11.03.1942
Neðri deild: 17. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 168 í B-deild Alþingistíðinda. (274)

2. mál, dómnefnd í kaupgjalds- og verðlagsmálum

Haraldur Guðmundsson:

Hæstv. atvmrh. sagði í ræðu sinni, að Sjálfstfl. hefði alltaf verið trúr stefnu sinni í dýrtíðarmálunum. Það má satt vera, ef stefnan er að þjóna sérhagsmunum stétta og stórfyrirtækja, en ekki að vinna í raun og veru móti dýrtíðinni. Það er undarlegt, hversu mikill skyldleiki virðist vera orðinn með hæstv. atvmrh. og viðskmrh. í þessu máli. Oftast er hinn fyrrnefndi nemandi, hinn síðari lærifaðir. Sömu rök og sömu skammaryrði nota báðir. Hvorugur treystist til að reyna með einu orði að leiða líkur að því, að bráðabirgðal. um gerðardóminn muni verða til þess að stöðva dýrtíðaraukning í landinu. Þessir flm. frv. sýna engan veginn fram á, að lagasmíð sín komi að gagni. Þeir viðurkenna þannig, að til þess séu mjög titlar vonir. Sektartilfinningin er undirtónn í ræðum þeirra, þegar þeir eru t.d. að reyna að koma því á Alþfl., að hann hafi ekki verið betri, og Finnur Jónsson, þm. Ísaf., hafi verið meðflm. að gengisskráningarfrv. 1939. En af hverju var hann meðflm., og af hverju neyddist Alþfl. til að eiga þátt í þeirri löggjöf þá? — Af því að með því einu móti gat hann tryggt launastéttunum nokkra uppbót fyrir þá gengislækkun, sem hann hafði ekki afl til að hindra og var þegar að miklu leyti komin til framkvæmda. Auk þess var þá stríð í aðsigi og brýn þörfin að standa saman, eins og ég hef áður lýst. Það er rétt, að nú, þegar það stríð er í algleymingi, er sú þörf ekki minni. En þegar samkomulagið við Alþfl. er svikið, er gagnslaust og óhugsanlegt fyrir hann að taka þátt í samstarfi við þá, sem þannig hafa breytt við hann. Þegar níðzt er á launastéttunum, getur ekki verið um samkomulag við Alþfl. að ræða, og úr því að ráðh. Alþfl. fékk ekki hindrað það, gat hann ekki setið lengur í stjórninni.

Ráðh. spyr, hvers vegna Alþfl. hafi ekki borið fram fyrr gagnrýni sína á aðgerðarleysinu í dýríðarmálum. Ég verð að segja, að hann mætti vera minnisbetri. Þá gagnrýni bar ég fram á haustþinginu — eins skarpa ádeilu og ég gat. Hæstv. forsrh. og öll ríkisstjórnin lofaði þá bót og betrun, — nú skyldi framkvæmd dýrtíðarlöggjöfin frá 1941. En síðan hefur það loforð verið svikið. Allt fjas hæstv. atvmrh. um það, að hækkun farmgjalda nemi aðeins 0,67 eða 1,63 vísitölustígum samkvæmt óyggjandi útreikningi horsteins Þorsteinssonar hagstofustjóra, er blekking. Og það er hart, að hann skuli ætla að gera mann eins og hagstofustjóra ábyrgan fyrir blekkingum sjálfs sín. Allir vita, að hækkunin er ekki aðeins þessi, heldur margfalt meiri, þegar á það er litið, hver álagning kemur á hráefnin frá uppskipun, þangað til vörurnar úr þeim eru komnar til neytenda, fyrst verksmiðjuálagning, þá heildsalaálagning, þá smásalaálagning, og við hverja þá veltu hleður snjókúla verðhækkunar, sem af farmgjöldum stafar, utan um sig.

Auk þess segir það sig sjálft, að margra milljóna gróði skipaútgerðanna sprettur ekki af engu. Munar 6–7 milljóna gróði almenning engu Skálaræðu hæstv. ráðh. um öll töp Eimskipafélagsins ætla ég ekki að tala um, vil heldur bíða eftir reikningum þess.

Frv. um tekju- og eignarskatt hefur nú verið boðað 5 eða 6 sinnum af hendi stjórnarflokkanna, og þeir látast svo sem ætla að taka í ríkissjóð bróðurpartinn af stríðsgróðanum. En hvers vegna þora þeir ekki enn að láta skattafrv. sitt sjá dagsljósið? Er þar eitthvað, sem betra er að dylja sem lengst? Að minnsta kosti er varlegra að taka ekki rósamál þeirra um frv. svo, að það segi allan sannleikann og ekkert nema hann. Og víst er um það, að við fáum ekki að sjá það fyrir bæjarstjórnarkosningar, hvað sem veldur.

