10.04.1942
Neðri deild: 32. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 205 í B-deild Alþingistíðinda. (292)

2. mál, dómnefnd í kaupgjalds- og verðlagsmálum

*Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti! Ég hef borið fram brtt. við frv. þetta á þskj. 73, og er skylt, að ég fylgi þeim úr hlaði með nokkrum skýringarorðum. Ég vil þó leyfa mér, áður en ég tala um brtt. sjálfar, að fara nokkrum almennum orðum um málið og tildrög þess, því að það er vitað, að þessi bráðabirgðal., sem frv. er ætlað að staðfesta, hafa valdið ákaflega miklum deilum, svo að það er ekkert undarlegt, vegna þess að þau koma mjög við hagsmuni fjölda manna, og það er einnig eðlilegt vegna þess, að þessi bráðabirgðal. eiga sér ákaflega einkennilega eða fágæta forsögu. Þau eru sett, að því er okkur er sagt, vegna dýrtíðarinnar, en hún hefur ekki komið eins og þjófur á nóttu yfir þjóðfélagið, heldur verið að læðast eins og þoka eða eiturgas yfir þjóðfélagið í mörg ár. Þessi dýrtíðarvofa var búin að sýna sig meira að segja löngu áður en stríðið skall á, og ef sögu hennar ætti að rekja, væri hún bæði löng og að ýmsu leyti ljót, en ég mun fara fljótt yfir þá sögu.

Dýrtíðin í landinu byrjaði í raun og veru með tvennu, annars vegar með því að innleiða hér innflutningshöft á útlendar vörur og hins vegar með því að setja l. um afurðasölu. Hvort tveggja varð mjög til þess að auka dýrtíðina í landinu.

Sú grein var gerð fyrir innflutningshöftunum, að þau ættu að vera til að lagfæra gjaldeyrismál þjóðarinnar. hað var vitað, að verðmæti útfluttra vara hrökk ekki fyrir þeim nauðsynjum, sem við þurftum að fá frá öðrum þjóðum, og þeir vísu feður í stj., og þá fyrst og fremst hæstv. viðskmrh., töldu einasta ráðið til þess að bjarga þessum gjaldeyrismálum að hefta innflutning á erlendum vörum. Það er í raun og veru vitanlegur hlutur, að til þess að bæta hag sinn við aðrar þjóðir, er aðeins eitt ráð, sein dugir, en það er að auka framleiðsluna og útflutninginn. Það getur dugað í bráðina að minnka innflutninginn, en aðeins meðan verið er að eta upp þær birgðir, sem fyrir eru í landinu. Þessi elixír, sem hæstv. viðskmrh. var sýknt og heilagt að bera að vörum þjóðarinnar í 6 ár, hefur aldrei getað læknað neitt í þessum sökum nema meðan verið var að eyða þeim birgðum, sem til voru í landinu. Þeir, sem kunna skil á verzlunarjöfnuði, vita, að ekkert er einhlítt nema að eiga verðmæti, sem þjóðin getur flutt út, hitt verður aldrei nema í smáum stíl og til bráðabirgða, sem þjóðin getur sparað. Út í það skal ég ekki fara lengra, en vil með þessu sýna, að dýrtíðin, sem hæstv. stj. þykist vera að berjast við, er að miklu leyti skuggi hennar sjálfrar. Það er ekki vanskilið mál, að vöruskortur í landinu eykur dýrtíðina, hækkar vöruverðið. Það er lögmál, sem enginn hefur getað komizt í kringum. Þetta er einmitt það, sem, gerzt hefur hér á landi. Nú væri það út af fyrir sig villa að halda, að innflutningur svo að mörgum árum skipti gæti lagað viðskiptin, og bersýnilegt var, að þetta mundi hækka verðlagið í landinu, en þegar stríðið skellur á, þá er þessari stefnu haldið áfram, og þar er mergurinn málsins, og þar komum við að höfuðsök hæstv. stj., þegar hún er að berjast við að kveða niður þennan draug, sem hún sjálf hefur vakið upp, að hún ber þá saklausu ekki síður en þá seku.

