21.05.1942
Efri deild: 63. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 946 í B-deild Alþingistíðinda. (2478)

38. mál, stjórnarskipunarlög

*Hermann Jónasson:

Ég hef þegar látið í ljós skoðun mína á þessu máli á öðrum vettvangi og mun ekki fjölyrða um það að þessu sinni, enda hefur verið lýst yfir því, að þýðingarlaust sé að koma með brtt. við málið. Og eftir slíka yfirlýsingu verður vitanlega að ræða málið á öðrum vettvangi.

Bæði ég og hæstv. fyrrv. viðskmrh. tókum fram í útvarpsumræðum í vetur, að við vildum láta kosningar fara fram, en svo kom þessi breyt., sem menn vilja nú gera á stjórnskipuninni, og þá horfir málið öðruvísi við. Og ég vil í stuttu máli gera grein fyrir hvers vegna. Í fyrsta lagi álít ég tímana þannig nú, að það sé alveg óverjandi að afgreiða skyndibreytingar á stjskr. og óverjandi að innleiða nú deilur um kjördæmaskipunina. Á þessum tímum eiga flokkarnir að leggja deilumálin á hilluna og vinna saman að velferðamálum þjóðiarinnar. Fjöldi deilumála hefur verið lagður til hliðar undanfarin ár, og flokkarnir hafa haft samvinnu um mörg mál, enda þótt þeir væru ósamþykkir stefnum í ýmsum grundvallaratriðum, bæði í atvinnurekstri, fjármálum og verzlun. Við framsóknarmenn hefðum aldrei þolað þetta, ef við hefðum ekki skilið nauðsynina fyrir samstarfi, og töldum þess vegna heppilegra að leggja deilumálin á hilluna. Eitt af þessum deilumálum var kjördæmamálið, og var því sjálfsagt að bíða með það. Það leynir sér ekki, að mikil nýsköpun er í aðsigi í stjórnarskipun landanna, og það fer ekki hjá því, að þetta lýðræði, sem ríkir hér á hv. Alþ., er lýðræði, sem við allir óskum eftir að berjast fyrir og viðhalda. En þó verður að breyta stórkostlega til, og við vitum, að inn í stjórnskipun okkar verður að koma mikil nýskipun. Við vitum um og sjáum úti í heimi stórfelldar breyt. í atvinnulífi þjóðanna, sem einnig hljóta að berast hingað. Og meðan við sjáum þetta vera að koma á sviðum atvinnulífs og stjórnskipunar, þá vildi ég taka þátt í að halda fleytunni á floti og sigla henni fram úr sjóunum inn í komandi tíma. Þá hefði verið hægt að taka þetta og önnur deilumál fyrir, er við sjáum betur fram úr en nú er hægt. Ég álit því illa farið, að þeirri starfsreglu stjórnarflokkanna sé vikið til hliðar að leggja öll viðkvæm deilumál á hilluna, meðan þessir tímar eru. Deilumálin eru tekin of snemma til meðferðar. Ég hef ekki dregið dul á þá skoðun mína. Hér er vakin deila um viðkvæmt mál, er brýtur allar starfsreglur stjórnarinnar frá 1939, og er því illa og hörmulega farið, Að vísu hlýtur að verða samstarf í einum málaflokki eftir sem áður, en það er um utanríkismálin, en það verður þó svo bezt, að utanrmn. fylgist með málunum, áður en þau eru afgreidd. Það er því verr farið um þetta, að ég er viss um, enda þótt ég sé ekki spámaður, að allir sjá innan skamms og nú þegar, að þessi stjórnskipun er ekki til frambúðar. Við framsóknarmenn vitum vel, að miklar breyt. þarf hér að gera, og við erum fúsastir til að endurskoða þetta mál, er tími er til kominn. En við vitum einnig, að gallarnir aukast við þessa breyt., er hér á að gera.

