24.04.1942
Neðri deild: 41. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 6 í C-deild Alþingistíðinda. (306)

30. mál, jöfnunarsjóður aflahluta

Frsm. minni hl. (Jón Ívarsson):

Eins og þskj. 215 ber með sér, erum við hv. þm,. N.-Þ. í minni hl. sjútvn. í þessu máli. Ágreiningurinn er ekki um þá meginhugsun, sem er grundvöllur fyrir frv., að nauðsyn beri til þess, að þessi atvinnuvegur eigi sína tryggingarsjóði. En ágreiningurinn liggur í því, að okkur fannst þetta mál ekki hafa fengið forsvaranlegan undirbúning, svo að hægt væri að afgreiða það sem l. frá Alþ. að vísu hefur málið verið tvisvar áður til umr. í þinginu og bæði skiptin komizt skammt áleiðis. Í hið fyrra sinni var það í sama formi og nú, en í seinna sinnið í öðru formi. Þá var tryggingin frjáls, og gat hver og einn útgerðarmaður ráðið því, hvort hann vildi leggja fram fé í slíkan sjóð eða ekki. Eins og bent er á í nál. okkar, var á seinna þinginu borin fram og samþ. rökst. dagskrá um málið, þar sem ríkisstj. var falið að rannsaka það og undirbúa löggjöf, ef hagkvæmt þætti. Þessi rannsókn hefur aldrei farið fram, og málið er í sömu skorðum nú og þegar þingi lauk 1940. Þess vegna hefur þingið engu betri grundvöll á að byggja við afgreiðslu þess nú heldur en þá var. Þetta er ástæðan- fyrir okkar rökst. dagskrá, og þar sem Nd. konist að þeirri niðurstöðu 1940, að málið þyrfti að rannsaka, en það hefur enn ekki verið gert, horfir málið eins við nú og þá.

Aðalefni frv. þessa er það, að hvert veiðiskip, em hefur hlutaráðningu, skuli borga ákveðið gjald af afla sínum í sjóð, en ríkissjóður leggur fram jafnmikið á móti. Eins og hv. flm . meiri hl. hefur sagt, liggur ekkert fyrir um það, hvað þetta gjald gæti orðið, hvorki hjá útgerðarmönnum né ríkissjóði. Við hv. þm. N.-Þ. lítum svo á, að ekki sé forsvaranlegt af Alþ. að binda ríkissjóði þá bagga, sem ómögulegt er að segja um, hversu miklu nema, eins og nú er, og því síður í framtíðinni. Auk þeirrar ástæðu, sem ég hef nú greint, er margt annað við frv. að athuga, og virðist það þurfa að fá rækilega athugun og meiri en var á valdi n., áður en það næði fram að ganga.

Í frv. segir, að skilyrði til þess, að skipin geti orðið meðeigendur í þessum sjóð, sé það, að þau. rafi hlutaráðningu, sbr. 1. gr. Eftir því sem ég þekki til, virðist þessi hlutaráðning vera nokkuð mismunandi. Hér við Faxaflóa er hún á þann hátt, að öll skipshöfnin ber kostnaðinn sameiginlega af olíu, beitu, veiðarfærum og yfirleitt öllu, sem að útgerðinni lýtur. En hins vegar veit ég til þess sums staðar annars staðar, að útgerðarmaðurinn sjálfur greiðir nær allan útgerðarkostnaðinn, en skipshafnirnar aðeins viðlegugjald og húsaleigu af óskiptum afla, en engan annan sameiginlegan kostnað við útgerðina. Á síldveiðum mun skipshöfnin fá hluta af aflanum án tillits til kostnaðar við veiðarnar. Eins og kunnugt er, mun á togurunum vera fast kaup, en auk þess fær skipshöfnin hluta af lifrarafla, og er því þar um að ræða nokkurs konar hlutaráðningu. Hlutaráðningarnar eru nokkuð mismunandi, og ákvæði frv. þess vegna nokkuð óskýr og mundu í framkvæmdinni valda erfiðleikum. Hlutaráðningarfyrirkomulagið þarf að vera ákveðið og ekki mismunandi, til þess að gjaldið komi ekki misjafnlega þungt niður á einstakar skipshafnir og útgerðir. Nú er sagt í fyrstu grein, að frádreginn skuli vera sameiginlegur kostnaður, áður en gjaldið, 1%, er reiknað. En hver er þessi sameiginlegi kostnaður? Við álítum, að þurfi að skilgreina hann miklu nánar heldur en gert er í frv., vegna þess að um þetta gilda mismunandi venjur og reglur, hvað telst til sameiginlegs kostnaðar við útgerð. Eins og ég gat um, bera útgerðirnar misjafnlega mikinn hluta af þessum kostnaði, og þar af leiðandi yrði ólíkur grundvöllur fyrir gjaldinu samkv. frv. Útgerðarmaðurinn á að standa skil á gjaldinu, og bæjarfógetar og hreppstjórar eiga að innheimta það, hver í sínu umdæmi. Af þessu er ekki sjáanlegt, hvar gjaldið á að innheimtast, hvort heldur þar, sem skipin eiga heima — eru skrásett, eða þar, sem þau eru gerð út, sem fer oft ekki saman. Ef skipin eru gerð út frá öðrum stöðum en þau eru skrásett á, eiga þá gjöld þessi að innheimtast á útgerðarstaðnum eða skrásetningarstaðnum? Petta lætur frv. ósagt.

