11.03.1942
Neðri deild: 17. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 132 í B-deild Alþingistíðinda. (264)

2. mál, dómnefnd í kaupgjalds- og verðlagsmálum

Haraldur Guðmundsson:

Ef hægt væri að stöðva dýrtíðina með stóryrðum og skömmum um alþýðuflokkinn, þá væri áreiðanlega engin dýrtíð í landinu. Ég skal ekki víkja nema fáeinum orðum að þeim rakaleysum, sem hæstv. atvmrh. flutti hér áðan, en verð að drepa nokkuð á það, sem hann sagði um árið 1939 og það, sem þá var gert. Hann orðaði það svo, að lög Alþfl. um að hækka vöruverðið hefðu verið bein árá, gegn launastéttunum í landinu. Ég er nú vanur við sitt af hverju í stjórnmálunum, en meiri óheiðarleik hef ég aldrei á minni ævi upplifað. Ég man ekki betur en að þessi hæstv. ráðh. hafi verið einn aðalhvatamaður þess, að gengisl. voru sett, af því að stéttarbræður hans voru komnir í fjárþröng. Alþfl. bar þá fram allt aðrar till. í þessu máli heldur en gengislækkun, en till. hins voru felldar, svo að það eina, sem Alþfl. gat gert, var að koma fram svo miklum uppbótum, sem mögulegt var, til þess að mæta dýrtíðinni. En þessi hæstv. ráðh. stóð þá fremstur í flokki til að hindra, að allar slíkar till. Alþfl. næðu samþ.

Ég mun ekki að sinni svara þessum hæstv. ráðh. frekar.

Nú eru nærfellt 3 ár síðan samsteypustjórnin var mynduð. Höfuðverkefni hennar var að skapa einingu innan stjórnmálaflokkanna til þess að mæta yfirvofandi stríðshættu. Nú er þessi eining rofin, vegna blygðunarlausrar árásar á launastéttir landsins af þeim flokkum, sem hafa sérstaklega beitt sér fyrir því, að ríkisstjórnin verndaði þær fyrir áróðri frá hinum flokkunum. Annað höfuðverkefni þjóðstjórnarinnar var að afstýra dýrtíðinni í landinu. En hvað hefur verið gert til þess að stöðva dýrtíðina? Þessi 3ja ára barátta hefur ekki borið mikinn árangur. Vísitalan hefur hækkað upp í 183 stig, þrátt fyrir stór orð hæstv. atvmrh. um, að ráðh. væru alltaf að berjast gegn dýrtíðinni, og engin grunnkaupshækkun til að mæta aukinni dýrtíð. Ráðherrarnir hafa vissulega rætt mikið og ritað um dýrtíðina og bölvun hennar. En þeir hafa ekkert gert til að stöðva hana. Eini ráðherrann í samsteypustjórninni, sem nokkuð hefur gert til að stöðva dýrtíðina, er Stefán Jóhann Stefánsson, ráðh. Alþfl. Undir hann heyrðu húsaleigulögin, og eins og kunnugt er, hélzt húsaleigan óbreytt til 1. okt. síðastl. Síðan hefur hún hækkað aðeins um 11% þrátt fyrir kröfu sjálfstæðismanna um að gefa hana frjálsa, og má fullyrða, að þá mundi hún hafa hækkað vísitöluna um 20–40 stig. Einu raunhæfu till. til dýrtíðarráðstafana eru till. Alþfl. 1940. Hann lagði til, að lagt yrði útflutningsgjald á ísfiskinn, sem yrði notað til þess að halda niðri verðlagi nauðsynja og flutningsgjalda og verðbæta innlendar afurðir. Auk þess vildi Alþfl. láta skattleggja stríðsgróðann. En hinir fjórir ráðh. í ríkisstjórninni hafa bókstaflega ekkert gert til þess að hamla gegn dýrtíðinni. Þeir hafa þvert á móti beinlínis aukið hana. Ástæðan er sú, að þeir hafa séð sér leik á borði að nota ávöxt dýrtíðarinnar — verðlagshækkunim — til að skara eld að köku þeirra manna og stétta, sem þeir bera sérstaklega fyrir brjósti, en það eru verzlunarstéttin og atvinnurekendur, hinir hærri. Enda hefur stríðsgróðinn allan þennan tíma runnið þangað í stríðum straumum, og verðlagið fór hækkandi með hverjum mánuði, meðan þeir yfirfylltu blöðin og eyru Íslendinga með orðum um böl dýrtíðarinnar. En jafnvel þessi gróði getur orðið skammgóður stundarhagur, áreiðanlega keyptur á kostnað heilbrigðs atvinnulífs í landinu í framtíðinni. Allir eru sammála um, að frumorsök dýrtíðarinnar sé hækkun erlendra vara og farmgjalda (sbr. álit hagfræðinganefndar.) Hæstv. atvmrh., Ólafur Thors, sem er ráðherra siglingamála, bar skylda til að hindra, að farmgjöld hækkuðu umfram þörf. En ráðh. gerir það ekki. Hann hindrar það, að sett séu brbl. um takmörkun flutningsgjalda, og eftir að Alþ. vorið 1941 hefur sett l. um þetta efni, neitar hann að framkvæma þau, en skrifar í blöðin að farmgjaldahækkunin muni aðeins valda hækkun á vísitölunni, sem nemur broti úr stigi.

