21.04.1942
Neðri deild: 39. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 966 í B-deild Alþingistíðinda. (2526)

Afgreiðsla mála úr nefndum

*Sveinbjörn Högnason:

Mér dettur ekki í hug að liggja undir brigzlum frá hv. þm. Seyðf. Er hann heldur, að hann sé einhver heilög persóna, sem ekkert megi deila á, þá er það misskilningur. Hann veit það fyrir samvizku sinni, hvað hann er að fara og hvernig hann hefur mætt á fundum.

Hann segir, að ég sé í burtu um flestar helgar. Ég hef beðið hann að koma á fund á laugardegi og sunnudegi, en hann hefur ekki getað það. Ég hef ekki verið í burtu nema annan hvern eða þriðja hvern sunnudag. Að heyra þennan hv. þm. vera að ráðast á aðra með persónulegar svívirðingar fyrir að mæta ekki á fundum, þegar hann sjálfur mætir þar ekki betur en hann hefur gert, eins og ég veit, að hverjum einasta nm. er kunnugt, að hann komist þar á ofan upp með að vera með persónulegan skæting, það skal hann ekki láta sér detta í hug. Ég hef ekki orðið var við verulegan áhuga hjá honum fyrir öðrum málum en þessu eina, en eins og allir vita, hafa mörg önnur mál legið fyrir n., og ég vil segja honum þá, að ef á að afgr. þar mál, þá verður að koma á fundi og vinna að þeim, en hann skal ekki láta sér til hugar koma, að hann komist hér upp með merkilegheit og svívirðingar og sé svo með digurbarkalæti, að hann sé einhver heilög persóna, sem ekki megi setja neitt út á.