Ég bendi á það, að Framsfl. og Sjálfstfl. hafa mikinn meiri hl. og geta ráðið málum, og ekki eru miklar líkur til þess, að sá meiri hl. væri mikið við kosningar. Það hefði verið hægt að viðhalda starfsreglum stjórnarinnar, ef þessir flokkar hefðu unnið saman. Eða hví tóku flokkarnir ekki upp samvinnu um þetta mál? Þeir flokkar, er standa að breyt., játa þó annað veifið, að nauðsyn málsins sé ekki svo mjög brýn. Er þá ekki tilgangur þessara flokka sá, að skapa sér enn þá sterkari meirihlutavald en meirihlutavald Framsfl. og Sjálfstfl., sem var þó ótvírætt? Ég sé ekki annað en að þessir ólíku flokkar ætli sér að vinna saman næsta kjörtímabil, þótt meiri hl. þeirra sé nú veikur og verði það, því að ekki þyrftu kosningar að fara fram, til þess að hægt væri fyrir Sjálfstfl. að halda meirihlutavaldinu með Framsfl. Nei, þótt hér þyrfti breyt. við, voru þær ekki aðkallandi, og málið er fram borið, að ég segi ekki í áróðursskyni, fyrir þá flokka, er að því standa.

Eins og stendur, ægir hér öllu saman, einmenningskjördæmum, tvímenningskjördæmum, hlutfallskosningum og meirihlutakerfi. Og haldið þið svo, að þetta sé framtíðin? Ég sagði áðan, að Framsóknar- og Sjálfstfl. hefðu sterkan meiri hl., og þetta mál hefði því getað beðið dálítið lengur. Og menn skulu athuga það, að þessar tvöföldu kosningar eru raunverulega aðeins fyrir eitt aðalþing. Við megum eiga von á, ef eitthvað verður farið að rofa til 1944, þá kollvörpum við allri þessari stjórnskipun. Ég sé því ekkert í þessum vinnubrögðum nema óvitahátt í íslenzkum stjórnmálum, og ég er sannfærður um, ef þessi stjórnskipun spyrst út meðal þjóða og það með, að fyrir hana hafi öllu verið stefnt í ófrið og óefni heima fyrir, þá muni hún þykja hið mesta viðundur.

Það er augljóst mál, að úr þeim hrærigraut, sem hér er í þessum efnum, verður aldrei annað en vitleysa. Það er hægt að hafa hlutfallskosningar og það er hægt að hafa meirihlutakerfi. En það er ekki hægt að hafa hvort tveggja og hræra því saman. Sannast að segja er þessi breyt. miðuð og sniðin við fylgi flokkanna, eins og það er núna. Segjum nú, að Framsfl. ynni við hlutfallskosningar í tvímenningskjördæmunum. Þá gæti það ekki gengið, og hlutfallskosningarnar yrðu afnumdar samstundis. Kerfið, ef kerfi skyldi kalla, er tóm vitleysa frá upphafi til enda. Og framgangur þessa máls hér er af slysni. Það var borið fram, án þess að búizt væri við, að það tengi fram. Hér er sannast að segja, árið 1942, verið að gera svo einkennilega hluti við stjskr. Íslands, að lengi mun í minnum verða haft. Og svo mikið er víst, að þeir, sem standa nú að þessu máli, munu margir hverjir innan skamms tíma óska þess, að þeir hefðu aldrei verið með við að afgreiða það.

Ég sé svo ekki ástæðu til að ræða þetta mál nánar á þessum vettvangi, enda þótt ég vildi það gjarnan, nema sérstakt tilefni gefist. Og mér hefur skilizt, að þýðingarlaust sé að flytja við það brtt. Ég lít því svo á, að hér séu að gerast sömu hlutirnir og hafa gerzt á þingum annarra þjóða, að þér sé ekki um endurbót að ræða, heldur verði hér afgreitt mál, sem um efni og undirbúning markar vonandi lægsta hnignunarstigið, sem þetta þing lifir.