11.03.1942
Neðri deild: 17. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 165 í B-deild Alþingistíðinda. (272)

2. mál, dómnefnd í kaupgjalds- og verðlagsmálum

Atvmrh. (Ólafur Thors):

Hv. þm. Seyðf. þreytist nú aldrei að fjargviðrast yfir aðgerðaleysinu í dýrtíðarmálunum. — En hvers vegna kom ekki þessi gagnrýni fyrr en á þessu þingi? Af því að meðan Stefán Jóh. Stefánsson var í stjórn, lagði Alþfl. ekki aðeins blessun sína yfir þetta „aðgerðarleysi“, heldur streittist við að hindra samkomulag um nauðsynlegar aðgerðir. Nú er St. Jóh. St. farinn úr stjórn, nú er óhætt að bauna á stjórnina, finnst þeim. Meðan hann sat þar, lét hann líklega um alla samvinnu, þó að hann segði eitt í dag og annað á morgun. Nú er aðferð hans og Alþfl. önnur, en markmiðið sama. Og nú, eftir burtför hans, hefur tekizt, hvað sem Alþfl. segir, að stöðva dýrtíðarvísitöluna við 183 stig, hvort sem hægt verður að halda henni stöðugri til lengdar. Nú er höfuðádeilan á mig byggð á því, að ég hafi ekki gert hið eina nauðsynlega í málinu, að hindra hækkun á „fragt“ með íslenzkum skipum. Það er heimskuleg blekking. Þorsteinn Þorsteinsson hagstofustjóri hefur reiknað út, að hefði verið notuð heimild Alþingis til að verja ríkisfé til að hindra farmgjaldahækkun á matvöru, hefði það aðeins numið 0.62 úr vísitölustigi, en hefði verið hindruð farmgjaldahækkunin á öllum vörum nema kolum, hefði það aðeins numið 1.63 stigum, og enda þótt bætt væri tolli og verzlunarálagningu við, mundi hækkunin, er stafar af fragtinni, aldrei nema meira en 2.30 stigum, eða mjög litlu broti vísitöluhækkunarinnar. Þegar svo er athugað, að fragtin stóð alveg óbreytt, meðan vísitalan hækkaði úr 127 stigum í 177, sést enn betur, hve lítinn þátt hún hefur átt í dýrtíðaraukningunni. En Alþfl. heldur sér stöðugt við það, að hún sé einhver höfuðorsök, það er þar trúaratriði. Lítum nú á breytingar farmgjalda í Ameríku. Þar hafa þær sjöfaldazt, síðan stríðið brauzt út. Hér hækkuðu þau aðeins um 56%, og nú síðast er hækkunin orðin 95% á öðru en matvörum. Rekstursútkoma Eimskipafélagsins sýnir líka 375 þús. kr. tap á íslenzku skipunum s.l. ár. Þau töp vona ég, að félagið vinni að vísu upp nokkurn veginn á rekstri erlendra skipa, sem það hefur haft á leigu. Félagið hefur alltaf gert allt, sem ríkisstjórnin hefur óskað eftir, þótt töp kynni af því að leiða. Halli af 5 ferðum, sem farnar voru s.l. ár til Halifax til matvöruflutninga, varð að meðaltali 44 þús. kr. á ferð, eða um 40–50 kr. á hvert tonn. Og á 18 síðustu ferðunum hefur þannig orðið stöðugur halli. Hallinn á einu skipanna, sem ég hygg, að liggi nú hér á höfninni, hefur orðið 324 þús. kr. Halli á einni ferð, sem Brúarfoss fór, varð 228 þús. kr., eða 132 kr. á smálest. Þannig mætti rekja tölurnar, sem tala sínu óvéfengjanlega máli um þær fórnir, sem Eimskipafélagið hefur fært með því að hækka ekki fragtina miklu fyrr og meir en gert er. Ádeilurnar á félagið eru ekki aðeins sprottnar af skammsýni og vanþekkingu, heldur bláberri öfund. Og hvar stæðum við nú, ef Eimskipafélagið væri ekki til?

