23.02.1942
Neðri deild: 3. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 42 í C-deild Alþingistíðinda. (338)

4. mál, frestun bæjarstjórnarkosninganna í Reykjavík

*Fjmrh. (Jakob Möller):

Hv. þm. Seyðf. sagði, að ég hefði í grg. fyrir kosningafrestuninni vísvitandi borið rangar sakir á alþfl. og forráðamenn hans, þegar ég hélt því fram, að þeir hefðu átt sinn þátt í því, að verkfall komst á á svo hentugum tíma fyrir Alþfl. Og til þess að gera það sem ólíklegast, að ég hafi rétt fyrir mér um þetta, vakti hann alveg sérstaklega athygli á því, að það hefði mátt vera meiri fyrirhyggjan hjá Alþfl., ekki aðeins að koma til leiðar verkfallinu um áramótin, heldur segja upp samningum þrem mánuðum fyrir áramót til þess að fá alla sjálfstæðismenn, alla framsóknarmenn og alla kommúnista í prentaraverkfallinu til að taka höndum saman. Ég get bætt við, að fyrirhyggja Alþfl. var kannske enn þá meiri. Því að á þessum tíma fullyrti samstarfsmaður okkar í ríkisstj. af hálfu Alþfl., að ekkert af þeim félögum, sem Í Alþýðusambandinu voru, mundu gera neinar kröfur um verulega kauphækkun. Þetta er á þeim sama tíma og verið er að undirbúa stórfelldar kauphækkunarkröfur, bæði hjá þessum félögum og öðrum. Og hann bætti því við, að hins vegar væri ýmislegt í samningum sumra félaganna, sem réttmætt væri og sjálfsagt að fá leiðréttingu á, og þar á meðal t.d. í samningum prentara við prentsmiðjurnar, sem ég og við hinir í stj. gátum líka fullkomlega fallizt á, að væri réttlátt að lagfæra. Og það eitt gat verið næg ástæða til þess að segja upp samningum með tilskildum fyrirvara. En það var vissulega fyrirhyggja að fullvissa um þetta, til þess að allir gætu verið sem rólegastir, að engum stórum kauphækkunarkröfum yrði haldið til streitu.

Annað, sem hv. þm. færði fram því til sönnunar, að mér hlyti að ver. ljóst, að þessi ásökun mín ætti ekki við rök að styðjast, var þessi ágæta 43. grein í samningi Alþýðuprentsmiðjunnar við Félag íslenzkra prentsmiðjueigenda, sem dagsettur er í jan. 1941. Hún er um það, að ef verkbann eða verkfall skyldi skella á, er Alþýðuprentsmiðjunni heimilt að prenta Alþýðublaðið og allt annað, sem Alþfl. þarf að láta prenta. Þetta er mér ekki algerlega ókunnugt um. Og formaður Alþýðuprentsmiðjunnar fékk birta í útvarpinu athugsemd vegna þessarar útvarpsræðu minnar, og þar tók hann þessa grein úr samningi prentsmiðjunnar. Ég svaraði þeirri aths., og náttúrlega get ég gert hv. þm. til geðs að svara þessu enn. En svarið er ákaflega einfalt: Að þessi grein í samningnum er ágæt, ef engin breyt. hefði orðið, síðan hún var gerð. En ég benti á það og lét birta í útvarpinu, að samkomulag hafi orðið milli prentsmiðjanna einmitt út af kröfu prentaranna nú s.l. haust, samkomulag, sem var án undantekningar, um það að hafna kröfum prentaranna. Afleiðingin af því, að allar prentsmiðjur undantekningarlaust gerðu það samkomulag að ganga ekki að kröfum prentaranna, var auðvitað sú, að gera skyldi verkfall, ef prentarar féllu ekki frá kröfum sínum. Og þá gerist það, að Alþýðuprentsmiðjan, eign Alþfl., bregzt þessu samkomulagi, sem hún er búin að gera við hinar prentsmiðjurnar, og heldur áfram að prenta. Hún ber fyrir sig að viss þessa grein í samningi prentsmiðjanna. En sú grein er upphafin til bráðabirgða með samkomulaginu s.l. haust. Í samþykktinni, sem gerð var á fundi prentsmiðjanna, er berum orðum tekið fram, að þetta samkomulag sé bindandi fyrir alla, sem undir skrifa, án undantekningar. Við hvað átti þetta orð „undantekning“? Vitanlega þá, sem sérstöðu höfðu áður í þessu efni. Ríkisprentsmiðjan stóð við sína skuldbindingu, en Alþýðuprentsmiðjan ekki. Það er líka fullkunnugt, að hinar prentsmiðjurnar skoðuðu Alþýðuprentsmiðjuna algerlega bundna af þessu samkomulagi og kom mjög á óvart, þegar öðruvísi reyndist. Og mér er kunnugt um það gegnum forsrh., að forstjóri ríkisprentsmiðjunnar var þess alveg fulltrúa, að samkomulag þetta væri bindandi fyrir allar prentsmiðjurnar, sem að því stóðu. Hann gaf hæstv. forsrh. skýrslu um, hver afstaða ríkisprentsmiðjunnar væri gagnvart verkfallinu.

