11.03.1942
Neðri deild: 17. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 139 í B-deild Alþingistíðinda. (266)

2. mál, dómnefnd í kaupgjalds- og verðlagsmálum

Stefán Stefánson:

Herra forseti! Ef rekja ætti gang dýrtíðarmálanna á Alþ. til nokkurrar hlítar, afstöðu þingflokka og jafnvel einstakra þm. til þeirra, mundi það verða um of langt mál. Það kom fljótt í ljós eftir að heimsófriðurinn brauzt út, að alls konar dýrtíð mundi fara í kjölfar hans hér með okkar þjóð. Svo er það ætíð á styrjaldartímum, enda sú reynsla okkar frá síðustu styrjöld. Sívaxandi dýrtíð er stórhættuleg öllu fjárhags- og atvinnulífi þjóðanna,

keppast því allar þjóðir við, svo sem föng eru á, að halda henni í skefjum.

Í löndum, sem eiga í ófriði, er þetta tiltölulega auðvelt, en annars staðar er þetta meiri og minni erfiðleikum bundið.

Á Alþ. þ. 17. júní 1941 voru samþ. heimildarl., þar sem ríkisstj. var heimilað að gera ýmsar ráðstafanir og afla tekna vegna dýrtíðar og erfiðleika atvinnuveganna. Allir flokkar greiddu þessum l. atkvæði, og kom þannig fram skýr og tvímælalaus vilji Alþ. um, að hafizt yrði handa til viðnáms og baráttu gegn sívaxandi dýrtíð. Allverulegur hluti af þingmönnum hafi gengið í það að undirbúa og ná samkomulagi um l. Öll ríkisstj. stóð að og fylgdist með undirbúningi þeirra. Hún hafði óskað eftir að fá sem óbundnastar hendur um, hvað gert skyldi í dýrtíðarmálunum. Alþ. varð við þessum óskum. Gert var ráð fyrir, samkvæmt lögunum, að afla allmikilla tekna, má ætta 10–15 milljóna, ef allar heimildir til tekjuöflunar hefðu verið notaðar. Gert var ráð fyrir 5 millj. króna framlagi til ríkissj. af tekjum ársins 1941, 10% viðauka á tekju- og eignarskatt álagðan 1941, 50% tollhækkun á vín og tóbak og innlendar tollvörutegundir og allt að því 10% gjald á útflutningsafurðir, sem þá var heimilt að hafa misjafnlega hátt, miðað við framleiðslukostnað og söluverð. Þessu fé skyldi síðar varið til þess meðal annars að halda niðri verði á innlendum og erlendum nauðsynjavörum. Heimilt var að fella niður tolla á nokkrum matvörum og lækka á öðrum. Lög þessi hefur ríkisstj. látið koma til framkvæmda, að undanskildum 10% skattviðauka, og má. fullyrða, að það sé beint ofan í vilja meiri hluta þm.

Því er að vísu fram haldið af ríkisstj., að I. hafi bæði verið ófullnægjandi og óframkvæmanleg, en fyrir því hafa eigi komið nein frambærileg rök. En hvað sem um það er, hafa I. ekki verið látin koma til framkvæmda, og mun ósamkomulag innan ríkisstj. hafa ráðið þar mestu um. Ég get eigi stillt mig um að minnast hér lauslega tveggja till., er fram komu sín úr hvorri deild, meðan heimildarl. voru á döfinni, till., sem miðuðu að því að tryggja hagsmuni bændanna. Í Nd. bárum við Jón Pálmason, þm. a.-Húnv., fram till. þess efnis, að ríkisstj. heimilaðist að tryggja bændum það verð fyrir mjólk og dilkakjöt árið 9141, er nægði að dómi Búnaðarfélags Íslands til að koma í veg fyrir, að framleiðsla þessara afurða drægist saman. 22 þm. greiddu atkv. gegn þessari till., aðeins 7 með, og voru það, auk okkar flm., Bjarni Ásgeirsson, Eiríkur Einarsson, Pétur Ottesen, Steingr. Steinþórsson og Þorsteinn Briem.

