13.04.1942
Neðri deild: 33. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 219 í B-deild Alþingistíðinda. (365)

2. mál, dómnefnd í kaupgjalds- og verðlagsmálum

*Einar Olgeirsson:

Herra forseti ! Ég býst við, að það verði allmiklar umr. um þetta mál, og er það ekki nema von, því að það vill svo til, að nokkurn veginn samsvarandi mál lá fyrir síðasta þingi. Síðan, þegar tveir mánuðir eru liðnir, frá því að þingmenn fóru heim, gaf ríkisstj. út bráðabirgðalög, þar sem 9/10 hlutar landsbúa eru sviptir öllum rétti til að verðleggja alla vinnu og vörur. Það eru aðallega gróðafélögin í Rvík, sem fá eins og einkarétt til að ráða, hvaða verð framleiðendur skuli fá fyrir vörur sínar. Þessi sérréttindalöggjöf, sem þarna er framkvæmd, eftir að Alþ. hefur beinlínis flutt löggjöf í slíka átt, en hefur ekki náð fram að ganga, er beintinis hnefahögg í andlitið á sjálfu Alþingi. Og ég álít, að ekki aðeins virðing þingsins, heldur bókstaflega tilveruréttur þess sé undir því kominn framvegis, hvort þetta lagafrv., sem hér liggur fyrir, verði samþ. og framkvæmt. Svo framarlega sem frv. sem þetta er samþ., þá er ekki til neins að koma saman ár eftir ár og halda ræður í þessum þingsölum, — ef ríkisstj. á alltaf að geta tekið sér rétt til að gefa út bráðabirgðalög rétt á eftir, sem fara þvert ofan í vilja Alþ. Með því móti er ríkisstj. að þurrka út þingræðið og taka sér einræði, sem hún byggir á því, að hún hafi svo sterk tök á meiri hl. þm. persónulega, að hún geti knúð þá til að samþ. það, sem hún hefur gert. Og fyrirlitningin af hendi stj. fyrir Alþ., sem lýsir sér í því, að annað eins skuli vera gert, er slík, að algerlega er óþolandi. Það gleður mig að heyra, að flestir þm., sem talað hafa, eru algerlega á móti þessum l., jafnvel þótt þeir hafi getað fundið eitthvað nýtilegt í þeim. Meira að segja þeir menn, sem áttu að vera forsvarsmenn þessara l. úr allshn., kinoka sér við að mæla með málinu. Þeir finna, að þeir gera þinginu skömm með því að taka undir annað eins frv. og þetta.

Nú skal ég í fyrsta lagi athuga þá afstöðu, sem tekin er af hálfu þeirra, sem þetta frv. hafa gefið út sem bráðabirgðalög, til vinnuaflsins hjá þjóðinni, þess skapandi afls, sem allur þorri Íslendinga byggir tilveru sína á, — og hins vegar til auðmagnsins, sem eitt til tvö hundruð manna hér á landi munu byggja sín völd og sinn gróða á. Með þessu frv. er öllum vinnandi stéttum landsins, öllum, sem eiga vinnuafl, bannað að hækka vinnuafi sitt í verði, þó að það sé hið eina, sem þeir eiga að geta ráðið verði á. Og hvernig eru kjör þessara manna, þegar bannið er látið ganga í gildi? Kaup Dagsbrúnarmanna í Reykjavík, þegar þeir vinna fullan vinnudag og árið um kring, hvern einasta virkan dag, gerir rétt rúmar 7 þúsund krónur. Útreikningur hagstofunnar á því, hvað 5 manna fjölskylda þurfi nauðsynlega til að lifa af, til þess rétt að geta dregið fram lífið sæmilega, telur ársupphæðina kr. 7061.00. Dagsbrúnarmenn, sem eru í einu sterkasta verkalýðsfélagi landsins, hafa kaup, sem tryggir þeim afkomu aðeins rétt yfir hungurtakmörkin. Og slíks kaups geta þeir aðeins aflað sér með því að vinna sleitulaust allan daginn alla virka daga. Vitanlega var almennt, að verkamenn misstu úr marga daga á ári á þeim tíma, sem atvinnuvandræði voru. Það þótti sjálfsagt af meiri hlutanum á Alþingi 1939 að banna verkamönnum að hækka kaupið með tilliti til þess, að atvinnuleysi væri svo mikið og ástandið svo slæmt. Og vegna þess, hve atvinnuleysið var mikið, var hægt að framkvæma slík l. Nú hins vegar, þegar verkamenn eru komnir í aðstöðu til að hækka kaup sitt og atvinnurekendur geta ekki staðið á móti því, vegna þess að samkeppnin er svo mikil um vinnuaflið, þá grípur ríkisstj. til þess ráðs að banna verkamönnum að hækka kaup sitt, stuttu eftir að Alþ. felldi lagafrv., sem gekk í þá sömu átt. Ef Alþ. samþ. ,þetta frv., þá þýðir það, að Alþ. fyrirskipar, að verkamenn landsins, meiri hlutinn af íbúum landsins, megi aldrei, aldrei nokkurn tíma, hvorki á neyðartímum né velgengnistímum þjóðarinnar, fá tækifæri til að gera meira en draga fram lífið. Því að hvenær ætlast menn til, að verkamenn hækki kaup sitt, ef ekki á tímum sem þessum? Ég tek sérstaklega dæmi af Dagsbrúnarmönnum, en eins og hv. þm. Ísaf. sýndi fram á með tölum, þá er mikill hluti verkamanna í landinu miklu verr settur en þeir menn, sem alls ekki hafa vinnu hvern einasta virkan dag ársins og þess vegna beinlínis lifa undir lágmarki því, sem hagstofa ríkisins gefur út.

