11.03.1942
Neðri deild: 17. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 146 í B-deild Alþingistíðinda. (268)

2. mál, dómnefnd í kaupgjalds- og verðlagsmálum

Skúli Guðmundsson:

Hæstv. viðskmrh., Eysteinn Jónsson, sem, ákveðið hafði verið að tæki þátt í þessum útvarpsumr. af hálfu Framsfl., getur ekki mætt á þingfundinum sakir lasleika. Eftir beiðni ráðherrans flyt ég hér ræðu, en hann hefur samið um þetta mál og hann allt þangað til í dag gerði sér vonir um að geta flutt hér sjálfur. Ræðan er á þessa leið:

Frá því að verulega fór að verða vart verðhækkunar í landinu af völdum stríðsins, hafa menn yfirleitt viðurkennt í orði nauðsyn þess að vinna gegn dýrtíðinni. Mun tvennu vera til að dreifa í því sambandi. Það er vinsælt að tala um að vinna gegn dýrtíðinni, og svo hitt, að undir niðri hjá flestum, og það jafnvel þeim, sem daglega telja sér trú um, að þeir græði á dýrtíðinni, reynist nokkur uggur um það, sem gerast mun, ef ekkert væri gert til þess að vinna gegn verðbólgunni. Þrátt fyrir þetta hefur svo farið, alveg fram að síðustu áramótum, að ef eitthvað verulegt hefur átt að hafast að til þess að vinna gegn dýrtíðinni, hafa ekki fengizt samtök um það. Menn hafa við haft alls konar undanbrögð. Sagt, að ekki væri byrjað á réttum enda o.s.frv.

Þessi undanbrögð hafa vitaskuld oftast átt rót sína að rekja til þess, að ekki er hægt að gera ráðstafanir til að hefta dýrtíðina, nema ær snerti og leggi nokkrar hömlur á svo að segja hvert mannsbarn í landinu. Þeir, sem ekki skilja, að stöðvun verðbólgunnar er engu síður í þeirra þágu en annarra, hafa tilhneigingu til þess að líta svo á, að slíkum afskiptum og hömlum sé beint gegn þeirra hagsmunum, og gera sig líklega til að snúast gegn nauðsynlegum ráðstöfunum og láta þá gjalda pólitískt, sem fyrir þeim beitast. Það er óttinn við þessa menn, sem ekki geta eða vilja skilja samhengi málsins, sem fyrst og fremst hefur orðið þess valdandi, að ekki hefur fengizt tekið á málunum fyrr en nú, og alveg sérstaklega er það þessi ótti, sem því veldur, að lausn dýrtíðarmálsins kostaði fall þjóðstjórnarinnar. Það er af þessum ástæðum, sem Alþýðuflokkurinn hefur nú snúizt í stjórnarandstöðu, og mun ég víkja nánar að því síðar.

Ég hef svo oft haft tækifæri til þess að gera grein fyrir skoðun minni á nauðsyn þess að stöðva dýrtíðina og þeim afleiðingum, sem ég álít að það hljóti að hafa í för með sér, ef ekkert er aðhafzt, að ég sé ekki ástæðu til þess að fara mörgum orðum um þá hlið málsins í þetta skipti. Vil þó aðeins enn einu sinni minna á, að sé verðlagið og kaupgjaldið hjá okkur orðið miklu hærra í styrjaldarlok en hjá þeim þjóðum, sem við munum skipta við í framtíðinni, þá hljóta atvinnuvegirnir að lenda í fjárhagsvandræðum. Verðlagið, sem þá fæst fyrir útflutningsvörurnar, verður ekki í neinu samræmi við framleiðslukostnaðinn, og afleiðingin verður samdráttur og jafnvel stöðvun framleiðslunnar og síðar gengishrun.

Nú má segja sem svo, að þar sem innlenda verðlagið er orðið nú þegar allmiklu hærra hér en í þeim löndum, er við skiptum helzt við eftir stríðið, því sé nokkurn veginn víst, að þessari hættu verði ekki afstýrt að fullu, úr því sem komið er. Er þetta vafalaust rétt skoðun, en hitt er annað mál, að því meira sem þetta óamræmi verður, þ.e.a.s. því meira bil, sem er á milli framleiðslukostnaðar og söluverðs því stórkostlegra verður hrunið síðar, og allt, sem gert er til þess að draga úr frekari hækkunum framleiðslukostnaðarins og verðlagsins, eða til þess að reyna að nema staðar þar, sem komið er, er því engu ónauðsynlegra út af fyrir sig en þótt þær ráðstafanir hefðu verið gerðar fyrr.

Á. vetrarþinginu 1941 flutti ég í samráði við Framsóknarflokkinn frumvarp um dýrtíðarmálin. Var þar lagt til að afla verulegra fjármuna með útflutningsgjaldi og almennum skatti og verja því fé til þess að koma í veg fyrir, að vörur þyrftu að hækka í verði á innlendum markaði, og þar með kaupgjald. Þetta frumvarp var að vísu rýrt mikið og úr því dregið í meðferð Alþingis, en þó voru ýmsir megindrættir þess samrykktir. Hafði ríkisstjórnin því heimild til þess að gera verulegar ráðstafanir til að hamla gegn dýrtíðinni. Sumarið 1941 varð hins vegar ekkert samkomulag um að gera slíkar ráðstafanir, og þannig leið fram á haust 194l. Þá lagði ég fram, einnig í samráði við Framsóknarflokkinn, nýjar tillögur um málið í því skyni að fá almenn samtök um að stöðva dýrtíðarrflóðið þar, sem það var þá komið. Ég lagði þá til, að til viðbótar þeim ráðstöfunum, sem áður hafði verið heimilt að gera og í því voru fólgnar að verja fé til þess að halda niðri verðlaginu á vörum, þá skyldi allt verðlag innlendra vara og kaupgjald í landinu lögbundið, eins og það var þá. Það var ætlun mín, að þannig yrði gerð stórfelld tilraun til þess að stöðva verðlagið, eins og það var 1. okt. s.l. haust.

