27.04.1942
Efri deild: 41. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 120 í B-deild Alþingistíðinda. (246)

9. mál, eftirlit með ungmennum o.fl.

*Frsm. (Magnús Gíslason):

Mér skildist á hæstv. forsrh., að n. hefði ekki viljað samþ. þær breyt. á sjálfræði, sem farið er fram á í frv., en það er ekki rétt, eins og sjá má af nál. En til þess að breyta ákvæðinu um sjálfræði þarf sérstaka löggjöf, og eins og nú er, þá er sjálfræðið miðað við 16 ára aldur, en eftirlitið nær, eða átti að ná samkv. frv., til 20 ára aldurs. Hæstv. forsrh. sagði, að við í n. vildum hætta að gera ráðstafanir eftir að unglingar eru orðnir 18 ára. Þetta er ef til vill að nokkru leyti rétt, en þó eigi alveg, því að það, sem við viljum, er, að eftirlit eftir 18 ára aldur falli niður, en að þeir, sem brotlegir hafa gerzt við l. fyrir 18 ára aldur, geti náð framlengingu á þeim úrskurði til 20 ára.

Þá sagði hæstv. ráðh., að við álitum lítilla aðgerða þörf, en það er alveg misskilningur, sem stafar líklega af því, að hæstv. forsrh. var ekki í d., þegar ég hélt ræðu mína við 2. umr. málsins, en þá gerði ég fulla grein fyrir okkar breyt. Við leggjum áherzlu á, að það séu börn og vanþroska unglingar, sem þetta eftirlit beinist að, því að ef barnaverndarnefndum er fengið í hendur eftirlit með 20 ára ungmennum, þá yrði starfssvið þeirra of mikið, svo vel gæti farið svo, að úr því yrði kák, auk þess hvað erfitt yrði fyrir hið opinbera að hafa eftirlit með svo þroskuðum ungmennum.

En það verður að hjálpa heimilunum og skólunum að halda í hemilinn á börnum og vanþroska unglingum. Það er hætt við, að þessi brbl. öðlist ekki þann skilning hjá almenningi eins og æskilegt væri, þegar um er að ræða frelsisskerðingu í mörg ár fyrir að vera brotlegur um verknað, sem er talinn vítalaus hjá fullþroska fólki. Tökum t.d. það dæmi, að 13 ára gömul stúlka gerist brotleg við l. Hún er sett á hæli og er þar til 17 ára aldurs. Ef hún hefur ekki batnað við vistina þar, þá má framlengja vistina til 20 ára aldurs. Dugi það ekki, þá þar til stúlkan er orðin 23 ára. Hér er um 9 ára frelsissviptingu að ræða, eða álíka og við stórglæpi. Menn mega vara sig á því, þegar l. eru sett, að þau brjóti ekki í bág við réttarkennd heillar þjóðar.

Það gerir í rauninni lítinn mismun, hvort unglingur er settur á hæli í Árnessýslu eða upp í Borgarfjörð. Í báðum tilfellunum er hann orðinn 2. klassa borgari og gengur með það brennimark það sem eftir er ævinnar.