13.04.1942
Neðri deild: 33. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 212 í B-deild Alþingistíðinda. (364)

2. mál, dómnefnd í kaupgjalds- og verðlagsmálum

Jón Pálmason:

Síðan ég kvaddi mér hljóðs um þetta mál hér fyrir þrem dögum, hefur býsna margt verið sagt um þetta stóra mál. Mér þykir rétt að segja í nokkrum dráttum skoðun mína á því, af því að mér skilst, að það sé allverulegur ágreiningur, ekki einasta milli andstæðinga og meðmælenda þessara l. á þingi, heldur og þess utan.

Það er óhætt að segja, að um þetta frv. eigi við hið fornkveðna, að „oft veltir lítil þúfa þungu hlassi“. Þessi bráðabirgðal. hafa klofið ríkisstjórnina og valdið margvíslegu umróti og ósamlyndi. Andstæðingar þessara l. kalla þau kúgunarl. og þrælalög. En sumir höfundar þeirra og formælendur telja þau hin ágætustu, öruggt ráð til að stöðva dýrtíðina, vernda gildi krónunnar o.s.frv. Aðrir telja gagnið að þeim 100%, hinir ógagnið 100%. — Ég hygg, að hvort tveggja sé fjarri hinu rétta.

Það mun vera búið að skrifa fleiri greinar og halda fleiri ræður um hin svo kölluðu dýrtíðarmál en um nokkurt mál annað á síðustu árum. — Mikill hluti af öllu því skrafi er þannig vaxinn, að mér finnst ósamrýmanlegt við rökrétta hugsun, án þess þó að vera beinlínis rangt.

Það er búið að skrifa fjölda greina í flest blöð landsins og halda ótal ræður á fundum í félögum og á hæstv. Alþingi um bölvun dýrtíðarinnar og þá hættu, sem af henni stafar að stríðinu loknu fyrir atvinnuvegi landsins, fyrir gildi peninga okkar, fyrir verkalýðinn, launafólkið og framleiðendurna. Um þetta er enginn ágreiningur milli manna og flokka, enda er í aðalatriðum flest satt, sem um þetta hefur verið sagt. En það má á sama hátt skrifa greinar og halda ræður í hundraðatali, þar sem enga setningu er hægt að hrekja, um bölvun stríðsins og þann háska, sem af því leiðir fyrir land okkar og heiminn allan. Hvort tveggja er í aðalatriðum hliðstætt. Þess vegna er það svo, að þegar menn eru að skamma Alþingi og ríkisstjórnina fyrir að hafa ekki komið í veg fyrir dýrtíð hér í landi, þá gætu þeir hinir sömu með svipuðum rétti skammað ríkisstjórnina og Alþingi fyrir að hafa ekki komið í veg fyrir stríðið eða fyrir að hafa ekki stöðvað það. — Það ætti þó öllum hugsandi mönnum að vera ljóst, að orsök dýrtíðarinnar er stríðið og viðskiptahöftin og ekkert annað. Hún fylgir stríðinu eins og myrkrið skammdegisnóttinni og snjórinn vetrarhríðunum. Það er því næsta undarlegt, þegar menn, sem eru bæði menntaðir og allvel greindir að eðlisfari, eru að tala um, að orsakir dýrtíðarinnar séu hækkun á verði á landbúnaðarvörum, hækkun á kaupgjaldi, hækkun á fiski, matvöru o.fl. — Þessi fyrirbrigði eru dýrtíðin sjálf, afleiðing stríðsins. — Verðhækkun á okkar fiski og okkar síldarvörum er, eins og gefur að skilja, vegna stríðsins, og það hafa engir undrazt það, af því að engan langar til að stöðva þá verðhækkun. En það er jafneðlilegt, að kaupgjaldið hækki, þegar atvinnan margfaldast og ekki er til vinnukraftur, sem samsvarar eftirspurninni. Því skyldu menn þá undrast það, að landbúnaðarafurðir hækki í verði um leið og framleiðslukostnaðurinn margfaldast? Allt eru þetta beinlínis afleiðingar af stríðinu, hættulegar afleiðingar, eins og orsökin er hættuleg:

