18.05.1942
Neðri deild: 60. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 918 í B-deild Alþingistíðinda. (2451)

38. mál, stjórnarskipunarlög

*Eysteinn Jónsson:

Hv. þm. V.-Ísf. sagði, að það væri ekki sitt að svara því, hvers vegna Akranes og Neskaupstaður ættu ekki að fá sérstaka þm. Hvers er það þá, ef ekki hans? Er ekki búið að semja um það, og er hann ekki búinn að ljá því fylgi sitt að fella þetta niður hér á þingi? Hvers vegna gerði hann ekki tilraun til að skýra, hvaða samræmi er í að fella þetta niður, en láta Seyðisfjörð vera sérstakt kjördæmi? Heldur hann, að menn taki þá röksemd alvarlega, að það sé af því, að þá verði þm: of margir? Ef hann ætlast til, að menn líti svo á, að það sé röksemd Sjálfstfl., þá er hún einkennileg hjá þeim flokki, sem hefur sótt fast að fá uppbótarsætum fjölgað, þó að það kostaði fjölgun þm. Þetta er ekkert nema yfirklór. Nei, við vitum, hvers vegna till. voru teknar til baka. Það var vegna þess, að þær þjónuðu ekki þeim flokkslega tilgangi, sem er á bak við þetta mál, af því að það var líklegt, að Framsfl. fengi þm. í Borgarfjarðarsýslu og báða þm. í Suður-Múlasýslu, ef þetta væri látið ganga fram. Þess vegna var þetta strikað út, en ekki af neinu öðru.

Hv. þm. segir, að þeir vilji ekki skipta tvímenningskjördæmunum, af því að ef það væri gert, þá væri ekki tryggt hlutfallslegt réttlæti. Þetta hlutfallslega réttlæti er sjálfsagt það, að þingmannatala flokka sé í samræmi við kjósendatölu þeirra. En hefur hv. þm. V.-Ísf. gert sé ljóst, hvað hann er að segja, þegar hann er að tala um hlutfallslegt réttlæti? Með því er hann að segja, að hans stefna sé að afnema rétt gömlu kjördæmanna, gera landið að einu kjördæmi, og við vitum, að það er þetta, sem vakir fyrir þeim þm., sem fylgja þessum till., þó að þeir vilji ekki viðurkenna það, en það skýzt upp hjá þeim, þegar þeir eru króaðir inni, þegar þeir verða að svara fyrir það, að nú eigi að taka upp hlutfallskosningu í tvímenningskjördæmum. Það er raunalegt fyrir þá, að þeir skuli verða að viðurkenna þetta, að þeir skuli hafa viljað flytja till. á þingi um stóru kjördæmin frá 1931 eða að gera landið að einu kjördæmi, en ekki þora;5 það af því, hvaða móttökur þeir fengu 1931. Þess vegna á nú að hafa aðra aðferð, fá fyrst inn á þing þessa minnihlutaþm. og síðan með þeirra hjálp samþ. þetta hlutfallslega réttlæti. Þetta er meiningin, þó að hv. þm. hafi ekki ætlað að játa það, en hafi nú samt gert það með því, sem hann hefur nú sagt um þetta mál.

Hvernig er frágangurinn á þessari breyt., sem á að gera á stjskr. landsins? Og hvað munu þeir gera, ef fylgi Framsfl., sem er ekki ólíklegt, verður svo mikið næsta haust, að hann þrátt fyrir þessa breyt. fær báða þm. kjörna í tvímenningskjördæmunum? Þá verður væntanlega að breyta stjskr: á ný tiI að reyna að fleyta sér eitthvað áfram á því. Þetta sýnir, að það, sem hér er verið að fara út i, er óundirbúið óhæfuverk, sem tryggir ekkert réttlæti, heldur á að tryggja það, að lítill minni hl. í tvímenningskjördæmunum geti sent menn inn á Alþ., sem á svo að nota til þess að gera gerbreytingu á kjördæmaskipuninni síðar.

Hv. þm. V.- Ísf. sagði, að sennilega væri það eitthvað á bak við hjá þeim flokkum, sem standa að þessari breyt., að þeir hefðu hagsmuni af „réttlætinu“. Ég veit ekki, hvort þeir hafa hagsmuni af réttlæti, en þeir hafa hagsmuni af því, sem þeir ætla að kom hér fram og kalla réttlæti.