Ársreikningur Eimskips græðir 5 millj. kr. árið 1940. Um gróða annarra íslenzkra flutningaskipa gefur sala Ísafoldar á Eddu, Fjallfoss, nokkra hugmynd. Hlutafé þessa félags var rúmar 80 þús. kr. og bréfin voru innleyst með 30-földu verði. Skipaeigendur græddu, þökk sé hæstv. ráðherranum. En hverjir borga gróðann? Ofan á síaukin farmgjöld og þennan taumlausa gróða, leggjast svo verðtollar og álagningar verzlana, sem eru frá 40% upp í 100% á skömmtunarvörur. Fyrir þessa menn hefur hér verið sannkallað Gósenland stríðsgróðans, undir verndarvæng hæstv. ráðh., sem nú telur þjóðarvoða, ef grunnkaup verkamanns hækkar um nokkrar krónur. Nú virðist hæstv. ráðh. telja það þjóðarvoða, ef kaup prentara og járnsmiða, hinna láglaunuðu iðnstétta, hækkar úr 8000 kr. í 13000 kr. á ári, en 8000 kr. í fyrra svara til 5O00 kr. fyrir stríð. Önnur meginástæða dýrtíðarinnar er stríðsgróðinn, sem flæddi yfir landið frá því á miðju ári 1940, vegna hinnar gífurlega háu og síhækkandi ísfisksölu í Englandi. En hæstv. ráðh. sér engan voða af þessum stórfellda milljónagróða, sem er aukinn og margfaldaður með tollum og álögum. Alþfl. vildi í fyrsta lagi binda gróðann í nýbyggingum, í öðru lagi leggja á útflutningsgjöld og í þriðja lagi leggja á stríðsgróðaskatt. Hann hélt fast í skattfrelsið og hindraði útgáfu brbl. um afnám þess. Hann hafði góð orð um að aura í sjómannaskóla, ef skattfrelsið fengi að haldast. Og þegar loks skattfrelsið fékkst afnumið á Alþ. 1941, tókst ekki að fá Framsóknarfl. til þess að samþ. tapsfrádráttinn frá 1931 og draga þannig undan skatti margar millj. kr., sem juku „spekulationina“, verðbólguna og dýrtíðina í landinu.

Þá kem ég að hæstv. forsrh., Hermanni Jónassyni.

