11.03.1942
Neðri deild: 17. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 158 í B-deild Alþingistíðinda. (270)

2. mál, dómnefnd í kaupgjalds- og verðlagsmálum

Einar Olgeirsson:

Herra forseti ! Heiðruðu áheyrendur! Ég tala hér fyrir hönd Sameiningarfl. alþýðu — Sósíalistafl. og mun setja fram skoðanir hans á frv. því, sem hér um ræðir.

Gerðardómslögin, sem ríkisstjórnin gaf út 8. jan., eru freklegasta réttindaskerðing, sem nokkurn tíma hefur verið framkvæmd af íslenzkri ríkisstjórn gagnvart öllum stéttum, er land þetta byggja, að undantekinni þeirri fámennu stétt auðmanna, sem hirðir gróðann af útflutningi landsmanna. Með þessum lögum eru allir Íslendingar, sem lifa af að selja vinnuafl sitt eða framleiða fyrir innlendan markað, sviptir réttinum til þess að ráða sjálfir verðlagi vinnuafls síns eða framleiðslu sinnar, ef hún er fyrir íslenzkan markað. Þeir Íslendingar, sem selja erlendis afurðir landsmanna, eru hins vegar gerðir að sérréttindastétt, sem allt önnur lög gilda fyrir en aðra landsmenn.

Fyrst og fremst beinast lög þessi gegn verkalýð og öðrum launþegum, eða meiri hluta íslenzku þjóðarinnar, sem lifir einvörðungu á sölu vinnuafls síns. Allan þennan fjölda á að gera að réttlausum þrælum, sem eru neyddir til að láta vinnuafl sitt í té fyrir verð, sem 3 bankastjórar og 2 embættismenn ákveða.

Ég skal nú athuga í stuttu máli, hvers konar kjör það eru, sem verkalýðnum eru raunverulega sköpuð með lögum eins og þessum.

Í því auðvaldsþjóðfélagi, sem við enn eigum við að búa, skiptast á löng atvinnuleysis- og vandræðatímabil og skömm góðæristímabil fyrir verkalýðinn. Allt frá 1930 til 1940 hefur verkalýður Íslands átt við atvinnuleysi að stríða og hvers kyns vandræði, sem því fylgja, fáakt, sult og sjúkdóma. Allan þennan áratug kvað sífellt við sá sónn frá valdhöfunum, auðmönnum landsins, að hækka yrði kaupið, að skammta yrði verkalýðnum. enn smærra. Það þótti hreinasta fjarstæða, að verkalýðurinn reyndi að hækka kaup sitt á slíkum tímum, enda hafði hann yfirleitt litla aðstöðu og litla möguleika til þess.

1939 þorði svo auðmannastéttin lola að leggja til atlögu við verkalýðinn, af því að henni hafði tekizt að sameina foringja þjóðstjórnarflokkanna þriggja í þjónustu sinni. Í apríl 1939 var pundið hækkað — fyrir Kveldúlf, krónan felld, laun verkalýðsins raunverulega lækkuð og verkalýðurinn sviptur frelsi sínu til verkfalla, launahækkun lögbönnuð, verkalýðnum skammtað smátt og þungi dýrtíðarinnar látinn leggjast á herðar verkamanna og annarra launþega, en Kveldúlfur og aðrir togareigendur gerðir skattfrjálsir.

Og verkalýðurinn varð að þola launalækkunina, því að á tímum atvinnuleysis er erfitt, oft ókleift, fyrir hann að fá grunnlaun sin hækkuð.

Nú er komið svokallað góðæri. Nú streymir meiri auður inn í þetta land en nokkru sinni fyrr. Nú er nóg atvinna. — Nú er því eina tækifærið, sem verkalýðurinn hefur sem heild til að bæta aðstöðu sína sem stéttar í þjóðfélaginu, tryggja sér meiri hlutdeild en þann smánarlega litla hlut, sem hann hefur hingað til haft.

Og nú — nú er honum bannað með lögum að bæta hlut sinn, að hækka grunnkaun sitt. atvinnuleysis- og krepputímum hindra auðmennirnir með samtakavaldi sínu, að verkamenn geti hækkað grunnkaup sitt.

Á atvinnu- og góðæristímanum banna auðmennirnir með löggjafarvaldi ríkisstjórnar sinnan, — og máske Alþingis —, að verkamenn megi hækka grunnkaup sitt.