Ég ætla ekki að fara að rekja hér nákvæmlega sögu þessa frv., en það er kunnugt, að frumvarpið var fellt í þinginu. Allur þingheimur kepptist hins vegar um að lýsa yfir því, að brýna nauðsyn bæri til þess að stöðva dýrtíðina.

Ýmsir sögðu, að það væri ekki hægt að stöðva dýrtíðina með þeim aðferðum, sem ráðgerðar væru í frv. Aðrir sögðu, og þeir voru enn fleiri, að óþarft væri að setja fyllri lagaákvæði en í gildi væru um dýrtíðarmálin. Það væri hægt að ná sama árangri með frjálsum samningum við þá sem réðu kaupgjaldinu og verðlaginu.

Við framsóknarmenn sögðum, að afskipti löggjafarvaldsins af kaupgjaldi og verðlagi væri eina leiðin, sem reynandi væri að fara til þess að vinna gegn verðbólunni, eins og þá væri komið.

Um dýrtíðarmálin urðu talsverð átök á aukaþinginu, og sagði þjóðstjórnin af sér, vegna þess að hún gat ekki komið sér saman um lausn málsins. — Eftir allmikið þóf á Alþingi fór hins vegar svo, að ríkisstjórnin var mynduð á ný af sömu flokkum og áður, og í henni sátu sömu menn. Ráðherrar Framsóknarflokksins lýstu hins vegar yfir því, að þeir tækju enga ábyrgð á framkvæmdum í dýrtíðarmálunum, þar sem þeirra leið hefði verið hafnað. Þátttaka Framsóknarflokksins í stjórnarmyndun þessari byggðist á því, að ekki var unnt að láta alþingiskosningar fara fram um hávetur, en þingmeirihlutinn í málinu vildi ekki takast á hendur stjórnarmyndun. Framsóknarflokkurinn taldi ekki rétt, eins og á stóð, að skorast undan að taka þátt í slíkri bráðabirgðastjórn. Þá er rétt að geta þess, að undir niðri töldum við engan veginn óhugsandi, að skár kynni að skipast um úrlausn málsins en áhorfðist þá, og svo kynni að fara, að einhver viðunandi samtök yrðu af hálfu löggjafarvaldsins um framkvæmdir í málinu, þegar það sýndi sig, að samningaleiðin, „frjálsa leiðin“ væri ófær.

Þegar ég flutti frv. mitt á síðasta alþingi, bjóst ég við, að það mundi verða fellt, af því sem á undan var gengið í ríkisstjórninni. Eigi að síður lét ég þau ummæli falla við framsögu fyrir málinu í þessari hv. d., að ég væri engan veginn vonlaus um, að sú alda, sem ég vissi að rísa mundi með málinu, mundi valda stefnubreytingu í verðlags- og fjárhagsmálunum.

Þegar leið fram undir áramótin, sögðu fleiri og fleiri félög upp samningum sínum, einkum félög iðnlærðra verkamanna, og brátt var auðsætt, að undirbúin hafði verið ný sókn af hálfu þessara stétta í kaupgjaldsmálum, sem miðuð var við það að knýja fram hækkun á öllu grunnkaupi í landinu. Auðséð var, að tilgangur þeirra. sem hér hófust handa, var einmitt sá, að setja sig í fararbrodd nýrrar hreyfingar í landinu um hækkun alls kaupgjalds, og herópið var, að með þessu ætti að tryggja launastéttunum hlutdeild í stríðsgróðanum. Það var augljóst, að ef þær stéttir sem höfðu sagt upp kaupgjaldssamningum, fengju yfirleitt hækkað grunnkaup sitt, mundi ekki verða staðið gegn almennri grunnlaunahækkun í landinu. Færi slíku fram, ofan á allt annað, mundi dýrtíðin taka að vaxa með slíkum risaskrefum, að gersamlega vonlaust væri að reyna að aðhafast nokkuð til þess að forðast fullkomið öngþveiti í atvinnu- og fjárhagsmálum þjóðarinnar.

Þegar hér var komið, voru mál þessi tekin upp að nýju og rædd til þrautar í ríkisstjórninni, og náðist samkomulag um það milli Framsóknar- og Sjálfstæðisflokksins að setja gerðardóm í kaupgjalds- og verðlagsmálum en Alþýðuflokkurinn beitti sér gegn þeirri lausn og dró ráðherra sinn út úr stjórninni.

Í gerðardómslögunum segir, að meginreglan skuli vera sú, að grunnkaupgjald skuli standa óbreytt frá því, sem það var á árinu 1941, en þó sé heimilt að úrskurða breytingar til samræmis og lagfæringar.

Augljóst var, að þegar hér var komið sögu, var á ýmsan hátt erfiðara að taka á þessum málum en áður hafði verið. Vísitalan hafði hækkað verulega frá því um haustið, þar eð engar ráðstafanir höfðu verið gerðar til þess að halda henni. niðri, og hitt skipti einnig máli, að á voru skollnar vinnudeilur og verkföll, talsvert meira kapp var því komið í málið en áður hafði átt sér stað og aukin freisting fyrir þá, sem ístöðulitlir eru í stjórnmálaháttum, að skerast úr leik við úrlausnina og freista þess að ná með því móti pólitískum augnablikshagnaði. Hitt var augljóst, að ef ekkert var aðhafzt nú til þess að stöðva almenna grunnkaupshækkun ofan á þá dýrtíð og verðbólgu, sem fyrir var, þá mundi skriðan renna af stað með slíkum fallþunga, að óstöðvandi yrði, og allar ráðstafanir, sem síðar yrðu gerðar, máttlaust kák.

