21.05.1942
Efri deild: 63. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 948 í B-deild Alþingistíðinda. (2482)

38. mál, stjórnarskipunarlög

*Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti ! Ég ætla mér ekki að fara að svara ræðu hv. fyrrv. forsrh., en vísa til ræðu minnar í útvarpinu í fyrrakvöld. Vildi ég, að menn leituðu þar svara. En ég vil, að það komi fram, og ég tek það fram, að ég hef ekki gert honum nein verzlunartilboð um frestun kosninga. Ég hef alltaf sagt eftir kosningafrestunina í fyrra, að ekki bæri að kjósa í vor, og ég man ekki, að ég segði annað í útvarpsræðu minni. Hins vegar hef ég því af eðlilegum ástæðum einnig gert ráð fyrir því, að slíkt mál sem þetta mundi ekki ná fram að ganga, af því að það beinlínis leiðir af sér þær kosningar, er ég ekki vildi.

Hv. þm. Str. harmaði mjög brot það á starfsreglum stjórnarinnar, er hann kallaði. En það var hv. þm. sjálfur, er átti sök á, að svo hefur farið sem hann harmar. Hann kannast við, að Alþfl. bar okkur friðslit á brýn, er við settum gerðardómsl., en við skeyttum því litlu, þar eð við álitum þjóðarnauðsyn að. Það er því ekki sæmandi fyrir Framsfl. né frambærilegt að slíta þegar allri samvinnu, þótt okkar á milli hafi nú risið ágreiningsmál, er við sjálfstæðismenn álitum þjóðarnauðsyn að fái framgang, og leika þannig sama leikinn og Alþfl. í vetur, er hann dæmdi sem harðast. Ég læt þetta svo nægja. En mér er óskiljanlegt, að við verðum að viðundri meðal framandi þjóða, þótt við breytum þeirri stjórnskipun hjá okkur, er gefur 12 þúsund kjósendum rétt á 19 fulltrúum á þing, en aftur 24 þús. kjósendum aðeins 17 fulltrúum. Með slíkri kjördæmaskipun er verið að varna því, að þingið sé sem réttastur spegill þjóðarviljans. Og um það, að stjórnskipun okkar sé flókin og ruglingsleg, er ég ekki sammála. Tökum t.d. Dani til samanburðar. Þar gilda stjórnskipunarlög svo flókin, að sagt er, að aðeins einn þingmaður skilji þau til fulls, nefnilega Kragh í Fólksþinginu. En við kunnum full skil á okkar stjórnskipunarl., þótt á þeim megi finna galla.