Enn segir í fyrstu grein, að útgerðarmaður standi skil á gjaldinu og það skuli sent sjóðsstjórninni að loknum skiptum eftir hverja vertíð. Nú er mjög misjafnt, hvenær slík skipti geta farið fram. T.d. mun S.Í.F. vera nú að úthluta uppbót á saltfisk, sem veiddur var 1940, og eftir því sem ég bezt veit, er nú verið að úthluta uppbót á síldaraflann 1940. Þannig getur uppgerð á því, hve aflinn hefur verið mikill að verðmæti, dregizt mjög lengi. Útgerðarmaðurinn getur ekki afhent skipshöfninni andvirði aflans, fyrr en sölu er lokið, og þetta mundi torvelda mjög framkvæmd l., ef frv. yrði samþ. Ég bendi á framantalin atriði til þess að sýna, að frv. er alls ekki þannig úr garði gert, að það megi verða að l., eins og það er. Það vanar t.d. nánari skýringu á, hvað átt sé við með sameiginlegum kostnaði, hvar gjaldið eigi að greiðast o.s.frv. Og það er alls ekki nógu skýrt ákvæði, að gjaldið skuli greiðast við lok hverrar vertíðar. Hugtakið vertíð er svo teygjanlegt og óákveðið; að það er naumast fært að miða þessi ákvæði frv. við það, eins og hér er gert.

Í 3. grein er talað um, að „skip, sem gerð eru út í sama kaupstað eða sama hreppi, geti myndað sérstaka deild í jöfnunarsjóði, ef útgerðarmenn og starfandi sjómenn í kaupstaðnum eða hreppnum óska þess“. Hér er ekki sagt, hvort átt sé við alla sjómenn á viðkomandi stað eða meiri hluta þeirra eða máske gæti verið átt við örfáa þeirra, ef til vill einn eða tvo. Þetta frv. er að flestu leyti svo óákveðið og óundirbúið, að ekki eru tiltök að gera það að l., eins og það er. Í því er t.d. ekkert sagt um það, hve margir þurfi að vera með stofnun sérdeildanna, til þess að löglegt sé. Hvort eiga deildirnar heldur að starfa þar, sem skip er skrásett eða gert út, eða getur sama skip verið í deild á báðum stöðum? Hvernig á svo að mynda deildirnar? Á þetta er ekki minnst einu orði í frv. Í frv. segir, að sjóðsstjórnin geti við úthlutun hlutaruppbóta úr sérsjóðum þeim, sem frv. gerir ráð fyrir, vikið frá hinni almennu reglu, ef ástæða þykir til og óskir koma fram um það frá þeim, sem hlut eiga að máli. En hverjir eiga hér hlut að máli? Getur einn maður fengið þessu framgengt? Eða þurfa allir deildarmenn að óska þess?

Yfirleitt er frv. svo óljóst, að ekki nær neinni átt að gera það að lögum. Ég er hræddur um, að hver, sem framkvæma ætti slíka löggjöf, kæmist oft í mikinn vanda um það, hvernig ætti að fara með einstök atriði hennar. Að vísu stendur í einni gr. frv., að setja megi reglugerð um stjórn sjóðsins og starfrækslu, og geri ég ráð fyrir, að hér sé átt við, hvernig sjóðurinn sé rekinn, þegar hann er til orðinn og féð innheimt.

Eftir því sem ég hef athugað frv. betur, er ég sannfærðari um það, að það þarf mikinn undirbúning til þess, að sett verði slík löggjöf, svo að í lagi sé, og það er ekki fært neinni þn. að lagfæra það á þeim takmarkaða tíma, sem ráð er á.

Í trausti þess, að frv. eigi eftir að fá betri undirbúning, höfum við minni hl. sjútvn. borið fram rökst. dagskrá á þskj. 215, og ef hún verður samþ., munum við bera fram sérstaka till. til þál. um að fela ríkisstj. athugun og undirbúning málsins með stuðningi sérfróðra manna, sem hafa verklega þekkingu á útgerð og reynslu í þeim efnum. Þar sem þetta er tryggingarmál að nokkru leyti, þyrfti einnig á aðstoð tryggingarfróðra manna að halda við undirbúninginn. eins og líka var vikið að í rökst. dagskr., sem samþ. var í þessu máli á Alþ. 1940.

Ég vil svo að endingu mæla með rökst. dagskránni og bendi á um leið, að verði hún samþ. munum við minni hl. bera fram sérstaka till. til þál. um, að ríkisstj. taki málið til athugunar.