Menn spyrja stundum, þegar þeir eru að heimta stöðvun dýrtíðarinnar: Hvers vegna þarf dýrtíðin að aukast meira hér en í öðrum löndum? Þeir gera samanburð við nágrannalöndin, bæði stríðslöndin og önnur. — Þessu er auðavarað. Í engu landi um víða veröld er nú, svo að kunnugt sé, svipað ástand og hér hefur verið síðan landið var hernumið í maí 1940. Hér hefur dvalið fjölmennur her eins og síðar tveggja stórvelda. Hann hefur keypt vinnu landsmanna í miklu stærri stíl en atvinnuvegir okkar fámennu þjóðar þola og borgað hann hærra verði en nokkur dæmi finnast til áður í landinu um borgun fyrir erfiðisvinnu. — Jafnframt hefur herinn kostað til framkvæmda hér stórfé. Öll eyðsla hersins, sem hefur komið okkur Íslendingum til tekna, hefur verið töluvert meiri en sem samsvarar öllum okkar útflutningsverðmætum í beztu árum, sem komið hafa áður en þetta stríð byrjaði. Þetta er ekki borgað með innfluttum peningum, heldur seðlum sem þjóðbanki okkar er knúður til að gefa út meira og meira af, eftir því sem þörfin vex. Borgunin er tryggingarlaus og vaxtalaus innskrift í erlendan viðskiptareikning. Ég verð nú að segja það, að hugsunarháttur þeirra manna er næsta undarlegur, sem furða sig á því, þótt þetta auki dýrtíðina. Sama er að segja um það, þegar menn eru að fárast um það, að flutningsgjöld á vörum skuli ekki vera nú eins og fyrir stríð, þegar tryggingargjöld skipa, vara og manna hafet margfaldazt og meginhluta aðfluttrar vöru þarf að flytja frá Vesturheimi, en áður var aðflutt vara að mestu flutt frá Norðurlöndum.

Orsök alls þessa er stríðið, afleiðingin sú dýrtíð, sem allir kvarta og bölsótast yfir. Í aðalatriðum hefur dýrtíðin því ekki verið á valdi Alþingis eða ríkisstjórnar. Það eru aukaatriðin, sem hægt er að stjórna. Við getum breytt tolla- og skattalöggjöf okkar og haft áhrif á dýrtíðina með því að veita þeim mikla peningastraum, sem dýrtíðin hefur í för með sér, í ákveðnar áttir. Þetta er líka tilgangur og stefna þeirra heimildarl., sem síðasta Alþingi samþykkti og ætlaðist til, að framkvæmd yrðu. Því miður voru þau lög of óákveðin og losaraleg. Þess vegna hefur farið svo sem raun er á.

Það er augljóst, að flestir, ef ekki allir, sem tala og skrifa um dýrtíðina, festa augun við landbúnaðarafurðir okkar lands, kjötið og mjólkina. Flestir skilja nú orðið, að þetta eru þýðingarmestu matvörur allrar þjóðarinnar, en margir skilja ekki hót þá aðstöðu, sem framleiðendur þessara vara eiga við að búa. Þess vegna láta þeir sér til hugar koma, að þá sé hægt og réttmætt að kúga til að selja sínar vörur langt undir kostnaðarverði, það sé dýrtíðarráðstöfun, sem auðvelt sé að framkvæma. Slíkir menn telja það ekki miklu skipta, þó að fólkið sópist burt frá sveitaatvinnunni til bæjanna.

