11.03.1942
Neðri deild: 17. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 176 í B-deild Alþingistíðinda. (278)

2. mál, dómnefnd í kaupgjalds- og verðlagsmálum

Forsrh. (Hermann Jónasson):

Það er aldrei meira los á hugum fólksins en á stríðstímum. Þá er sjaldgæft, að hægt sé að gera stjórnarráðstafanir, sem eru vinsælar. Margar óvinsælar takmarkanir á frelsi einstaklinganna eru algengar, og það er erfiðara á stríðstíma en endranær að gefa tæmandi skýringar á framkvæmdunum. Aldrei er því eins auðvelt fyrir stjórnarandstöðu og á styrjaldartíminn að fiska í öllu þessu grugguga vatni. Þrátt fyrir þessa alveg óvenjulegu möguleika stjórnarandstöðu á styrjaldartímum hefur svo farið, að því geigvænlegra sem stríðið hefur orðið, því óalgengari er stjórnarandstaða meðal þjóðanna. Hún er svo að segja að hverfa. Það eru ýmist þjóðstjórnir eða flokksstjórnir, en munurinn er næsta lítill. Stjórnarandstaðan vinnur víðast einhuga með stjórninni í flestum stórum vandamálum. Orsakir þessa eru þær, að spákaupmennskusjónarmiðið í stjórnmálum hefur, vegna hinnar miklu sameiginlegu hættu, vikið fyrir tilfinningunni að vinna samlöndum sínum og ættjörð gagn. Hér á Íslandi, þar sem hættan er sízt minni en annars staðar, er annað uppi á teningnum. Umræðurnar í kvöld, útvarpsumræðurnar fyrir nokkrum dögum, skrif Alþýðublaðsins og Nýs dagblaðs eru áreiðanlega næsta sérstæð á þessum tímum. Ég held, að það sé næsta vandalítið fyrir hugsandi fólk að heyra og sjá, að þar ræður hin pólitíska spákaupmennska, tillitslitil og oft tillitslaus. Það bjóst að vísu enginn við öðru af kommúnistum. Þeirra ófrávíkjanlega takmark er að skapa fjárhagshrun og upp úr því byltingu. En sú leið, sem jafnaðarmenn eru komnir inn á, er óvenjuleg og mörgum vonbrigði. Þótt ýmsir eigi högg í annars garð í dýrtíðarmálunum, hljóta andsvör og ádeilur því fyrst og fremst að beinast gegn Alpfl. Rökin, sem þeir bera á borð, eru næsta furðuleg. Þeir geta ekki neitað því, að lög um stöðvun kaupgjalds- og verðlags hafi verið sett í Canada og Bandaríkjunum, af hinum róttæku jafnaðarmönnum, sem stjórna Ástralíu, sem og í flestum löndum., er við höfum spurnir af. En þeir segja, að ráðstafanir til þess að halda niðri kaupgjaldi og verðlagi hafi hvergi verið gerðar nema með samningum eða samþykki verkalýðsfélaganna og þátttöku verkalýðsins í gerðardómunum. En í þessum falsrökum liggur þreföld játning: Að foringjar verkalýðsins og verkalýður annarra landa hefur samið um það að stöðva kaupgjald og verðlag (sbr. Svíþjóð, þar sem samið var um kauphækkun 75% af vísitöluhækkun), að sömu aðilar hafa verið samþykkir gerðardómslögum, að þeir taka þátt í gerðardómum sem dómendur.

Jafnaðarmenn hér segja nú við verkamenn: Þið eigið að ná í stríðsgróðann með hækkuðu grunnkaupi. Þessir svívirðilegu kúgarar og auðkýfingar hafa sett þrælalög, til þess að þið náið ekki rétti ykkar og atvinnurekendurnir verði enn ríkari. — Jafnaðarmenn á Íslandi segja ykkur með þessu, — og fyrir það eigið þið að sýna þeim sérstakt traust —, að þeir viti betur í fjármálum en fjármálamenn allra landa, því að fjármálamenn annars staðar halda því fram, sammála og í engum vafa, að hækkað kaup auki dýrtíð hraðar en flest eða allt annað, gjaldmiðillinn verði verðlítill eða verðlaus, atvinnulífið stöðvist og valdi hörmungum og atvinnuleysi, en flestir verði fátækir, nema þeir allra ríkustu, sem með sérstökum aðferðum stundum græða á öllu saman, sbr. Þýzkaland á sínum tíma. En jafnaðarmenn á Íslandi þykjast vita þetta allt betur.