Í Ed. flutti Þorst. Þorsteinsson till. þess efnis, að Búnaðarfélagi Íslands skyldi falið að rannsaka, hve hátt verð bændur þyrftu að fá fyrir mjólk og kjöt til þess að fá sjálfir og geta greitt verkafólki sínu kaupgjald í samræmi við annað kaupgjald í landinu. Till. þessi var einnig felld.

Um afstöðu meiri hluta þingsins til þessara till. mætti margt segja. En hér skal aðeins á það bent, að hv. alþm.. virðast ekki hafa gert sér ljóst, hver afstaða og þörf bændastéttarinnar er, hvílík þjóðarnauðsyn landbúnaðurinn er á öllum tímum, eigi hvað sízt á styrjaldartímum.

Þar sem heimildarl. voru virt að vettugi af ríkisstj., hélt dýrtíðin áfram að vaxa hröðum skrefum. Þá er það, að gripið er til þess ráðs að kalla saman hið nafntogaða aukaþing, er korn saman þ. 13. okt. s.l. Maður skyldi nú ætla, að þar sem ráðherrarnir allir fimm að tölu höfðu verið fylgjandi heimildarl., en eigi náðst samkomulag með þeim um framkvæmd þeirra, þá hefðu þeir komið sér saman um endurbætta útgáfu af þeim, og væri því þing aðeins kvatt saman til að ganga formlega frá hlutunum. En það var eitthvað annað.

Svo sem kunnugt er, bar þinghald þetta lítinn árangur. Var það þjóðinni aðeins sönnun þess, að jafnvel á mestu alvöru- og háskatímum, sem yfir landið hafa gengið, er hver höndin upp á móti annarri í ríkisstj. Íslands og á Alþ. Íslendinga.

Sundrung og flokkadrættir eru ríkjandi í stað samstarfsvilja og samheldni.

Þrír af fimm fulltrúum í ríkisstj., þeir: Jakob Möller, Ólafur Thors og Stefán Jóhann vildu reyna hina svo kölluðu „frjálsu leið“, til viðnáms og baráttu gegn vaxandi dýrtíð, og færðu fram, að þeir töldu nokkrar líkur fyrir því, að hún mætti takast. Átti málið að leysast á frjálsum grundvelli milli stjórnarflokkanna fyrir atbeina ráðherranna hvers á sínu sviði, og áttu því öll lagafyrirmæli að vera óþörf. Ráðherrarnir Eysteinn Jónsson og þá fremur Hermann Jónasson voru vantrúaðir á mátt hinnar frjálsu leiðar.

Bar Eysteinn Jónsson fram frv. til l. í Nd. um ráðstafanir gegn dýrtíðinni, en lét þess jafnframt getið, að allur þingfl. Framsfl. stæði að flutningi þess. Vitað var, að ýmsir áhrifamenn í flokknum utan þings voru því mjög andvígir. Það skal þegar tekið fram, að við Bændaflm. töldum frv. þessu í ýmsu ábótavant, og gerðum það að skilyrði fyrir fylgi okkar við það, að brtt. frá mér yrðu samþ. Ég lýsti því yfir, að nauðsynlegt hefði verið, að samkomulagsgrundvöllur lægi fyrir milli ríkisstj. Íslands annars vegar og herstjórna Breta og Bandaríkjanna hér hins vegar um vinnu Íslendinga hjá setuliðinu og kaupgreiðslu við þá vinnu.

Frv., þó að I. yrði, mundi verða óframkvæmanlegt, væru þeir samningar okkur óhagstæðir. NÚ hafa tekizt samningar um þetta efni, og er að því leyti allt aðgengilegra en það var á haustþinginu. Ég gat þess, að yfirleitt væri ég því mótfallinn að lögfesta kaupgjald og afurðaverð, en vegna þess öngþveitis, er ríkjandi væri í dýrtíðarniálunum, og vegna hagsmuna alþjóðar bæri nauðsyn til að ráða til lykta, gæti ég samþ. frv. með brtt. mínum, sem eins konar neyðarráðstöfun.

