18.05.1942
Neðri deild: 60. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 915 í B-deild Alþingistíðinda. (2448)

38. mál, stjórnarskipunarlög

Eysteinn Jónsson:

Ég hef ekki orðið fyrir vonbrigðum, þótt hv. þm. V.- Ísf. vildi ekki af því láta að kalla þetta réttlætismál. Hann um það. Það er honum svo nauðsynlegt að kalla það þessu nafni til að breiða yfir, að það er hagsmunamál. Hann segir, að þeir í meiri hl. n. vilji, að minni hl. fái einnig að njóta sín, — njóta sín hlutfallslega við atkvæðafjölda. Nei; tilgangurinn er að hindra, að meiri hl. fái notið sín betur en minni hl., eins og honum ber. Það á að gera það þýðingarlaust, hvaða flokkur ávinnur sér það traust að fá meiri hl. í tvímenningskjördæmunum. Þetta er að vega gegn lýðræðinu, en getur aldrei fullkomnað það. Hv. þm. varð raunar að játa það óbeint, sagði, að núv. kjördæmaskipun væri slík, að þar væri ekki úr háum söðli að detta. Er nú þetta eftir af glæsilegum fyrirheitum hans um réttlætisárangur frv., að hann þarf að afsaka ómerkileika þess með því, að þar sé ekki úr háum söðli að detta? Er þá slíkt frv. þess virði á tímum, sem nú eru, að hrinda þjóðinni vegna þess út í tvennar kosningar með öllu, sem þeim fylgir? Og hver er faðir núverandi kjördæmaskipunarlaga nema hv. þm. V.-Ísf.? Annaðhvort er, að þm. hefur tekið miklum breyt. síðan 1933, þegar hann þóttist vera stórhrifinn af þessu afkvæmi sínu, það mundi tryggja „réttlætið“ um langa framtíð, eða hann hefur þá sem nú verið að tefla tafl stundarhagsmuna. Og orð hans þá og nú stangast, eins og hann hljóti í annað hvort skiptið að hafa talað þvert um hug sinn. Ég skal ekki dæma um í hvort skiptið heldur.

Það hefur verið talað af miklum fjálgleik um rétt kjördæmanna. En það, sem liggur bak við fyrirkomulag frv., er einmitt að skapa þeim mönnum, sem vilja afnema gömlu kjördæmin, vígstöðu, sem dugi þeim til að hefja brátt á eftir lokasóknina að rétti kjördæmanna. Það er þetta, sem gægist fram hjá hv. þm. (ÁÁ), þegar hann talar um frv. sem spor „í áttina til réttlætis“ eða tilraun til að koma á „meira jafnrétti milli flokka“. Fulla réttlætið á að koma síðar með stóru kjördæmunum eða því, að allt landið verði eitt kjördæmi. Hann lofaði því, að í framtíðinni skyldi ekki stigið neitt spor aftur á bak, ef þetta frv. næði nú samþykki. Hann á við, að þá yrði fært að taka upp till., sem ekki reyndist annað fært en hætta við 1931 og nú. Minnihlutaþingsætin og uppbótarþingsætin og það, sem stuðningsmenn frv. gætu skrapað saman af þm. hér í Rvík og víðar, á að tryggja það. Minnihlutaþm. úr kjördæmum er sérstaklega ætlað hlutverkið að draga lokur frá hurðum, þegar að lokum skal myrða hin gömlu kjördæmi.

Ég þarf í raun og veru ekki að svara fleir] atriðum í ræðu hv. þm. (ÁÁ) Ég vil aðeins enn einu sinni óska að fá að heyra röksemdirnar fyrir því að taka Akranes og Nes í Norðfirði út úr frv., og hvers vegna ekki er tekin upp sú regla að láta kaupstaðina fá þm. eftir íbúatölu. Því fyllri svör, því skýrar mun koma fram, að hér er ekkert bak við nema pólitískur verzlunarsamningur. Og hvers vegna er ekki hægt að ná samkomulagi um að skipta tvímenningskjördæmum í einmenningskjördæmi eins og viðast eru á landinu?