24.02.1942
Neðri deild: 4. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 52 í C-deild Alþingistíðinda. (341)

4. mál, frestun bæjarstjórnarkosninganna í Reykjavík

*Fjmrh. (Jakob Möller):

Hv. þm. Seyðf. hefur nú haldið ræðu sína mönnum til allmikillar skemmtunar. En svona bláþráðavefur, sem hann tíðkar að flytja hér og auðvelt er að reka fingurna gegnum, er samt ekkert skemmtilegur að fást við, þegar á ríður að komast að sjálfu málinu, óhjúpuðu og bláþráðalausu.

Eftir að ég flutti útvarpsræðu mína, bárust mér tvær fyrirspurnir. Önnur var frá formanni stjórnar Alþbl., sem hugðist leiðrétta ræðu mína á svipaðan veg og hv. þm. Seyðf. nú. Eftir það svar, sem ég gaf honum, sá hann sér vænst að hreyfa ekki málinu frekar, en hv. þm. Seyðf. hefur ekki skilizt það enn, að honum er betra að segja um þetta en fara með vitleysur. Þó efast ég ekki um, að hv. þm. sé farinn að skil ja, að rök sín séu fremur haldlítil. Hann segir, að Alþýðuprentsmiðjan hafi verið samningsbundin við aðrar prentsmiðjur um að hafna kröfum prentara, meðan á samningum við þá stæði. Hið rétta er, að hún hafði skuldbundið sig til að hafna kröfunum, gera það undanbragðalaust, án nánari takmarkana á skuldbindingunni. Aðeins vantaði viðurlög við samningsrofum. En þegar úr því átti að bæta og skuldbinding um viðurlög var borin milli prentsmiðjanna, kom í ljós, að Alþýðuprentsmiðjan var ráðin í að svíkja, því að hún vildi ekki gangast undir nein viðurlög við svikum. Hinar prentsmiðjurnar sýndu með undirskrift sinni, að þær álitu hina fyrri skuldbinding algerlega bindandi fyrir sig og þá fyrir Alþýðuprentsmiðjuna um leið. Þetta mál er alveg ljóst. Skuldbindingin upphóf þá undanþágu, sem Alþýðuprentsmiðjan hafði í samningum frá 1941 um að mega vinna fyrir Alþfl., þótt verkfall stæði. Hún féll niður,.meðan þetta verkfall stóð.

Litlu betur fór fyrir hv. þm. Seyðf., þegar hann fór að réttlæta flokksbróður sinn, hæstv. fyrrv. félmrh., Stefán Jóh. Stefánsson, og vildi hrekja þá staðhæfingu mína, að hann hefði látið Alþingi ótvírætt á sér skilja, að engar verulegar kauphækkunarkröfur yrðu gerðar um þessi áramót um fram dýrtíðaruppbót eftir vísitölu. Hv. þm. var svo ófyrirleitinn, að hann las upp W ræðu Stefáns Jóh. Stefánssonar frá síðasta aukaþingi einmitt þann kafla, sem sannar skýlaust mitt mál. Hann kallar það víst enga hreyfinga í þá átt að hækka kaup, þótt 4–6 eða 8 félög krefjist 20–30% grunnkaupshækkunar og láti síðan lýsa yfir því, að þau séu ekki aðeins að berjast fyrir hækkun á sínu kaupi, heldur hækkun alls verkakaups í landinu. Og hvernig gátu þau félög komið hækkuninni fram, án þess að almenn grunnkaupshækkun kæmist á? — Félmrh. átti sér aðeins eina hugsanlega afsökun, þá að hann hefði ekki vitað betur en þetta um mál, sem hann þóttist þó hafa kynnt sér. Menn geta valið um, hvort þeir halda, að hann hafi gefið Alþingi og samstarfsmönnum sínum í stjórn yfirlýsingu sína beint gegn betri vitund, eða hann hafi ekkert rannsakað þetta og gefið yfirlýsinguna síðan í fullkomnu skeytingarleysi.

Í raun og veru er þetta alveg nægilegt til að svara bláþráðavef hv. þm. Seyðf. Um dýrtíðarmálin, sem ég varð að drepa á í umræðubyrjun sem undanfara frv., er fyrir liggur, get ég ekki ferið að ræða nú, þar sem útvarpsumr. eiga að verða um þau á næstunni. Ég get þó ekki stillt mig um að taka undir við þennan hv. þm., þegar hann vitnar þannig í ummæli mín, að ég hafi haft eftir honum. og hv. 4. þm. Reykv., að þeir hafi talið, að Sjálfstfl. mundi fá betri aðstöðu í kosningum í Reykjavík með því að fresta þeim, og hafi mátt skilja þarna sjálfs mín skoðun. Sú skoðun, sem hann eignar mér, kom mér ekki til hugar. En sjálfur virðist hann hafa beyg af því; að kosningatíminn verði hentugri fyrir Sjálfstfl. mánuði eftir, að blöð fóru að koma út, heldur en meðan Alþbl. naut sérréttinda sinna, og með því er sýnt, að hann trúir raunar sjálfur því, sem hann leitast við að afsanna. Hví þurfti hann þá að vera að mótmæla mínum orðum, fyrst hann kemur upp um, að hann er sömu skoðunar sjálfur?

Hann talaði um vald ríkisstjórnar til að fresta kosningum og efaði það. Stjórnarskráin veitir ríkisstjórninni fullt vald til að færa kosningadaginn þetta og þótt lengra væri, — enda vald til að breyta hvaða lögum, sem eru. Þar við bætist, að fordæmi er til, sem mjög má hafa til samanburðar, þar sem Alþingi ákvað sjálft í. fyrra að fresta almennum alþingiskosningum, þótt engin undanþága sé gefir frá því í stjórnarskránni, að kosningar skuli fram fara fjórða hvert ár, nema tíðar sé kosið. Alþingi leit svo á, að nauðsyn bryti lög. Úr því að kosningar gátu ekki farið fram við venjuleg skilyrði, varð anda stjórnarskrárinnar betur framfylgt með því að fresta kosningunum, og Alþingi gerði það. Af sams konar rökum taldi ég, að fresta bæri nú bæjarstjórnarkosningum í Reykjavík.

Mér virðist hv. þm. nokkuð „brjóstheill“, þegar hann vill leggja þannig út ummæli Jóns Blöndals í hagfræðigreinum hans í Alþbl., að eina höfuðatriðið, sem þurft hefði til að hindra verðbólguna, hefði verið að tolla hátt útfluttar vörur. Ég man ekki, hvort ein af þessum klausum er prentuð í bæklingnum, sem prentaður var, en ég átti ekki þátt í að útbúa. En í þeim klausum talar hann um, hvernig kauphækkanir verða til þess að rýra gildi peninganna og éta þannig sjálfar upp gæði sín. Eða hvernig ætti að mega skilja orð Jóns Blöndals öðru vísi en að fyrir honum vaki að koma á fullkominni dýrtíðaruppbót og sporna við því verðfalli peninganna, sem af frekari kauphækkun og vöruhækkun leiðir? Þessi sannindi eru líka viðurkennd um allan heim. Hvar sem reynt er að hamla móti dýrtíðaraukningu, snúast menn samtímis gegn hvoru tveggja, verðlagshækkunum og kauphækkunum. — Ég nenni svo ekki að elta lengur ólar við málflutning hv. þm. Seyðf. að þessu sinni.