Ráðh. héldu því enn báðir fram, að Stefán Jóh. Stefánsson hafi blekkt Alþingi um kaupgjaldsmálin. Þetta er marghrakið. Hann sagði það eitt, að ekki væri neitt útlit fyrir almenna hreyfingu í þá átt að breyta grunnkaupinu, þannig að það hefði veruleg áhrif á vísitöluna. Það hefði ekki heldur haft veruleg áhrif á hana, þótt 25. hluti þeirra 13 þúsund manna, sem eru nú í Alþýðusambandinu, hefði fengið nokkrar kauphækkanir, og fleiri voru það ekki, sem í kaupgjaldsdeilunni stóðu eftir áramótin. Langstærstu félögin voru þá búin að binda sig með samningum árið út. Það er á allra vitorði, að enn hafa engar grunnkaupshækkanir orðið til þess að hækka vísitöluna, og þó er hún komin í 183 stig. Einhverjar aðrar ástæður en kaup verkalýðsins valda sem sér vísitöluhækkun — og eiga eftir að valda henni, hvað sem ráðh. segja nú. Hitt hef ég aldrei sagt, að grunnkaupshækkanir gætu ekki orkað á vísitölu til hækkunar.

Það var fullkominn misskilningur í „greinargerð“ hæstv. ráðh. fyrir þessum bráðabirgðal., að kaupgjaldið væri nokkur frumorsök vísitöluhækkunar, en það hækkar ætíð á eftir henni. Það var furðuleg ósvífni af hæstv. viðskmrh. að bera það fram fyrir allan landslýð, að hækkun kaupgjalds mundi auka svo álagning iðjufyrirtækja og annarra, að það mundi beint auka stríðsgróða hinna fáu, — þeir vildu því gjarnan hækkað kaupgjald sem átyllu að hækkun. Gleymir hæstv. viðskmrh. því, þegar hann túlkar þessa skoðun, að það er hans að líta eftir of hárri álagningu? Ef hann léti þetta óátalið, brygðist hann skyldu sinni. Ég vil fullyrða, að grunnkaupshækkun sú, sem prentarar, járnsmiðir og skipasmiðir fóru fram á, hefði ekki þurft að leiða til vísitöluhækkunar, — svo mikill var gróði atvinnurekenda orðinn í þessum greinum. En hæstv. ráðh. hefur enga oftrú haft á því, að sér tækist að standa þar sæmilega í stöðu sinni og hindra óþarfa álagningu.

Annars hefur hann sjálfur gefið skýringu á því, hvers vegna grunnkaupshækkanir séu eðlilegar. Þegar hann skrifaði í Tímann 13. febr. um „leið Sjálfstæðisflokksins í dýrtíðarmálunum“, sagði hann m.a. um ráðstafanir til að stöðva dýrtíðina: „Slíkar ráðstafanir mundu vafalaust hafa orðið til þess að friða verkalýðssamtökin, svo að þau hefðu síður haldið kaupkröfum sínum til streitu.“ — Þetta er það, sem ég hef áður sagt: Kröfurnar eru bein og óhjákvæmileg afleiðing þess, að öllum stéttum öðrum hefur verið leyft að hrammsa til sín stríðsgróðann hindrunarlaust, hver sem betur getur. Hefði mikill hluti stríðsgróðans verið tekinn til að hamla móti dýrtíðinni, hefðu miklu síður komið fram kröfur um grunnkaupshækkun og reynzt auðveldara að standa móti þeim. En hæstv. viðskmrh. viðurkennir, að þetta var það, sem átti að gera og ekki var gert. Hvers vegna ekki gert? — Hvers vegna er dýrtíðin orðin eins og hún er? Vegna sleifarlags stjórnarinnar. Og þar getur hann ákært sjálfan sig og núverandi starfsbræður sína í ríkisstj. Og dóminn yfir þeim hefur hann sjálfur fellt í greininni, sem ég vitnaði til. Hann veit líka, hvers vegna Sjálfstfl. sveik stefnu sína í málinu og lét Framsfl. svínbeygja sig þar, og er ekkert feiminn við, eftir að þeir sjálfstæðismenn hafa beygt sig svo, að nudda þeim upp úr skítnum og minna þá á forna tíma. Hann segir, að það hefði ekki samrýmzt stéttarhagsmunum Sjálfstfl. að fylgja sannfæringunni í dýrtíðarmálunum, og flokkurinn beygði sig að fullu, samtímis því sem hann keypti sér kosningafrestun í Reykjavík fyrir skattalagabreytingar o.fl., sem hollast þykir að láta ekki uppskátt. — Hitt er jafnljóst, að stöðvun verðhækkunarinnar hefði ekki heldur samrýmzt stéttarhagsmunum Framsfl., sem hefur hækkað verð landbúnaðarafurða svo geysilega, að sú hækkun veldur ein fullum helmingi allrar vísitöluhækkunar, sem orðið hefur í landinu. Ráðh. getur talað hreystilega um að baka sér pólitískar óvinsældir — hjá bændum — með því að hækka afurðaverð þeirra. Sér er nú hver hreystin. Eins og það samrýmist ekki stéttarhagsmunum skipaeigenda í Englandssiglingum, togaraeigenda né annarra meginstoða Sjálfstfl. að skattleggja fiskútflutning til Bretlands, samrýmist það ekki stéttarhagsmunum Framsfl., að kjósendur hans afsali sér neinum gróða til þess að halda niðri verðlagi í landinu. Það ræður stefnu Framsfl., og engin látalæti geta falið það fyrir almenningi. Með dóminum um Sjálfstæðisflokkinn er því hæstv. viðskmrh. að dæma sig og sinn flokk.

