, að ef þessir flokkar, jafnaðar-, sjálfstæðismenn og kommúnistar, geta unnið meiri hl. kjósenda í 2 eða 3 tvímenningskjördæmum, þá jafnar það meira milli flokkanna en þessar hlutfallskosningar, sem nú á að setja í stjskr. Þess vegna er það ósatt, að ,þetta sé spor í þá átt að jafna þann mismun, sem nú er talinn vera milli flokkanna í atkvæðamagni, heldur er þetta einungis byggt á þeirri staðreynd, að þeir treysta sér ekki til að vinna á þann veg, að þeir fái meiri hl. í þessum kjördæmum. Og ég hygg, að það sé alveg einsdæmi í allri veröldinni, að stjskr. sé byggð á því að tryggja einhverjum pólitískum flokkum „jafnan rétt“ með þeirri aðferð, að minni hl., sem þeim fylgir í kjördæmum, sem þeir geta ekki unnið, eigi að verða jafnáhrifamikill meiri hl. Nei, hér er ekki verið að veita minni hl. jafnrétti að tiltölu við kjósendafjölda, heldur langtum rýmri rétt en meiri hl. Þótt aðeins sé 1/4 eða 1/3 kjósenda í þeim minni hl., getur hann fengið tvo þm., annan kosinn hlutfallskosningu, hinn sem uppbótarþingmann. hað dettur engum í hug, að hér sé byggt á nokkru öðru en því, að flokkarnir, sem að frv. standa, álíti sér hagkvæmast að breyta þessu svona í víssu um að geta aldrei unnið sjálfir tvímenningskjördæmin; og þegar hv. þm. N.-Ísf. (ÁÁ) segir, að hann skuli nú samt kalla það réttlætismál, er ég sannfærður um, að hver, sem á hann hlustar, skilur, að það er eins og Jón á Bægisá kvað: „Vakri-Skjóni hann skal heita, honum mun ég nafnið veita, þó að meri það sé brún.“

Hv. þm. (ÁÁ) virtist vera hneykslaður á, að við framsóknarmenn gerðum till. um að fækka uppbótarþingsætum úr 11 í 8. Það er gert til mótvægis, ef fjölga skal um 2 þm. í Rvík og hinn 3. á Siglufirði. Hann getur ekki talið það ósanngjarnt, því að hann fullyrti, að frv. minnkaði mjög þörfina á uppbótarþingmönnum. Eða skyldi leynast með honum grunur um, að svo geti farið, að áhrif stjskrbreyt. yrðu aukin þörf fyrir uppbótarþingsæti? Ef sú yrði reyndin, mundi enn þurfa að breyta, líklegast fjölga, uppbótarþingsætum, og það gæti endurtekizt æ ofan í æ, stöðugt undir yfirskini réttlætisins. Það er auðvitað mál, að óvandur er eftirleikurinn fyrir hvern flokk, sem undir kann að verða í kosningum framvegis, af því að kjósendur vantreysta þeim að gera þá ætið flokkabandalag um að breyta kjördæmaskipun sér til stundarhagnaðar.

Ég öfunda hvorki hv. þm. V.-Ísf. né nokkurn annan af að verja það fyrir þjóðinni, að hér sé aðeins um „réttlætismál“ að ræða, því að í krafti þessa rangnefnda réttlætis hugsa þeir sér að fremja eitthvert hið svívirðilegasta ranglæti, sem nokkurn tíma hefur verið reynt að beita íslenzka kjósendur.