09.03.1942
Efri deild: 12. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 27 í C-deild Alþingistíðinda. (329)

26. mál, Háskóli Íslands

*Magnús Jónsson:

Ég er hræddur um, að ég sé ekki eins óhróðursfróður og hv. þm., svo að ég veit ekki, hvað hann á við. En ég veit, að menn eru í mjög háum stöðum án þess að hafa nokkur próf, t.d. í pólitískum stöðum. En mig rennur grun í, hvern hann kenndi við tólf ára nám, sem varð síðar prófessor. Það er alger misskilningur, að hann hafi farið próflaus inn í embættið. Hann komst í það að loknu samkeppnisprófi. (P.Z: Sem aldrei var lokið.) Það var samkeppnispróf, sem dæmt var af fimm manna nefnd. Hv. þm. getur auðvitað reynt að véfengja hennar dóm, en svona lauk þessu prófi. (PZ: Lauk svo, að ekki var lokið við prófritgerð.)

Ég vil nú aðeins draga úr því, sem ég sagði áðan, að mér væru kærastir af nemendum mínum menn, sem kæmu úr kennarastöðum. Mér þykir nefnilega ósköp vænt um alla mína stúdenta, og mér vitanlega hefur aldrei borið skugga milli mín og þeirra. Ég átti sérstaklega við þetta, að æskilegustu mennirnir eru þeir, sem koma fullþroskaðir og með mikla lífsreynslu og sanna sinn mikla áhuga með því að brjótast í þessu. Það eru miklar vonir, sem við setjum til slíkra manna, og við viljum fá marga slíka. En það er ekki greitt fyrir þeim með þessu frv.

Hv. þm. kvað háskólakennurum vantreyst með því að álíta þá ekki eins góða eða betri en aðra til að ráða þessu prófi. Þjóðfélagið hefur nú einu sinni gert kröfur sínar um það, að menn hafi lokið ákveðnu prófi til þess að ritast inn í háskólann. En vitanlega má rökræða um, hvort þær kröfur eru réttar. En kröfur þjóðfélagsins eru það. Og ég vil ekki, að þjóðfélagið afsali sér í hendur sérfræðingum í hverri deild háskólans að segja, hvað þeim líkar í þessu efni. Það er heimtuð almenn menntun af öllum, sem ætla að „stúdera“ áfram, svo og svo mikið í náttúrufræði, landafræði, sögu, stærðfræði o.s.frv. Ég geri ráð fyrir, að guðfræðingar hefðu tilhneigingu til að strika eitthvað út, og aðrar deildir vildu kannske strika annað út. Nei, hér eru tvær stefnur. Önnur er sú, að hafa sérnám frá upphafi. Í samræmi við þá stefnu mætti hver háskóladeild meta próf inn í hana. Hin stefnan er ú, að námið sé sameiginlegt svo og svo langt fram eftir, og ég held, að hún sé meira ofan á í skólamálum nútímans, — að krefjast mikils, en greina námið svo að síðustu í sérstakar greinar. En verst mun vera af öllu, ef gera á, eftir till. hv. þm., hrærigraut úr hvoru tveggja. Þá mundu verða tvær tegundir — og nokkuð ólíkar — af þekkingarkröfum til inntöku í sömu deild. Þessa tvískipting í smærri stíl verðum við varir við meðal stúdenta, sem sumir koma úr máladeild, en aðrir úr stærðfræðideild. Sumir eru góðir í latínu, og kemur það sér vel í ýmsu í okkar fræðigrein. En góð stærðfræðikunnátta kemur þar ekki eins að haldi.

Og að lokám þetta: Að slepptum þeim hnotabitum, sem voru í ræðu hv. þm., þá er hann efnislega að koma inn á verulegan stefnumun í þessum málum, sem má lengi ræða um, og það á víðum grundvelli.