09.04.1942
Neðri deild: 31. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 185 í B-deild Alþingistíðinda. (288)

2. mál, dómnefnd í kaupgjalds- og verðlagsmálum

Frsm. minni hl. (Finnur Jónsson):

Það hefur viljað svo til, að meiri hl. allshn. hefur valið sér sem frsm. í þessu máli hv. þm. Barð., sem er einn greindasti og skeleggasti lögfræðingur þessa lands. Ég geri þess vegna ráð fyrir því, að ýmsir, sem hlustuðu á ræðu hans, hafi orðið nokkuð hissa á því, hve lélegur málflutningur hv. þm. var fyrir þessu máli, en fyrir mitt leyti er ég ekkert hissa á því, þó að varnirnar fyrir þessu frv. yrðu mjög lélegar, þegar tillit er tekið til allrar sögu málsins og til frv. sjálfs. Ég hef í nál. rakið þessa sögu allýtarlega, og byrjaði ég að lýsa meðferð málsins á fundi allshn. Ég hef í nál. ekki vikið einu eða neinu að meðnm. mínum, sem ástæða er fyrir þá að þykkjast yfir, heldur einungis sagt frá því, hvernig fór með afgreiðslu málsins á nefndarfundi. Það er alkunnugt, að þetta mál snertir hvern einasta launþega og atvinnurekanda í landinu mikið, og þess vegna var það lágmarkskrafa mín, að fyrir n. lægi umsögn frá Vinnuveitendafélagi Íslands og frá Alþýðusambandinu. Það mun væntanlega fáheyrt, að þingnefnd neiti að leita sér upplýsinga hjá aðilum þeim, sem frv. snerta mest. Það er alkunnugt t.d., að sjútvn. sendir þau mál, sem hún hefur með að gera, til Fiskifélagsins til umsagnar, eða annarra slíkra stofnana. Það er og algengt, að frv., er snerta gengisbreytingar, eru send til bankanna til umsagnar o.s.frv. Þó að ég vilji ekki kasta steini að meðnm. mínum fyrir afgreiðslu þessa máls, er það einkennilegt, að þeir skyldu ekki vilja leita sér upplýsinga um jafnmikilsvert mál eins og þetta hjá réttum aðilum. Mér virðist þetta muni stafa af því, að meðnm. mínir hafi ekki verið sjálfráðir gerða sinna í þessu efni, heldur hafi verið umr. það samið á milli Sjálfstfl. og Framsfl., að á þessu máli færi ekki fram nein athugun og þingið gerði enga breyt. á því.

Jafnvel þótt meðnm. mínir hafi engar upplýsingar viljað fá frá þeim stofnunum er mestu varðar þetta mál, og frsm. væri mjög fáorður um efni frv., tel ég mér skylt að ræða það ýtarlega.

Ég tel því bezt að byrja á sögu málsins og rekja hana, eins og tími vinnst til. Sagan er að vísu alkunn, en þó þannig vaxin, að ekki er hægt að ganga fram hjá henni.

Á Alþ. í júní 1941 var lagt fyrir þm. uppkast af dýrtíðarfrv. frá hæstv. viðskmrh. fyrir hönd ríkisstj. Þessi ráðh. vildi fá þetta frv. afgr. með snöggum hætti og slíta síðan þinginu fyrir hvítasunnu. Þessu voru þm. óviðbúnir, enda málið með eindæmum, meðal annars var gert ráð fyrir launaskatti og fleiri tekjum til ríkissjóðs, allt að 10–15 millj. krónur. Hins vegar var ekki gerð grein fyrir, hvað við þetta fé ætti að gera, og niðurstaðan varð sú, að þm. allra flokka gerðu uppreisn gegn því að afgreiða frv. fyrir hvítasunnu. Niðurstaðan af uppreisn þm. varð sú, að 6 manna n. fékk málið til meðferðar og athugaði það yfir hvítasunnuna. Að því loknu afhenti hún ríkisstj. uppkast að frv., sem viðskmrh. tók svo sum atriði upp úr í sitt eigið frv. Frv. viðskmrh. var þó eigi eins og það, er 6 manna n. hafði komið mér saman um.