Um skattalagafrv. ríkisstj. get ég verið fáorður, því að það verður lagt fram mjög bráðlega. Með því er ætlazt til að taka meginhlutann af þeim tekjum, sem verða kunna yfir 200 þús., nema leyft er að leggja 1/3 þess í varasjóð. Með þessu frv. ætlumst við til, að tekjur ríkissjóðs nægi til þess, að hann sé fær um hlutverk sitt, er ástand breytist, og geti tryggt almenningi atvinnu, þegar þar að kemur. Með því einu móti getur stríðsgróðinn veitt alþýðu manna nokkurt aukið öryggi.

Málflutningur Alþfl. í gengishækkunarmálinu og dýrtíðarmálum ber það með sér, að engin alvara er að baki og ekki reynt að sýna, að leiðirnar, sem stungið er upp á, séu í rauninni færar. Tjón af gengisbreytingunni á að bæta með verðlaunum, og féð til verðlaunanna á að taka með eignarskatti þeirrar tegundar, sem hvergi þekkist. Það er ein höfuðnauðsyn Íslendinga að hækka gengi íslenzkrar krónu, og ríkisstj. mun leggja fram till. í þá átt, ef hún sér nokkra leið til þess. En ef hinir erlendu kaupendur ganga ekki inn á að hækka vöruverð, hefur Alþfl. játað, að gengishækkun sé óframkvæmanleg. Betur þarf ekki að lýsa, hvílíkt ábyrgðarleysi felst á bak við hjá honum.

Hv. þm. Seyðf. taldi upp hin og önnur ljómandi áhugamál flokks síns. En hann má ekki halda, að menn séu ekki farnir að þekkja Alþýðuflokkinn.

Það hvílir enginn alvörublær yfir málflutningi Alþýðuflokksins, hvorki varðandi gengismálið né önnur þau mál, er Alþýðuflokkurinn nú hefur á oddi.

Þess er ekki heldur von, því að það eru ekki sjálf málefnin, sem Alþýðuflokkurinn hefur áhuga fyrir, heldur allt annað, nefnilega, kjósendaveiðar og kjörfylgi við í hönd farandi kosningar.

Flestir þekkja eðli bjarndýrsins. Það leggst í dvala á veturna og sefur hinum langa værðarsvefni. Með vorinu rankar það við sér, skríður úr híðinu, magurt og máttvana. Hugurinn beinist að munni og maga, leitin að björg og bráð.

Alþýðuflokkinn skortir að sönnu kraft bjarndýrsins, en minnir þó á það. Eins og bjarndýrið leggst flokkurinn í dvala og sefur þar svefni hins hóglífa og værukæra milli kosninga, og eins og bjarndýrið skríður Alþýðuflokkurinn úr híðinu, þegar hann veðrar bráðina og leggur á kjósendaveiðar, sjálfum sér til lífsviðurværis. Enn er öllum í fersku minni fjögra ára áætlun Alþýðuflokksins fyrir kosningarnar 1934. — Hin mörgu fögru loforð um atvinnu öllum til handa o.s.frv. Alþýðuflokkurinn komst í stjórn, lagðist í dvala og gleymdi að sjálfsögðu fallegum fyrirheitum. Það leið að kosningum. Á þinginu 1937 skreið Alþýðuflokkurinn úr híðinu, fylltist heilögum áhuga, bar fram stefnu- og áhugamál sín og var hinn vígglaðasti.

Allir muna kvöldfundina hér í þessari deild, 18. marz 1937, hygg ég það hafi verið.

Hinn sprengvirðulegi ráðherra flokksins, Haraldur Guðmundsson, hv. þm. Seyðf., sá er hér spreytti fjálgleik sinn áðan, stóð upp, hélt háværa ræðu, krafðist þess, að samstarfsflokkurinn, Framsóknarflokkurinn, samþykkti fimm ákveðin áhugamál Alþýðuflokksins, og tilkynnti hátíðlega og af ennþá einlægari sannfæringu og meiri rembingi en áður, að ef Framsóknarflokkurinn gengi ekki að þeim kostum, segði Alþýðuflokkurinn þegar slitið allri samvinnu í ríkisstjórn og um löggjöf landsins.