Höfuðefni frv. má segja að hafi verið að banna hækkun á grunnkaupi launþega og greiða eigi hærri verðlagsuppbót en þá, sem byggð var á framfærslukostnaði 1. okt. 1941. Vísitalan var þá 172. Bannað var einnig að hækka verð framleiðsluvara frá því, sem það var 1. okt. 1941, að undanskildum lítilfjörlegum árstíðahækkunum. Um allt kaupgjald, sem greitt er án þess að beint sé miðað við verðlagsuppbót, var svo ákveðið í frv., að það skyldi eigi hækka frá því sem það var fyrir gildistöku l. miðað við sama stað og sama árstíma árið á undan gildistöku þeirra. Undir þetta ákvæði féll allt kaupgjald við landbúnaðinn í sveitum landsins. Frv. skyldi öðlast lagagildi þegar í stað. Allt kaupgjald til veita skyldi því verð, eins og það var árið 1940. Slíkt ákvæði um lögfestingu á kaupgjaldi til sveita var fjarstæða ein og Iandbúnaðinum stórhættulegt. Slík lögfesting á kaupi í sveitum gat. beinlinis orðið til þess, ásamt öðrum öflum, að tæma sveitirnar af verkafólki og þannig draga á stórfelldan hátt úr framleiðslu landbúnaðarins, og það því fremur, sem enginn samkomulagsgrundvöllur lá fyrir um vinnu Íslendinga hjá setuliðinu.

Kaup verkafólks við landbúnaðarstörf hefur undanfarið verið allt mikið lægra en kaup annars staðar, enda þótt á þessu hafi orðið allmikill jöfnuður upp á síðkastið. Ef frv. Eysteins Jónssonar hefði orðið óbreytt að 1., allt kaupgjald til sveita lögbundið, svo sem það var 1940, voru l. tilvalin til að flæma úr sveitum landsins það fáa verkafólk, sem þar er eftir og heldur tryggð við landbúnaðinn. Fólk þetta ætti þó allt annað og betra skilið en að svo væri að því búið að löggjafanum.

Það er þjóðarhagur og þjóðarnauðsyn að kom, í veg fyrir sívaxandi dýrtíð, en eigi er það síður þjóðarnauðsyn að viðhalda framleiðslunni og þá fyrst og fremst framleiðslu landbúnaðarins. Löggjafinn má því ekkert spor stíga, er að því getur miðað að draga úr henni. Til þess var frv. Eysteins vel fallið, — því mátti ekki samþ. það óbreytt.

Enginn veit, hversu lengi við Íslendingar getum haldið uppi siglingum við umheiminn eða fengið þaðan vörur. Vel getur svo farið, að við þurfum að búa að okkar framleiðslu um lengri eða skemmri tíma, hver veit hvað lengi. Því maí. framleiðsla landbúnaðarins ekki dragast saman.

Brtt. mín við frv. snertandi kaupgjald til sveita var á þá leið, að hækka kaup í sveitum, ef nauðsynlegt væri til að halda við fraimeiðslunni.

Í beinu sambandi við þessa till. var önnur till. þess efnis, að verðlagsil. landbúnaðarafurða skyldi heimilt að hækka verð á mjólk og kjöti, ef kaupgjald hækkaði við framleiðsluna. Verðvísitala afurðanna mátti því eigi vera hærri en vísitala kaupgjalds, hvort tveggja miðað við árið 1941. Neytendur afurðanna skyldu eigi greiða þessa hækkun, heldur skyldi hún greidd úr dýrtíðarsjóði, er stofna átti samkv. frv.

Þriðja brtt. mín var þess efnis, að ríkisstj. heimilaðist að banna verkföll og önnur samtök, sem miðuðu að því að stöðva eða leggja niður vinnu. Það kom þegar fram, að ýmsir foringjar launastéttanna, meðal þeirra ýmsir alþm., gerðu allt sitt til að æsa fólkið gegn frv. Mótmæli gegn frv. voru pöntuð víðs vegar frá og þau lögð fram á Alþ.