Sumir undrast aðgerðaleysi forsrh. í dýrtíðarmálunum, þegar þeir bera það saman við öll skrif hans í „Tímann“. Skýringin er þessi: Aðaláhugamál þeirra er með öllu ósamrýmanlegt því að halda dýrtíðinni í skefjum, en það er að koma afurðum bænda í sem allra hæst verð, til þess að tryggja flokknum vissara kjörfylgi þeirra. Hækkun landbúnaðarafurða er þriðja meginorsök dýrtíðarinnar, enda hefur hún orðið þrefalt meiri en verðlagsuppbót verkamanna og langtum meiri en hækkun erlendra vara, þrátt fyrir gífurleg flutningsgjöld, tolla og álagningar. En að vonum hefur þetta orðið til þess að auka dýrtíðina stórkostlega. Meira en helmingur vísitöluhækkunar stafar af hækkun á íslenzkum afurðum. Allan þennan tíma hefur verðlagið verið ákveðið af opinberum nefndum undir yfirstjórn Hermanns Jónassonar landbrh. Þannig hefur hann barizt gegn dýrtíðinni, þegar hann hefur ekki verið að skrifa í Tímann. Þetta eru hinar raunverulegu dýrtíðarráðstafanir hæstv. forsrh., þ.e. til að auka dýrtíðina. Öllum till. Alþfl. um að halda niðri verðlagi landbúnaðarafurða með verðuppbótum, sem teknar væru af stríðsgróða og útflutningsgjaldi af ísfiski, hafnaði þessi hæstv. ráðh.

Þegar Hermann Jónasson er búinn að hækka verð á landbúnaðarafurðum svo, að Dagsbrúnarverkamaður þarf að vinna 2 stundir fyrir 1 kg af kjöti, í stað einnar stundar fyrir stríð, og þar með hækkað grunnkaup bænda, berst hann fyrir því, að kaupgjaldið sé bundið með lögum og verðlagsuppbótin einnig, þótt dýrtíðin aukist. Þá sér hann, hvers virði grunnkaupshækkunin er. Það skal játað, að ýmislegt mælir með því, að grunnkaup bænda hækki vegna aukins framleiðslukostnaðar. En allar sömu ástæður mæla með tilsvarandi grunnkaupshækkun til verkamanna og launastétta, því að hagsmunir þessara stétta beggja fara saman og eru andstæðir hagsmunum atvinnurekenda og stríðsgróðamanna.

Hæstv. fjmrh., Jakob Möller, hefur verið veitt geysilega víðtækt vald til þess að gera ráðstafanir til að stöðva dýrtíðina. Reglulegt Alþ. 1941 samþ. l. um ráðstafanir gegn dýrtíðinni. Þar voru ríkisstjórninni gefnar svo víðtækar heimildir, að þess eru fá eða engin dæmi í íslenzkri löggjöf, í því skyni, að stjórnin stöðvaði dýrtíðina, sem þá var komin í 155 stig. Jakob Möller var þar gefin heimild til í þessu skyni:

a) að leggja fram 5 millj. kr. úr ríkissjóði, en þær eru nú ónotaðar,

b) að innheimta 10% álag á tekjuskatt. Það var gert, og nam það fé 900 þús. kr., en enginn eyrir af því var notaður gegn dýrtíðinni,

c) að leggja útflutningsgjald á ísfisksölu. Þar hefur ekkert verið gert, þó að meðalsala togara hafi verið 260–270 þús. kr.,

d) að afnema eða lækka tolla á nauðsynjavörum, svo sem kaffi og sykri. Það var ekki gert,

e) að afnema verðtolla af flutningsgjöldum. sem hafa margfaldazt, allt að tífaldazt. Það var ekki gert,

f) að verja fé til lækkunar erlendra og innlendra nauðsynjavara og flutningsgjalda. Það var ekki gert.

Ekkert, bókstaflega ekkert, af þessum heimildum hefur verið notað til dýrtíðarráðstafana. Allir vita þó, að tollarnir hafa hækkað og gert sitt til að auka dýrtíðina. Álagningu verðlagsnefndar hefur verið svo óviðunanlega hagað, að ákveðin er viss %-álagning á verð vörunnar. þegar hún er komin til kaupmanna. hví dýrari sem varan er, því hærri, sem tollarnir og flutningsgjöldin eru, því meira fær kaupmaðurinn að leggja á hana. Ef verðtollur á flutningsgjöld og tollarnir hefðu verið afnumdir, hefði verðið lækkað og gróði verzlananna að vísu, og hefði þá dýrtíðin minnkað, en hitt virðist þessum hæstv. ráðh. hafa verið ríkara í huga.