Það verður ekki beint sannað, hvort það hafi verið vísvitandi undirbúið af hálfu Alþfl. að tryggja sér að verða einir um blaðaútgáfu um tíma fyrir bæjarstjórnarkosningar. En ekki varð að vísu vitað um það almennt í októberbyrjun, að samningum ætti að segja upp. En ef andstaða við ríkisstj. var fyrirhuguð, var það í öllu falli afar þægileg aðstaða að vera einn um blöð um tíma. Ef mönnum annars getur dottið í hug svona svikræði, þá finnst mér ekki þurfa svo mikla fyrirhyggju til að sjá sér leik á borði. Og ég get í sjálfu sér trúað forráðamönnum Alþfl. að hafa svo mikla fyrirhyggju að geta búið þetta undir nokkrum mánuðum áður en til þurfti að taka.

Ég skal svo geta þess, að ég leiðrétti þessa aths. formanns Alþýðuprentsmiðjunnar, sem nefnd hefur verið, og hann virtist ekki þurfa neitt að athuga þar við. Ég sló því þar föstu, að þetta undantekningarákvæði hefði verið upphafið með samningnum s.l. haust meðal allra prentsmiðjanna, og ef svo hefði ekki verið, þá hefði umboðsmanni Alþýðuprentsmiðjunnar á þessum fundi verið skylt að minna á, að samkvæmt þessum samningi hefði prentsmiðjan sérstöðu, ef prentsmiðjan hefði ætlað að halda sérstöðunni. En því fór fjarri. Fulltrúinn skrifaði undir, og samningurinn varð gildandi fyrir alla, án undantekningar, — undantekningin, sem áður var, var niður fallin.

Ég sagði það áðan, að það er tekið fram í grg. frv., að ríkisstj. hafi litið svo á, að stjórnarfarslegur grundvöllur fyrir því, að kosningar færu fram, hafi ekki verið fyrir hendi, þegar bæjarstjórnarkosningar áttu að fara fram 25. jan. Nú get ég ekki beinlinis sagt, að þeir þm., sem lýst hafa andstöðu gegn frv., hafi haldið því alveg tvímælalaust fram, að verið hefði lýðræðislegt að láta almennar kosningar fara fram undir þessum kringumstæðum, að aðeins einn flokkur í landi geti haldið út blaði. Þeir slá miklu meir á annan streng í þessu sambandi. Þeir segja, að þetta sé ekki ástæðan, sem fyrir stj. hafi vakað, heldur aðeins, að Sjálfstfl. hafi verið hræddur við að tapa fylgi. Hinu neita þeir í sjálfu sér ekki. Ég sé þá ekki, að þessi rök um „hræðsluna“ skipti miklu máli. Ef ekki var lýðræðislega rétt að láta kosningar fram fara undir svona kringumstæðum, þá er hitt aukaatriði, hvort nokkur flokkur þarf sérstaklega að óttast að tapa fylgi. Ástandið var til þess fallið, að einn flokkur gæti skarað eld að sinni köku á kostnað hinna flokkanna, án þess að til þess séu réttmætar pólitískar ástæður, og þetta einmitt raskar hinum stjórnarfarslega grundvelli. En hvort einn flokkur græðir eða tapar á þeirri aðstöðu, er nokkuð, sem aldrei verður sagt fyrirfram. En að sjálfsögðu er þessi stjórnarfarslegi grundvöllur lagður til þess að koma í veg fyrir, að slíkt geti komið fyrir. Stjórnarskráin fyrirskipar, að öllum skuli jafnheimilt að láta skoðanir sínar í ljós opinberlega og allir skuli njóta jafnréttis í því, að fullkomið prentfrelsi sé í landinu. Til hvers eru þessi fyrirmæli? Þau eru að sjálfsögðu til þess að tryggja, að einn maður eða einn flokkur hafi ekki verri aðstöðu til þess að mæla fram með sínum skoðunum í landsmálum en annar. Það var ekki afnumið prentfrelsið formlega í jan. s.l., það er alveg rétt, með því að koma á prentaraverkfallinu. En þetta atriði stjórnkrárinnar er gert óvirkt, það getur ekki notið sín. Og svo framarlega sem á að virða nokkurs þetta ákvæði stjórnarskrárinnar, var stj. skylt að fresta kosningum. Hitt hefði verið fullkomið gerræði.

