18.05.1942
Neðri deild: 60. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 917 í B-deild Alþingistíðinda. (2450)

38. mál, stjórnarskipunarlög

*Frsm. minni hl. (Sveinbjörn Högnason):

Hv. þm. V.-Ísf. blöskraði það ekkert, þótt litill minni hl. í kjördæmi fengi tvo þm kjörna, en meiri hl. ekki nema einn. Hann hefur ekki gert sér grein fyrir, hvaða truflanir mundi af slíku leiða í skipulagi kjördæmavalsins, eins og það var hugsað í heild, og að þetta fyrirbyggir a.m.k. ekki, að breyt. gæti orðið til að auka mismun á atkv. að baki þm. frá því, sem er. Afleiðingarnar getur enginn séð fyrirfram að fullu. Hvaða þýðingu hefðu nú kjördæmin, eftir að svona skipulag væri á komið? Sér ekki hver heilvita maður, að þá er búið að snúa við lýðræðisreglunni um meirihlutavaldið í kjördæmi? Hvers virði væru þá kjördæmin orðin?

Hv. þm. V.-Ísf. segir enn fremur, að erfitt é að gera á stjskr. þær breyt., sem tryggðu Framsfl. fleiri þm. Hér er eingöngu verið að hugsa um flokkssjónarmið, en ekkert, hvernig kjósendurnir eru eða þeirra réttur. En þetta er hans hugsun, að hægt sé að byggja réttlæti á aðstöðu flokkanna í þann og þann svipinn og að kjósendur flokkanna, t.d. 1937, séu eilíf eign þeirra: Ég er sannfærður um, að þessi hv. þm. er búinn að afsala sér miklum hluta kjósenda sinna 1937, sem vilja ekki líta við því réttlæti, sem hann þykist vera að berjast fyrir, og þannig mun vera með öll kjördæmi, að þar hafa vitanlega orðið breyt., eins og alltaf verða frá einum kosningum til annarra. Það er eins og að byggja hús á sandi að ætla sér að byggja stjskr. landsins um alla framtíð á úrslitum einna kosninga. Það getur vel farið svo, ef þessi breyt. verður að l., sem ég er sannfærður um, að verður aldrei, — kjósendur landsins munu segja til um það, — en jafnvel þó að hún yrði samþ., þá getur vel farið svo, að aðrir flokkar græði á henni en þeir, sem nú ætla sér að græða á henni. Það hefur aldrei reynzt vel að verzla með rétt fólksins í flokkslegu augnamiðl. Hv. þm. hefur það ekki í vasa sínum, hvernig aðstaða almennings er til flokkaskipunar og landsmála yfirleitt og hvernig hann álítur, að á málunum hafi verið haldið. Þess vegna er ekki hægt að hugsa sér neitt vitlausara en að ætla að byggja stjskr. landsins á flokksfylginu við einhverjar kosningar.

Hv. þm. V.-Ísf. viðurkenndi, að þeir flokkar, sem standa að þessu nýja réttlæti, sem ég hef nú nokkuð lýst, gerðu ráð fyrir að hafa hagsmuni af þessari breyt. Ætli það sé ekki það, sem fyrst og fremst muni vaka fyrir þeim, að þeir ætli sér að fá eitthvað fleiri þingsæti, þó að kjósendurnir treysti þeim ekki? En það gæti farið svo, að kjósendurnir, sem þeir ætla að verzla með, væru komnir eitthvað annað, þegar þeir eiga að verða gjaldmiðill í verzlun þessara þm. Það er ekki víst, að þeir komi til með að hafa mikið verðgildi fyrir þá.

Þá segir hann enn fremur, að við skulum komi með till., sem tryggi jafnréttið betur en þetta frv. Hann veit það vel, að við álitum, að þjóðin hafi annað þarfara að gera nú á þessum tímum en að deila um þessi mál, og að það skipti litlu. hvort kjördæmabreyt. kemst á 2 árum fyrr eða síðar, rað séu allt önnur mál, sem nú ríði mest á. En þar að auki höfum við borið fram brtt., sem tryggja jafnréttið betur, sem sé að skipta tvímenningskjördæmunum, og þykir mér vænt um, að hann hefur gefið yfirlýsingu um, að hann ætli að styðja þá brtt., því að engum blandast hugur um, að hún tryggir betur jafnréttið en ef ákveðinn lítill minni hl. í tvímenningskjördæmunum sé jafnrétthár og stór meiri hl.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum. Því meir sem málið er krufið, því meir sem litið er á hvert atriði þess og því frekar sem hv. frsm. og aðrir stuðningsmenn frv. eru krafðir sagna, því betur er komizt að því, sem er meginuppistaða málsins. Hv. frsm. lýsti yfir því síðast, að þetta væri fyrst og fremst hagsmunamál þeirra flokka, sem eru að reyna að koma því fram, og sé það þess vegna fram borið, en það er ekki víst, að hagsmunir þessara flokka séu það sama og hagsmunir þjóðarinnar, og úr því verður brátt skorið, hvort þjóðin vill sjá sínum málum borgið eða hvort hún vill láta þessa menn vera að verzla með þjóðina á þessum hættulegustu tímum, sem yfir hana hafa komið.