Með öðrum orðum: Innan þessa þjóðfélags á verkalýðurinn aldrei að fá að bæta kjör sín. Hann á alltaf að vera afskiptur þræll, sem auðmennirnir geti gripið til, fyrir kaup, sem þeir ákveða, þegar þeim finnst gróðavon, og kastað út á kaldan klaka atvinnuleysisins þar á milli.

Þetta er sannleikurinn um vilja valdhafanna, sannleikurinn, sem gerðardómslögin leiða í ljós. En það er ekki nóg með þetta: Valdhöfunum finnst erfitt um framkvæmd slíkra þrælalaga sem þessara og þykir uggvænt að þau verði brotin, neina jafnframt sé komið á atvinnuleysi aftur. Hæstv. viðskmrh., Eysteinn Jónsson, sagði í framsöguræðu sinni út af þvingunarlögunum á síðasta þingi, að kalla yrði á jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar, m.ö.o. minnka svo atvinnuna, að eftirspurn eftir vinnuafli yrði ekki meiri en framboðið. Og nú vinnur ríkisstjórnin að því að fá Bretavinnuna minnkaða og hefur tekizt það. Henni er svo áfram um að minnka atvinnu verkamanna, að henni er alveg sama, þótt hún um leið dragi úr hervörnum landsins, einmitt þegar innrásarhættan er mest, þegar Hitler safnar saman herskipum sínum, herliði og flugvélum í Noregi.

En það er ekki nóg með það, að auðmennirnir og ríkisstjórn þeirra banni grunnkaupshækkun og minnki atvinnu verkalýðsins. Þeir sjá og ofsjónum yfir, að verkamenn, með því að þræla baki brotnu, geti þannig bætt kjör sín. Ríkisstjórnin er nú að reyna að fá því framgengt, að verkamenn megi ekki vinna nema venjulegan vinnudag í Bretavinnunni, svo að þeir beri sem minnst úr býtum.

En svo hefur verið fram að þessu, að fjöldi verkamanna hefur þrælað fram á síðla kvöld og sunnudaga líka. Þeir hafa með þessari iðjusemi verið að reyna að spara sér saman til komandi atvinnuleysisára, sem þeir vita, að núverandi valdhafar munu leiða yfir þá, ef þeir fá að drottna áfram. — Fyrir nokkrum árum voru auðmennirnir að svívirða verkamennina fyrir leti. Frekustu þjónar auðmannanna, eins og Jónas frá Hriflu, vildu klæða fátækustu verkamennina í einkennisbúninga, til að svívirða þá og kölluðu þá iðjuleysingja.

Nú banna auðmennirnir og stjórn þeirra verkamönnum að vera iðjusamir.

Það er því auðséð, hvert sem litið er, að hverju er stefnt: Verkalýðurinn á að vera undirokuð stétt, er búi við ill kjör, og þau mega aldrei batna. Ef vald braskaranna yfir atvinnutækjunum nægir ekki til að halda verkalýðnum niðri, þá er löggjafarvaldinu beitt til þess líka.

Hatrið til verkalýðsins — og óttinn við sigursæla þjóðmálastefnu hans, sósíalisminn — er höfuðeinkennið á núverandi ríkisstjórn. Og hin hlið þess máls er þjónusta hennar við þann hluta íslenzku auðmannastéttarinnar; sem nú er orðinn svo langsamlega ríkastur allra auðmanna, er verið hafa á Íslandi, togareigendurna, — að segja má, að hér sé nú risið upp nýtt auðvald, sem hefur álíka gífurlega yfirburði yfir alla aðra einstaklinga þjóðarinnar á fjármálasviðinu eins og auðhringir Bandaríkjanna hafa þar í landi yfir öðrum einstaklingum,. Og þessi nýríka togaraeigendastétt er nú að reyna að skapa sér álíka pólitísla einræði og þýzku auðhringirnir hafa skapað sér. Gerðardómslögin eru einn prófsteinninn um, hvað megi bjóða þjóðinni.