Þeir halda, að hægt sé að framleiða nægilegt af landbúnaðarafurðum samt og halda þeim niðri á markaðinum. En þegar ekki reyndist nægileg mjólk til að fullnægja eftirspurninni hér í bænum um tíma í vetur, þá kom annað hljóð í strokkinn. Nú er það svo, að samkv. útreikningi kauplagsnefndar, sem verðlagsuppbótin er reiknuð eftir, þá verka kjöt og mjólkurvörur 50%. Þær verka jafnmikið og allt annað til samans. Þar er ákveðnasta sönnunin um gildi þessara vara fyrir notaþörf þjóðarinnar. þar sem þetta er miðað við Reykjavík. Það er því eigi að undra, þótt menn festi fyrst augun við þessar vörur, þegar þeir tala um afleiðingar stríðsins, dýrtíðina. Og það er ekki heldur furða, þótt menn veiti því athygli, að hærra kaupgjald þýðir hærra verð á mjólk og kjöti og hærra verð á þeim vörum hækki svo aftur vísitöluna og þar með kaupgjaldið. Út frá þeim útreikningi hefur svo sú hugmynd fengið fæturna, að það sé eitthvert allsherjarbjargræði að lögfesta verð á afurðum sveitanna og lögfesta kaupgjaldið. Þaðan var sprottið frumvarp framsóknarmanna, sem drepið var á síðasta aukaþingi. Það var tilraun til að stöðva dýrtíðina á kostnað bænda og verkamanna, tilraun, sem að nokkru leyti gat verið framkvæmanleg og að nokkru leyti ekki. Þessi tilraun, sem kemur fram í þessu frv., sem hér liggur fyrir, er að vísu miklu aðgengilegri en það frv. var, en þó að sumu leyti með svipuðum göllum.

Í byrjun þings 1940 flutti ég frv. um 2 millj. kr. framlag úr ríkissjóði til verðuppbótar á kjöt og mjólk. Þetta var minnsta upphæð, sem ég gat hugsað mér til að byrja með, til þess að sætta deiluna milli framleiðslu og vinnu á þessu sviði. En menn býsnuðust yfir þessari till. minni og töldu það ægilega frekju að fara fram á 2 millj. úr ríkissjóði, og það af sparnaðarmanni. Slíkt þótti ekki taka neinum svörum. Fyrir árið 1940 kom það ekki að mikilli sök, þó að þetta frv. næði ekki framgangi, af því að fé kom annars staðar að til að fullnægja sama verkefni. Það kom óvænt og ekki fyrir atbeina þeirra manna, sem settu fótinn fyrir mitt 2 milljóna frumvarp. En þetta fé var ekki 2 millj., heldur 5 millj., og þótti ekki af veita. Á síðasta aðalþingi, árið 1941, var það komið miklu betur í ljós en árið áður, hvert stefndi. Kaupgjald til sveita hafði tvöfaldazt, nýr atvinnuvegur, herliðsvinnan, hafði myndazt, og þar voru allir vinnuveitendur í landinu yfirboðnir, og útlit var fyrir, að þeir yrðu yfirleitt boðnir frá. Landbúnaðurinn var sýnilega þar í mestri hættu. En þá var lítil von eða engin um verðuppbótasjóð fyrir markaðstöp. Það hefði nú mátt ætla, að þessi aðstaða væri nægilega glögg til að opna augu þingmanna og ríkisstjórnar fyrir þeirri nauðsyn, að verulegt átak yrði að gera til að bjarga atvinnuvegunum og minnka hraðann í kapphlaupinu milli framleiðslu og vinnu. Ekkert ráð virtist einfaldara til sátta heldur en að fara inn á sömu leið, sem ég benti á árið áður, og láta ríkissjóðinn greiða milligjöf milli útsöluverðs og tilkostnaðarverðs þeirra tveggja vara, sem mest áhrif hafa á hækkun verðvísitölunnar. Meiri hluti landbn. þessarar háttv. deildar gerði rækilega tilraun til að fá því framgengt, að bændum yrði tryggt lágmarksverð fyrir vörur sínar, svo að þeir gætu staðizt samkeppnina um vinnuaflið, og auðvitað var ekki ætlunin, að útsöluverð væri hækkað að sama skapi. Mikill meiri hluti háttv. þingmanna lagðist á móti þessu og að nokkru leyti af eðlilegum ástæðum, þar sem hæstv. landbúnaðarráðh. lagðist gegn því, sá maðurinn, sem öðrum fremur hafði það verkefni að gæta hagsmuna bændastéttarinnar. Á þessu sviði lagðist hann gegn formanni Búnaðarfélags Íslands, háttv. þm. Mýramanna, og búnaðarmálastjóra, háttv. 2. þm. Skagfirðinga, Það hefur nú komið betur í ljós síðar, af hverju meiri hluti Framsfl. og allur Alþfl. hafa lagzt gegn því að ganga inn á þá leið að gefa á milli útsöluverðs og tilkostnaðarverðs á kjöti og mjólk. Það er af því, að framsóknarmenn óttast, að sósíalistar kalli það, sem fram er lagt, styrk til bænda, en hinir eru hræddir um, að framsóknarmenn kalli það styrk til neytenda. Um þetta hefur staðið hörð deila, en ekki um aðalatriðið, hvort rétt sé að sætta deiluna á þennan hátt. Nú er það víst, að hver sú uppbót, sem fram væri lögð í þessu skyni, er ekki sérstaklega styrkur til bænda og ekki sérstaklega styrkur til neytenda, heldur styrkur til beggja, til allrar þjóðarinnar, fé, sem innheimt væri á sama hátt og gerist um aðra skatta, en í framkvæmdinni kæmi að almennara hagni fyrir alla þjóðina en nokkurt annað framlag, hvort heldur sem borið er saman við fé til framkvæmda eða hinn almenna rekstrarkostnað ríkisins og stofnana þess.