Full ástaða var til að ætla, að yrði frv. að l., yrði æsingastarfinu haldið áfram og gæti komið til verkfalla og verkbanna í því sambandi. Yrði gerð tilraun til að koma í veg fyrir framkvæmd l., yrði að veita ríkisstj. þær heimildir, sem að gagni gætu komið. Ef þessar till. og fleiri, sem ég bar fram, hefðu verið samþ., var ég reiðubúinn að fylgja frv. Till. var fálega tekið af flm. frv. og þær felldar. Því greiddi ég atkv. gegn frv. En svo einkennilega vill til, að allar aðalbrtt. mínar við frv. EystJ. á haustþinginu, þær eru nú af honum og öðrum ráðherrum í ríkisstj. teknar upp í brbl. frá 8. jan. s.l. um gerðardóm í kaupgjalds- og verðlagsmálum.

Það er að sjálfsögðu ekkert nema gott um það að segja, að menn sjái að sér og bæti ráð sitt, svo sem Eyst. Jónsson hefur nú gert, en ég get ekki stillt mig um að benda á, að þetta er ekki í fyrsta skipti, sem farið hefur verið að ráðum Bændafl. og till. hans teknar upp. Mætti þar t.d. benda á till. hans í gengismálinu, um gengislækkun til viðreisnar framleiðslunni. og atvinnulífinu í landinu, sem mættu mjög hörðum árásum til að byrja með, en voru síðan teknar upp af Framsfl. og þá taldar hið einasta bjargráð til viðreisnar atvinnuvegum landsmanna.

Enn fremur mætti benda á kröfur Bændafl. um, að framleiðendur fengju greitt framleiðsluna tilkostnaðarverð og væri það óhjákvæmilegt skilyrði fyrir öllu heilbrigðu atvinnulífi í landinu. Kröfur þessar voru taldar mjög broslegar, ómögulegt væri að reikna út tilkostnaðarverð o.s.frv.

Nú eru þessar kröfur af flestum eða öllum að minnsta kosti í orði kveðnu, taldar réttmætar og sjálfsagðar, en ekki er nóg, að þetta sé viðurkennt í orði, það verður einnig að vera í framkvæmd.

Frv. EystJ. var fellt í Nd. sem kunnugt er, og beiddist þá forsráðh. lausnar fyrir sig og ráðuneytið. En eigi virtist þó mikil alvara fylgja þeirri lausnarbeiðni. Eftir nokkra daga tekur hann að sér að mynda stjórn af nýju með hinum sömu ráðherrum og áður.

Var þetta allt eins konar skopleikur, ýmsum til gamans, enda þótt það væri grátt gaman af hálfu forsætisráðh.

Það er í frásögur færandi, að um leið og forsætisráðh. tekst á hendur myndun nýrrar ríkisstj., þá lýsti hann því yfir, að hann og hans flokkur afsalaði sér allri ábyrgð á dýrtíðarmálunum. Að sjálfsögðu var slík yfirlýsing markleysa ein. Ábyrg ríkisstj. getur ekki, um leið og hún sezt að völdum, afsalað sér ábyrgð á mestu vandamálunum, en þó jafnframt verið þingræðisstjórn.

Þ. 8. jan. 1942 voru gefin út brbl. um gerðardóm í kaupgjalds- og verðlagsmálum. Tilefni til útgáfu þeirra var ágreiningur, sem upp hafði komið milli vinnuveitenda og vinnuþega í nokkrum iðngreinum í Reykjavík. Taldi meiri hluti ríkisstj., 4 af 5 ráðh., óhjákvæmilegt að ráða ágreiningnum til lykta með brbl. Um kaupgreiðslur segir svo í 3. gr. brbl.:

„Allar breyt. á kaupi, kjörum, hlutaskiptum og þóknunum, sem greitt var eða gilti á árinu 1941, skal leggja undir úrskurð gerðardómsins. Í úrskurðum sínum skal gerðardómurinn fylgja þeirri meginreglu, að eigi má greiða hærra grunnkaup fyrir sams konar verk en greitt var á árinu 1941, en þó má úrskurða breytingar til samræmingar og lagfæringar, ef sérstaklega stendur á.“

Samkvæmt þessu er hækkun kaups eigi útilokuð. Kaup er allt miðað við árið 1941, en eigi við 1940. Sízt af öllu mun vera bönnuð hækkun á kaupi til sveita, þar sem þar almennt mun vera greitt lægra kaup en annars staðar, og mætti því telja hækkun á því gerða til samræmingar við annað kaupgjald.