Um leið og ríkisstjórnin hefur vægðarlaust látið kúgunarsvipu einræðislaganna dynja á herðum verkalýðsins, hefur hún sem auðmjúkur þjónn ausið tugum milljóna króna í hít þeirra svindlfélaga, sem áður fyrr voru allt að því búin að setja þjóðbankann og ríkið á hausinn með óstjórn sinni, en hafa nú fyrir aðgerðir ríkisstjórnarinnar bólgnað út, svo að þau eru orðin að auðjötnum, sem í hroka sínum telja sig upphafna yfir aðra Íslendinga og dirfast að telja fullgott handa öðrum það, sem þeir ekki vilja líta við sjálfir. Mér þætti gaman að sjá Thorsara þá, sem græddu milljónatug á síðasta ári, líta við því að lifa af 159 kr. á viku, eins og Dagsbrúnarmaður hefur nú. Það mundi ekki einu sinni hrökkva fyrir húsaleigu handa þeim.

Og hvernig er svo breytt við aðrar stéttir þjóðfélagsins, meðan launþegunum er haldið niðri, en gömlu svindlbraskararnir dubbaðir upp í milljónamæringa?

Fyrir meginþorra bænda hefur afkoman ekkert batnað, þrátt fyrir þá hækkun á afurðaverðinu, sem komið hefur þungt niður á neytendum bæjanna. Fyrir mikinn hluta af millistétt bæjanna hefur afkoman beinlínis versnað. — Og þeir smáútvegsmenn, sem verulega hefur batnað fyrir, fá svo rétt á eftir framan í sig aðgerðir milljónamæringanna í fisksölumálunum.

Fyrir smærri atvinnurekendur, sem framleiða fyrir innlendan markað, eru gerðardómslögin ætluð sem fjötur, svo að þeir nái ekki til sín nema sem minnstu af gróðanum, sem togaraeigendur raka til sín.

Hvert sem litið er, þá er auðséð, að með gerðardómslögunum er verið að koma á einræði útflutningsauðvaldsins — og þá fyrst og fremst togaraeigendanna undir forustu Kveldúlfs — yfir allri íslenzku þjóðinni.

Ef þetta einræði milljónamæringanna, sem á útlendu máli er kallað fasismi, á ekki að festast hér í sessi, þá verður þjólin nú tafarlalaust að hefjast handa gegn því.

Formælendur þessa einræðis og kúgunarlaganna, er hér liggja fyrir, eru að reyna að blekkja þjóðina með því, að þeir séu að berjast á móti dýrtíðinni með þessum aðförum.

Það er furðuleg frekja, að sú ríkisstjórn, sem hefur leitt mestu dýrtíð yfir þetta land, sem nokkur þjóð veraldarinnar býr við, skuli dirfast að koma fram fyrir þjóðina með slíkar blekkingar. Fyrsta ráðstöfunin til þess að hindra óeðlilega dýrtíð, afstýra þeirri dýrtíð, sem við yfirleitt getum ráðið við, var og er sú að taka stríðsgróðann allan úr umferð. En ríkisstjórnin hefur verið svo langt frá því að gera slíkt, að hún gerir fyrst stríðsgróðann skattfrjálsan og veitir honum síðan inn í landið sem falskri kaupgetu þjóðhagslega séð, — en einokaðri í höndum stríðsgróðamannanna —, þannig að þeir brjála með þessum tugmilljónum króna, sem þeir fá upp í hendurnar, allt fjármálalíf landsins og kaupa upp í krafti krónulækkunarinnar og yfirfærslunnar á stríðsgróðanum sívaxandi hluta af eignum bjargálnamanna: hús, skip, lóðir, lendur og annað, sem þeir girnast.

Til þess að draga úr dýrtíðinni, eftir því sem í okkar valdi stendur, yrði fyrst og fremst að eyðileggja handaverk þessarar dýrtíðarstjórnar, gera þveröfugt við það, sem þessi stjórn gerði til að koma dýrtíðinni á.

Þessi stjórn lækkaði krónuna og byrjaði þannig að eyðileggja kaupmátt hennar. — Það er hægt að hækka krónuna og byrja þannig á því að auka kaupmátt hennar.

Þessi stjórn skellti gífurlegum tollum á þjóðina, smeygði heilli tollakeðju um háls hennar í Finnagaldrinum sællar minningar og jók þannig á dýrtíðina. — Það er hægt að afnema alla þessa tolla og lækka þannig dýrtíðina.

