21.05.1942
Efri deild: 63. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 939 í B-deild Alþingistíðinda. (2472)

38. mál, stjórnarskipunarlög

*Atvmrh. (Magnús Jónsson):

Ég hefði ekki kvatt mér hljóðs nema af því, að hv. frsm. minni hl. beindi til mín þeirri fyrirspurn, hvort ekki væri farið fram á að breyta stjskr. endanlega. Hæstv. forsrh. hefur svarað þessu, en ég hefði haft gaman af að þreyta ræður um það við hv. frsm. Hans tíu ára gamla gremja yfir því, að Ásgeir Ásgeirsson tók við völdum á sínum tíma, er skiljanleg.

Það, sem hv. þm. hafði eftir mér um tvímenningskjördæmin, stendur í ræðu eftir mig, en ekki veit ég, hvort það er vísdómur minn eða þingskrifaranna. En ég vil minna hv. þm. á, að hann skrifaði greinar, sem hann nefndi „Komandi ár“, og fer þar hlýjum orðum um hlutfallskosningar, svo að það hallast ekki á hjá okkur.

Hv. þm. gat þess, að til væri eitthvað frá kommúnistum í þessu máli. Mér er ekki kunnugt um það. Ég hef ekki talað eitt orð við neinn kommúnista um málið, og þeir hafa ekki unnið að því, aðeins lýst yfir fylgi sínu við það. En einu sinni var hv. þm. S.- Þ. kallaður kommúnisti í þessu landi.

Ég vil segja hv. þd., af hverju ég var því meðmæltur, að einmitt þetta atriði um kosningafyrirkomulagið væri tekið út úr og afgreitt fyrst. Það var vegna flokks hv. þm. S.-Þ. Ég er sannfærður um, að Framsfl. mundi aldrei hafa þorað að vera í samvinnu um neina stjskrbreyt., fyrr en búið var að taka þetta atriði út úr.

Annars hefur hæstv. forsrh. bent á, hve miklar veilur voru í öllu tali hv. frsm., þar sem hann gefur í skyn, að við ætlum að bregðast í stjórnarskrármálinu, en segir svo, að ekki sé hægt að gera neitt nema á mörgum árum. Það var einmitt það, sem mig grunaði, að Framsfl. ætlaði að láta málið liggja niðri af hræðslu við aðra hluti í stjskr. Ég er hræddur um, að það verði erfitt að klína því á okkur, að við viljum ekki afgreiða sjálfstæðismálið, eins fljótt og auðið er, og það er vitleysa, að málið sé óundirbúið. Það er vel undirbúið, bæði í meðvitund fólksins og af þm. sjálfum.