Enn fremur er skylt samkvæmt 5. gr. að hækka afurðir, af breyt. verða á tilkostnaði við framleiðslu þeirra. Um þetta segir svo í greininni: „Gerðardómurinn skal þó að fengnum till. hlutaðeigandi verðlagsnefnda ákvarða breyt. á verðlagi þeirra innlendra framleiðsluvara, er felldar verða undir ákvæði 1. mgr. þessarar gr. í samræmi við breyt. á tilkostnaði við framleiðsluverð þeirra.“ Hér er í fyrsta lagi heimilt að hækka kaup og í öðru lagi heimilt að hækka verð afurða, ef framleiðslukostnaður vex. Er þetta hvort tveggja í fullu samræmi við brtt. minar við frv. EystJ. á haustþinginu.

Brtt. mín um að heimila ríkisstj. að banna verkföll og verkbönn hefur einnig verið upp tekin í brbl., því að í þeim segir svo í 4. gr.: „Verkföll eða verkbönn, sem gerð eru í því skyni að fá breyt. á kaupi eða kjörum samkvæmt 3. gr., eru óheimil frá gildistöku l. þessara, og nær þetta einnig til verkfalla, sem þegar eru hafin.“

Hér eru verkföll og verkbönn bönnuð, en eigi heimild til að banna svo sem ég hafði lagt til, en það skiptir raunar minnstu. Um brbl. mætti ef til vilt segja, að þau hefði mátt einskorða meira við það efni, sem þeim var ætlað að ráða bót á, sem sé ágreining þann, er upp hafði komið í Reykjavík milli vinnuveitenda og vinnuþega í nokkrum iðngreinum, en að allt annað, sem l. taka til, hefði mátt bíða Alþ. þess, er nú situr. Ríkisstj. má eigi á nokkurn hátt misbeita ákvæðinu um setningu brbl. samkv. 23. gr. stjskr., en eigi er laust við, að ýmsum þm. finnist ríkisstj. ganga um of langt í þeim efnum.

Allir ráðh., er nú eiga sæti í ríkisstj., hafa undirritað brbl. ásamt ríkisstjóra. Fulltrúi jafnaðarmanna í ríkisstj. taldi sér eigi fært að fylgja l. og var því dreginn úr ráðherrasæti af sínum flokksmönnum.

Jafnaðarmenn og kommúnistar hafa tekið upp mjög harðvítuga baráttu gegn brbl. Heita þau kúgunarl. gegn launastéttunum á máli jafnaðarmanna, en þrælal. á máli kommúnista. Eigi er að efast um, að ýmsir jafnaðarmenn eru sér þess meðvitandi, að þeir hafa tekizt á hendur illt hlutverk, en telja að sig hafi rekið nauður til. Það var sem sé vitað, að kommúnistar yrðu á móti allri löggjöf um lögfestingu á kaupi launastéttanna. Af ótta við þá töldu jafnaðarmenn sig tilneydda að dansa með. Ýmis atvik undanfarandi ári sýna ljóslega hina sífelldu skelfingu og ótta jafnaðarmanna við kommúnista.

Í blöðum og á mannfundum láta þeir í ljósi takmarkalausa fyrirlitningu og formæla þeim á allan hátt, en í öllum sínum athöfnum er hræðsla þeirra bersýnileg. Af ótta við þá ganga þeir gegn brbl., af ótta við þá eru þeir gegn takmörkun Íslendinga í setuliðsvinnu, af ótta við þá kjósa þeir kommúnista sem, formann í Dagsbrún, fjölmennasta verklýðsfélagi landsins o.s.frv. — Því ekki að láta kommúnista eina um það að blása eld að þeim glæðum, er gætu orðið til þess að auka og magna dýrtíðina og gera íslenzka peninga verðlitla eða verðlausa? Því eigi að láta kommúnista eina um að vinna að því, að aðalatvinnuvegir landsmanna komist á kaldan klaka og atvinnuleysi, það þjóðarböl, skapist í landinu? En það gera þeir með því að berjast fyrir rýrnandi verðgildi peninganna og gegn því, að reynt sé að tryggja íslenzkum atvinnuvegum nægjanlegt vinnuafl. — Það geta því ekki verið þjóðarhagsmunir, sem jafnaðarmenn berjast hér fyrir. En hvers hagsmunir eru það þá? Eru það einkahagsmunir foringja jafnaðarmanna eða flokkshagsmunir? Sennilegt er, að hér sé um hvort tveggja að ræða.