Hér voru því vegamót í þessu máli. Síðustu forvöð að hefjast handa. Síðasta tækifærinu glatað, ef ekkert væri aðhafzt.

Framsóknarflokkurinn var því af þessum ástæðum alveg eindregið þess hvetjandi, að gerðardómsleiðin væri farin, enda þótt honum væri fyllilega ljóst, að það leysti ekki alla þætti málsins og næði ekki að fullu þeim árangri, sem náðst hefði síðastliðið haust.

Það hefur verið nokkuð rætt um mismuninn á gerðardómslögunum og frv. því, er ég flutti á síðasta þingi. Virðast mér þær umræður ekki að öllu leyti sanngjarnar. Því hefur verið haldið á lofti, að meginmunurinn væri sá, að með frv. mínu hefði átt að lögbinda, ekki aðeins grunnkaupið, heldur einnig verðlagsuppbótina, en hér væri aðeins um að ræða í gerðardómslögunum að festa grunnkaupið. Samkvæmt þessu hefðu því launamenn landsins, ef mitt frv. hefði verið samþykkt, átt von á því, að verðlagið í landinu gæti hækkað verulega án þess að þeir fengju það að nokkru bætt með hækkaðri verðlagsuppbót. En hér er sagan ekki nema hálfsögð, og þó verra en það. Í frv. mínu var sem sé gert ráð fyrir myndun dýrtíðarsjóðs til þess að halda niðri verðlagi á innfluttum erlendum nauðsynjum, og lagði ég mikla áherzlu á, að það væri sameiginlegt mál allrar þjóðarinnar að halda verðlagi þeirra vara niðri. sem ekki var beinlinis lögfest verð á samkvæmt frumvarpinu. Það er misskilningur, þegar því er haldið fram, að grundvallarmunur sé að þessu leyti á þeirri úrlausn, sem nú hefur verið valin, og því, sem ég lagði til í frv. mínu.

Þegar við framsóknarmenn ákváðum að beita okkur fyrir gerðardómslöggjöfinni í samstarfi við sjálfstæðismenn, höfðum við fullkomlega opin augu fyrir því, að verðlagið hér innanlands og framleiðslukostnaður er orðið svo hátt, að feikna erfiðleikum mun valda fyrr en varir. En það hefur ekki dregið úr áhuga okkar fyrir því að reyna að fyrirbyggja, að í enn meira óefni verði stefnt.

Meginstefna þessarar löggjafar er sú, eins og áður segir, að halda föstu grunnkaupsgjaldi og verðlagi miðað við það, sem var árið 1941. En á þessu er þó sá fyrirvari að sjálfsögðu, að ef erlend vara hækkar að innkaupsverði, þá geti gerðardómurinn úrskurðað hækkun á verðlagi hennar innanlands, svo framarlega sem ekki verði gerðar neinar ráðstafanir til þess að vinna gegn því að slík hækkun þurfi að koma fram í útsöluverðinu. Jafnframt er skýrt tekið fram í lögunum, að verð á landbúnaðarvörum skuli hækka, ef framleiðslukostnaðurinn eykst. Ef verðlagið á erlendu vörunum þarf að hækka af utanaðkomandi ástæðum eða framleiðsla landbúnaðar þarf að hækka, þá hækkar vísitalan og þar af leiðandi kaupgjaldið einnig, — og síðan verðlagið aftur og þannig koll af kolli. — Það er þess vegna brýn nauðsyn, að ráðstöfunum gerðardómsins fylgi framkvæmdir til þess að komast í veg fyrir, svo sem frekast verður við komið, að slíkar hækkanir þurfi að eiga sér stað, bæði með því að verja fé til þess að mæta hækkunum erlendu varanna og eins með því að vinna gegn því, að erlend hráefni, sem nota þarf til landbúnaðarframleiðslu, hækki, svo sem áburður, fóðurbætir o.fl.

Hefur orðið samkomulag um það milli flokka þeirra, sem standa að ríkisstjórninni, að gera ráðstafanir í þessu efni. og mun verða lagt fram sérstakt frv. í því skyni að afla nægilegra heimilda til slíkra framkvæmda, svo framarlega sem athugun, er nú fer fram á þessum málum, leiðir í ljós, að nýrrar löggjafar sé þörf. — Að mínum dómi á að reka þessa starfsemi til að halda niðri verðlaginu óhikað, og það fé, sem til þess fer, er alls ekki tapað. Þar er raunverulega aðeins um tilfærslu fjármuna að ræða, en ekki eyðslu. — En vitanlega verður að fylgja slíkum ráðstöfunumfjáröflun. Vil ég í því sambandi nefna útflutningsgjald af þeim vörum, sem seljast hæsta verði út úr landinu, og þá sérstaklega fiskinn, sem fluttur er beint til Englands og seldur þar með miklum gróða. Má sérstaklega sjá eftir því, að þær heimildir, sem í lögum eru um slíkt útflutningsgjald, skuli ekki hafa verið notaðar til þess að skattleggja þennan útflutning.