Þessi stjórn reiknar tollana af vöruverðinu að meðtöldum flutningskostnaði hingað, sem nú er geysihár, og hækkar þannig vöruverðið. — Það er hægt að hætta að leggja þannig á flutningskostnaðinn og lækka einnig á þann hátt dýrtíðina.

Þessi stjórn borgaði stríðsgróðann út til braskaranna og hleypti þannig af stað því gegndarlausa braski með hús og aðrar eignir, sem nú á sér stað. — Það er hægt að taka stríðsgróðann úr umferð og binda alveg endi á þetta óhóflega brask.

En ekkert af þessu gerir ríkisstjórnin, sem aðeins einblínir á hagsmuni Kveldúlfs. Hún vill ekki einu sinni afnema tolla á nauðsynlegustu vörunum, af því að hún veit, að þá verður erfiðara að koma þeim á aftur seinna !

Þvert á móti. Hún ætlar sér auðsjáanlega að nota hinar þungu álögur á þjóðina til þess að geta ausið áfram í þá hít milljónamæringanna, sem aldrei ætlar að fyllast, — ausið utan við öll fjárlög, rétt eftir því, sem ríkisstjórninni þóknast.

Ég skal nú reyna að skýra í stuttu máli, hvernig hún fer að þessu.

Ríkissjóður hefur á tveimur síðustu árum fengið tekjur, sem fara um 15–20 milljónir króna fram úr áætlun, og stafar verulegur hluti þessarar tekjuaukningar frá þeim gífurlegu tollahækkunum, sem skellt var á almenning með tollskránni nýju, sem laumað var í gegnum Alþingi meðan fólkið var blindað af rykmekki Finnagaldursins og sá ekki, hve þungar byrðar var verið að binda því, meðan þingmenn töluðu hæst um viðkvæman sóma sinn og ást sína á Mannerheim.

Með tollaálögum þessum var lagður þyngri nefskattur á þjóðina, sem á hana hefur verið lagður á síðustu tímum, og var nú engri nauðsynjavöru hlíft, enda þótti mikils við þurfa, því að með því móti urðu Kveldúlfur & Co. skattfrjálsir.

Þeim milljónatekjuafgangi, sem myndazt hefur með þessum nefsköttum á alþýðu manna, á nú, eftir samkomulagi stjórnarherranna, og samkvæmt almennri heimild, sem þeir láta þingið gefa sér, að verja til þess að halda niðri verði á erlendum vörum. Valdhafarnir ætla sér — og eru þegar byrjaðir á því — að halda niðri verði á aðfluttum vörum með því að borga með vörunum úr ríkissjóði og láta atvinnurekendur og aðra fá þær undir kostnaðarverði, einungis til þess að hindra, að atvinnurekendur verði að greiða hærri dýrtíðaruppót á kaupgjald verkamanna vegna hækkaðs verðlags.

Með öðrum orðum: Alþýðan er með tollaálögunum látin borga kostnaðinn af því að halda verðlaginu og sinu eigin kaupgjaldi niðri — fyrir stóratvinnurekendurna.

Ég vil svo spyrja forkólfa þessarar stefnu: með hverju ætla þeir að borga, þegar ríkissjóður er þurrausinn í það að borga með útlendum vörum, til þess að — halda verðinu á þeim niðri? þá bara að þyngja tollana enn meir, — eða á holskefla dýrtíðarinnar þá að skella yfir án þess að taka á sig mynd nýrra tolla?

Svikamyllan, sem hafin var í Finnagaldrinum, er enn í fullum gangi. Nú er það bara kallað að forða þjóðinni frá hyldýpi dýrtíðarinnar, sem í rauninni er það að láta alþýðuna borga kostnaðinn við herferð Kveldúlfs gegn verkalýðssamtökunum.

Við þingmenn Sósíalistaflokksins skorum á þingmeirihlutann hér, sem hefur það á stefnuskrá flokka sinna að afnema alla tolla á nauðsynjavörum, að gera það nú. Aldrei hafa fjárhagsástæður ríkissjóðs leyft það að afnema þessa tolla og munu aldrei leyfa það, ef þær leyfa það ekki nú. Við skulum láta stríðsgróðamennina sjálfa borga allan kostnaðinn við að halda dýrtíðinni niðri, með því að gefa með erlendu vörunum. Og mér þætti gaman að sjá, hvað lengi þeir væru óðfúsir til þessa, sem þeir nú eru svo ginnkeyptir fyrir, þegar þeir geta greitt það með tallum á nauðsynjum alþýðu.

