08.05.1942
Sameinað þing: 13. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 305 í D-deild Alþingistíðinda. (2563)

97. mál, bókasafn menntaskólans í Reykjavík

*Flm. (Jóhann G. Möller):

Það mál, sem þessi þáltill. fjallar um, er í sjálfu sér ekki veigamikið, en þó þess eðlis, að ekki er úr vegi að grennslast eftir, hvort þingið vill ekki leggja þar orð í belg:

Ég get verið stuttorður um þetta efni. Hv. þm. er sennilega kunnugt um þetta mál, en ég skal þó rifja upp stuttlega þær ástæður, sem hafa orðið þess valdandi, að ég hef flutt þessa till.

Þetta safn, sem er hið svo nefnda bókasafn Menntaskólans í Reykjavík, var upphaflega nefnt Bókasafn Reykjavíkurskólans. Þegar ég kynntist þessu safni, eftir að ég fór úr skólanum 1928, var það 1940, er piltur einn fékk aðgang að þessu safni, til þess að vita, hvort hann fyndi þar ekki fræðirit, sem gætu orðið honum til hjálpar við þær fræðiiðkanir, sem hann stundaði, og þá rann mér til rifja að sjá ástand þessa safns. Þá talaði ég um það við hann, hvort hann mundi fá leyfi rektors til að bæta úr ástandi þessa safns, sem hann var fús til að gera, og talaði svo við hann og hæstv. kennslumrh., en allt kom fyrir ekki. Þetta var þó ekki af því, að safnið væri ekki í því ástandi, að úr þyrfti að bæta. Það má fyllilega segja, að þarna voru dýr verk, sem höfðu verið í þessu safni um langt skeið, lítilsvirt á hinn fyrirlitlegasta hátt, mygluð og étin sundur vegna raka og vanhirðu um langt skeið. Út í þessa lýsingu . þarf ég ekki langt að fara, hv. þm. er það kunnugt af blaðaskrifum ómótmæltum, sem hafa átt sér stað fyrir nokkru. Í þessu safni eru margar bækur, sem gera þetta safn í heild sennilega eina klassíska bókasafnið á Íslandi. Þetta stafar af eðlilegum orsökum, því að þarna voru relaorar á 19. öld, sem voru yfirleitt mjög þekktir fræðimenn og klassikerar. Þeir höfðu nokkra umgerð um það, hvaða bækur völdust í safnið, og völdu nokkuð eftir sínum ábugamálum. Einnig bárust safninu bækur frá erlendum háskólum, og ber þar einkum að nefna hina vönduðu bókagjöf frá Oxford á þúsundáraafmælinu 18'14. Þarna er meginið af safni Bjarna Thorarensens amtmanns, nokkuð af grískri klassík frá Grími Thomsen með dedicatio hans áritaðri, mikill hluti af bókum meistara Hálfdánar Einarssonar á Hólum og annað þaðan. Enn mætti nefna 150 bd. af franskri klassík, sem gefin munu hafa verið safninu af einhverri franskri stofnun, en hafa ekki verið skrásett. Þar er stórmerk útgáfa hinna fornu kirkjufeðra á frummálinu, en slíkar útgáfur eru nú að verða fágætar. Bækur eru þar, sem rektorarnir Bjarni Jónsson, Jón Þorkelsson og Björn M. Ólsen hafa ýmist átt eða valið handa safninu. Þessi upptalning er að engu leyti tæmandi, en gefur hugmynd um, hvílíkir fjársjóðir þarna eru varðveittir, og hver vansi það er fyrir ríkið; ef ekki er tryggt, að þeir séu sæmilega geymdir, og vart hæfir annað en þeir séu gerðir aðgengilegir þeim, sem áhuga kunna að hafa fyrir þeim.

Mér er ekki fyllilega kunnugt, hvað því veldur, að safnið er í þeirri niðurníðslu, sem það er í. Ég geri ráð fyrir, að þar komi til alveg sérstakar ástæður, en ekki vanmat þeirra, sem hlut eiga að máli, á gildi bókanna í safninu fyrir okkur Íslendinga, menntagildi og minjagildi. En þar sem svo virðist, að safninu sé ekki enn sýnd sú rækt, sem sómir, krefst ástandið aðgerða þeirra, sem till. fer fram á. Vera má, að það hafi valdið nokkru, að ekki hafi þótt fært að leggja til safnsins neitt af því fé, sem til skólans hefur gengið. Það ætti þá að vera kærkomið þeim, sem hlut eiga að máli, að Alþingi legði fé til þess sérstaklega og léti umbætur fara fram. Till. gerir ráð fyrir ,að safnið verði skrásett, en skrá hefur ekki verið haldin lengi um það, sem því berst af bókum. Það er nokkuð á huldu, hvaða bækur þar eru nú, þótt gamlar skrár muni vera til. Það kann að vera erfiðleikum bundið að búa svo um á þeim stað, sem safnið er, að það verði opið til notkunar. Nú hefur háskólaráð skrifað kennslumálaráðherra bréf og boðið, að háskólasafnið tæki við bókunum til varðveizlu, annað hvort fyrir fullt og allt eða um skeið. Þetta er tillaga, sem mér virðist þurfa að athuga. Hún ber einnig vott um, að fræðimönnum í háskólaráði þyki eitthvað benda til, að skjótra og gagngerðra úrræða sé þörf með safnið og það muni ekki hafa fengið þá aðhlynning, sem unnt mundi að veita á háskólasafninu, — þess vegna verði nú þegar að bjarga bókunum fá frekari skemmdum.

Ég vildi vænta þess, að Alþingi tæki vel undir till. og hún yrði síðan þeim til styrktar, sem vilja gera safnið vel úr garði, svo að það geti orðið skólanum og landinu til gagns og sóma, og á þann hátt, að minjagildi þess yrði ekki vanrækt.