Menn þessir, jafnaðarmenn og kommúnistar, tala aðeins um að brbl. séu kúgun eða þrælkun gegn einni stétt þjóðfélagsins. gegn launastéttinni. Að þeirra dómi er frjálst að kúga allar aðrar stéttir. Það er gerð krafa um, að við bændur séum háðir verðlagseftirliti, tekjur okkar séu lögbundnar af ríkinu, og svo sé einnig um aðra framleiðendur. Því eigi að láta eitt yfir alla ganga, þá um er að ræða baráttu gegn böli, sem ógnar allri þjóðinni?

Flokkar þessir, jafnaðarmannafl. og kommúnistafl., sem oft hefur verið erfitt að skilja hvorn frá öðrum og nú virðast vera að renna saman í eitt undir forustu kommúnista, gera sér ekki stórar vonir um kosningasigra með þjóðinni, vegna þeirrar afstöðu, er þeir taka til brbl. Er þar um að ræða bæjarstjórnarkosn. í Reykjavík og væntanlegar Alþ.-kosn. á næsta vori. Ég vænti þess, að allir, og þá eigi hvað sízt launastéttirnar, í sambandi við brbl., líti eigi aðeins til dagsins í dag, heldur jafnframt til framtíðarinnar. Sé litið til hennar, fara hagsmunir þjóðarinnar vissulega saman. Hvers er að vænta, ef dýrtíðin vex í það óendanlega? Minnizt þess, hversu fór eftir stríðið 1914–1918. Þá hrundu atvinnuvegirnir, atvinnuleysi og hvers konar vandræði sköpuðust. Svo fór vegna hinnar geipilegu dýrtíðar, er myndazt hafði. Óska launastéttirnar eftir því, að sú saga endurtaki sig? Óska þær eftir því, að það fé, er þær nú spara saman, verði verðlítið eða verðlaust? Óska þær eftir því, að það ástand skapist, að atvinnuvegir landsmanna hrynji í rústir, svo sem var eftir fyrri heimsstyrjöld, og atvinnuleysi og erfiðleikar skapist? Óska þær eftir, að það fé, sem eldra launafólk og aðrir þegnar þjóðfélagsins hafa dregið saman til elliáranna, verði einskis virði og fólk þetta komist á vonarvöl?

Það kemur engum á óvart, þótt þessar séu óskir kommúnista og þeirra, sem af þeim eru dáleiddir. hví meiri erfiðleikar og upplausn, sem skapast með þjóðinni, því betri jarðveg telja þeir fyrir sig sem boðbera kommúnismans á Íslandi. En að Alþýðuflokkurinn skuli feta í sporaslóð þeirra, það mun mörgum koma undarlega fyrir.

En þegar athugað er, að endanlegt takmark beggja þessara flokka er eitt og hið sama, þjóðnýting og ríkisrekstur á öllum sviðum atvinnulífsins, þá er þetta ekki svo undarlegt fyrirbrigði.

