09.04.1942
Neðri deild: 31. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 183 í B-deild Alþingistíðinda. (287)

2. mál, dómnefnd í kaupgjalds- og verðlagsmálum

*Frsm. meiri hl. (Bergur Jónsson):

Eins og menn sjá af nál., hefur allshn. klofnað í þessu máli. Fjórir nm. vilja samþ. frv. í aðalatriðum, en minni hl., hv. þm. Ísaf., vill láta fella frv., og hefur hann skrifað alllangt nál. Ég kemst ekki hjá því að geta þess í upphafi, að hv. þm. Ísaf. byrjar nál. sitt með því að kasta hnútum að okkur samnm. sínum fyrir það, að við höfum ekki athugað málið nógu vel. Nú veit hv. þm. það, að hann lýsti yfir því á 1. fundi n., að hann væri andvígur frv., og þegar ég spurði hann um það, hvort hann vildi, að n. athugaði frv. saman, þá vildi hann það ekki, enda var það til lítils, úr því að hann vildi ekki ganga inn á frv. Hv. þm. bar fram till. um það, að málið yrði sent til umsagnar Alþýðusambandsins, en við litum þannig á, að þar sem 2 mánuðir voru liðnir frá útgáfu bráðabirgðal., þá hefði öllum aðilum gefizt tækifæri til þess að láta álit sitt í ljós um málið, og væri því ekki þörf á því að senda það sérstaklega til umsagnar Alþýðusambandsins eða annarra aðila. Málið hefur nú almennt verið mikið rætt, og er því ekki ástæða til að fara inn á það, þar sem líka 1. umr. um þetta frv. var útvarpað. Meiri hl. n. telur, að það sé rétt stefna, sem kemur fram í frv., að reyna að draga úr dýrtíðinni með því að stöðva grunnkaupshækkanir og hafa hemil á verðlagi nauðsynjavara. Minni hl. n. heldur því fram í nál. sínu, að það sé gagnslaust og þýðingarlaust að reyna að halda niðri grunnkaupi, því að það hafi enga þýðingu fyrir dýrtíðina. Hvernig dettur þessum reynda þm. í hug að halda öðru eins fram og þessu, að grunnkaup hafi engin áhrif á dýrtíðina, þar sem það hefur grundvallarþýðingu fyrir dýrtíðina, að grunnkaup hvorki hækki né lækki? Eftir því, sem það er hærra, eykst verðbólgan og með henni kapphlaupið á milli kaupgjalds og verðlags í landinu. Það er annars einkennileg tilviljun, að þessi hv. þm. skuli nú vera aðalandmælandi frv., sem er samhljóða því frv., er hann var meðflm. að 1939, nema hvað þar er lengra gengið að öllu leyti. Í því frv., sem þessi hv. þm. þá flutti, var lagt til, að lögfest yrði 20% lækkun á launum manna í landinu og þar að auki að verkföll yrðu bönnuð og verðlagsuppbót alls ekki veitt nema takmarkað. Þegar þessi löggjöf var borin fram og samþ., — og hv. þm. Ísaf.

1) SK: Þó að ég sé ósammála þessu frv. í mikilsverðum atriðum, þá vil ég samt, að það. komist til 2., umr., því að ég hugsa mér að bera fram Brtt: við það, og segi því já.

stóð með henni —, var mikið atvinnuleysi í landinu, og kom þetta því miklu harðar niður heldur en nú, þar sem allir hafa yfirfljótanlega vinnu. Nú er aðeins farið fram á að halda grunnkaupi í skefjum, en hins vegar er leyft að hækka það til samræmingar og lagfæringar. Ég get tekið undir það með hv. minni hl. n., að það sé illa farið, að stjórnin skyldi ekki nota sér heimildarl. frá 1938 og 1941 til þess að reyna að vinna á móti dýrtíðinni, eins og Alþ. ætlaðist til. En ég veit ekki, hvernig þessi hv. þm. hugsar sér að ásaka aðra menn í stj., þar sem ráðh. hans flokks gerði ekki neitt til þess að vinna á móti dýrtíðinni, og hans flokkur yfirleitt hefur ekkert gert í þessum málum annað en að tala um í blöðum sínum, að það þurfi eitthvað að gera. Svo þegar loks á að fara að taka ákvarðanir í þessu máli, þá dregur Alþfl. sinn ráðh. úr stj.