Síðan gerðardómurinn hóf starf sitt, hefur hann, í Samvinnu við verðlagsnefndina, unnið mikið starf í því að koma í veg fyrir verðhækkanir á vörum og beinlínis orðið þess valdandi, að verðlag á sumum vörum hefur lækkað. Var það áður óþekkt fyrirbrigði um langt skeið. Árangurinn af þessu starfi hefur orðið sá, að vísitalan hefur staðið óbreytt frá 1. jan. til þessa dags.

Ég hef í öðru sambandi fært ýtarleg rök fyrir því, að stríðsgróðinn verði ekki sóttur í hendur atvinnurekenda með hækkuðu kaupgjaldi og verðlagi, og hefur hvergi verið gerð minnsta tilraun til, að hrekja þau rök. Slíkar ráðstafanir verða ekki til þess að færa gróðann í hendur almennings, heldur til ills fyrir alla, sem hlut eiga að máli. Ég hef og sýnt fram á, einnig í öðru sambandi, að hvergi í nálægum menningarlöndum finnast ábyrgir alþýðuleiðtogar, sem leyfa sér að halda slíku fram.

En hvað á þá að gera við stríðsgróðann? Stríðsgróðann á hiklaust að taka með sköttum og leggja hann í sjóði ríkis, bæjar- og sveitarfélaga, til þess að mæta kostnaði við margs konar nauðsynlegar framkvæmdir, sem gera verður, þegar aftur skapast möguleikar til þeirra og efni og vinnuafl verður fyrir hendi. Í því sambandi er aðeins eins að gæta sérstaklega. Þeir, sem reka áhættusaman atvinnurekstur, eins og t.d. sjávarútveg, sem stundum gefur mikinn arð, en á öðrum tímum er rekinn með miklum halla, verða að fá tækifæri til að safna hæfilegum varasjóðum til erfiðu áranna og til þess að leggja í ný tæki. Stríðsgróðann ber að festa fyrst og fremst í eigu hins opinbera til almennra þarfa, en sumpart hjá atvinnurekendum, og verða að vera örugg ákvæði til tryggingar því, að sá hluti ágóðans, sem atvinnurekendur halda sem varasjóðum, verði raunverulega notaður til stuðnings atvinnuvegunum. Þannig munu og þau mál verða leyst á þessu þingi. — þegar svo er komið, geta allir sanngjarnir menn sætt sig við strangar hömlur til þess að halda niðri verðlagi og kaupgjaldi.

Það hefur verið ósk Framsóknarflokksins og ákveðin stefna að leysa alla þætti dýrtíðarmálsins, þar m,eð sköttun stríðsgróðans, samtímis, og mun það verða gert á þessu þingi.

Mun ég þá víkja að afstöðu Alþýðuflokksins til þessa máls og framkomu hans.

Það vantar ekki, að forkólfar Alþýðuflokksis tali fagurt um að stöðva dýrtíðina. Er ekki unnt að heyra, annað aðra stundina en að þeir telji hinn mesta háska fyrir verkamenn og launamenn ekki síður en aðra, ef dýrtíðin fær að vaxa áfram, en annað veifið telja þeir það einu sanngjörnu leiðina til þess að skipta stríðsgróðanum að auka verðbólguna með því að hækka kaupgjaldið í landinu. Hins vegar hefur reyllan verið sú, að alltaf þegar átt hefur að gera eitthvað til þess að hindra verðbólguna, þá hefur Alþýðuflokkurinn skorizt úr leik og á því er einföld og eðlileg skýring, sem ég kem að síðar.

Þegar lagt hefur verið til að hafa opinbert eftirlit með verðlagi á landbúnaðarafurðum og kaupgjaldi, þá hefur flokkurinn verið fús til þess að lögbinda verðlag á landbúnaðarvörum og beinlinis krafizt þess, að það yrði lögbundið, en ekki viljað fallast á eftirlit með kaupgjaldi. Ef kaupgjald á að ákveða með löggjöf, þá er það kúgun og ófrelsi og lögin um það þrælalög, og það engu að síður þótt Alþýðuflokkurinn hafi sjálfur oftar en einu sinni tekið þátt í slíkri lagasetningu. — En verðlag á landbúnaðarafurðum, sem vitanlega er ekkert annað en kaupgjald bændanna, — það má lögfesta. Það er ekki kúgun. Það er ekki ófrelsi. Það má löggjafarvaldið fara með eins og það vill. Þannig er samræmið í kenningum flokksins, og menn geta ímyndað sér, hvernig það muni vera að starfa að lausn vandasamra mála með mönnum, á meðan þeir eru í slíkum ham.

Þessi fáránlega afstaða flokksins í málinu er svo rökstudd með því, að kaupgjald í landinu hafi lítil eða engin áhrif á verðlagið, en hins vegar ráði verðlag landbúnaðarafurða mestu um dýrtíðina. Ætti það þó að vera, augljóst hverjum manni, sem eitthvað hefur reynt að gera sér grein fyrir almennum málum, að enginn einn þáttur hefur meiri áhrif á verðlagið í landinu en einmitt kaupgjaldið, og enginn einn þáttur hefur eins mikil og gagnger áhrif á verðlag landbúnaðarafurðanna og einmitt kaupgjaldið.

Nú er stríðið búið að standa á þriðja ár. Árin 1940 og 1941 eru liðin. Á þessum árum hefur verið mikill gróði hjá atvinnurekendum, ekki sízt þeim, sem hafa getað selt afla sinn beint á erlendan markað. Fram að árslokum 1941 hefur það verið stefna verkalýðssamtakanna og forkólfa Alþýðuflokksins, að verkamönnum bæri að fara mjög gætilega í því að krefjast grunnkaupshækkana. Að vísu áttu sér stað nokkrar grunnkaupshækkanir í ársbyrjun 1941, en það var aðallega til samræmis við það, sem áður tíðkaði5t:í öðrum stöðum á landinu.