Um þetta þýðir sennilega ekki að fara fleiri orðum að sinni. En þessi atriði standa í nánu sambandi við þau bráðabirgðalög, sem hér liggja fyrir til staðfestingar. Skal ég nú fara nokkrum orðum um kosti þeirra og galla, eftir því, sem mér kemur fyrir sjónir.

Það hafa verið færð þau höfuðrök fyrir setningu þessara l., að þau hafi verið nauðsynleg vegna þess, að nokkur iðnfélög hér í Reykjavík gerðu verkfall um áramótin til að fá hækkað kaup félaga sinna. Þegar frumvarp framsóknarmanna um ráðstafanir gegn dýrtíðinni var til umr. hér í vetur, þá tók ég það fram, að við hliðina á þeim frjálsu samtökum, sem um var talað, teldi ég sanngjarnt og nauðsynlegt, að ríkisstjórnin hefði heimild til að lögfesta með gerðardómi tillögur sáttasemjara í vinnudeilum til að varna tjóni, sem verkföllum og verkbönnum eru samfara. Þessi skoðun mín er jafnákveðin eins og þá. Þess vegna er fjarri því, að ég telji það óréttmætt, þó að hæstv. ríkisstjórn setti bráðabirgðalög um gerðardóm til að varna því, að þær vinnudeilur, sem um var að ræða, stæðu til lengdar. Að leggja um leið bann við verkföllum og verkbönnum tel ég líka heilbrigt. Það er í sjálfu sér nauðsynleg takmörkun á sjálfræði stéttarfélaga að banna verkföll og verkbönn á meðan það ástand ríkir, sem nú er í landi voru. Að kalla slíkar ráðstafanir kúgun eða þrælatök er alveg rangt, og það af þeirri. ástæðu, að vinnandi mönnum stafar af því engin hætta. Atvinna er alls staðar yfirfljótanleg. Eftirspurnin eftir vinnuafli er miklu meiri en framboðið. Dýrtíðaruppbót er og greidd á öll vinnulaun í réttu hlutfalli við hækkun á verði lífsnauðsynja. Á því gera þessi lög enga breytingu. Einstaklingarnir, ríkisvaldið og öll stærri og smærri félög, sem þurfa að kaupa vinnu, eru í stöðugri hættu fyrir því, að hún fáist ekki, en vinnandi fólk er ekki í neinni hættu. Það getur alltaf fengið næga vinnu. Að ríkisvaldið léti það viðgangast, þegar svona stendur, að hægt sé að stöðva framleiðslu, iðnað eða framkvæmdir með verkföllum, er náttúrlega fjarri lagi. Bezta sönnunin fyrir því, að þessi leið er engin kúgun, eru einmitt verkföll þeirra iðnstétta, sem hlut áttu að máli eftir áramótin. Hlutaðeigandi menn voru sæmilega launaðir fyrir og voru ekki í neinni hættu. Þeir þurftu ekki og áttu ekki að gera verkfall. Þeirra verkfallsmálstaður var verri en dæmi eru áður til hér á landi. Því er það svo, að ef ríkisstjórnin hefði bundið sín lög við það eitt, sem nú hefur verið nefnt, þá var enginn eðlilegur réttur til óánægju eða æsinga frá neinni hlið. En þessi lög gengu æðimiklu lengra. Og ég held, að að því leyti komi ákvæði þeirra að næsta litlu gagni, en eru gott tilefni til andúðar og sundurlyndis, enda hefur sú orðið reynslan. Ég á hér við ákvæði þessa frv., sem banna frjálsa samninga milli atvinnurekenda og verkamanna og banna hækkun á afurðaverði. nema eftir ákveðum gerðardóms. Ég tel þessi ákvæði ekki hyggileg eða sanngjörn og hef litla trú á, að þau séu framkvæmanleg. Þau eru að vísu miklu aðgengilegri í þessu frv. heldur en ákvæðin um sama efni í frv. framsóknarmanna, sem drepið var hér í vetur. En hvort þau gera gagn eða ógagn eða hvorugt, fer eftir því, hvernig með þau verður farið, ef þau eiga að standa áfram. Ég tel þau ekki hyggileg, af því að þau eru ekki sanngjörn og lítt eða ekki framkvæmanleg. Þau eru, hvað kaupið snertir, ekki sanngjörn, af því að þau koma helzt niður á þeim, sem sýna mestan þegnskap, ef hægt væri að framkvæma þau. En að örðugt muni um framkvæmdina, skal ég nú reyna að rökstyðja nokkuð.

