21.05.1942
Efri deild: 63. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 940 í B-deild Alþingistíðinda. (2473)

38. mál, stjórnarskipunarlög

*Sigurjón Á. Ólafsson:

Ég tel rétt að segja örfá orð við (þessa umr. fyrir hönd Alþfl. Þetta mál er flutt af alþýðuflokksmönnum. í Nd. Um tilganginn þarf ekki að tala. Það er vitanlegt, að Alþfl. hefur alltaf verið með kjördæmaskipun, sem fæli í sér jafnan rétt allra kjósenda.

Ég ætla ekki að rökræða átökin 1931–1933. Það hefur sumpart verið gert. Það er hins vegar ljóst, að það verður að leita ráða. til að fá jöfnuð í þessu máli. Við síðustu kosningar hafði Alþfl. helmingi fleiri atkv. á bak við hvern þm. en sá, sem hafði fæsta, sem sé Framsfl. Þetta er misrétti milli kjósenda, og allir flokkar nema Framsfl. er ákveðnir í að leiðrétta það. Eins og sakir standa, er ekki hægt að finna aðra heppilegri lausn en þá, sem felst í frv. því, sem er til umr.

Ég skal ekki rökræða allt það, sem fundið er frv. til foráttu, til þess að lengja ekki umr. Þess er þó vert að geta, að Alþfl. hafði á sínum tíma á prjónunum till., sem miðuðu að vísu í nokkuð aðra átt, en aðrir flokkar vildu ekki fallast á. Það var þá hnigið að því ráði að fara þá leið, sem aðrir flokkar gátu orðið sammála um.

Í ræðu hv. þm. S.-Þ. kenndi eins og oftar margra grasa, og í henni komu fram ómakleg ummæli í garð ýmissa manna, sem ekki eiga sæti hér. Ég ætla að leiða hjá mér að hnotabítast við þann hv. þm. Ummæli hans falla um sig sjálf. Eitt ætla ég þó að leiðrétta. Hann vildi draga sínar ályktanir af því, hvernig þessum málum væri fyrir komið í nágrannalöndum okkar, t.d. í Noregi, og tók t.d. Oslo, sem hafði um 300 þús. íbúa, en íbúar Noregs voru þá um 3 millj. Oslo átti 7 þm.

Hér í Rvík býr 1/3 hl. þjóðarinnar, og samt hefur Rvík ekki nema 6 þm., en samkv. frv, á hún að fá 8 þm. En eftir réttum hlutföllum ætti Rvík að hafa 17 þm., ef miðað er við fólksfjölda. — Annað, sem mér þykir rétt að svara af því, sem hv. þm. S.-Þ. sagði, er það, að hann vildi láta skína í það, að Alþfl. væri með óheilindi í sambandi við lausn sjálfstæðismálsins og að það mundi honum að kenna, að ekki væri búið að taka það til meðferðar. Ég get fullvissað hv. þm. um það, að þetta er rangt. Alþfl. hefur, frá því að sjálfstæðismálinu var fyrst hreyft hér á Alþ., alltaf tekið í sama strenginn, sem sé að gera ýtarlegar till. í því máli. Það, að þetta mál er ekki tekið fyrir nú, er ekkert annað en hagkvæmnisástæður, þar sem ekki lá fyrir þessu þingi nauðsynlegur undirbúningur undir framtíðarstjórnskipun landsins. Þessi undirbúningur ætti hins vegar að liggja fyrir næsta þingi, og gengi hann síðan undir dóm kjósenda í haust. Ég hygg, að þetta hafi verið fullkomlega formlegt fyrirkomulag í vinnubrögðum við þetta mál, og held, að þetta þyrfti á engan hátt að valda neinum árekstrum, þó að hv. þm. vilji láta líta svo út. — Ég skal taka undir það með hæstv. atvmrh., og hygg ég það rétt mælt hjá honum, að það hafi verið hagkvæm vinnubrögð að fá þennan þátt tekinn út úr stjskrbreyt., til þess að hægt væri að sameina alla flokka þingsins um þær breyt., sem gera þarf, af því að þær breyt. eru miklu stærri heldur en þær, sem við erum nú að gera og ég vona, að öll þjóðin á sínum tíma geti verið sammála um. Ég vil einnig taka undir það með honum, að ég tel mjög mikinn vafa á því, að það hefði verið hægt að fá Framsfl. til þess að standa óskiptan að breyt. á stjskr., ef það mál hefði verið tekið fyrir um leið og þetta, sem nú er um rætt. Þetta tvennt, held ég, að verði að nægja til þess að svara því, að Alþfl. hafi á nokkurn hátt reynt að beita óhagkvæmum vinnubrögðum í þessum málum. Ég ætla ekki að fara að deila um það, sem hér er mest um deilt. Ég hef alltaf skilið það svo af hálfu þeirra, sem andmælt hafa þessu máli, að það sé í rauninni eitt atriði — og ekki nema eitt atriði — í þessu frv., sem verulega máli skipti, en það eru hlutfallskosningar í tvímenningskjördæmum. Við alþýðuflokksmenn höldum hins vegar fast við það, að hlutfallskosningar í tvímenningskjördæmunum eigi fullkominn rétt á sér, og skal ég ekki rökræða það frekar. Það hefur verið gert. Því hefur hins vegar verið haldið fram, að 1933 hafi einmitt þessi till., um hlutfallskosningar í tvímenningskjördæmum, verið búin að ná allmiklu fylgi innan Framsfl., en svo hafi viljað til, að búið hafi verið að ganga frá þessu máli í stjskrn., þegar þeirri till. átti að skjóta fram. Ég skal ekki ræða þetta frekar við hv. þm. S.-Þ., en ég verð þó að segja það, að mér þykir undarlegt, að h;ann og hans flokksmenn skuli nú fordæma jafnmikið eins og þeir gera þessa till. um hlutfallskosningu í tvímenningskjördæmum landsins, þar sem þeir voru því ekki með öllu mótfallnir 1933: Ég hef ekki nein plögg í höndunum til þess að staðfesta þetta, en eins og hv. þm. veit, vita menn oft, hvað gerist innan þingsins og hvað þar er efst á baugi, þó að það sé ekki opinbert. Ég vænti þess, að þetta máli fari þá leið, sem til er ætlazt, og það er þegar sýnt, að það gengur fram, og vænti þess, að það sé svo sterk lýðræðishugsjón með þjóðinni, að hún veiti þessu máli brautargengi og komi í veg fyrir það, að þeir menn, sem nú andmæla því, fái stöðvunarvald um framgang málsins.