09.03.1942
Efri deild: 12. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 22 í C-deild Alþingistíðinda. (326)

26. mál, Háskóli Íslands

Flm. (Páll Zóphóníasson):

Ég verð að mótmæla ýmsum atriðum, sem fram komu í ræðu guðfræðiprófessorsins, eins og t.d. því, er hann sagði, að hann hefði miklu meira álit á mönnum, sem hefðu langan námsferil að baki sér, en mönnum, sem hefðu próf. Maður man, að háskólinn tók til sín prófessor, sem var búinn að slæpast við nám í 12 ár án þess að ná prófi. En þeim þótti sjálfsagt að taka hann fram yfir aðra, er styttri tíma höfðu verið í skóla og náð prófi. Þar sýndi það sig, að áratala við námið, sem stundað var að yfirvarpi, var meira metin en dugnaður við nám, fá námsár og gott próf.

Ég vildi gjarnan fá þetta staðfest; að einn háskólaprófessorinn hefur látið þetta álit í ljós. því að það gæti komið til mála, að hann felldi það úr ræðu sinni. Slíkt hefur sézt. Hann var að tala um það, að nú væri læknadeild svo fullskipuð, að læknarnir yrðu að finna upp nýja sjúkdóma til þess að fá eitthvað að gera. Þetta á sér stað á sama tíma, sem sum héruð landsins eru læknislaus, af því að þangað fæst enginu maður. Þau áhrif, sem læknaefnin verða fyrir, virðast þess vegna, eftir sögn prófessorsins, vera þau, að þeir kæri sig ekki um að hjálpa mönnum, sem eru veikir, heldur fái þeir þann anda í sig gegnum námið, að það sé bezt að reyna að telja fólki trú um, að það sé veikt, og reyna svo að lækna þá veiki. Það sé léttara og á því fljótteknari peningar: Ég vil gjarnan fá þetta staðfest líka.

Það, sem kemur fram í mínum till., er aðallega það, að það er gert ráð fyrir því, að inn í háskólann geti komizt menn, sem ekki eru stúdentar. Að því er virðist, er hæstv. forsrh. sammála þessari till., en honum finnst rétt að fresta málinu nú. Hann er nú ekki við, en kannske vill hann láta það líða eftir afgreiðslu álits þeirra nefndar, sem væntanlega hefur verið skipuð samkv. þál. Alþ. í fyrra, og átti að gera till. um framtíðarfyrirkomulag í skólamálum. Annars hef ég ekkert um eða af henni heyrt síðan.

Guðfræðiprófessornum þykir það óskaplega mikil stefnubreyt., að gert er ráð fyrir því, að þessir nýju nemendur gangi undir sérstakt inntökupróf, sem háskólinn á að ráða, hvernig er. Mér þykir það þó ekki óeðlilegt, að þeir, sem kenna þessum nemendum, ráði einhverju um það, eftir hvaða reglum verður farið og hvers verður krafizt af þessum nemendum.

Eftir mínum till. er skynsömum, duglegum mönnum veitt aðstaða til menntunar, þó að þeir hafi ekki getað byrjað sinn námsferil fyrr en seint. Þeim verður gert kleift að afla sér svipaðrar eða sömu menntunar og hinum, sem margir ganga í menntaskóla. Það hefur sýnt sig, að þeir, sem hafa lokið verzlunarskólanámi, eru búnir að læra megnið af því, sem þeir þurfa að kunna til þess að standast inntökupróf í háskólann.

Það, sem hér er um að ræða, er, hvort það á að útiloka alla aðra en þá, sem farið hafa í gegnum 6 ára nám, frá því að geta orðið aðnjótandi þeir rar kennslu, sem þarna er hægt að fá, og öðlast próf frá þessum deildum. Og því er ég á móti. Í fyrra, þegar rætt var um sameiningu Viðskiptaháskólans, var ég með því, að leyfa ætti öllum, sem hefðu nægilegan undirbúning, að fara inn í viðskiptafræðideildina. Ég var þá fram till. un það, en hún var felld, af því að hæstv. ráðh. sagði, að málið þyldi ekki að fara til hv. Nd.

En ég tel, að ekki sé vafi á, að með þessu frv. opnist möguleikar fyrir áhugamálum þeirra, sem eru nógu þroskaðir til þess að ná þessum prófum, en höfðu ekki tækifæri til þess með 6 ára skólagöngu. Og með því gætum við fengið miklu betri menn heldur en þá, sem rás lífsins hefur veitt tækifæri til að ná stúdentsprófi. Með því mundu geta komið betri kraftar inn í viðkomandi stéttir heldur en ef stúdentum einum væri opin þessi leið, eins og nú er.