26.02.1942
Neðri deild: 6. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í C-deild Alþingistíðinda. (355)

4. mál, frestun bæjarstjórnarkosninganna í Reykjavík

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Hv. þm. Seyðf. (HG ) ætti að vera það kunnugt, að Alþbl. kom varla svo út nokkru sinni, meðan verkfallið stóð, að ekki væri hvatt til þess að rísa gegn landslögum og brjóta þau — og meira að segja í þeim yfirlýsta tilgangi að brjóta þau niður. Ég vil biðja hann að hyggja að því í hegningarl., hvort slíkt varði ekki við einhver ákvæði þeirra.

Hv. þm. Seyðf. vildi víst skilja orð mín um verðlag landbúnaðarafurða og kaupgjald þannig, að ég mundi viðurkenna réttlætinu fullnægt með því, að hvort tveggja hækkaði í sömu hlutföllum. Það væri misskilningur, sem næði ekki neinni átt. Það hlutfall hafði lengi verið þannig, að búnaður var rekinn með tapi, en kaup var hátt, miðað við klst., til að vega mót áhrifum atvinnuleysisins. Nú hefur margt, sem til framleiðslunnar þarf, hækkað gífurlega, t.d. kolakostnaður mjólkurbúanna, flutningskostnaður, flutningatæki, sölukostnaður o.fl. Má um það vísa til útreikninga tveggja manna, sem til þess voru fengnir að fjalla um þá kostnaðarhlið, og hefur almenningur aðgang að þeim reikningum. Hækkun samkv. vísitölu væri alls ónóg til að vega móti þessu. Að hinu leytinu er sú breyting orðin hjá verkamönnum, að þeir hafa að meðaltali tvöfalt meiri vinnu en var, og hækkar það grunnkaup þeirra í fyrsta lagi um helming, en ofan 5. það tvöfaldaða grunnkaup ársins kemur full vísitöluuppbót. Það mundi mega sanna með nákvæmum skýrslum, að árstekjur þorra verkamanna hafa, sem betur fer, hækkað sem þessu nemur, — og erfiði þeirra að vísu orðið mikið. Það lætur nærri, að árstekjurnar hafi hjá sumum þrefaldazt, en öðrum jafnvel fjórfaldazt. Og að lokum þetta: Það er verið að tala um, að mjólkurhækkunin í nágrenni Reykjavíkur ætti að vera í samræmi við vísitöluna. En það er augljóst, að ætti hækkun á landbúnaðarvörum yfirleitt að vera í samræmi við þær kröfur, sem gerðar eru af Alþfl., þá mundi ekki helmingur af íbúum þessa bæjar hafa næga neyzlumjólk, af því að mjólkurframleiðslan mundi dragast saman. Þetta er mjög skiljanlegt. Öllum hv. þm. er kunnugt um, að undanfarið hefur verið skortur á mjólk í bænum, og hefur þess vegna orðið að sækja hana langt að, jafnvel til Akureyrar. Þrátt fyrir þetta er því haldið fram, að verðlagið á landbúnaðarafurðum hafi verið hækkað með sérstakri ósanngirni og mér sem landbrh. borið á brýn, að ég hafi sýnt óbilgirni og hlutdrægni í þessu máli. Ég veit ekki, hvort hv. þm. Seyðf. er kunnugt um það, en ég veit, að sumir aðrir hv. þm., sem eru bændur, vita, að meðan rætt var um, að mjólkurverðið mætti ekki hækka nema samkv. vísitölunni, borguðu bændur vetrarmönnum sínum 3000 kr. í kaup yfir veturinn, en áður aðeins 300–400 kr. Kaupgjald vetrarmanna, sem hirða og mjólka kýr, hefur því margfaldazt, og þrátt fyrir þessa gífurlegu kauphækkun, er varla hægt að fá menn til þessa starfs. T.d. lítur nú út fyrir, að ekki verði hægt að reka búið áfram á Vífilsstöðum. Þó að boðið sé margfalt kaup, fæst ekki nokkurt fólk til þess að annast um búið. Það er líka ákaflega skiljanlegt, að ungir menn vildu áður heldur vinna í sveit fyrir 300–400 kr. yfir veturinn eftir atvinnu sumarsins en vera í kaupstöðum og hafa enga vinnu. Það var betra að hafa þessa stöðugu vinnu fyrir lítið kaup heldur en borga með sér. Nú getur hver einasti maður fengið stöðuga vinnu í landi, og nú dettur engum í hug að fara upp í sveit til að hirða og mjólka kýr, þegar honum býðst vinna í kaupstöðum, sem er geysilega hátt borguð, með nægri eftirvinnu, næturvinnu og sunnudagavinnu. Öll vinna í landi er stöðug, og verða bændur að borga kaup með tilliti til þessara hreyttu aðstæðna. Þess vegna er það eingöngu að kenna vanþekkingu á búrekstri og þeim erfiðleikum, sem bændur eiga við að stríða, þegar því er haldið fram, að sýnd sé ósanngirni í hækkun landbúnaðarafurðanna. Verð þeirra má ekki lægra vera til þess að hægt sé að halda framleiðslunni áfram.