Ég kem þá að sjálfum ráðherra dýrtíðarinnar, hæstv. viðskmrh., Eysteini Tónssyni. Undir hann heyra dýrtíðarlögin. Saga hans í þessu máli er átakanleg sorgarsaga. Líklega hefur enginn rætt né ritað meira en hann um nauðsyn þess að stöðva dýrtíðina og líklega hefði engum í hans stöðu orðið minna ágengt. Verðlagseftirlitið, sem átti að verða ein helzta vörnin gegn dýrtíðinni, er í hans höndum. Nefndirnar, sem eiga að starfa að þessu með honum, virðast aðallega skipaðar þannig, að vörusalarnir sjálfir ráða þar mestu. Áður hefur verið minnzt á verðlag landbúnaðarafurða. En að því er snertir hið almenna verðlagseftirlit virðist reglan hafa verið sú, að hæstv. ráðh. hefur verið að berjast við að setja ákvæði um álagningu á einstaka vöruflokka, en mikill fjöldi annarra verið undanskilinn og því hækkað því meira. Álagningin er yfirleitt ákveðin í %, og verður því því meiri, sem verðið er hærra og innkaupsverðið, flutningsgjöldin og tollar hækka. Og synd væri að segja, að álagningin hefði verið skömmtuð mjög naumt. Á nauðsynjavörum, svo sem skömmtunarvörum, mun hún hafa verið lægst. Þar var hún 40%. Það er kunnugt, að kaupmenn tóku 40 kr. fyrir að afgreiða úr einum hrísgrjónapoka, og annað var eftir því. Á öðrum vörum, svo sem vefnaðarvöru, var hún miklu hærri, svo að ekki sé talað um þær vörur, sem álagningin er ótakmörkuð á.

Þegar Eysteinn Jónsson var að leitast við að afsaka gerðardóminn í útvarpinu, fullyrti hann, að gróði iðnrekenda yrði því meiri, sem kaupið hækkaði. Mér blöskraði. Hefur hæstv. ráðh. gleymt því, að honum ber skylda til að sjá um, að ekki sé lagt á vörurnar úr hófi fram? Hefur hann gleymt því, að verðlagseftirlitið er í hans höndum?

Eysteinn Jónsson er talinn ákafur kaupfélagsmaður. Sjálfsagt hefur hann álitið, að kaupfélögin þyrftu að græða til að búa sig undir erfiðleika framtíðarinnar. En á þennan hátt verður ekki dregið úr dýrtíðinni, enda hefur hann hjálpað fleirum til að græða en þeim. Árið 1940 voru veitt 53 verzlunarleyfi í Reykjavík einni, rið 1941 133 og 1942 28 í viðbót. Aldrei hafa kaupmenn grætt meir en nú undir verndarvæng Eysteins Jónsonar, og það er sannarlega von, að þeir votti honum þakklæti sitt fyrir verðlagseftirlitið.

Ég hef nú sýnt og sannað, að því fer fjarri. að hæstv. ráðh. hafi barizt gegn dýrtiðinni. Hún hefur stöðugt vaxið, sumpart fyrir aðgerðaleysi og sumpart fyrir beinar aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að auka hana. Vöxt dýrtíðarinnar hafa þeir svo notað til að auka tekjur og stríðsgróða þeirra einstaklinga og stétta, sem þeim er annast um. Með þessu hafa hæstv. ráðherrar brotið fyllilega í bága við yfirlýstan vilja Alþingis — og eigin loforð. Síðasta reglulegt Alþ. samþ. eins og ég hef þegar sagt, lögin um ráðstafanir gegn dýrtíðinni. Þar var ætlazt til

að gróðinn á ísfiskinum yrði skattlagður,

að tollar yrðu afnumdir eða lækkaðir,

að verðtollur á flutningsgjöld yrði felldur niður.

að flutningsgjöld yrðu bundin,

að af tekjum ríkissjóðs yrði notað fé til

að halda niðri verði innlendra og erlendra nauðsynja.

