26.02.1942
Neðri deild: 6. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í C-deild Alþingistíðinda. (353)

4. mál, frestun bæjarstjórnarkosninganna í Reykjavík

*Einar Olgeirsson:

Herra forseti! Ég vil nota tímann til að taka aðeins eitt atriði fyrir. Hæstv. forsrh., gefur þær upplýsingar, að með því að breyta prentfrelsisl. megi skapa í landinu ástand, sem jafngildi því, að útkoma óþægilegra blaða sé bönnuð. Með því, að blöðin verði látin berast lögreglustjóra 1 klst. áður, en ekki 1 klst. eftir útkomu þeirra, telur hann megi gera þau upptæk og skapa þetta ástand og auk þess beita sektum og fangelsunum í sama tilgangi.

En það eru í raun og veru einu mannréttindin, sem stjórnarskráin veitir þegnunum skilyrðislaust, að prentfrelsisskerðing megi aldrei í lög leiða. Ég skal rétt minna á 68. og 69. gr. Í 68. gr. er mönnum veittur réttur til að stofna félög í sérhverjum löglegum tilgangi, og má ekkert félag leysa upp með stjórnarráðstöfun. „Þó má banna félag um sinn,“ bætir stjórnarskráin við, „en þá verður þegar að höfða mál gegn félaginu, til þess að það verði leyst upp: Og í 69. gr. segir: „Banna má mannfundi undir berum himni, þegar uggvænt þykir, að af þeim leiði óspektir.“ 67. gr. ein er undantekningarlaus og hljóðar svo : „Hver maður á rétt á að láta í ljós hugsanir sínar á prenti; þó verður hann að ábyrgjast þær fyrir dómi. Ritskoðun og aðrar tálmanir fyrir prentfrelsi má aldrei í lög leiða.“ Þetta eru ákveðnustu fyrirmælin í stjórnarskránni og hvaða stjórnarskrá, sem til er, að ég held. Bezt gæti ég trúað, að fyrir velviljuðum lögfræðingum mætti túlka þau svo, að blöðum væri í því mikil vernd gegn fjárútlátum. Ef slík brbl. væru sett, sem hæstv. forsrh, talar um, og beitt til að þagga á þennan hátt niður í andstæðingablöðum ríkisstj., álit ég ekki nokkurn minnsta vafa á því, að þær tálmanir brytu í bág við prentfrelsi stjórnarskrárinnar