Um verndun ríkisstjórnarinnar á stríðsgróðanum og hinum ríku geta jafnaðarmenn ekki dæmt með neinum rétti fyrr en skattafrumvarpið hefur verið lagt fram. Það átti að leggja það fram þessa dagana, en hefur dregizt, m.a. vegna veikinda viðskiptamálaráðherra. Jafnaðarmenn hafa ekki lagt fram neinar tillögur í skattamálunum hér á Alþingi, og það vekur undrun, en skæðar tungur segja, að þeir séu hræddir við að verða smátækari á stríðsgróðann en stjórnarfrumvarpið og vilji þess vegna bíða, til þess að vera vissir um að geta yfirboðið. En ég get vel sagt það hér, að með þessu frumvarpi er ráðgert, að eftir að félögin hafi lagt sanngjarnlega í varasjóði til uppbyggingar, verði miklu af stríðsgróðanum safnað í framkvæmdasjóð, sennilega tugum milljóna, sem ríkið — eigi, er að sverfur eftir styrjöldina. Og hvort halda menn nú að sé hyggilegra, að hækka grunnkaupið og verðlagið, auka dýrtíðina með þeim afleiðingum, sem allir virðast sammála um nema jafnaðarmenn á Íslandi, eða stöðva þetta, reyna að festa verðgildi peninganna og safna í sjóði verðgildum peningum til framkvæmda síðar? Og hverjir njóta síðar þessara milljóna úr framkvæmdasjóði ríkisins? Ég man svo langt, að jafnaðarmenn börðust eitt sinn fyrir jöfnunarsjóði ríkisins. Þá sögðu þeir verkalýðnum, að hann ætti að njóta þeirra peninga, þaðan fengi hann verkalaun fyrir auknar framkvæmdir, er að syrfi. En það gilda víst allt aðrar reglur um þessar milljónir, sem safnast í framkvæmdasjóð fyrir atbeina núverandi stjórnar, — a.m.k. er það í samræmi við aðrar áróðursaðferðir stjórnarandstöðunnar að segja almenningi það.

En verkalýðnum er nú sagt, að mér farist ekki að tala um dýrtíð, þessum okrara, sem hafi hækkað úr hófi verðlag á landbúnaðarafurðum, er ekki hefði átt að hækka nema í samræmi við dýrtíðar vísitöluna. Hinu er þagað yfir, að kaupgjaldið hefur ekki aðeins tvöfaldazt við landbúnaðarvinnu, sérstaklega vetrarvinnu, eins og mjólkurverðið, heldur í sumum tilfellum sexfaldazt. Kýrnar eru skornar niður, búin ganga saman, stórbú í nágrenni Reykjavíkur hætta starfrækslu, vinnufólkið streymir til kaupstaðanna, bændurnir líka, framleiðslan minnkar, og hætt er nú við skorti á ýmsum landbúnaðarvörum, þegar erfiðast er með siglingar. — Þetta er sjálfsagt allt vegna þess, að verðið á landbúnaðarafurðum hefur verið ákveðið of hátt samanborið við kaupgjaldið ! Hér er beitt sömu tegund áróðursaðferðar og fram kom í deilunni um fækkun fólks í vinnu hjá setuliðinu. Þessi fækkun hafði verið ráðgerð vikum áður en Stefán Jóh. Stefánsson fór úr ríkisstjórninni, Alþýðublaðið hafði ekki minnzt á hana, og Stefán Jóh. var henni ekki mótfallinn. En eftir brottför St. Jóh., þá er byrjað að nota þetta sem áróðursefni á ríkisstjórnina og sagt, að hún sé að stofna til atvinnuleysis. Engir menn hafa verið teknir úr setuliðsvinnunni nema brýn þörf hafi verið fyrir þá annars staðar, og þörf Íslendinga fyrir vinnuafl hefur enn ekki nándar nærri verið fullnægt. Afleiðingin verður sú, að atvinnulífið dregst saman. Það setur þjóðfélagið í margvíslega hættu, meðal annars þá, að okkur skorti gjaldeyri til þess að kaupa fyrir nauðsynjar frá Ameríku. Skipin grotna niður: Atvinnutækin hrörna, og innan skamms blasir við atvinnuleysi. En það er sjáanlega skoðun stjórnarandstæðinga, að Íslendingar séu þannig hugsandi, að bezta aðferðin til þess að ná lýðhylli sé að segja við þá: Hugsið ekkert um annað en sjálfa ykkur, ekkert nema um tíðandi stund, vinnið þar, sem léttast er og bezt borgað í bráðina. — þessari skoðun á kjósendum byggist sú áróðursaðferð, sem stjórnarandstaðan beitir. En þó er aðstaða kommúnistanna ennþá viðurstyggilegri. Fyrir einu ári var ekki meira um Íslendinga í setuliðsvinnunni en svo, að ekki stafaði tjón af fyrir atvinnulíf landsmanna. Þá hömuðust kommúnistar gegn því, að Íslendingar stunduðu þessa vinnu. Kommúnistar töldu sig heyja eins konar frelsisstríð, líktu sér við Jón Sigurðsson og Jón Arason og töldu sig ofsótta fyrir þetta heilaga stríð, er þeir ættu í fyrir ísl. þjóðina. Þá voru Rússar á móti Bretum. Þegar setuliðsvinnan er nú að draga vinnuaflið til sín frá framleiðslu landsmanna og ríkisstjórnin berst fyrir því, að fækkað sé í þessari vinnu, þá telja kommúnistar þessa viðleitni ríkisstjórnarinnar þrælkun, óþokkaskap og kúgun. Í fyrra hét slík framkvæmd frelsisstríð, en nú eru valin þessi nöfn. Nú eru Rússar með Bretum ! Og svo segja þessir erlendu „agentar“, að þeir séu Íslendingar og berjist fyrir íslenzkum hagsmunum ! Það er undarlegt, að til skulu vera sá Íslendingur, sem fylgir þessari manntegund að málum. Það, sem er sameiginlegt fyrir bæði Alþýðuflokkinn og kommúnista og gerir málflutning þeirra enn lítilmótlegri, er það, að allur þessi áróður er viðhafður gegn betri vitund. Alþýðublaðið segir 1. nóvember, að það sé óþarft að lögbinda kaupgjaldið til þess að halda dýrtíðinni í skefjum, „nema því aðeins, að reynt yrði að knýja fram grunnkaupshækkun“. Þannig er hinn 1. nóvember viðurkennt tvennt, sem flokkurinn harðneitar nú: 1. að grunnkaupshækkun valdi hættulegri dýrtíðaraukningu, 2. að lögþvingun sé eðlileg, ef eigi að knýja fram grunnkaupshækkanir. Og Stefán Jóh. Stefánsson segir í ræðu, sem birt er í Alþýðublaðinu 28. október, að „engin yfirvofandi hætta sýnist á því, að slíkt skelli á“ (þ.e. grunnkaupshækkanir). Hinn 28. október álítur Stefán Jóhann grunnkaupshækkanir hættulegar fyrir þjóðfélagið, en, sem betur fer, segir hann, að slíkur voði sé ekki yfirvofandi.