Frv. þetta var síðan til umræðu á Alþ. og tók þar miklum breytingum frá því, er viðskmrh. hafði lagt til. Var því hraðað svo mjög, að í Ed. vakti það gremju, hversu stuttan tíma sú d. hafði til að ræða það. Voru ríkisstj. með því gefnar heimildir til að vinna gegn dýrtíðinni. Enda þótt l. væru í heimildarformi, þá kom þó greinilega fram hjá þm., að þeir ætluðust til, að þau yrðu framkvæmd eftir því sem unnt væri. Því til sönnunar skal ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa í 1. gr. l. 2. mgr. Þar segir svo : „Ríkisstj. skal verja fé því, sem aflað er samkv. l. þessum til þess að koma í veg fyrir, svo sem unnt er, að verðlag á innlendum og erlendum nauðsynjavörum hækki til neytenda frá því, sem nú er, og til að styðja þá framleiðendur, sem af styrjaldarástæðum eru neyddir til að selja vöru sína óeðlilega lágu verði, allt að undangenginni athugun á þeim ástæðum, sem fyrir hendi eru“.

Eins og sést á þessu, kemur vilji Alþ. mjög greinilega fram í 2. mgr. 1. gr. l. þessara, því að þar er beinlínis fyrirskipað að verja fé því, er aflað er með l., til þess að halda niðri dýrtíðinni. Þess vegna er það algerlega rangt hjá hv. frsm., þm. Barð., sem hann sagði um þetta atriði. Ríkisstj. var ekki í sjálfsvald sett, hvaða tekjur hún notaði til að framkvæma þessi l. Hún hafði heimild til að innheimta útflutningsgjöld af útfluttum vörum, er seldar voru með stríðsgróða, 10% viðauka á tekju- og eignarskatt, sem nam 900 þús. kr., og auk þess 5 millj. kr. úr ríkissjóði. Með þessum l. var ríkisstj. gefin heimild til þess að ákveða farmgjöld af vörum með íslenzkum skipum og leiguskipum, sömuleiðis heimild til þess að fella niður tolla af ýmsum nauðsynjavörum, lækka tolla af öðrum vörum, svo sem sykri, um helming, hækka tolla af áfengi og tóbaki um 50% o.fl., en ekkert af þessu gerði ríkisstj., allar þessar heimildir lét hún undir höfuð leggjast að framkvæma, og þó fannst hæstv. viðskmrh. heimildirnar ekki nógu víðtækar og þótti skorta á, að tekið var undan úr till. hans ákvæði um að leggja á 10% launaskatt. (Viðskmrh.: Ég er hræddur um, að hv. þm. fari hér með rangt mál, því að aldrei var talað um neinn launaskatt.) Eins og. hæstv. viðskmrh. man, var rætt um launaskatt, en það má vera, að hann hafi í till. sinni breytt því í tekjuskatt, en hinu getur hann ekki neitað, að þessi skattur var miðaður við, að þyngt yrði sem mest á miðlungs- og lágtekjum. Enda er þetta einmitt alveg í samræmi við skoðanir hæstv. viðskmrh. í dýrtíðarmálunum. Honum hafa ætíð vaxið í augum peningar þeir, sem sjómenn og verkamenn hafa unnið sér inn frá því að stríðið hófst. Hann hefur sett sér það mark að ná þessum tekjum í ríkissjóð og koma í veg fyrir, að stríðsgróðinn lendi meðal almennings.

Nú var svo með þessa löggjöf, að hún var staðfest 9. júlí, en svo leið til hausts, og ríkisstj. gerði ekkert af því, sem henni var falið, annað en að innheimta 10% viðauka á tekju- og eignarskatt, álagðan árið 1941. Allar aðrar ráðstafanir lét ríkisstj. undir höfuð leggjast að framkvæma, og á þessum tíma hækkar dýrtíðarvísitalan úr 157 stigum, sem hún var 1. júlí, og upp í 183 um áramót. Ég bendi á þetta, af því að það virðist vera álít hæstv. viðskmrh. og sýnist staðfest með þessum l., sem eru til umr. hér nú, að það sé sérstaklega vegna grunnkaupshækkunar sem vísitalan hafi hækkað.

Ég sagði ekki í nál. mínu, að grunnkaupshækkanir gætu ekki haft áhrif á vísitöluna, en ég sagði, að vísitalan hefði hækkað án þess að grunnkaupshækkun kæmi þar til greina. Vilja þeir hæstv. viðskmrh. og hv. frsm. meiri hl. benda mér á einhverja grunnkaupshækkun frá 1. júlí til áramóta? (BJ: Var það ekki um áramótin, sem samningar runnu út?) Jú, samningar runnu út um áramótin, en ég er að reyna að koma hv. þm. Barð. í skilning um það, að vísitalan hafi ekki hækkað til áramótanna af völdum grunnkaupshækkunar, sem þá hafði heldur engin orðið. (BJ: Hún hefur staðið í stað síðan á nýári.) Það er rétt, en inn á það atriði kem ég seinna.