Það hefur yfirleitt verið viðurkennt, að grunnkaup var hér hátt fyrir stríð og miðað við að menn yrðu að ganga atvinnulausir hluta ársins.

Forkólfar verklýðsfélaganna hafa yfirleitt ekki frið neitt dult með þessa skoðun sína um grunnkaupið. En nú allt í einu haustið 1941, þegar stríðið hefur staðið í 2 ár og allar horfur eru á því, að hið mesta gróðatímabil sé liðið hjá, og jafnvel fullkomin óvissa um það, hvort atvinnuvegirnir muni gera sig á næstunni, þá rjúka pólitískir spákaupmenn, sem vilja kalla sig foringja verkalýðsins, upp til handa og fóta og krefjast grunnkaupshækkana fyrir verkamenn og launamenn, til þess að ná þeim til handa hluta af stríðsgróðanum ! Ef nokkurt vit væri í þessari stefnu, að krefjast grunnkaupshækkana til þess að draga gróðann úr höndum atvinnurekendanna yfir til almennings, það má því segja um trúmennsku þessara svokölluðu alþýðuleiðtoga undanfarin tvö ár við verkalýðinn, að hafa ekki fyrr tekið upp baráttuna fyrir því, að þeir fengju hluta af stríðsgróðanum? Hvernig hafa þeir farið með umboð kjósenda sinna þessi tvö ár, fyrst þeir hafa ekki minnzt á það, sem þeir telja nú aðalhagsmunamál verkalýðsins?

Hvernig ætla þeir að gera grein fyrir þessum svikum sínum við málstað verkalýðsins, þegar þeir menn, sem nú kunna að trúa kenningum þeirra um grunnkaupshækkanir og stríðsgróða, krefja þá reikningsskapar um þetta mál?

Það skyldi þó aldrei vera eitthvað bogið við þetta allt saman? Það skyldi þó aldrei vera, að kenningin um „skiptingu stríðsgróðans“ reyndist falskenning, þegar til alvörunnar kemur?

Það mættu þá einnig vera meiri svikin:f hálfu allra verklýðsleiðtoga í öðrum löndum, alls staðar þar, sem við þekkjum til, að hafa ekki krafizt þess, að farin yrði kauphækkunarleiðin, ef hún er raunverulega hin rétta aðferð til þess að deila stríðsgróðanum meðal landsmanna og launastéttanna sérstaklega !

Hvarvetna í öðrum löndum beita verkamannaleiðtogar sér fyrir því, að grunnkaup raskist sem allra minnst, og auðvitað með það fyrir augum að vinna að hagsbótum launastéttanna engu síður en annarra.

Það þarf ekki heldur að fara langt aftur í tíminn til þess að sýna, hvernig þeir menn eru settir, sem nú, til pólitísks ávinnings, ætla sér að halda því fram, að hækkun grunnkaups sé réttmætt úrræði til þess að skipta stríðsgróðanum. Þegar rætt var um frv. mitt á haustþinginu, voru allir, sem um það ræddu, sammála um, að hvað sem liði lögbindingu afurðaverðs og kaupgjalds, þá væri það þó víst, að öllum væri fyrir beztu, að grunnkaupshækkanir ættu sér ekki stað. Og ekki nóg með það. Þegar verið var að athuga þetta mál innan ríkisstjórnarinnar sérstaklega og menn tóku sér hlé til þess að rannsaka, hvort hin svonefnda „frjálsa leið“ væri fær, þá fór fyrrverandi hæstv. ráðh., Stefán Jóh. Stefánsson. á fund Alþýðusambandsstjórnarinnar og spurðist fyrir um það, hvort hún byggist við grunnkaupshækkunum, og hvort hún vildi stuðla að því, að grunnkaupsgjaldið héldist óbreytt, ef það yrði ekki lögbundið. .Þegar Stefán Jóh. Stefánsson kom aftur á fund ríkisstjórnarinnar, lýsti hann yfir því, að hann byggist við, að verkalýðsfélögin mundu ekki beita sér fyrir neinum teljandi grunnkaupshækkunum, og enginn gat skilið ummæli hans öðruvísi en svo, að stjórn Alþýðusambandsins vildi vinna að því, að grunnkaupið héldist yfirleitt óbreytt, ef það gæti orðið til þess að kaupið yrði ekki lögbundið. — Var þá ekki jafnmikil nauðsyn og nú að tryggja launastéttunum hluta af stríðsgróðanum? —. Ef það er árás á verkalýðinn, kúgun og ég veit ekki hvað fleira, að gera ráðstafanir til að grunnkaup breytist sem minnst, hvað má þá segja um þessa afstöðu verkalýðsforkólfanna í haust og allan tímann síðan vart fór að verða við stríðsgróðann?