Orsakir allra kauphækkana, sem nú hafa orðið, er stríðið. Orsök verkafólksvandræðanna er líka stríðið. Hin gífurlega atvinna, sem herirnir hér veita, er auðvitað af stríðinu og einnig verðhækkunin, sem verðlagsuppbótin er byggð á. Af herliðsvinnunni og annarri vinnu, sem skapazt hefur í sambandi við hið fjölmenna dvalarlið, stafa öll þau vandræði, sem nú eru með verkafólk hjá landbúnaði, sjávarútvegi og iðnaði og útlit er fyrir, að komi einnig til greina við opinbera vinnu. Ef einhverjir trúa því, að þessi gerðardómslög séu til að bæta úr því ástandi, sem ríkjandi er á þessu sviði, þá fara þeir villir vega. Þær tilraunir, sem hæstv. ríkisstjórn hefur gert til að takmarka herliðsvinnuna, eru miklu þýðingarmeiri en þessi lagasetning. En því miður hafa þær lítinn árangur borið enn, og vafasamt, hvernig með hann fer, og það að sumu leyti af eðlilegum ástæðum. Það hefur fram að þessu alltaf annað slagið verið auglýst eftir mönnum í herliðsvinnu og þeim boðin mikil eftirvinna og sunnudagavinna, sem við vitum, hvað hefur að þýða. Það eru líka mörg dæmi til þess, að þeir, sem hætta vinnu á þessum stað, færa sig í annan, allt hjá útlendingum. Víða um landið hafa sveitir og kauptún blátt áfram verið sneydd vinnandi mönnum. Það vantar nú orðið menn til að hirða búpeninginn, og útlit er fyrir, að vía verði að fækka honum í stórum stíl. Það vantar menn á fiskibátana víða kringum landið, og margir þeirra eru komnir í snatt fyrir útlendingana. Til þess þarf færri menn á hvern bát, og borgunin er svo rífleg, að eigendunum þykir hún vissari en fiskurinn í sjónum. Ýmis iðnaðarfyrirtæki hér í bænum vantar fólk. Húsmæðurnar vantar stúlkur til heimilisverka o.s.frv. Halda menn svo, að það gagni eitthvað að lögbjóða það, að enginn megi borga hærra kaup en í fyrra því fólki, sem heldur áfram við hin venjulegu störf, nema leitað sé leyfis hjá gerðardómi? Ég hygg, að fáir muni taka þau ákvæði til greina, og þá verða allir slíkir menn lögbrjótar, — bændur, útgerðarmenn og iðnrekendur o.fl. Og að stofna til þess tel ég mjög misráðið. Svona ákvæði væri því aðeins hægt að framkvæma, að eitt af þrennu væri fyrir hendi að herliðsvinnan væri stöðvuð, að ríkisstjórnin hefði örugga samvinnu við félagsskap verkafólksins og fulltrúa hans, eða að alræðisvald einhverra manna væri ríkjandi í landinu.