Hv. þm. Seyðf. sagði, að ótti Sjálfstfl. við að tapa fylgi í kosningunum hafi réttlætzt af úrslitum kosninganna úti um landið. Ég held þetta hafi við lítil rök að styðjast. Hann benti á aukalistana á mismunandi stöðum. Það er vitað, að þeir voru komnir fram, áður en l. um gerðardóm voru sett, og standa í engu sambandi við þau. Það er vitað um suma staði, að Sjálfstfl. hefur lengi ekki verið á eitt sáttur um ýmsa hluti, t.d. á Akureyri. En sjálfstæðisstefnan heldur sínu fylgi eins og áður, er kjósendaflesta stefnan. En þetta mál kemur gerðardómsl. ekki nokkurn skapaðan hlut við. Annars hefur Sjálfstfl. unnið á á ýmsum stöðum, og það á kostnað Alþfl., t.d. á Siglufirði, þar sem veldi þessara góðu bræðra hér, hv. 4. þm. Reykv. og hv. þm. Seyðf., var ráðandi, og eru flokksmenn þeirra í algerum minni hluta. Annars skal ég játa, að ég hef ekki gert upp kosningarnar tölulega, svo að ég geti sýnt þannig, hvernig hlutfall fylgisins hefur breytzt frá því, sem áður var. Það er náttúrlega segin saga, að þau mál geta einatt borið að höndum, sem ýmist veita flokkum vinning eða valda þeim einhverju tapi um tíma. Og menn láta stjórnast meira og minna af þeirri tilfinningu. Og um Alþfl. tel ég það engan vafa, að afstaða hans til gerðardómsl. hefur fyrst og fremst stjórnazt af því, að flokkurinn óttaðist, að ef hann væri með svo róttækri ráðstöfun, þó að hún miðaði að þeim að gæta málstað að vinna gegn dýrtíðinni, þá tapaði hann atkvæðum við kosningarnar. Og fyrir þá sök eina fór ráðherra flokksins úr ríkisstj., og fyrir þá sök eina snerist flokkurinn á móti þessari löggjöf. Hann vantaði djörfung til að halda á réttum málstað.

