21.04.1942
Neðri deild: 39. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 966 í B-deild Alþingistíðinda. (2528)

Afgreiðsla mála úr nefndum

*Haraldur Guðmundsson:

Ég vil beina því til hæstv. forseta, hvort hann telji viðeigandi, að form. n. beini að meðnm. sínum ákúrum og skammaryrðum. Ég vil því mælast til þess, að þeim ámælum, sem hæstv. forseti beinir að mér, beini hann heldur til sessunautar síns, hv. 1. þm. Rang. Ég á því ekki að venjast, að form. n. beri á mig sakir í d. fyrir vinnubrögð í n., og mér dettur ekki í hug að taka því með þögn og þolinmæði, að svo sé gert, allra sízt þegar form. sjálfur er ekki nýtari til starfa en sá, sem hér um ræðir. Ég vil aðeins endurtaka það að mér dettur ekki í hug að sitja undir slíkum ásökunum frá honum.