Forsætisráðherra svaraði, að Framsóknarflokkurinn sæi sér ekki fært að ganga að öllum þessum kröfum. Hið sanna væri, að hann mundi að engri þeirra ganga.

Eftir þetta var þing rofið. Alþýðuflokkurinn lét að sínu leyti kjósa um þessi fimm. hugsjóna- og áhugamál flokksins, en af einhverri hendingu gleymdi ráðherra flokksins, sá er tilkynnti að slitið væri samvinnu í stjórn landsins, maðurinn, sem áðan var að tala, — að segja af sér og fara, heldur sat hann sem fastast.

Eftir kosningar kom þing saman að nýju. Alþýðuflokkurinn reyndist trúr eðli sínu, hann lagðist í dvala að nýju, og ekki aðeins var ekkert hinna fimm kosningamála flokksins lögfest, — nei, svo þungur var svefn flokksins, að ekki svo mikið sem eitt einasta af þessum málum bar Alþýðuflokkur inn fram á þinginu, hvað þá meira, — málefnunum, sem hann gerði þó fyrir kosningar að skilyrði fyrir þátttöku í stjórn landsins og um löggjöfina. Og Alþýðuflokkinn henti ekki aðeins sú smán að gleyma málunum. Hann gleymdi líka að fara úr stjórninni. Ráðherra flokksins sat þar og sat, öllum til undrunar, unz honum ári síðar var varpað fyrir borð, beinlinís rekinn úr skiprúmi, eftir að hafa hlotið nafnið mjögsitjandi.

Svo fór um sjóferð þá.

En, eins og þar stendur, sagan endurtekur sig. Snemma árs 1939 settist Alþýðuflokkurinn í stjórn að nýju. Hann sat þar í nær þrjú ár. Allan þann tíma lét hann sér nægja að fylgja því, sem samstarfsfélagarnir urðu ásáttir um, enda var þá ákveðið að fresta öllum kosningum.

Svo kom að því, að sýnt þótti að kosið yrði. — Alþýðuflokkurinn hafði að sönnu heitið að beita sér gegn grunnkaupshækkunum. Hann sveik það. Í stað þess mun hann hafa unnið að því, að kröfur kæmu fram um slíkar kauphækkanir. Hann sá líka um að láta synja þeim kröfum með því að láta sína eigin prentsmiðju, Alþýðuprentsmiðjuna, bindast samtökum við hinar prentsmiðjurnar um að neita algerlega öllum kröfum prentaranna. Þannig vann Alþýðuflokkurinn bak og fyrir að verkföllum um áramótin. Hann vissi, að þau hlutu að leiða til lagasetningar um gerðardóminn. Þannig ber Alþýðuflokkurinn í rauninni ábyrgð á lögunum um gerðardóminn.

Og til hvers?

Til þess með þessu, með því að svíkja stefnu sína, skoðun og hagsmuni alþjóðar, að skapa sjálfum sér tylliástæðu til andstöðu og árása. Og vegna hvers?

Vegna þess, að kosningar fóru í hönd.

Og nú er Alþýðuflokkurinn skriðinn úr híðinu af nýju, hungraður og veiðibráður í kjósendaleit, fullur eldlegs áhuga, með sæg að nýjum hugsjónum og velferðarmálum.

Þannig mun Alþýðuflokkurinn ráfa um á hjarninu í ískulda vanvirðu og fyrirlitningar kjósenda, allt fram yfir kosningar.

En þá hjaðnar áhuginn, — þá gleymast málefnin. Þá fær Alþýðuflokkurinn hvíldina í löngum dvala allt til þess, er nýjar kosningar fara í hönd.

Þetta vita kjósendur af reynslunni, og þess vegna er hætt við, að hinum deyjandi flokki verði bágt til bjargar við þessar kosningar.

Beri menn nú þessa aðferð saman við Sjálfstfl., sem hefur ætíð verið stefnu sinni trúr, hvort sem byrlega blés eða ekki !

Tími minn er þrotinn. Ég hef engu svarað kommúnistum. Ég veit, að Alþfl. hefur löngun til að láta gott af sér leiða, hinir illt, og slíka þjóna erlends kúgunarvalds vil ég ekki láta njóta andsvars.