25.02.1942
Neðri deild: 5. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 70 í C-deild Alþingistíðinda. (348)

4. mál, frestun bæjarstjórnarkosninganna í Reykjavík

*Fjmrh. (Jakob Möller):

Þetta síðasta var nú kannske til þess fallið að lífga dálítið upp andrúmsloftið hér, sem satt að segja var orðið ákaflega dauft og þungt undir þeim ræðum, sem fluttar voru hér í dag. Þær hafa verið slíkar, að varla er þess vert að standa upp til andmæla, enda því síður ástæða sem tveir þm., þeir hv. þm. Ísaf. og hv. 4. þm. Reykv., hafa, ef vel er að gáð, ekkert annað gert en að staðfesta það, sem ég sagði í grg. Ekki veit ég, hvað hv. 4. þm. Reykv. ætlaði að sanna með sinni löngu tölu, en niðurstaðan af ræðu hans getur ekki verið önnur en sú, að það geti ekki verið önnur ástæða til að gefa út brbl. en sú að halda uppi réttum lýðræðisreglum í landinu. Hann las upp þetta bréf Framsfl. og virtist ætla að sýna fram á einhvern kaupskap. Það út af fyrir sig sannar hvorki til né frá, hver grundvallarástæðan hafi verið fyrir því, að l. voru gefin út, ef gengið er út frá því, að Sjálfstfl. hafi beitt sér fyrir því, því að enda þótt Framsfl. hafi verið meira og minna andvígur og hafi ekki talið rétt að verða við þeirri kröfu nema hann fengi eitthvað fyrir, þá sannar það ekki, að aðalástæðan hjá Sjálfstfl. hafi ekki verið sú, sem tilgreind er í grg: (EOI: Það var við forsrh., sem ég var að deila.) Já, en þm. mun nú verða að gæta þess að gefa ekki hinum aðilanum rétt. En hann gáði ekki að því, af því að hann þurfti að deila við forsrh., að hann játaði, að ástæða mín fyrir frv. er rétt. Hann sagði, að Framsfl. hefði verið andvígur, en látið til leiðast, af því að hann gat keypt einhverju. Og svo bætti hann við, að Framsfl. hefði ekki þurft að kaupa neinu, því að hann hefði getað fengið fram þessi skattal., sem um getur í bréfinu, að hann hafi samið um, án þess að semja við Sjálfstfl., svo að þetta geti ekki verið virkilega ástæðan. Ef þetta er rétt, sem hv. þm. fullyrðir, að flokkurinn hafi ekki þurft að kaupa, þá getur þetta ekki verið ástæðan. Svo heldur hann áfram og víkur sér að Sjálfstfl. og hefur mikið fyrir að sanna mér og öðrum sjálfstæðismönnum, að það sé alger misskilningur, að það hafi þurft að fresta kosningunum, því að við hefðum getað haft í öllum höndum við andstæðingaflokka okkar með þeim blaðakosti, sem við áttum kost á, til að mæta þeim á pólitískum vettvangi. Og til hvers þá að fresta kosningunum? Ég get mikils til fallizt á þetta, að Sjálfstfl. hefði haft einhver ráð að koma út einhverjum blöðum til kjósenda, jafnvel sem hefði nægt til þess að jafnast á við blaðakost andstæðinganna, enda þótt Alþfl. hefði tvöfaldað sig, eins og hann gerði á þessum tíma. En það hnígur allt að því sama, að það getur ekki verið nema eitt, sem veldur því, að við vildum fá kosningafrest: Að með því að láta kosningar fara fram undir þessum kringumstæðum var brotið grundvallaratriði í okkar stjórnarfari, eins og stendur í grg. Það er ekki ótti við það að verða undir í baráttunni vegna vöntunar á blaðakosti, en almenningur í bænum þoldi ekki, að einn flokkur kæmi svo ár sinni fyrir borð, að hann einn hefði frjáls úrræði til að gefa út sitt blað með venjulegum hætti og jafnvel stækkað. Almenningi er svo ljós helgi lýðræðisreglna þeirra, sem eiga að liggja til grundvallar fyrir almennum kosningum, að hann þoldi þetta ekki. Þetta er sannleikurinn í málinu, og þetta er það, sem hv. 4. þm. Reykv. hjálpaði mér prýðilega til að sanna, og að því leyti get ég verið honum þakklátur, þó að hann kannske hafi ætlað að leiða eitthvað annað í ljós. Hann bætti því að vísu við, að það að tala um prentfrelsi í svona landi, þar sem ekki ríkir það ágæta fyrirkomulag, sem hann kýs helzt, það séu mest orðin tóm, því að prentfrelsið takmarkist við peningana, sem menn hafi handa á milli. Fleira getur nú komið til greina en þetta. Ég held sannast að segja, að hver flokkur, sem hefur góðan málstað, sem er til þess fallinn að vinna fylgi kjósenda í landinu, hann þurfi ekki að óttast svo mjög, að hann skorti peninga til þess að gefa út blöð sín. Það er annað, sem kemur til greina. Vill almenningur lesa blöðin? Hafa þau þann boðskap að flytja, sem almenningur vill heyra eða sjá? Það takmarkar að nokkru prentfrelsið, hvort nokkur vill lesa það, sem prentað er, eða ekki. Og ég hygg líka, að það sé miklu frekar þetta, sem kommúnistaflokkurinn á við að stríða, þegar hann telur sér neitað um prentfrelsi, heldur en að hann hafi ekki nóga peninga, hvaðan sem þeir kunna að koma.