Ekkert af þessu liggur nærri, og því er ég á því, að þessi ákvæði verði lítils virði. En vegna alls þessa eru þau heldur engin kúgun og geta ekki verið það. En þau hafa orðið til þess, sem einna sízt mátti nú, en það er að auka ósamlyndið í landinu. Þau hafa verið notuð og verða notuð til að spilla friðsamlegu samstarfi milli verkamanna og annarra, og verða því til að auka örðugleikana, sem voru ærnir fyrir.

En hvernig er svo með afurðaverðið og öryggi þessara laga til að stöðva dýrtíðina? Í 5. gr. laganna er tekið fram, að vörur, þar með taldar innlendar afurðir, megi ekki selja hærra verði en í árslok 1941. En svo segir: „Þó skal gerðardómurinn, að fengnum tillögum hlutaðeigandi verðlagsnefndar, ákveða breytingar á verðlagi þeirra innlendra framleiðsluvara, sem felldar verða undir ákvæði þessarar greinar, í samræmi við breytingu á tilkostnaði við framleiðslu þeirra.“ Það kann að vera, að treyst sé á, að verðlagsnefndirnar geri ekki tillögur um hækkað verð og annarra tillögur í því efni beri að hafa að engu. En nánar munum við nú verða að tala um þá hluti áður en þessu þingi slítur. Óbreytt verðlag ætti nú samt ekki samkvæmt þessu að geta gilt um aðrar vörur en þær, sem búið er að framleiða, því að tilkostnaðurinn við framleiðslu hinna hefur þegar hækkað til muna vegna þess, hve langur tími líður frá því byrjaður er undirbúningur að framleiðslu þeirra vara, sem um er að ræða, og þar til þær eru komnar í söluhæft og nothæft ástand. Þannig er um allar landbúnaðarvörur. Á kjötframleiðslusvæðunum er enn ekki vitað, hvert verður það verð, sem bændur fá fyrir afurðir þær, sem afhentar voru til sölu á árinu 1941. En ef ekki verða gerðar aðrar og þýðingarmeiri ráðstafanir en þessar, sem hér eru til umræðu, þá er víst, að bændur fá fyrir þessar afurðir miklu lægra verð í hlutfalli við tilkostnað heldur en fyrir vörur ársins 1940. Um verðið fyrir þær vörur fengu bændur fyrst að vita rétt fyrir síðustu áramót. Og það mun láta nærri, að á því ári hafi bændur fengið allt að því fullt framleiðsluverð. Eðlilegast væri því að miða við þá niðurstöðu, þar sem hún varð fyrst kunn rétt um síðustu áramót. En ef það er gert, beinlínis eða óbeinlínis, svo sem vel má gera ráð fyrir samkvæmt umræddri lagagrein, og það verð, sem framleiðendur fá hækkað frá því í hlutfalli við aukinn tilkostnað, þá væri fullnægt þeim eðlilegu kröfum, sem ég og aðrir fulltrúar bænda hafa gert. Þá væru þessi lög eigi til neins meins á þessu sviði, en mundu ekki heldur að þessu leyti miða neitt að því að draga úr dýrtíð. Hvorttveggja yrði að fást með öðrum ráðstöfunum, eins og ég hef margoft sagt, og á þeim bólar ekkert enn.

Varðandi það eftirlit, sem þessi lög gera ráð fyrir með álagningu á vörum og nauðsynlegt er, þá er þess að gæta, að til þess voru heimíldir samkvæmt öðrum lögum. Það er að vísu nokkuð almennt talið, að þetta verkefni hafi verið betur rækt, síðan þessi lög komu til framkvæmda og það hafi haft einhver áhrif til þess að standa gegn hækkandi verðlagi og hækkandi verðlagsuppbót. Sé þetta rétt, sem ég skal ekki bera brigður á, þá er það aðeins sönnun fyrir því, að gerðardóminn skipi röggsamari og skynsamari menn heldur en eru í verðlagsnefndinni. En það sannar ekkert um það, að þessi lög séu nokkuð betri en hin eldri, að því er þetta atriði snertir. Ber því að sama brunni um þetta atriði sem önnur, að ný lög um þetta efni þurfti ekki, heldur nýja og hæfari menn í þá nefnd, sem fyrir var. Ný dýrtíðarráðstöfun er þetta því ekki, heldur ný og máske hæfari nefnd ofan á hina, sem fyrir var.