Rétta leiðin gat ekki verið sú, sem hlaut að stórauka dýrtíðina, heldur hitt, að verðuppbæta vörur þær, sem þurfti til þess að framleiðslan stæðist. Ráðh. taldi, að það hefði verið að gera bændur að ölmusulýð, að veita þeim styrk á útfluttar vörur. Það er vitanlega ekkert nema firra.

Að lokum örfá orð um gengismálið. Hæstv. viðskmrh. taldi, að ýmislegt gæti réttlætt það að leggja sérstakan eignarskatt á þá eignaaukning 2 síðustu ára, sem beinlinis má teljast stríðsgróði og stafar að miklu leyti af því, að £ voru keypt af útflytjendum of háu verði. — Þetta kallar hæstv. atvmrh. hlægilegt að vísu. Hann á við, að sér kæmu aðrar tillögur betur. — Hins vegar segir ráðh. (EystJ), að ekki komi til mála að hækka gengið, nema breytingar fáist á fiskverði því, sem ákveðið er með brezku samningunum, engin leið að bæta þeim skellinn, sem hlut eiga að máli. Þetta er beinlínis vísvitandi tilraun til blekkingar. Hann veit, að þessir samningar gilda aðeins til 30. júní n.k. og fyrir þann tíma verður að vera búið að semja af nýju. Hann veit líka fullvel, að þegar brezku samningarnir voru gerðir; var dýrtíðarvísitalan 160 stig, en er komin í 183 stig, svo að grundvelli verðlagsins í samningnum og kaupgjaldsins, sem mönnum var þar skammtað, er burtu kippt. Við getum ekki framleitt útflutningsafurðir, nema það verð hækki, svo mjög hefur kaupgeta þess kaupgjalds rýrnað síðan í júlí í fyrra, — miðað við vísitölu. Það væri fullkomið óvit að ætla þeim, sem draga fiskinn úr sjónum, skellinn af gengishækkun. En við því má gera. Auðvitað hljóta gengisráðstafanir eins og aðrar dýrtíðarráðstafanir að kosta nokkurt fé.

Um kúgun þá, sem látið er heita, að Alþýðufl. vilji beita bændur, þarf ég ekki margt að segja. En bændur eru raunverulega kúgaðir, síðan afurðasölul. voru sett, því að nú er allt verðlag á vörum þeirra bundið af opinberum n., sem hlíta fyrirmælum hæstv. forsrh. Annars væri gaman að ræða nokkru nánar um afurðasölul. Árin 1933–1939 hækkaði verð á kjöti um 30%. en mjólkurverð hækkaði um 20%, og er þá átt við það, sem greitt var til bænda. Þessum grunnkaupshækkunum bænda kom Alþfl. fram í samvinnu við Framsóknarfl., en gegn vilja Sjálfstfl. Síðan hafa þessi I. verið mjög misnotuð. En afstaða Alþýðufl. til þessara l. hrekur algerlega þá staðhæfingu, að flokkurinn sé fjandsamlegur bændum, og er þýðingarlaust fyrir Framsóknarfl. að ætla að telja bændum trú um slíkt. Einu raunhæfu till., sem fram hafa komið bændum til hagsbóta, eru frá Alþýðuflokknum, sem leggur til að hækka kaupgjaldið og leggja fram fé til þess að halda dýrtíðinni niðri. En að svipta stéttir landsins réttinum til að semja um kaup sitt og kjör er hins vegar rangsleitni af verstu tegund.