Hv. þm. segir í nál. sínu, að félmrh., Stefán Jóh. Stefánsson, hafi framkvæmt húsaleigul. Ég veit ekki, hvort þetta er sagt til þess að rugla menn, eða hvort hv. þm. sér það ekki, að það er talsverður eðlismunur á húsaleigul., sem eru heimildarl., þar sem fyrirskipað er, að þau skuli framkvæmd, og ráðh. Alþfl. var því ekkert þakkandi, þó að hann léti framkvæma þau.

Hv. þm. segir í nál. sínu, að setning þessara bráðabirgðal, hafi verið þingræðisbrot. Þetta mun hann byggja á því, að frv. um lögfestingu kaups var fellt í Nd. á haustþinginu. En mér finnst rétt að benda á það í því sambandi, að andstæðingar þess frv. báru það aðallega fyrir, að réttara væri að fara hina svo kölluðu frjálsu leið, til þess að láta ekki grunnkaupið hækka. Þeir sögðu, að það væri ekki ástæða til þess að óttast, að launþegar mundu með verkföllum knýja fram grunnkaupshækkun. En um áramótin kemur það í ljós, að nokkur félög gera verkföll og sum í þeim tilgangi að fá verulega hækkun á grunnkaupi sínu. Þá er svo komið, að stj. er beinlínis skyldug til þess að taka tillit til þess vilja, sem kom fram á haustþinginu um að reyna að gera einhverjar ráðstafanir til þess að fullnægja því, sem ætlazt var til með hinni svo kölluðu frjálsu leið. Ég tel því, að ekki sé hægt að telja þetta þingræðisbrot, og hinu hefur ekki verið haldið fram, að hér hafi verið um stjórnskipunarlagabrot að ræða, enda kemur það ekki til mála. Stj. verður að meta það í hvert sinn, hvort ákvæðum 23. gr. stjskr. sé fullnægt eða ekki.

Mér finnst ekki heldur, að það hefði verið rétt að loka augunum fyrir því, að það hefði skapazt ranglæti með því að horft hefði verið á það aðgerðarlaust, að einstakir flokkar launþega hefðu getað knúið fram grunnkaupshækkun hjá sér, þegar allur þorri launþega sýndi þann þegnskap að hreyfa sig ekki.

Mér finnst það vera óþarfi fyrir minni hl. n. að vera með sneiðar í sambandi við þetta mál, eins og kemur fram í nál., ekki sízt með tilliti til þess, að Alþfl. hefur á undanförnum árum haft ráðh. í ríkisstj. Hv. þm. talar um, að það sé árangur af stefnuleysi stj. í þessum málum, hvað vísitalan sé nú orðin há, og segir hann, að dýrtíð hafi hér vaxið örar en í nokkru öðru landi, svo sem í Bretlandi, Bandaríkjunum og Þýzkalandi. Það kann vel að vera, að þetta sé rétt, en mér þætti fróðlegt að heyra, hvernig hv. þm. hefur fengið vitneskju um það, hver dýrtíðin er í Þýzkalandi og hverjar þær ráðstafanir eru, sem hv. þm. vill taka eftir nazistunum til þess að halda dýrtíðinni niðri hér á landi. Meiri hl. n. ætlaði ekki við þessa umr. að bera fram neina brtt. við þetta frv., en það kann vel að vera, að brtt. komi fram frá meiri hl. við 3. umr. málsins. Hins vegar liggja fyrir brtt. frá hv. 5. þm. Reykv., og væri æskilegt, að hv. þm. vildi taka brtt. sínar aftur til 3. umr. Ég verð að segja það fyrir hönd meiri hl. n., að við getum ekki greitt þessum brtt. atkv., ekki sízt vegna þess, að þarna er það gert að skilyrði fyrir úrskurði frá hendi gerðardómsins, að ágreiningur milli vinnuseljanda og vinnukaupanda skuli lagðar undir úrskurð gerðardómsins.

Ég skil ekki, hvaða bót er að því að taka þessi ákvæði út úr meginefni frv.

Annars er einkennilegt að taka svo til orða, að frv. skuli gilda á meðan ófriðurinn geisar í Norðurálfu, því að í frv. er gert ráð fyrir því, að l. gildi ekki nema til ársloka 1942.