Eysteinn Jónsson hefur haft þennan vilja Alþingis að engu. Hann hefur hindrað framkvæmd l. og lagt þau til hliðar, eins og þýðingarlausan blaðsnepil. Svo hafa ráðherrar Framsfl. kennt ráðherrum Sjálfstfl. um og segja, að þeir hafi neitað framkvæmdinni á þeim þáttum 1., sem undir þá heyrðu. Hvers vegna voru þá ekki sett brbl., eins og nú? Hæstv. forsrh. brást þeirri sjálfsögðu skyldu sinni að kalla Alþ. saman, þegar ráðh. Sjálfstfl. gerðu verkfall, en það sýnir óheilindi hans í málinu. Í stað þess fer hann að semja við þá um nýja stórkostlega verðhækkun á kjöti, mjólk, mjólkurafurðum og kartöflum. Samningar nást. Kjötið hækkar í 65 kr. eða um 152%, mjólkin í 0.84, smjör í 9.95, kartöflur í 1.80– 2.00 kr. Síðan fara ráðh. að sjóða saman ný lög um að lögbinda allt kaupgjald og banna alla frekari hækkun á verðlagsupbót, þó að dýrtíðin aukist. Einnig um þetta næst samkomulag, og Alþ. er síðan stefnt saman í okt. til að taka við boðskap ríkisstjórnarinnar. baráttan gegn dýrtíðinni, sem reyndar var aldrei nema í orði, var felld niður. Í þess stað er tekin upp baráttan gegn kaupinu, baráttan gegn launastéttunum fyrir gróðamennina. Nú er það orðið bert, að baráttan er um stríðsgróðann. Það á að hindra, að launastéttirnar fái nokkra hlutdeild í hinum gífurlega auknu þjóðartekjum, nema með eftirvinnu, næturvinnu og helgidagavinnu. Þetta hefur líka í raun og veru verið aðalatriðið í hinni svokölluðu dýrtíðarbaráttu þessara ráðherra.

Loks er frv. Framsfl., sem ég nefndi áðan. Þessi barátta er því tilefnislausari og ósæmilegri sem launastéttirnar hafa sýnt þann þegnskap að una óbreyttu grunnkaupi og verðlagsuppbótin jafnan komið eftir á sem afleiðing af hækkuðu vöruverði. Þannig hafði kaupið aðeins, hækkað um 27% í sept., þegar kjöthækkunin var orðin 152% að meðaltali og aðrar landbúnaðarafurðir höfðu hækkað um 120%. auk þess var kaupið bundið og dýrtíðin eigi bætt að fullu árið 1940. Þegar á átti að herða, gugnaði Sjálfstfl., vegna neitunar Alþfl. og vegna þeirrar andúðar, sem frv. vakti. Stjórnin tók við á ný og forsrh. lýsti því yfir samkv. vilja Alþ., að hún ætlaði að halda dýrtíðinni óbreyttri og nota til þess dýrtíðarlögin frá síðastl. Alþ. Mótspyrna sjálfstrh. gegn framkæmd l. var því brotin á bak aftur. Nægilegt fé var til og heimildir til að stöðva dýrtíðina. En þá skeður hið furðulega. Hermann Jónasson lýsir því yfir, að hann sé ábyrgðarlaus á aðgerðum ráðuneytis sins í dýrtíðarmálum. Allir undruðust þessa fáránlegu yfirlýsingu forsrh. En skýringin kom. Í byrjun des. hækkaði mjólkin undir yfirstjórn forsrh. Hermanns Jónassonar um 12 aura lítrinn. Orsakirnar voru hinar fáránlegustu tylliástæður: Aukin útgjöld við bíl, sem kostaði 200.00 kr. á dag, og annað eftir því. Mjólkurhækkunin olli því, að vísitalan hækkaði um 5 stig. Hæstv. atvmrh. lætur ekki sitt eftir liggja. Því að um sama leyti hækkar hann farmgjöldin um 25%. kemur það bersýnilega í ljós, að stjórnin ætlar að hafa vilja Alþ. að engu, en heldur í þess stað áfram að auka dýrtíðina. Og um leið hefur hún hafið herferð gegn sparnaðarviðleitni og trú almennings á peningana.