Hv. þm. Ísaf. var að kvarta um, að ríkisstj. væri óvær undir þessum umræðum. Í sambandi við þetta mál er því aðallega um mig að ræða, þar sem ég hef borið málið fram og á að standa fyrir svörum. Ég hef mér til sárra leiðinda setið hér undir ræðum hans og annarra, — setið fast og ekki sýnt á mér neina óværð, svo að ég viti. Þessi hv. þm. verður að sætta sig við, þó að aðrir ráðh. telji sig málið minna skipta. Annars skal ég játa, að hæstv. forsrh. hefur ekki alltaf verið hér við til að taka þátt í umr. um þetta mál, en hann var löglega afsakaður vegna umr. í Ed.

Ég man ekki, hvort það var hv. 4. þm. Reykv., sem var að tala um, að stj. hefði haft lítinn stuðning flokksmanna sinna við umr. um þetta mál. Ég veit ekki, hvort hv. andmælendur hafa staðið sig svo vel, að nein ástæða hafi verið til fyrir stuðningsmenn stj. að hlaupa í skörðin henni til hjálpar, en ég hygg, að engin vandræði hefðu úr því orðið; það hefðu nógir orðið til, ef þeim hefði fundizt þess þörf, en þegar þessir ræðuskörungar hafa ekkert gert nema tyggja upp aftur og aftur sömu vitleysurnar, jafnóðum og þær hafa verið hraktar, þá þarf ekki marga til andsvara. Hv. þm. Ísaf. sagði ekkert annað en það, sem áður hafði verið hrakið hjá hv. þm. Seyðf., og svo þykist hann hafa fundið eitthvað nýtt upp í þessu máli. Hann sagði, að ósæmilegt hefði verið af okkur ráðh., sem fluttum ræður í útvarpið, að bera þar sakir á menn, sem hefðu ekki átt þess kost að bera þær af sér. Hefur hann mig þar aðallega fyrir sök, og skal ég ekki skorast undan, en þeim, sem áttu hlut að máli, var boðið að svara fyrir sig, og þeir gerðu það, sem vildu, en hinir slepptu því, sem það vildu heldur. Form. í stj. Alþýðuprentsmiðjunnar og hagfræðingur Alþfl., Jón Blöndal, notuðu sér það að fá að gera athugasemdir við ræðu mína, og ég svaraði þeim. Hæstv. fyrrv. félmrh. átti kost á því sama, en hann hafði vit á að þegja. hað er eini munurinn.

Að ætla sér að afsaka þennan fyrrv. hæstv. ráðh. með því, að hann hafi á einum stað talað um almenna hreyfingu til grunnkaupshækkunar, á öðrum stað um sérstaka hreyfingu og á þriðja staðnum segist hann þess fullviss, að það sé engin hreyfing, er vitanlega gagnslitið, vegna þess að það er allt það sama. Spurningin er aðeins þessi: Voru í uppsiglingu kröfur um grunnkaupshækkun í verulegum mæli? Það er það, sem hefur þýðingu fyrir stj. að fá að vita. Hæstv. ráðh. upplýsti, að slíkar kröfur væru ekki fyrir hendi. Það skiptir engu máli, hvort hann sagði almennar eða sérstakar. Það eina, sem þýðingu hafði, var þetta: Var verið að undirbúa kröfur um grunnkaupshækkun, sem höfðu áhrif á dýrtíðarástandið í landinu? Og þegar kröfurnar komu fram, sýndi sig; að svo var. Eins og ég sýndi fram á í gær, komu félög með kröfur um grunnkaupshækkun, allt upp í 20–34%, og hefði þeim verið fullnægt, var ómögulegt annað en að fram hefðu komið miklar og almennar kröfur um grunnkaupshækkun, sem þá hefði orðið að sinna, og hefði það þá leitt til þess, sem Jón Blöndal varar svo eindregið við í greininni, sem hv. þm. Seyðf. las upp úr, þar sem hann talar um dýrtíðarskrúfuna, sem engum sé til góðs, en aðeins til þess fallin að gera peningana, sem menn fái fyrir vinnu sína, verðminni og verðminni, og það minna, sem menn fái fyrir þá, enginn græði, þannig að sá gróði endist vart lengur en til næstu kosninga. En þessir hv. þm. hugsa ekki lengra en til næstu kosninga. Þeir eru að baksa við að halda í þennan gróða til næstu kosninga, og þess vegna er þeim svo meinilla við, að kosningunum sé frestað, hvorki viku, hálfan mánuð né 6 vikur, því að það gæti haft svo mikla þýðingu, þegar um það er að ræða, hvort gróðinn endist til næstu kosninga. Þess vegna er þeim svo sárt um þetta, og ég skil það vel.

Að því leyti, sem vikið hefur verið að gerðardómsl. í sambandi við þetta mál, þá sé ég ekki ástæðu til að lengja frekar umr. með deilum um það mál, sem á eftir að koma hér til umr., því að þá gefst nægur tími til þess.

Ég vil aðeins enn slá því föstu, að það var lýðræðisleg krafa, að kosningum væri frestað í Reykjavík undir þeim kringumstæðum, að aðeins einn flokkur gat háð kosningabaráttuna undir venjulegum skilyrðum. Það er eina ástæð an, sem ég tel réttmæta fyrir kosningafrestuninni, en hún er líka alveg nóg.