04.05.1942
Sameinað þing: 11. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 967 í B-deild Alþingistíðinda. (2534)

Minning Thorvalds Staunings

forseti (GSv):

Háttv. alþingismenn! Ég tel mér skylt að tilkynna Alþingi Íslendinga, að fregn hefur borizt hingað um, að Thorvald Stauning, forsætisráðherra Dana, hafi andazt í gærmorgun. Hér er hvorki staður né stund til þess að rekja æviferil þessa alkunna og merka stjórnarforseta þess lands, sem fram að þessu hefur verið sambandsland vort, en segja má óhikað, að hann hafi verið meðal hinna mikilhæfustu stjórnmálamanna síðari tíma, eigi aðeins á Norðurlöndum, heldur þótt víðar væri leitað.

Eins og kunnugt er, var Thorvald Stauning af eðlilegum ástæðum mjög svo riðinn við mál lands vors á ýmsan veg í allri stjórnartíð sinni, og ljúka allir, sem til þekktu, upp einum munni um það, þótt skoðanir yrðu stundum skiptar, að hann hafi borið einlægt vinarþel í brjósti til Íslands og Íslendinga og á margvíslegan hátt leitazt við að verða oss að liði, enda mun það verða lengi í minnum geymt meðal þeirra, er hlutu að eiga við hann skipti.

Um leið og ég vil í nafni Alþingis þakka þetta, vil ég votta landi og þjóð í Danmörku fyllsta samúð vil fráfall þessa stjórnarhöfðingja og biðja háttv. alþingismenn að heiðra minningu hans með því að rísa úr sætum.