Svona skil gerir hæstv. stj. verkalýðnum, meiri hluta Íslendinga, með þessum bráðabirgðal. Hvaða skil gerir hún á sama tíma þeim fáu hundruðum auðmanna í landinu? Auðmennirnir hafa rétt til að margfalda auðmagn sitt, því að í skattal. er gengið út frá, að félag, sem hefur 100 þúsund kr. hlutafé, geti grætt svo að skiptir hundruðum þúsunda kr. á einu ári, eftir að hafa borgað þá skatta, sem það á að borga. Það eru fullir möguleikar eftir skattal., sem liggja fyrir þessu þingi, að hlutafélög geti á einu ári margfaldað auðmagn sitt, og þess eru dæmi á síðasta ári, að auðfélög hafa margfaldað auðmagn sitt, allt að því þrítugfaldað, þannig, að 1000 kr. hlutabréf hafa verið seld á 30000 kr. Þessi réttur er ekki tekinn af auðmönnum þessa lands. Það á að láta 1–200 menn í Rvík þrítugfalda auðmagn sitt, en verkamenn, sem draga fram lífið á hungurtakmörkunum, mega ekki hækka kaup sitt, og það er meira að segja amazt við því, ef þeir þræla á sunnudögum og fram á nætur, til þess að fá dálítið meira upp, en við auðmennina er sagt: „Ykkar er stríðsgróðinn, látið þið ofurlítið í ríkissjóð í sköttum, hinu megið þið halda opinberlega, og því, sem þið svíkið undan skatti, haldið þið auðvitað.“ Hvernig samræmist þessi aðferð og svona l. þeirri stefnu, sem þeir tveir flokkar, sem standa að þessari stj., hafa lýst yfir, að þeir vildu fylgja? Sjálfstfl. hefur lýst því sérstaklega yfir, að hann fylgdi frjálsri samkeppni í þjóðfélaginu. Verkalýðurinn hefur yfirleitt orðið að líða undir því í þjóðfélaginu, að möguleikar fyrir hann til að selja vinnuafl sitt hafa verið á þann veg, að atvinnuleysi hefur jafnan verið það mikið, að framboð á vinnuafli hefur verið meira en eftirspurnin. Verkalýðurinn hefur því alltaf haft við slæm kjör að búa um sölu á vinnuafli sínu. Frjálsa samkeppnin í þjóðfélaginu hefur þar yfirleitt verið honum til ills. Atvinnurekendurnir hafa einokað framleiðslutækin fyrir sig og getað tryggt sér í krafti þess möguleika til þess að kaupa vinnuaflið fyrir lægra verð en það hefur verið vert. Hins vegar hefur nú skapazt það ástand í þjóðfélaginu, að frjálsa samkeppnin mundi vera verkalýðnum til hagsbóta. Það væra möguleikar fyrir verkalýðinn til að selja nú vinnuafl sitt tiltölulega góðu verði. Hvað gera þá forsvarsmenn þeirrar frjálsu samkeppni? Þeir afnema hana. Þeir gefa út l. um einokun vinnuaflsins og banna verkalýðnum að setja verð á vinnuaflið, eftir því. sem hann er fær um að selja það. M.ö.o., um leið og einhverjir möguleikar verða fyrir verkalýðinn til að hagnast á hinni frjálsu samkeppni, grípa ráðh. Sjálfstfl. til þess að afnema hana með lögum. Svar verkalýðsins, sem hefur fylgt Sjálfstfl., lét ekki heldur lengi bíða eftir sér. Verkamannafylgi Sjálfstfl. hrundi til grunna í einu vetfangi. Það var hæstv. atvmrh., Ólafur Thors; sem eyðilagði þá hreyfingu með þeirri ræðu, sem hann flutti í útvarpið, þar sem hann tilkynnti þessi l. Nú er svo komið, að ekki aðeins öll félög, sem eru í Alþýðusambandinu og fjöldi félaga utan þess, þar sem Sósíalistafl. og Alþfl. hafa sterk áhrif, hafa mótmælt þessum l., heldur hefur einnig eina verklýðsfélag landsins, þar sem Sjálfstæðismenn hafa stjórn, Hlíf í Hafnarfirði, og í stjórn þess félags er einn bæjarfulltrúi flokksins, algerlega mótmælt þessum bráðabirgðal. Á síðasta þingi var Framsókn með þvingunarfrv. fyrir verkalýðinn. Verkamenn Sjálfstfl. lögðu á móti því, og fl. tók tillit til þess. Nú hins vegar var eins og þessi áhrif væru horfin, a.m.k. var ekkert tillit tekið til þeirra, þegar þau voru sett, enda urðu afleiðingarnar þær, sem ég hef nú sagt. Ég sé líka, að nokkrir þm. Sjálfstfl. hafa tekið ákveðið afstöðu á móti þessum aðförum.

