06.05.1942
Efri deild: 50. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 28 í C-deild Alþingistíðinda. (331)

26. mál, Háskóli Íslands

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Þó að menntmn. hafi gefið út sameiginlegt álit um þetta mál, þá er hún, eins og nál. hennar á þskj. 265 ber með sér, ekki sammála um málið.

Hv. form. n. kveðst vilja samþ. frv., en hefur þó einhvern fyrirvara um þá afstöðu sína, sem hann væntanlega gerir grein fyrir sjálfur, ef hann er þá staddur hér. En við hinir 2 nm. leggjum til, að frv. verði vísað til stj.

Með þessu frv. er lagt til að gera tvenns konar breyt. á háskólal. Í fyrsta lagi, að hafa þar 6 deildir í staðinn fyrir 5, sem nú eru. M.ö.o., bæta þar við hagfræðideild, og þar fari þá fram kennsla í viðskiptafræði, sem verið hefur í lögfræðideild. Það er ekki annað hægt að sjá en þessi breyt. sé næsta þýðingarlítil, hvort þessi kennsla fer fram í sérstakri deild eða er í sambandi við lögfræði- og hagfræðideild. En á hinn bóginn mundi það valda auknum kostnaði að gera þetta að sérstakri deild, og vísa ég um það atriði í fskj. 3, sem fylgir nál. Miklu veigameiri er síðari breyt., sem frv. vill gera á gildandi 1., sem sé það, að heimila mönnum nám í háskólanum, þ.e.a.s. 3 deildum hans, heimspeki-, hagfræði- og guðfræðideild, þó að þeir hafi ekki tekið stúdentspróf.

En við tveir nm. litum svo á, að jafnvel þó að inn á þessa stefnu væri gengið, næði frv., eins og það liggur fyrir, hvergi nærri tilgangi sínum, því að í 2. tölul. 3. gr. er gert ráð fyrir því sem skilyrði fyrir því að fá að stunda nám við Háskóla Íslands, að viðkomandi standist inntökupróf, svo sem nánar verði ákveðið í reglugerð, er háskólinn setur og kennslumálarh. staðfestir. Það þarf ekki annað en vísa til fylgiskjalanna með nál., í fyrsta lagi álits frá heimspekideild, í öðru lagi frá guðfræðideild og í þriðja lagi frá kennara í viðskiptafræði, til þess að sýna það, að háskólinn og kennarar hans telju það nauðsynlegt skilyrði að hafa tekið stúdentspróf. Og að ákveða það, að menn geti komizt í háskólann, ef þeir taka inntökupróf samkv. reglugerð háskólans, mundi áreiðanlega vera þýðingarlaust, þegar á það er litið, hvaða skoðun háskólinn hefur á því atriði, því að það próf mundi án efa verða stúdentspróf. Breyt. yrði þá sú ein, að hægt yrði að taka stúdentspróf á þremur stöðum í landinu í stað tveggja, eins og nú er. Hv. þm. Vestm. og ég sjáum ekki, að það hafi mikla þýðingu.

Ef ætti að heimila öðrum en stúdentum nám við háskólann, væri miklu nær að ákveða það, að tiltekin próf, önnur en stúdentspróf, heimiluðu þar aðgang, t.d. að próf frá verzlunarskólanum eða samvinnuskólanum heimiluðu aðgang að viðskiptadeild og t.d. frá kennaraskólanum að guðfræðideild, en ég verð að játa, að við hv. þm. Vestm., sem hvorugur er háskólagenginn, treystum okkur ekki til að gera till. um breyt. á háskólal., sem færu í bág við álit háskólakennaranna. Hins vegar teljum við þörf endurskoðunar á þessum atriðum og að þau verði rannsökuð af þeim, sem þekkingu hafa til þess, þannig að álit færustu manna komi í ljós um það, hvort ekki mætti rýmka um inngönguskilyrði í vissum greinum. Aftur á móti teljum við ekki rétt, að þingn., sem ekki er skipuð háskólagengnum mönnum, ráði þeim málum til lykta. Þess vegna leggjum við til, að málinu verði vísað til ríkisstj., svo að hún geti látið hina færustu menn um það fjalla.

Það er óviðkunnanlegt, að hv. flm. skuli ekki vera viðstaddur. En hann veit, að málið er í dagskrá, svo að, ekkert er við því að segja.