Það er vitað mál, að áður en stríðið brauzt út, strax og nágrannaþjóðir okkar sáu fram á að dró til ófriðar, byrjaði hjá þeim kapphlaup um að flytja inn nauðsynjavörur og birgja sig sem bezt upp. Ísland var eina landið, sem taldi það nauðsynlegasta stríðsundirbúninginn að hafa sem mesta búsveltu í landinu, en það var það, sem hæstv. stj. gerði. Hæstv. viðskmrh. er því faðir og móðir dýrtíðarinnar í þessu landi, að svo miklu leyti sem þetta er mönnum sjálfrátt:

En það var ekki nóg með, að Íslendingar byggju sig ekki undir stríðið einir allra þjóða með því að hugsa ekki um það að birgja sig upp. Það var ekki látið þar við lenda, heldur liðu svo mánuðir og aftur mánuðir, eftir að stríðið var byrjað, að þess var enginn kostur, þrátt fyrir eindregnar kröfur almennings, að fá þessum innflutningshöftum létt af.

Ég man það, að á árinu 1940 var ég á flokksfundi, þar sem hart var rætt um þessi mál. Stríðið var búið að standa nærfellt ár, og þá var hörð deila um, hvort ætti að létta af innflutningshöftunum, en engin leið var að fá því framlengt. Allir sáu þá, að takmörkun innflutningsins átti mjög drjúgan þátt í þeirri dýrtíð, sem þá var farin að þjá almenning, og allir sáu, hvaða háski því fylgdi að hafa þjóðina birgðalausa. Ég hygg, að ég taki ekki of djúpt í árinni, þó að ég segi, að þetta andvaraleysi, að láta afskekkt eyland, sem lítinn siglingaflota hefur, vera birgðalaust, og það eftir að það var farið að eiga drjúgar innieignir erlendis, sé algerlega einsdæmi í veraldarsögunni, og tel ég, að hæstv. stj. hafi tekizt hér að setja ævarandi heimsmet. Hún hefur gert það, sem engar sögur herma að gert hafi verið í nokkru landi, að halda þjóðinni í vöruskorti að nauðsynjalausu heilt ár, eftir að út hafði brotizt styrjöld og hafnbanni lýst á, hvar sem ófriðaraðilar telja sér hag.