„Vörur eru betri en peningar,“ sögðu blöð íhaldsmanna, og í samræmi við þessa kenningu voru allar búðir fylltar fyrir jólin af verðlausu rusli, sem selt var með uppsprengdu verði. Sem dæmi má nefna, að brúður voru seldar á 200.00 kr. þetta rusl var flutt inn í tonnatali, en svo var ekkert rúm í skipunum fyrir byggingarefni og aðrar nauðsynjar. Þessar aðgerðir eru bein ógnun við launastéttirnar. Þeim er með þessu athæfi beinlínis storkað, og þess vegna er það eðlilegt; að það yrði til þess að herða á kröfum þeirra um launatetur. samt var allt útlit fyrir, að samkomulag náðist um launakjör við þau fáu félög, sem höfðu sagt upp kaupsamningnum, en í þeim voru ca. 400–500 manns. Þá gerðist furðulegur atburður. Forsrh. ávarpar þjóðina í útvarpsræðu og eggjar atvinnurekendur til að neita allri grunnkaupshækkun og lofar til þess stuðningi stjórnarinnar. Afleiðingin varð auðvitað sú, að allir samningar féllu niður og vinna stöðvaðist í þessum iðngreinum. Nú var tilganginum náð. Forsrh. hafði lánazt að koma af stað vinnustöðvun og búa sér til yfirskinsástæðu til þessara aðgerða. Og nú stendur ekki á framkvæmdum. Ráðh. fjórir rifta samstarfinu við Alþfl. og gefa út brbl., sem setja bann við allri kauphækkun og bann við verkföllum, gegn vilja félmrh., Stef. Jóh. Stef., og gegn yfirlýstum starfsreglum í stjórninni. Svo leggja þeir útvarpið undir sig og flytja þar einhliða áróður og meina Stef. Jóh. Stef. að komast þar að.

Brbl., sem banna alla kauphækkun til allra launþega í landinu, ná til tuga þúsunda. Stjskr. mælir svo fyrir, að því aðeins megi gefa út brbl.. að brýna nauðsyn beri til, en sú nauðsyn var ekki fyrir hendi, því að Alþ. gat komið saman eftir fáa daga. Engar deilur eða vinnustöðvanir gátu komið upp þessum dómi, og það var ekki hægt að benda á nokkurn snefil af yfirskinsrétti, fyrir þessari lagasetningu. Auk þess lá fyrir skýlaus yfirlýsing um vilja síðasta Alþ. Það felldi frv. Eyst. Jónssonar um kaupbindingu, en einmitt kaupbindingin er aðalefni brbl. Ríkisstj. var því óheimilt að setja brbl. um þessi efni.

Því er haldið fram, að þessi l. eigi að stöðva dýrtíðina. Ég fullyrði, að þau geri það ekki. Grunnkaupshækkunin hefur engan, bókstaflega engan, þátt átt í aukningu dýrtíðarinnar, sein nú er komin upp í 183 stig, sbr. árið 1940 og í fyrra stríðinu 1914– 1918. Máli mínu til sönnunar skal ég leiða sem vitni sjálfan hæstv. viðskmrh. Hann skrifaði í Tímann 13. febr. s.l. á þessa leið: „Aðalkostur þeirra (þ.e. gerðar dómsl.) er sá, að þau komu í veg fyrir grunnkaupshækkanir. Hins vegar hindra þau ekki verðhækkanir erlendra vara og stöðva því ekki hækkun vísitölunnar og kaupgjaldsins, eins dýrtíðarfrv. hefði gert, ef það hefði verið samþykkt.“ Þau stöðva ekki hækkun vísitölunnar, segir þessi hæstv. ráðh., og hvað þarf því frekar vitnanna við? Þeim er ætlað að hindra kauphækkun, annað ekki. L. eru frekleg skerðing á rétti. fjölmennustu stétta landsins, rétti launþega og atvinnurekenda til að semja um kaup og kjör, sett án nokkurra nauðsynja eða raunverulegs tilefnis. Skipun dómsins er þar að auki slík, að launþegar eiga þar engan fulltrúa.