En, — það mun enginn ætlast til þess, að ríkisstjórn, sem sköpuð var til þess eins i upphafi að rétta Kveldúlf við á kostnað þjóðarinnar, og hefur síðan alltaf fyrst og fremst borið hag milljónamæringanna fyrir brjósti, muni fara að brenna það, sem hún áður hefur tilbeðið eða tilbiðja það, sem hún áður hefur brennt.

Eigi nokkuð alvarlegt að gerast á móti dýrtíðinni og fjárhagslegu einræði milljónamæringanna, þá verður þessi stjórn að falla. Og þessi gerðardómslög eiga að verða banabiti hennar, ef Alþingi er sjálfu sér samkvæmt og þorir að breyta í samræmi við vilja þjóðarinnar. Það væri líka undarleg ráðstöfun að ætla að fela þeirri stjórn forustu í baráttu við dýrtíðina; sem sett hefur heimsmet í að koma dýrtíð á og gengið lengra í þjónustu við örfáa auðkýfinga en nokkur stjórn áður hefur gert á Íslandi.

Ríkisstjórnin, t.d. hæstv. viðskmrh., heftir talað um að taka stríðsgróðann. Það mundi ekki skorta atkvæðamagn á Alþingi til að framkvæma slíkt, ef Framsókn væri alvara, en Framsókn hefur alls ekkí viljað taka stríðsgróðann úr umferð, heldur bara tala um það. Framsóknarráðherrarnir gerðu lögþvingunina gegn verkalýðnum að fráfararatriði á síðasta þingi, og þeir sprengdu þjóðstjórnina á að framkvæma hana nú, — en þeir hafa bara þvaðrað um að taka stríðsgróðann, en ekkert gert. — Og það þarf enginn að láta sér detta í hug, að stjórn, sem er stjórn milljónamæringanna nýbökuðu, muni nokkurn tíma þora að taka allan milljónagróða þeirra af þeim, til þess að firra þjóðina þeirri hættu, sem auðdrottnun þeirra er, og leggja grundvöll að heilbrigðum búskap þjóðarinnar sjálfrar, er hún ráði sjálf stærstu framleiðslutækjum sínum.

Þvaðrið um baráttuna gegn dýrtíðinni er bara dula til að dylja með baráttu einræðisstjórnar milljónamæringanna gegn alþýðu landsins og þorra þjóðarinnar.

Gerðardómslögin eru, ásamt kosningafrestuninni, freklegasta mannréttindaránið, sem valdhafarnir enn hafa framkvæmt. En það er og auðséð á afstöðu þeirra í öðrum málum, að ekki skortir viljann til að feta í fótspor þeirra einræðisherra, sem miða allar gerðir sínar við hatrið á sósíalismanum og kúgun verkalýðsins.

Það átti svo sem kné að fylgja kviði, ef verkalýðurinn hefði sýnt sig í mótþróa á götum úti gegn gerðardómslögunum. Ríkisstjórnin fyrirskipaði lögreglunni að dreifa hvers konar mannsöfnuði með harðri hendi. Og svo að lögreglan hefði eitthvað hart í hendinni, var eftirfarandi pöntun gerð á skotvopnum, sem kom með einu ísl. skipi, sem ég get nefnt, ef þörf gerist:

15 vélbyssur (svo kallaðar Tommy guns) og 20 þúsund skot. Og til þess að vera enn betur viðbúin til að veita fólkinu þá blessun lýðræðis og þjóðfrelsis, sem þjóðstjórnin lofaði í upphafi, fékk hún með útlendu skipi, sem ég get og nefnt, ef þörf gerist: 14 kassa af táragasí, 3 kassa af (sickening) gasi, 1 kassa af táragas-pístólum. Nú hefur helzta stjórnarblaðið, Morgunbl., lýst því yfir, að landvarnirnar séu ríkisstjórninni óviðkomandi, svo að það er engum blöðum um það að fletta, til hvers þessi vopn áttu að vera, þau áttu hvorki að notast til að taka Garð af Bretunum né verja landið gegn Hitler. Þessi vopn átti að nota gegn verkamönnum Reykjavíkur, ef þeir færu út á götuna til að mótmæla einræðisaðgerðum ríkisstjórnarinnar.