Nú er það að sjálfsögðu ekki nema lítill hluti af dýrtíðinni, sem mönnum er sjálfráður. Það er eðlilega mestur hluti þeirrar dýrtíðar, sem þjáir okkur, sem er okkur óviðráðanlegur. Um það þýðir ekki að deila. Þegar við komum saman á Alþ. 1940, voru hér strax sett l. viðvíkjandi dýrtíðinni. Þá tók ég strax fram, að ég áliti milli tvenns að greina, þess, sem okkur væri óviðráðanlegt, og móti því yrði að taka með þolinmæði og reyna að búa okkur til varnir til að standast það, og svo þess, sem okkur væri sjálfrátt, og um það vildi ég, að menn söfnuðust saman til að ráða þar bót á. Þá voru sett I. um að skipa verðlagsnefnd til þess að sjá um, að vörur yrðu seldar með skikkanlegu verði. Þessi l. voru sett að beiðni stj., og hún mun hafa samið frv. sjálf og fengið allshn. til að flytja það. A.m.k. var því lýst yfir í framsöguræðu hv. frsm. allshn., að frv. sé flutt fyrir stj. Þar segir svo, að skipa skuli 5 manna verðlagsn., og er þar fram tekið, hvernig n. skuli skipuð. Bregður þar svo einkennilega við, að af 5 mönnum, sem í n. eru, eiga seljendur að ráða 3. Er bersýnilegt, að með þessu er tilgangurinn að gæta þess, að verðlag sé ekki of lágt, því að það er vitanlegt, að þeir menn, sem selja almenningi vörur, hafa fyrst og fremst það sjónarmið, að verðið sé nógu hátt. Einn nm. er tilnefndur af iðnrekendum, sem hafa sína framleiðslu, sem þeir selja, einn er tilnefndur af kaupmönnum, sem hafa það eingöngu að atvinnu að selja öðrum vörur, einn af Sambandi íslenzkra samvinnufélaga, sem einnig hefur það að aðalstarfi að selja vörur. Með þessu er frekar lagður grundvöllurinn að því, að verðið sé frekar spennt upp en haldið niðri. Ég veit, að hað er geysimikill vandi að vera í slíkri n. sem þessari, og þess vegna er bezt að fara gætilega í að ámæla henni, en vitanlegt er það, að samvizka nm. segir þeim fyrst og fremst að vera trúverðugir þeim, sem hafa útnefnt þá, og þegar 3 af 5 eru útnefndir af þeim, sem hafa hagsmuni af því, að verðið sé sem hæst, þá er ekki undarlegt, þó að árangurinn hafi í heild orðið sá, að verðlag hafi ekki lækkað mikið. Það hefur líka farið svo, að n., sem, starfar undir stjórn ríkisstj., hefur ekkert skipt sér af verðlagi á mörgum helztu nauðsynjavörum. Það leið geysilangur tími frá stofnun n., þangað til hún skipti sér beinlínis af venjulegum nauðsynjavörum, en það steig, eftir að n. tók til starfa. Það brá svo einkennilega við, að matvara, sem alltaf hefur verið seld með lítilli álagningu, steig geysilega mikið. Hefur verið sýnt fram á, að undir vernd þessarar n. hefur það átt sér stað enn þá, að einn matvörusekkur er seldur með 40% álagningu. Sér hver maður, hversu geysileg sú hækkun er frá því, sem var á friðartímum. Má benda á ýmsa vöruflokka, sem ráða beint dýrtíðinni, sem hefur ekki verið reynt að lækka. Aftur á móti er hægt að benda á aðra flokka, þar sem n. kleip álagninguna mjög við neglur sér. Ein villan var þó mest. Álagningin var miðuð við hundraðshluta. Og þegar vörurnar margfölduðust í verði vegna stríðsins, vegna dýrari innkaupa, geysilega mikillar hækkunar á flutningsgjöldum og þar af leiðandi hækkuðum tollum, þá er bersýnilegt, að þessi hundraðshlutaálagning var að mörgu leyti ákaflega óheppileg, svo óheppileg, að af því mætti segja margar kyndugar sögur, eða réttara sagt sorglegar. Mér er sagt af einu fyrirtæki í bænum, sem hafði innkaup á glervöru og hafði svo góð sambönd, að kaupmönnum datt ekki í hug að fá slíka vöru nema fyrir milligöngu þessa fyrirtækis. En sá hundraðshluti, sem l:onum var leyft að leggja á, nægði ekki þessu fyrirtæki, af því að það keypti vöruna svo ódýrt inn. Og svo varð mikill skortur á þeirri vöru. Einn af kunningjum mínum, maður í heildsalastétt, græddi hins vegar á 2 mánuðum um 50 þús. á verzlun með þá sömu vöru, þótt hann legði ekki á nema þessi 27%. Hann keypti fyrir 200 þús. Þegar menn eru að fá innflutta vefnaðarvöru, er mjög erfitt að fá þær tegundir, sem samkv. enska samningnum eru tollaðar með 15%, auðvitað þykir gróðavænlegra að flytja inn og selja þá vefnaðarvöru, sem tolluð er með 50%, því að álagningin má þá vera að sama skapi meiri.

Með því að forseti gerir mér aðvart, að fundartími sé þrotinn, tel ég réttast að nema staðar og fresta því, sem ég á ósagt. [Frh.)