04.05.1942
Neðri deild: 50. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 328 í D-deild Alþingistíðinda. (2668)

100. mál, sala og úthlutun bifreiða

*Fjmrh. (Jakob Möller):

Ég get fallizt á rökstuðning hv. flm. að því leyti, sem ég tel æskilegt, að ráðh. væru losaðir við það ónæði og ásókn, sem þeir verða fyrir í sambandi við úthlutun bifreiða. Hitt er annað mál, að ég er hræddur um, að hvað sem samþ. verður í þessu efni, þá verði erfitt að losa þá undan því fargani, og ég hygg, að allmargir þm. geti hugsað sér, að það verði er eitt, því að ég hygg, að þeir hafi dálítið fengið smjörþefinn af þeirri ásókn, sem er í sambandi við þetta mál. Ég veit a.m.k., að ekki allfáir þm. hafa komið til mín með stuttan eða langan lista yfir menn, sem hafa beðið þá að útvega sér bíla.. Alveg eins mundi verða með ráðh. framvegis, að það mundi verða áframhaldandi nauð á þeim eins og menn snúa sér nú til þm. og beiðast liðveizlu af þeim.

Þegar kom til minna kasta, þá get ég sagt, að mitt svar var, að það væri til n., sem hefði þetta með höndum, og ég réði í raun og veru engu um þetta. Svarið hjá umsækjendunum hefur verið, að þetta heyrði undir ráðuneytið og auðvitað gæti ráðh. ráðið þessu, ef hann vildi. Þetta mundi ekkert breytast, þó að n. yrði skipuð, svo að það þýðir ekkert að ganga þar með neinar tyllivonir, að ráðh. losni við þetta. Þetta má þó alls ekki skilja svo, að ég sé að mæla á móti því, að ég væri losaður við þetta, ef ég ætti að hafa mað þetta að gera, og ég get sett mig í spor hvers manns, að honum væri greiði ger með því að létta þessu af honum.

Þessi þáltill. er ekki um annað en að d. lýsi yfir vilja sínum um, að þetta verði framkvæmt þannig, eftir því sem möguleikar eru til. Ég vil þó benda á í sambandi við síðari hluta till., að bifreiðaeigendum sé því aðeins gerður kostar á nýjum bifreiðum, að þeir afhendi þá gömlu, að þetta yrði óframkvæmanlegt, þ.e.a.s. að það yrði framkvæmanlegt að vissu leyti, en það nær ekki tilgangi sínum, fyrst og fremst vegna þess, að margir af þeim, sem gera sér vonir um að fá nýjar bifreiðar, eru búnir að selja hinar. Ég hygg, að það sé ekki fært að neita öllum slíkum mönnum um nýjar bifreiðir, sem hafa rétt til þess vegna atvinnu sinnar að fá nýjar. Hitt er alveg rétt, að þetta er alvarlegt atriði, að bílaeigendur hafa verið látnir sjálfráðir, hverjum þeir seldu bíla sína og fyrir hvaða verð, enda hefur verðið farið síhækkandi. Það er eðlilegt, að þeir, sem ætlað er að verða fyrir barðinu á þessari ákvörðun, álitu, að sér væri misjafnað. hastarlega, þar sem þeim væri gert að skyldu að afhenda bifreiðir sínar fyrir lítið brot af því, sem starfsbræður þeirra hafa getað fengið fyrir sínar. En svo bætist þar við, að fram hjá þessu er auðvelt að komast á þann hátt, að ómögulegt er að girða fyrir það, en það er á þann einfalda hátt, að menn geta haft baksamning um miklu hærra verð fyrir bifreiðina heldur en matsverð.

En þó að maður hugsaði sér, að það væri ekki hægt og þessi maður fengi bifreiðina fyrir matsverð, er þá ætlazt til, að þessu yrði einnig framfylgt gagnvart þeim, sem síðar yrðu eigendur að þessari bifreið? Ef það væri, þá gæti það orðið til þess að bifreiðaeinkasalan sæti uppi með þessar gömlu bifreiðar, og þar við bættist, að ég held, að þetta yrði óframkvæmanlegt, af því að það yrði svo auðvelt að smokka sér undan þessu, og þegar maður er búin að fá bifreiðina, gæti hann selt þeim næsta hana fyrir það, sem hann gæti fengið fyrir hana, þó að því væri framfylgt gagnvart þeim fyrsta, sem afhenti bifreiðina, og það getur okkur komið saman um, að ef nokkur ætti að græða á sölu bifreiðarinnar, þá er það sá, sem átti hana upphaflega, en ekki þeir, sem í fjárgróðaskyni kaupa bifreiðar til að selja þær aftur uppsprengdu verði. Ég efast því ákaflega um, að þetta verði auðvelt í framkvæmdinni, og í því sambandi vil ég geta þess, að . þetta er ekki nýtt. Það hefur um það verið talað, frá því að eftirspurnin fór að verða svo geysilega mikil, og verð á gömlum bifreiðum hækkaði eins og raunin er nú á orðin, að taka þetta upp, að láta bifreiðaeigendur afhenda bifreiðaeinkasölunni gömlu bifreiðina fyrir matsverð og gera það að skilyrði fyrir nýjum bíl, en einkasalan hefur alltaf færzt undan þessu og talið það óframkvæmanlegt, og á því hefur það staðið, að reynt væri að fara inn á þessa braut.

Ég fyrir mitt leyti er ekki á móti því, að þessi till.samþ., en ég tel réttara. að hafa síðari hlutann þannig, að bifreiðaeigendum sé, ef fært þykir, því aðeins gefinn kostur á nýrri bifreið, að þeir afhendi einkasölunni þá gömlu.

Ég þarf svo ekki að hafa þessi orð fleiri, en ég vil leyfa mér að afhenda hæstv. forseta þessa Skrifl. brtt.