Um áramótin standa bæjarstjórnarkosningar fyrir dyrum, og þá er þessi sami flokkur kominn með tvo formenn stærstu verkfallsfélaganna á framboðslista hjá sér, og þá er tekið að beita sér fyrir því, að þessi hætta, grunnkaupshækkanirnar, verði leidd yfir þjóðina. Þetta sýnir, að flokkurinn meinar ekkert af því, sem hann segir. Hér er pólitísk spákaupmennska að verki. Flokkurinn ætlaði að reyna að smeygja sér út úr ríkisstjórninni og komast í stjórnarandstöðu, til þess að auka fylgi sitt. Skýrasta dæmið um þetta eru gerðardómslögin. Meðan þau voru í undirbúningi, lét Alþýðuflokkurinn fylgismenn sína skýra frá því manna á meðal, að Stefán Jóhann mundi alls ekki fara úr ríkisstjórninni, þótt lögin yrðu gefin út. Þetta var bardagaaðferð til þess að Sjálfstæðisflokkurinn læki ekki niður einu sinni enn í dýrtíðarmálunum, eins og jafnaðarmennirnir orðuðu það, og jafnaðarmennirnir misstu það tækifæri, sem þeir sátu um.

En þetta sýnir spákaupmennsku stjórnarandstöðunnar í þessu alvarlegasta málefni þjóðfélagsins nú. Ætlun stjórnarandstöðunnar er að græða á þessu framferði á óeðlilegum og hættulegum umrótstímum við í hönd farandi kosningar. Ég hlakka til kosninganna, til þess að fá með þeim úr því skorið, hvort það er pólitík þessarar tegundar, sem Íslendingar vilja, — hvort það borgar sig fyrir stjórnmálaflokkana að segja: Far þú bara í Bretavinnu, — þar hefur þú mest kaup og léttasta vinnu, en hirtu ekkert um skyldurnar gagnvart þjóð þinni. Heimtaðu kauphækkun, þótt það verði til þess að gera peningana verðlausa og stefna öllu í hrun fyrir öllum. Það er fróðlegt að sjá, hvort það borgar sig bezt fyrir stjórnmálamenn að haga sér eins og Stefán Jóhann og Alþýðublaðið, að prédika 24. október og 1. nóvember það, sem sömu aðilar ráðast með mikilli heift gegn um næstu áramót, — já, og telja þá baráttu frelsisstríð gegn þrælkun og kúgun.

Ég hef ekki mikla trú á því, að íslenzkir kjósendur hafi geð á því að hópast að kjörborðinu til að efla aðstöðu þess fólks í landinu.