Það er ekki ríkisstjórninni og milljónamæringunum, herrum hennar, að þakka að ekki hefur komið til blóðugra árekstra í Reykjavík. Það er að þakka stillingu og stefnufestu verkalýðsins, sem er ákveðinn í að gjalda valdhöfunum rauðan belg fyrir gráan — á öðru sviði og hafa þar kjörseðilinn að vopni.

Gerðardómslög, þingkosningafrestun og vopnun lögreglunnar með vélbyssum eru einkennin á einræðishugsunarhætti stjórnarinnar.

Stjórnin hefur nú setið í tæpt ár í trássi við stjórnarskrá og lög landsins. Hún hefur notað þennan tíma til að koma hér á fjármálalegu alræði nokkurra reykvískra milljónamæringa.

Frelsi þjóðarinnar er í yfirvofandi hættu, ef þessi stjórn situr áfram. Hún á að falla á þessu þingi. Og hún á að falla á gerðardómslögunum, ella er þingið komið í svo hrópandi mótsögn við sjálft sig og vilja þjóðarinnar, að ekki verður lengur við unað.

Grerðardómslögin eru stærsta sporið, sem stjórnin hefur stigið á einræðisbrautinni, spor, sem Alþingi verður að láta hana stíga til Laka, ef það ætlar að vernda mannréttindin í landinu gegn milljónamæringunum og stöðva á einræðisins að ósi.

Þjóðin hatar þessi lög og brýtur þau nú þegar. Verkalýðshreyfing sú, sem íhaldið með miklum erfiðismunum hafði skapað sér, hrundi til grunna í einu vetfangi, er það léði lögum þessum fylgi sitt. Dagsbrún hrökk úr höndum þess. Og eina verkamannafélagið, þar sem það heldur stjórn, Hlíf í Hafnarfirði, mótmælir eins skörulega lögum þessum og öll önnur verklýðsfélög landsins, mótmælir að tilhluttin stjórnar sinnar sjálfrar !

Hvarvetna eru lögin brotin. Stundum neyðist gerðardómurinn til að leggja blessun sína yfir brotin, til að reyna að firra stjórnina falli með smán. Stundum eru brotin vandlega dulin. En það úir og grúir af þeim. Ríkísstjórnin yrði að fara í mál við allan þorra reykvískra launþega og atvinnurekenda, ef hún ætlaði að framfylgja þessum lögum, sem hún setti fyrir togaraeigendur.

Afgreiðsla þessa máls verður prófsteinn á virðingu Alþingis fyrir sjálfu sér. Síðasta þing felldi lögþvingunarfrumvarp framsóknarráðherranna. Ef þetta þing nú samþykkir kaupþvingunina, af því að íhaldsráðherrarnir hafa gengið inn á hana, þá er það að gefa upp vald sitt, afsala löggjafarvaldinu í hendur stjórninni og segja: Gerðu hvað sem þú vilt, ég samþykki það eftir á, þó að ég þori ekki að gera það á undan.

Þetta þing væri að kveða upp dauðadóm yfir sjálfu sér með því að gera slíkt. — Og hvaða dóms ætti slíkt þing að vænta frá þjóð, sem enn hefur virðingu fyrir sjálfri sér, mannréttindum sínum og þjóðfrelsi, — ef hún fær að kveða hann upp á löglegan hátt?

Ég þarf ekki að lýsa honum, hann er þegar ákveðinn í huga allra Íslendinga, sem vernda vilja frelsi sitt gegn einræði milljónamæringanna.

Ég skal hins vegar engu spá um afdrif þessa máls á þinginu, en aðeins ljúka máli mínu í þetta sinn með því að staðhæfa, að svo framarlega, sem andstæðingar fasismans í öllum stjórnmálaflokkunum hafa ekki vit og þor til að taka höndum saman til að hnekkja því samsæri, sem formenn Framsóknarfl., hins íhaldsflokksins, hafa gert. um að koma hér á alræði örfárra togaraeigenda og embættismanna, — ef þessi sameining lýðræðisaflanna ekki tekst á næstu vikum eða mánuðum, þá er frelsi og framtíð þjóðarinnar, og ekki sízt vald og virðing Alþ. í alvarlegri ættu en nokkru sinni fyrr á síðustu 100 árum, síðan Alþingi var endurreist.