Þegar verið var að ræða þessi mál í haust, þá var í mesta lagi talað um smáleiðréttingar á grunnkaupi hinna lægstlaunuðu stétta, eins og ég hef þegar sýnt fram á. Ég get ekki stillt mig um að taka hér upp ummæli úr ræðu Stefáns Jóh., Stefánssonar, ráðherra, er hann hélt á Alþingi 24. okt. s.l., og sýna mjög vel, hvernig þá, var litið á grunnkaupshækkanir. Hann kemst þannig að orði:

„Og ég held, að launastéttirnar í landinu hafi yfirleitt enga löngun til þess að láta dýrtíðina vaxa og að þegar atvinna í landinu er góð og mikil og þær fá upp borna í hækkuðu kaupi vaxandi dýrtíð, þá sé ekki mikil tilhneiging hjá launastéttunum til þess að hækka grunnkaupið. Reynslan hefur sýnt þetta.“

Hann sagði enn fremur:

„Og mér er kunnugt um það, að það er engin sérstök hreyfing í þá átt að segja upp kaupsamningum með það fyrir augum að hækka grunnkaupið.“ Hann orðaði það einnig svo, —. „að engin yfirvofandi hætta sýnist á því, að slíkt skelli á.“ Félagsmálaráðherrann sagði í þessari ræðu sinni, að það væri „óeðlilegt og ranglátt, nema í lífsnauðsyn þjóðarinnar, að kaupsamningar séu ekki frjálsir milli verkamanna og atvinnurekenda.“ En svo bætti hann við þessum orðum:

„Engri slíkri nauðsyn er til að dreifa að mínu áliti, þegar launastéttirnar hafa ekki sýnt það í verki, að þær hugsi sér að auka dýrtíðina, með því að gera ákveðnar og almennar kröfur um hækkun grunnkaups.“

Hér er ekki verið að skafa utan af því. Hér er það sagt eins greinilega og hægt er, að engin sérstök hreyfing sé í þá átt að segja upp kaupsamningum til að fá hækkað grunnkaup, og enn fremur að engin „yfirvofandi hætta“ sé á slíkum hækkunum. Orðið „hætta“ er beinlinis notað í þessu sambandi, og auðvitað mundi enginn tala þannig, sem teldi grunnkaupshækkanir eðlilegar.

Ég held, að engum geti blandazt hugur um, að sá, sem heldur þessa ræðu, er sjálfur þeirrar skoðunar, að grunnkaup eigi ekki að hækka, og að slíkar hækkanir væru meira en lítið vafasamar hagnaður fyrir verkalýðinn sjálfan. Það er megináherzla á það lögð, að þess sé engin þörf að lögbinda kaupið, vegna þess að grunnkaupshækkanir séu ekki í vændum. Hver mundi halda slíka ræðu, ef hann væri sannfærður um, að grunnkaupshækkanir væru sjálfsögð réttlæfiskrafa verkalýðsins til þess að tryggja sér stríðsgróðann? Er það ekki broslegt, að við skulum vera kallaðir verkalýðsböðlar og öllum illum nöfnum fyrir að vera sömu skoðunar og Alþýðuflokksmenn voru í haust og eru sjálfsagt enn?

Alþýðublaðið er þó jafnvel enn berorðara. Í blaðinu 1. nóv. í haust segir:

„Er því algerlega óþarft að lögbinda það (þ.e. kaupgjaldið) til þess að halda dýrtíðinni í skefjum, nema því aðeins að reynt yrði að knýja fram grunnkaupshækkun. En ekkert bendir til þess, að það sé fyrirhugað, að minnsta kosti við í hönd farandi áramót.“

Með þessum, orðum segir alþýðublaðið, að lögbindingin sé óþörf, nema því aðeins, að reynt yrði að knýja fram grunnkaupshækkanir. Þetta er ekki hægt að skilja nema á einn veg: Ef knýja ætti fram grunnkaupshækkun, þá væri blaðið meðmælt kaupbindingu, — en þörfin er bara ekki fyrir hendi, af því að engin hreyfing er í þá átt að hækka kaupið ! Hvað segja menn nú um þetta annars vegar, og hitt, sem við megum nú daglega sjá og heyra, hins vegar!

Þegar afstaða Alýðuflokksins frá upphafi stríðsins og það, sem kom fram í haust, er athugað og borið saman við það, sem nú er haldið fram í sambandi við gerðardómslögin, þá munu vart margir telja Alþýðuflokkinn öfundsverðan af hlutskipti hans. En hver er þá skýringin á þessum ósköpum? Hún getur ekki verið nema ein og er ákaflega einföld. Flokkurinn hefur frá upphafi verið ráðinn í því að eiga engan þátt í lausn dýrtíðarmálanna. Hann hefur frá öndverðu verið ráðinn í því að komast í stjórnarandstöðu á þessum málum, til þess að vinna sig upp. Aðeins út frá þessu sjónarmiði er afstaða flokksins skýranleg. Það er ekki skiljanlegt frá öðru sjónarmiði, að flokkurinn skuli flytja tillögur um að lögfesta afurðaverð bændanna, sem vitanlega er ekkert annað en kaupgjald þeirra, en láta allt annað kaupgjald í landinu vera óbundið, og bíta svo höfuðið af skömminni með því að þykjast með þessu móti vilja gera réttlátar ráðstafanir gegn dýrtíðinni.

Ekki verður heldur skýrt með öðru það undarlega fyrirbrigði, að frá stríðsbyrjun og fram undir síðustu áramót telur flokkurinn eðlilegt að grunnkaup standi yfirleitt óbreytt, en um áramótin, þegar svo er komið, að ekki var fyrir hendi annað úrræði til þess að skerast úr leik og komast í stjórnarandstöðu en að snúa algerlega við blaðinu og telja það eina sáluhjálplega fyrir verkalýðinn að hækka grunnkaupið, þá var það gert.

Hitt er annað mál, að þessu fylgja meira en lítil óþægindi, vegna þess, sem á undan er gengið. En einmitt það, að Alýðuflokkurinn skuli ekki hika við að taka á sig þessi óþægindi, sýnir, að óttinn við samkeppni kommúnista og vantraustið á skilningi launastéttanna hefur altekið, Alþýðuflokkinn, og að hann hefur verið alveg ráðinn í því frá byrjun að eiga engan þátt í lausn dýrtíðarmálanna.