Við Bændaflm. munum greiða brbl. atkvæði, meðal annars af þeim ástæðum, er ég hef áður getið, en að sjálfsöðu áskiljum við okkur rétt til að bera fram brtt. við þau eða fylgja brtt., er fram kunna að koma. Engin ákvæði eru í l. um stofnun dýrtíðarsjóðs eða annars sjóðs til öryggis því, að halda megi niðri vaxandi dýrtíð, eða til eflingar framkvæmda- og atvinnulífs að ófriðnum loknum. En að sjálfsögðu eru brbl. aðeins einn af þeim mörgu hlekkjum, sem smíða þarf til viðnáms gegn vaxandi dýrtíð. Stofna þarf öflugan dýrtíðarsjóð. Tekna í hann má að sjálfsögðu afla á fleiri vegu, en fyrst og fremst verður það að gerast með stríðsgróðasköttum. Einnig verður að safna forða til vondu áranna. Enginn mun draga í efa, að hjá okkur skapist margvíslegir erfiðleikar að ófriðnum loknum. Við þurfum einnig að hefja viðbúnað til að mæta þeim örðugleikum, og til þess þurfum við einnig að stofna öflugan Sjóð eða Sjóði.

Ríkisstj. mun, samkv. heimildarl., hafa ráð á um 6–7 millj. kr. nú, 5 millj. kr. framlagi úr ríkissjóði af tekjum ársins 1941 og 10% viðaukanum á tekju- og eignarskatt, á lagðan 1941. af fé þessu eða öðru dýrtíðarfé þarf að verðbæta útflutningsafurðir landbúnaðarins frá s.l. ári. Bretar greiddu uppbætur á ýmsar útflutningsafurðir ársins 1940 vegna markaðstapa, er við urðum fyrir vegna ófriðarins. Munu hin sömu skilyrði vera fyrir hendi og á s.l. ári. Því er einnig sjálfsagt að krefjast uppbóta á sama hátt fyrir það ár.

En beri slík krafa ríkisstj. eigi árangur, og verður hún eigi síður að tryggja, að þessar uppbætur fáist. Að því er landbúnaðinn snertir mun hér um ull, en þó fyrst og fremst gærur, að ræða. Mér dettur ekki í hug að brbl. um gerðardóm séu einhlít til að ráða bót á vaxandi dýrtíð, þrátt fyrir margar ráðstafanir, sem gerðar kunna að vera í sambandi við þau.

Við ráðum t.d. ekki yfir verðlagi erlendra vara, nema að litlu leyti. Innkaupsverð þeirra getur vaxið stórkostlega, tryggingargjöld hækkað og flutningskostnaður aukizt. Dýrtíðarsjóður kyni því að hrökkva skammt til að halda því söluverði, sem varan nú er seld hér innanlands.

Brbl. um gerðardóminn eru því nánast tilraun ásamt öðrum ráðstöfunum til að koma í veg fyrir vaxandi dýrtíð, tilraun, sem rétt var að gera og við vonum, að beri fullan árangur, en við vitum, að ber einhvern árangur.

Um þessi brbl. um gerðardóm í kaupgjalds- og verðlagsmálum, er ég hefði talið heppilegra að stytta og kalla brbl. um verðlagsdóm, þá er ástæða til að vera alveg sérstaklega kröfuharður um að l. verði beitt til hins ýtrasta. Vænti ég þess, að ríkisstj. hafi strangt eftirlit með, að svo verði gert.

Það var eitt sinn haft eftir mætum borgara norðlenzkum, Að hann skorti allt nema peninga. Sé íslenzka þjóðin tekin sem heild, mætti ef til vill segja eitthvað svipað um hana. Ég vil þó eigi segja, að hana skorti allt nema peninga, enda þótt hana skorti margt, en peninga skortir eigi. — Það, sem íslenzku þjóðina ef til vill skortir mest, er samheldni og pólitískur drengskapur. Við, sem sæti eigum á löggjafarþingi Íslendinga, erum í þessum efnum engir eftirbátar annarra. En eigum við nú ekki að reyna að bregða út af vananum og sýna umbjóðendum okkar samheldni í dýrtíðarmálunum, samheldni í að gera allar þær ráðstafanir, sem unnt er, til að tryggja það, að peningar þjóðarinnar verði eigi einskis virði og íslenzkt atvinnulíf falli eigi í rústir?

Ef ekkert er aðhafzt í þessum málum, eru allar líkur til þess, eigi aðeins, að íslenzka þjóðin geti sagt að ófriðarlokum, eins og borgarinn norðlenzki, að hana skorti allt nema peninga, heldur einnig, að hana skorti peningana líka.