05.05.1942
Sameinað þing: 12. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 315 í D-deild Alþingistíðinda. (2587)

103. mál, fjölgun hæstaréttardómara

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Um mál eins og þetta má ræða lengi án þess að efnið sé tæmt. Ég ætla ekki í sambandi við það að hefja miklar umr:, enda hefur hv. frsm. ekki heldur gert það. En rökin, sem ég færði fram, eru þessi: Það er nokkuð almenn ánægja með dómstólinn eins og hann er, enda er ekki vafi á því, að hann er svo skipaður, að hver mannanna fyrir sig hefur mikinn vilja og mikla hæfileika til að gera rétt. Ég vil því ekki vegna aðkallandi útgjalda á mörgum sviðum auka útgjöld ríkisins í þessu sambandi. En ef við eftir stríðið skyldum hafa góðan fjárhag og geta auk þess að halda uppi utanríkisþjónustunni, bætt aðstöðu okkar á aðra vegu, þá má tala um þessi mál. Þá verður e.t.v. mögulegt að byggja yfir hæstarétt og hafa dómarana 5. En ég er búinn að sjá svo mikið af því, að hitt og þetta hefur verið samþ., en síðan frestað með brbl., af því að fjárhagurinn hefur ekki verið þannig, að hægt væri að framkvæma það, að ég er orðinn hvekktur á því. Þess vegna eru öll þessi frestunarl., af því að við teljum okkur alla vegi færa. Dómararnir voru fyrst 5, en svo kom fjárhagurinn og tók í taumana. Þess vegna viðurkenni ég, að rök hv. flm. eru allrar virðingar verð, og ég veit, að honum gengur hið bezta til, en ég vil hafa meiri varfærni í hlutunum, af því að reynslan hefur sýnt okkur, að það er það skynsamlegasta.

Ég vil líka segja það, að nú er dómskipun okkar öll með allt öðrum hætti en annars staðar í veröldinni, og það er ekki hægt að segja, nema hún verði breytingum undirorpin í náinni framtíð. Viða hefur meðdómendakerfið verið tekið upp, og hefur það reynzt vel. Hver veit, nema það ryðji sér frekar til rúms.

Ég fullvissa hv. flm. um, að áhugi minn fyrir sem öruggustu dómsvaldi er óbreyttur. Ég er bara nokkrum gráðum íhaldssamari en hv. flm., ekki sízt með tilliti til hinna órólegu tíma, sem við lífum á.