19.03.1942
Neðri deild: 22. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 959 í B-deild Alþingistíðinda. (2500)

Fyrirspurnir um stjórnarráðst. o. fl.

*Garðar Þorsteinsson:

Mig langar til, út af því, sem hefur komið hér fram, að spyrjast fyrir hjá ríkisstj. um það, hvort l. um tryggingar á eignum gagnvart skemmdum af hernaðarvöldum hafi komið til framkvæmda. Ég hef ekki lögin við höndina, en hygg, að þau eigi að koma til framkvæmda, þegar skemmdir hafa orðið á húsum manna eða öðrum eignum af völdum hernaðar. Nú er vitað, að hús á Austurlandi og Norðausturlandi hafa skekkzt á grunninum, þegar tundurdufl hafa sprungið, og fólk hefur orðið að flytja, úr bæjum vegna skemmda af sömu ástæðum, að tundurdufl hafa sprungið í fjörum.

Vildi ég spyrjast fyrir um það, hvort ríkisstj. áliti ekki, að rétt væri að innheimta eitthvað af fasteignum í landinu til þess að bæta upp slíkt tjón sem þetta, og hvort það muni ekki rétt skilið, að l. eigi við að bæta slíkt tjón sem þetta.