Hv. 4. þm. Reykv. minntist eitthvað á lýðræði. Og ég skil í sjálfu sér ákaflega miklu betur um hann en flesta menn aðra í hinu háa Alþingi, að hann lítur nokkuð öðrum augum á þetta mál heldur en menn annarra flokka. því að eins og kunnugt er, heldur hann því fram leynt og ljóst, að fullkomnasta lýðræðið sé í Rússlandi og öðrum þeim löndum, sem lúta því kommúnistíska skipulagi. En í þessum löndum er það beinlínis bannað að gefa út blöð nema eins flokks. Hann kallar þetta lýðræði. Hans segir, að lýðræðið sé fullkomnast í Rússlandi. Þá er ekki von, að hann finni neitt til þess, að okkar lýðræði sé gert neitt til miska, þó að eitthvað líkt því komist á hér. Að vísu er ekki hér um það að ræða, að stjórnarflokkur fengi aðstöðu til að vera einn um hítuna að geta óhindrað gefið út blöð. Það var flokkur, sem stóð þessunt hv. þm. nær en þeir flokkar, sem nú standa að stjórninni, og ástandið komst að því leyti nær því að vera eins og í Rússlandi, og því eftir atvikum sæmilegt. Ef hans flokkur hefði átt hlut að máli; hefði hann talið það allra fullkomnast, að hann héldi einn út blaði. Þá hefði lýðræðið verið eftir beztu fyrirmynd, þ.e. Rússlandi. Þetta er allt eins og það á að vera um þennan hv. þm. En um Alþfl. get ég ekki neitað, að mér finnst skjóta nokkuð skökku við, því að hann hefur ekki í orði kveðnu beinlínis hampað þessari tegund lýðræðis. Mér hefur skilizt hann telja það, sem kallað er lýðræði í Þýzkalandi og Rússlandi, þar sem meðal annars er bannað að gefa út blöð nema einum flokki, óviðunandi fyrirkomulag. Og í rauninni eru nazistarnir svo hreinskilnir, að þeim dettur ekki heldur í hug að halda fram, að hjá þeim ríki lýðræði, og telja sér engan ósóma gerðan, þótt þeir séu ekki taldir lýðræðismenn. En Alþfl. sýnir það í þessu tilfelli, að hann er alveg jafnsvikull við lýðræðishugsjónina á okkar mælikvarða eins. og nazistar og kommúnistar, ef hann getur komizt í þá aðstöðu að vera einn um að gefa út blöð. Og það mundi einmitt koma á daginn, — og ég hef ýmislegt fyrir mér um það, sem ég kæri mig ekki að segja að svo stöddu —, að það þarf ekki mikið að ganga eftir þeim flokki til þess að vega í þennan knérunn að hindra flokka í að gefa út blöð, ef nokkur aðstaða er til þess.

En það sem öllu ræður í þessu máli, er það, að við sem í stj. erum nú, teljum ekki sæmilegt, þar sem fylgt er þeim stjórnarfarslegu reglum, sem við játum í orði, að virða þá þann rétt manna til þess að láta í ljós skoðanir sínar, hvort sem eru andstæðingar okkar eða fylgismenn, að vettugi.

Hv. 4. þm. Reykv. gerði að umræðuefni þau drög að samningum um opinber mál milli Sjálfstfl. og Framsóknar, sem minnzt hefur verið á. Ég held, að hann hafi treyst meira á það, hvernig þetta er fram sótt í bréfinu, en hvað það er í raun og veru, og eins og hæstv. forsrh. tók fram, held ég, að lítið hafi þar komið fram, sem ekki var öllum almenningi þegar kunnugt. Það má segja, að allur þingheimur hafi á undanförnum árum verið sammála um nauðsyn þess að vinna á móti dýrtíðinni, og hafa verið samþykktar ráðstafanir til þess og fjárveitingar í því efni þing eftir þing með nokkurn veginn samhljóða atkv. Og þó að hv. viðskmrh. og hv. þm. S. Þ. hafi þótt nauðsyn að skrifa kjósendum sínum eitthvað, það þarf ekki mikið undir því að búa. Hið eina nýja í málinu er það, að þessir tveir flokkar, Framsfl. og Sjálfstfl., hafa komið sér saman um grundvallarráðstafanir til að halda niðri dýrtíðinni, og má öllum ljóst vera, að slíkar ráðstafanir hefðu aldrei getað orðið nema kák án samkomulags um þau grundvallaratriði. Það var að vísu nokkur ágreiningur milli flokkana, en ég mun ekki ræða hann hér. En þegar sjálfstæðismenn og framsóknarmenn voru orðnir einir í stj., hvað var þá eðlilegra en þeir færu að athuga, hvaða grundvöllur væri til fyrir samvinnu þeirra? Er ekki kunnugt, að flokkar, sem fara með stj. saman, hafa áður gert með sér málefnasamninga? Og er slíkt ekki nauðsynlegt. Þing átti að koma saman í miðjum febrúar, og á þessum samningum er byrjað í janúar. Ég veit ekki, hvort hv. 4. þm. Reykv. hefur orðið fyrir vonbrigðum, er hann sá skima í, að Sjálfstfl. ætlaði sér kannske að ganga nær gjaldþoli skattþegnanna en hann hafði ætlað. Ég tel þó, að engin hætta sé á öðru en hv. þm. muni geta boðið þar yfir, þótt samkomulag kynni að nást milli Sjálfstfl. og Framsfl. um þetta, og þurfi hann því ekki að hafa miklar áhyggjur í þeim efnum.