Fátt sýnir betur þá ófæru, sem vinnubrögð Alþýðuflokksins hafa hrundið honum út í, en viðaukatillögur þær í dýrtíðarmálunum, sem hann hefur nú lagt fram, frumvarpið um gengishækkun.

Ég segi viðaukatillögur vegna þess, að þrátt fyrir gengisfrumvarp sitt endurflytja Alþýðuflokksmenn dýrtíðarfrumvarp sitt frá því í haust, sem er ekkert annað en uppsuða úr tillögum mínum um dýrtíðarmálin, þó með þeirri veigamiklu breytingu, að allt á að binda nema kaupgjaldið.

Nú þyrfti það út af fyrir sig ekki að bera neinn sérstakan vott um úrræðaleysi að gera tillögu um gengishækkun, þó að óneitanlega séu margir erfiðleikar á að nota það úrræði, eins og nú er komið málum. Það er annað, sem sérstaka eftirtekt hlýtur að vekja í þessu frumvarpi. Samkvæmt því á að bæta útflytjendum þann halla, sem þeir verða fyrir af gengislækkuninni, þ.e.a.s. þeim, sem selja vörur upp í brezka samninginn. Og bankarnir eiga að fá bættan gengismun á innstæðum sínum, milli 20 og 30 milljónir króna.

Ég hef aldrei séð jafn „ósminkað“ kosningafrumvarp á Alþingi og þetta plagg. Það á að hækka krónuna, og margir eiga að græða á því. Þeir, sem flytja út vörur upp í brezka samninginn, eiga að fá fullar bætur. En hvaðan eiga þær bætur að koma? Jú, það er talað um skatt á eignaaukningu í stríðinu, og það er vit í því út af fyrir sig, til þess að jafna gengismun á innistæðum erlendis, ef til gengishækkunar verður gripið. En dettur nokkrum manni í hug, að sú gengishækkun, sem yrði til þess, að borga þyrfti aðalatvinnuvegi landsmanna útflutningsstyrk, geti staðizt stundinni lengur'? Þeir verða ekki til frambúðar teknir af eignaaukningu manna vegna stríðsins og allra sízt, ef stríðsgróðinn er hæfilega skattlagður. — Halda menn, að það yrði ekki einnig að styrkja útflytjendur fleiri vara en fisksins? Hvers eiga þeir að gjalda, sem flytja út síldarafurðir og landbúnaðarafurðir t.d., hví eru þeir ekki tryggðir gegn tapi af gengishækkun?

Gengishækkun er ein af þeim leiðum, sem gaumgæfilega hafa verið athugaðar í sambandi við dýrtíðarmálin. Þótt sú leið væri farin, yrði að gera flestar þær aðrar dýrtíðarráðstafanir, sem nú hefur verið gripið til, ef árangur ætti að nást í því að stöðva dýrtíðina. Enn fremur er þess að gæta, að gengishækkun ein mundi hafa mjög takmörkuð áhrif á framfærslukostnaðinn — dýrtíðina.

En hvað sem því líður, hvort grípa skuli nú til gengishækkunar eða ekki, þá er bezt að gera sér það fullljóst einmitt nú, að geti aðalútflutningsatvinnuvegur landsmanna — sjávarútvegurinn — ekki bolað gengishækkun styrkjalaust, — sé búið að spenna svo upp framleiðslukostnaðinn nú þegar, að smábátaútvegurinn t.d. þoli ekki hærra gengi en nú er —, þá er gengishækkun ekki framkvæmanleg. Allir ábyrgir menn sjá það í hendi sér, að það verður fullerfitt að raka saman 20–30 millj. króna til þess að bæta bönkunum upp gengishalla, þótt ekki bætist þar við, að greiða þurfi tugi milljóna í útflutningsstyrki árlega.

Það sýnir bezt einurðarleysi Alþýðuflokksins, svo að ekki sé sterkara að orði kveðið, að hann skuli ekki þora að viðurkenna þessa staðreynd og skuli hika við að leggja gengismálið hreint fyrir landsmenn. Hvers vegna að reyna að dylja fyrir mönnum hin eðlilegu og óumflýjanlegu áhrif gengishækkunar'? Trúir flokkurinn ekki svo á málstaðinn, að hann þori að koma hreint fram og segja við framleiðendur, t.d. útgerðarmenn og sjómenn: Auðvitað verðið þið fyrir tapi í bili, en af því að þessi ráðstöfun er rétt, því verður að gera hana samt. Í stað þess er sagt: Enginn verður fyrir neinum halla, — ríkissjóður borgar uppbætur á fiskinn —, að vísu gerir frumvarpið ekki ráð fyrir slíkum uppbótum nema rétt fram yfir kosningar, en þó að Alþýðuflokknum þyki sú trygging kannske nægileg, mundi kannske sumum öðrum finnast hið gagnstæða.

Sé nú svo komið, að gengishækkun yrðu að fylgja útflutningsstyrkir á aðalútflutningsvöruna, þá er hún óframkvæmanleg, nema um leið séu gerðar öflugar ráðstafanir til þess að lækka framleiðslukostnaðinn, og það má svo sem nærri geta, hvernig þeim ráðstöfunum yrði tekið.