Dómurinn er enginn dómstóll. Hann á ekki að meta þörf verkamannsins, ekki greiðslugetu þess, sem vinnur fyrir kaupi. Hann á að banna kauphækkun.

Enginn bóndi má taka kaupamann, kaupakonu eða vikapilt fyrir hærra kaup en í fyrra, enginn ráða aðstoðarstúlku á heimili fyrir hærra kaup en í fyrra, nema dómurinn samþ. það. Þvílík fjarstæða ! að gera alla að lögbrjótum hér, sbr. ýmsar auglýsingar eftir stúlkum?

Og hvernig hafa svo framkvæmdirnar orðið? Járnsmiðir fengu staðfesta mjög verulega hækkun og stóraukin fríðindi, en dómurinn vildi þó ekki fallast á alla þá hækkun, sem samkomulag var um með aðilum. Mismuninn, kr. 3.50 á viku, greiða atvinnurekendur til félagsins í einu lagi, og gera þar með gys að dómnum. Veikari félögin er dómurinn harðhentari við, t.d. bókbindarana. Önnur félög, eins og t.d. rafvirkjar og bifreiðastjórar, semja ekki, því að þeir vita, að þeir geta fengið hærra en með samningum, sem dómurinn má staðfesta. Það er á hvers manns vitorði, að menn borga yfir og dómurinn sé óvirtur.

En verðlagseftirlitið þá? Þar er væntanlega mjög sæmilega tekið á hlutunum. Já, kjötið hækkaði um 20 aura pr. kg eftir áramót. Það var á móti l., og dómstóllinn tók nú rögg á sig. Hann úrskurðaði, að kindakjöt, nema ekki læri og hryggur, skyldi lækka um 10 aura pr. kg. En hvað gerist? Kaupmenn og verlanir leggja bara á heimsendinguna 30 aura í staðinn, og dómurinn segir ekki orð. Sá, sem kaupir 3 kg, borgar sama verð fyrir kjötið og áður, en sá, sem ekki kaupir nema 1 kg, borgar 20 aurum meira.

Verðlagið, lækkunin, kemur fram í vísitölunni. en ekki heimsendingarkostnaðurinn. Þessi dæmi, er og hef hér nefnt, sýna hvert stefnir og bera þess glöggt vitni, að l. eru hin mesta rangsleitni. Hinar einu raunhæfu till. eru till. Alþfl., sem stefna að því að skattleggja stríðsgróðann, draga þar með úr verðbólgu og nota féð til að halda niðri verðlagi innlendra og erlendra vara og flutningsgjalda, og hækka gengi íslenzku krónunnar. Það verður einfaldasta og áhrifaríkasta ráðstöfunin til að sporna við verðhækkun.

Með tilvísun til þess, sem ég hef sagt, legg ég til, að málið verði afgr. með rökstuddri dagskrá, og vil með leyfi hæstv. forseta lesa hana hér upp:

„Þar sem brbl. þau, sem með frv. þessu er leitað staðfestingar á, eru ekki sett á þingræðislegan hátt, svipta verkalýðsfélögin og launastéttirnar yfirleitt sjálfsögðum löghelguðum samningsrétti, valda stórkostlegu, þjóðfélagslegu misrétti, spilla vinnufriði og eru áhrifalaus sem ráðstöfun gegn dýrtíðinni, telur d. rétt að víkja frv. frá umr. þegar á þessu stigi og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.“