Áframhald þessa máls er svo það, að Alþ. kemur saman í okt. síðastliðnum til þess að ráða fram úr þessum málum, sem ríkisstjórnin tók við af Alþ. og ætlaði að framkvæma, til þess að halda niðri dýrtíðinni í landinu, sem hún gerði svo ekki, er til kastanna kom. Hæstv. viðskmrh. leggur þá fyrir Alþ. till., sem voru á þá leið m.a., að grunnkaup hækkaði ekki og dýrtíðaruppbót heldur ekki, þótt dýrtíðin hækkaði, lögfest yrði verð á mjólk og ýmsum innlendum afurðum, húsaleiga yrði lögbundin áfram og ráðherra fengi vald til að ákveða hámarksverð á vörur, en það vald hefur hann í rauninni haft síðan 1939. Samfara þessu hafði hæstv. viðskmrh. drepið á aðra möguleika sem ráðstafanir gegn dýrtíðinni, sem ekki komu fram á Alþ., svo sem gengishækkun og framlag úr ríkissjóði í dýrtíðarsjóð. Niðurstaðan af þessu varð sú, að ríkisstjórnin sagði af sér. Tilraun var gerð í þá átt að mynda nýja stjórn, en svo fór þó, að ríkisstjórnin tók aftur við völdum og lofaði að framkvæma dýrtíðarl., enda þótt ráðh. Framsfl. teldu þau ófullkomin. Ríkisstj. hefur þannig tekið tvisvar við l. frá alþ. og tvisvar hefur hún brugðizt skyldu sinni. Ég veit ekki, hvað sagt yrði um óbreytta borgara í þjóðfélaginu, ef þeir brygðust skyldu sinni svona. Fjarri fór þó því, að ríkisstj. áliti, að ekki væri hægt að gera eitthvað eftir þessum l.

Sérstaklega voru tveir hæstv. ráðh., sem töldu mikið hægt að gera með þeim. Það voru þeir hæstv. viðskmrh. og hæstv. atvmrh. Hæstv. viðskmrh. taldi þó það skorta á, að eigi væri nóg þrengt að sjómönnum og verkamönnum. Um þessi l. sagði hæstv. viðskmrh. í júní s.l. á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta: „Allar þessar ráðstafanir miða að því að gera erfiðleikana minni síðar og til þess að halda uppi verðgildi peninganna. Þessar ráðstafanir ættu að koma í staðinn fyrir gengishækkun. Ég vil sérstaklega taka það fram, að ég tel fulla þörf á því að nota allar heimildirnar, sem hér er gert ráð fyrir, að fullu.“ Hæstv. atvmrh. sagði, að hækkun dýrtíðarinnar væri þjóðarógæfa, sem bæri að hindra á allan hátt. Hann sagði svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Því fer fjarri, að ríkisstj. sé áhrifalaus í nefndum þeim, er ákveða verðlagið, því að hún skipar formenn þeirra. — Það er kannske of mikil bjartsýni að gera sér vonir um algera stöðvun dýrtíðarinnar, auk þess, sem marga óvænta hluti getur borið að höndum. En mikið má ef vill.“

Þannig fórust þessum hæstv. ráðh. orð, þrátt fyrir það stóð hann á móti því, að nokkuð yrði gert til þess að bæta úr ástandinu, eins og Alþ. þó hafði ætlazt til. Ég hef vitnað í þessi ummæli hæstv. ráðh., af því að reynt var að færa þá afsökun fyrir ríkisstj., að l., sem Alþ. hefði afgr., hafi verið gagnslaus, en þó viðurkenndu — tveir hæstv. ráðh., að vel mætti gera mikið, ef viljinn væri með, eins og hæstv. atvmrh. sagði.