Ég vil ekki á þessu stigi málsins leggja dóm á það, hversu ástatt er um möguleika sjávarútvegsins til þess að þola gengishækkun, en hitt vil ég segja, að tillögur Alþýðuflokksins um þetta mál eru óframkvæmanlegar, og í sjálfum tillögunum er því í raun og veru slegið föstu, að gengishækkun sé ekki framkvæmanleg, vegna þess að útflutningsframleiðslan þoli hana ekki. Hitt tekur enginn alvarlega, að gengisskráning verði til lengdar byggð á því, að milljónatugir séu greiddir í útflutningsverðlaun. Það er framkvæmanlegt að greiða útflutningsuppbætur á einstaka vörutegundir, sem ekki eru mjög mikill þáttur í utanríkisverzluninni. Hitt er óframkvæmanlegt og mundi leiða til gengislækkunar á nýjan leik von bráðar, þótt reynt yrði.

En hvernig stendur á þessu fálmi Alþýðuflokksins ? Mér finnst auðvelt að finna á því skýringu. Eftir að flokkurinn hefur ákveðið að freista gæfunnar í stjórnarandstöðu, — eins og hann er raunar vanur að gera fyrir kosningar —sbr. það, sem gerðist 1931 og aftur 1937 —, þá virðist honum sérstaðan í dýrtíðarmálinu af sinni hálfu varla nógu glögg, og er það vorkunnarmál, þegar þess er gætt, að aðaltillögur flokksins eru uppsuða úr dýrtíðartillögum mínum — með þeirri breytingu, að þeir krefjast þess, að engin afskipti séu höfð af kaupgjaldi, þótt kaupgjald framleiðenda eigi hins vegar að binda með afurðaverðinu. — Flokknum hefur því þótt þörf á að brydda upp á einhverju nýju, — og þá er gengishækkun góð. — En þegar nánar er að gætt, er þó sá galli á gjöf Njarðar, að AIþýðuflokkurinn hefur áður haldið fram, að fiskverðið samkvæmt brezku samningunum væri allt of lágt, — jafnvel svo, að fiskveiðar gætu ekki borið sig. Gerði flokkurinn mikið veður út af þessu á sinni tíð og átti að koma sér vel hjá útvegsmönnum og hlutamönnum. Nú voru því góð ráð dýr. En brátt rættist þó betur úr en áhorfðist. Vandinn reyndist ekki annar en sá að bæta nokkrum línum inn í frumvarpið, þess efnis, að ríkissjóður skyldi bæta upp hallann af gengishækkuninni þeim,, sem selja fisk samkvæmt fisksamningnum við Breta, — það gerði ekkert til um hina. Þetta var svo einfalt og hafði þann mikilsverða kost, að með því móti gafst einnig sérstakt tækifæri til þess að benda á, hvað þeir væru afskiptir, sem byggju við þennan samning.

Þegar þetta úrræði var fundið, gat svo Finnur Jónsson. hv. þm. Ísaf., gerzt 1. flutningsmaður frumvarpsins um gengishækkunina, þrátt fyrir allt, sem hann er búinn að fjargviðrast um fyrirsjáanleg vandræði og rekstrartap útgerðarinnar vegna þess að verðlagið sé of lágt.

Það er ekki vandasamt að vera í stjórnarandstöðu á Íslandi, ef Alþýðuflokksmenn hafa hitt naglann á höfuðið með framkomu sinni í dýrtíðarmálunum.

Þeir segja: Það er lífsnauðsyn fyrir verkamenn að stöðva dýrtíðina, engir tapa á henni meira en þeir. Jafnframt segja þeir: Það er réttlætismál, að grunnlaunin séu hækkuð og stríðsgróðanum skipt þannig, og það veldur engu um hækkun dýrtíðarinnar, þótt það sé gert, — það verður bara að setja fast verðið á landbúnaðarafurðunum, þá er öllu borgið. Enn fremur: Verðið á fiskinum er allt of lágt, framleiðslan ber sig ekki. — Eigi að síður er það eitt helzta nauðsynjamálið og úrræðið í dýrtíðarmálunum að hækka gengið. Það þarf enginn á því að tapa, — ríkissjóður borgar — allir græða.

Ég er sannfarður um, að alþýðuflokkurinn á eftir að hafa litla gleði af þrekleysi sínu í dýrtíðarmálinu, og það er mesti misskilningur, ef flokkurinn heldur, að hann auki fylgi sitt með slíkum vinnubrögðum. Til þess liggja margar ástæður, sem of langt yrði að rekja hér. Í fyrsta lagi, að dýrtíðamálið mætir vaxandi skilningi almennings hvarvetna á landinu, ekki síður launamanna en annarra. Í öðru tagi, að stefna Alþýðuflokksins brýtur í bága við stefnu annarra verkaýðsflokka í þessum málum, og þegar af þeirri ástæðu munu menn sjá, að það er eitthvað meira en lítið bogið við afstöðu flokksins. Í því sambandi ber ég þá ekki saman við forkólfa kommúnista, — þeir hafa aðeins eitt áhugamál, og það er að gera öngþveitið sem mest. Í þriðja lagi, að afstaða Alþýðuflokksins til kaupgjaldsmálanna frá stríðsbyrjun hefur verið sú, að grunnkaup ætti ekki að hækka, — þangað til þeir töldu sig þurfa af pólitískum ástæðum að fara að „skipta stríðsgróðanum“ með hækkun grunnkaupsins.

Það mun sönnu næst í þessu máli, að forkólfar Alþfl. munu ekki gera sér neinar tyllivonir um, að þeir skipti stríðsgróðanum með launastéttunum, þótt almennar grunnlaunahækkanir eigi sér stað. Hins vegar munu þeir hafa ætlað sér að hafa pólitískan stríðsgróða af því að hlaupa undan merkinu í dýrtíðarmálunum. Reyndin mun hins vegar verða sú, að þau vinnubrögð munu ekki reynast gróðavænlegri fyrir flokkinn en aukning verðbólgunnar fyrir verkalýðinn.