Það er búið að segja æði margt um þessi lög, og ég skal ekki fara mörgum orðum um það. En af öllu, sem sagt hefur verið um það, var eitt, sem vakti mesta athygli hjá mér, en það voru ummæli, sem komu fram hjá hæstv. forsrh. í útvarpsræðu, sem hann hélt, að ég ætla, 17. janúar s.l. Hann tók þar fyrir að færa rök fyrir því, hvers vegna þessi bráðabirgðalög voru sett án þess að kalla Alþingi saman eða bíða Alþingis, og rökin voru aðallega þau, að hann. hefði ekki treyst Alþingi til að setja þessi lög. Málið mundi verða vafið og dregið og lögin ekki sett á réttan hátt. Þegar hæstv. ráðh. talaði um Alþingi í þessu falli, þá hlaut hann að miða við meiri hluta Alþingis. Rök ráðherrans um þetta voru því sérstaklega eftirtektarverð. Þau koma líka mjög vel heim við þá starfsaðferð, sem notuð hefur verið í stjórnartíð þessa hæstv. ráðherra í stærri og stærri stíl, þá starfsaðferð að halda Alþingi vikum saman í meira eða minna aðgerðarleysi, en gefa svo út bráðabirgðalög um ýmis þýðingarmikil mál svo að segja strax, þegar þingi er slitið, leggja síðan allt fyrir þingið, þegar það kemur saman mest og heimta samþykki. Þegar svo skeður annað eins og það, að formaðurinn í framkvæmdarstjórn Alþingis, ríkisstjórninni, lýsir yfir því í áheyrn alþjóðar, að slík lög sem þessi séu gefin út sem bráðabirgðalög, af því að Alþingi sé ekki treystandi til þess að samþykkja þau ella, þá er komið hálfa leið að því marki, að slíkur maður segi: Ég vil ekkert þing ! Ég vil enga þingmenn !

Annars er það augljóst mál, að á því er stórvægilegur munur fyrir Alþingi og alþingismenn að fá tækifæri til að ræða og brjóta til mergjar þýðingarmikil mál, sem fyrir eru lögð og engin föst ákvörðun hefur verið tekin um, og hinu að fá í hendur bráðabirgðalög, sem farið er að framkvæma og búið er að rífast um í blöðum og útvarpi. Þessi aðstöðumunur getur ráðið og ræður oft úrslitum um afstöðu þingmanna og fær þá til að greiða atkvæði á aðra leið en ella. Þetta kemur glöggt í ljósi afstöðu hv. allshn. hér í deildinni. Ég hygg, að engin n. hér á þingi hefði komið fram í þessu máli eins og nefndin hefur gert, ef þetta frv. hefði ekki átt neina forsögu, en verið lagt fyrir sem nýsmíðað frv. Meiri hluti þessarar hv. n. segir já og ekkert annað. Engri grein, engri setningu, engum staf er þörf að breyta. Allt er það gott. Allt skal það gilda. Allt skal það verða framkvæmt. Minni hl. n. segir hins vegar nei og aftur nei. Ekkert er nýtilegt við lögin. Allt er þar óalandi og óferjandi, allt ber að fella, öllu ber að kasta. Þarna, eins og oft endranær hér á hæstv. Alþ., kemur flokkaþrætnin og ókostir hennar fram í sinni ömurlegustu mynd.

Ég held nú, að hæstv. ríkisstj. og Alþ, í heild væri heppilegast að sníða vankantana af þessari löggjöf, snúa henni í hentugra og framkvæmanlegra horf. Meginhlutinn af brtt. hv. 5. þm. Reykv. stefnir í rétta átt. Sum bráðabirgðaákvæðin eru vafasamari og þurfa breytinga við. Ég ætla nú að sjá, hvernig fer með þessar brtt. Og mér þótti æskilegt að fá einhverja frekari vitneskju en orðið er, áður en þetta mál kemur til endanlegrar afgreiðslu hér í hv. deild, um það, hvaða ráðstafana er von til verndar framleiðslunni í sambandi við afurðaverð og vinnukraft á þessu ári.