L. voru sem sagt látin óframkvæmd að undanskildum 10% skattaviðaukanum á tekjuskatt og eignarskatt, sem nam um 900 þús. kr., en ekki var þó notaður eins og l. ætluðust til, þ.e. til að halda niðri dýrtíðinni. Þá kom einnig fram hjá nokkrum hv. þm. sú skoðun, að þeir ætluðust til, að heimildir þessar væru notaðar. Einkum á ég þar við hv. þm. V.-Sk., sem fórust orð á þessa leið á Alþ. 1941, með leyfi hæstv. forseta :

„Ég tel líka heppilegast fyrir ríkisstj., að hún hafi í þessu máli ákveðinn þingvilja til að styðjast við. — Ég tel einnig rétt, að ríkisstj. viti fullkomlega af því, að hún mun fá sinn dóm fyrir framkvæmd þessara mála. — Hún mun fá sinn dóm frá þinginu.“

Jafnhliða því, sem látið var undir höfuð leggjast af ríkisstj. að gera viðbúnað vegna erfiðleika af völdum styrjaldarinnar, með því t.d. að fella niður tolla af korni og sykri og verja fé úr ríkissjóði til dýrtíðarráðstafana, þá var verðlagseftirlitið vanrækt líka. — Þegar gengi krónunnar breyttist 1939, þá var ásetningur ríkisstjórnarinnar að gera allt, sem hægt var, til þess að halda niðri verðlagi í landinu. Og það tókst um skeið að gera þetta, meðan verðlagseftirlitið var nokkuð vakandi. Seinna fór þetta aftur úr böndunum. Og því miður hefur hæstv. viðskmrh., sem annars virðist hafa verið mjög góðum vilja gæddur og miklum hæfileikum, alls ekki virzt þess umkominn að halda uppi verðlagseftirlitinu, eins og gera þurfti og hæstv. Alþ. ætlaðist til.

Hv. þm. Barð. spurði mig að því, hvað það hefði verið í verðlagsráðstöfunum í Þýzkalandi, sem ég hefði talið, að hefði verið heppilegt, að notað hefði verið hér á landi. (Forseti: Má ég henda hv. þm. Ísaf. á, að ef hann á mikið eftir af ræðu sinni, væri kannske rétt að fresta umr. Fundartíma er nú senn lokið.) Ég er fús til þess, en vildi aðeins ljúka einu atriði áður.

Eitt af því, sem Þjóðverjar hafa gert, sem er nokkuð merkilegt, er framkvæmd verðlagseftirlits þeirra. Og þó að ég sé mjög andvígur allri þjóðfélagsstefnu nazista, sennilega miklu andvígari, henni heldur en hv. þm. Barð. og áreiðanlega miklu andvígari henni heldur en þeir, sem settu kúgunarl. um gerðardóminn, þá hefði ég óskað þess, að hæstv. viðskmrh. hefði tekið sér nokkuð til fyrirmyndar þær ráðstafanir, sem Þjóðverjar gerðu til þess að halda niðri verðlaginu. (Viðskmrh.: Ég held, að þá hefði þurft að koma eitthvað nærri kaupgjaldinu.) Þeir tóku það ráð að banna hærri verðlagsálagningu heldur en var fyrir stríð, að viðbættri dýrtíðaruppbót. En hæstv. viðskmrh. hefur í verðlagsákvörðunum þeim, sem undir hann heyra, fylgt þeirri reglu að jafnaði, þangað til nú allra síðasta tímann, að leyfa hundraðshluta-álagningu á erlendar vörur, miðað við innkaupsverð. Og þetta hefur gert það að verkum, að verzlunarálagningin hefur alla jafna síðan stríðið hófst verið langt á undan kaupgjaldinu með að hækka, sem kemur til af hækkuðu innkaupsverði, mjög hækkuðum farmgjöldum og hækkuðum tolli. Til dæmis um þetta hef ég látið athuga þetta dálítið. Teknar voru átta nauðsynjavörutegundir og athugað hækkunin á vörunum og hækkunin á álagningunni. Og sú athugun hefur fært mér heim sanninn um það, að dýrtíðaruppbótin, sem verzlanirnar hafa fengið gegnum verzlunarálagningu þá, sem heyrði undir hæstv. viðskmrh., hefur alla jafna verið nokkuð löngu á undan dýrtíðinni. (Viðskmrh.: Það er bara misskilningur. Ég hef hér fyrir framan mig verð á nokkrum helztu vörutegundum, innkaupsverð á þeim í jan. 1939 og útsöluverð; sömuleiðis innkaupsverð á þeim í janúar 1941 og útsöluverð eftir heimilaðri álagningu. Og álagningin á þessar vörur hafði þá hækkað á þessu tímabili um 51%. En kaupgjald hafði þá hækkað um 42%. Þetta er ákaflega ljós afleiðing af þeirri röngu stefnu, sem hæstv. viðskmrh. hefur fylgt um álagningu á vörur.

Ég skal svo verða við tilmælum hæstv. forseta um að fresta ræðu minni að öðru leyti þar til síðar. [ Frh.]