Þá langar mig að athuga nokkuð afstöðu Framsfl. til máls eins og þessa. Ég held, að sjaldan hafi einn fl. brugðizt því bezta í fortíð sinni eins hatrammlega eins og Framsfl. hefur gert með útgáfu þessara l. Það var einu sinni, að Framsfl. kvaðst vera flokkur hinna vinnandi stétta hér á landi. Þá hafði hann þá afstöðu til verkalýðsins, að hann væri kúguð stétt og ætti að styðja að því, að verkamenn gætu eignazt framleiðslutækin sjálfir. Í Tímanum 58. tölublaði 12. árg. stóð eftirfarandi klausa í ritstjórnargrein, með leyfi hæstv. forseta:

„Við höfum nú fengið atvinnudeilur og róstur milli þeirra aðila, er að framleiðslunni starfa, þar sem annars vegar stendur fámenn stétt atvinnurekenda með veltuféð og atvinnutækin í höndum sínum hins vegar tómhentir öreigar, atvinnulega ósjálfbjarga, sem selja lifandi orku sina á leigu eins og vinnudýr eða vélar. Slíkt er vitanlega aðeins stig af þrældómi.“ Þessu lýsir Tíminn yfir um það leyti, sem hann fyrst fór að taka þátt í stjórnarstörfum á Íslandi. Framsfl. rann þá til rifja þrældómur verkalýðsins, verkamenn væru tómhentir öreigar, sem yrðu að selja vinnuafl sitt á leigu eins og vinnudýr eða vélar, og hann leit svo á, að það, sem slíkir menn væru bundnir við, væri aðeins eitt stig af þrældómi. Nú hefur þessi verkalýður í fyrsta skipti í öll þessi ár möguleika til að selja vinnuafl sitt undir þeim tiltölulega góðu kringumstæðum fyrir hann, þar sem eftirspurnin er meiri en framboðið. Hvað gerir Framsfl. þá? Hann sér, að þessir verkamenn, sem hann hefur álitið, að hafi tifað við þrældóm, hafa möguleika til að losast að einhverju leyti við hann og skapað sér viðunandi lífskjör. Hvað gerir hann þá? Hann gefur út bráðabirgðal. með aðstoð helztu milljónamæringanna í landinu um, að verkalýðnum skuli vera óheimilt að hækka sitt kaup. Þegar Framsfl. sér, að þrældómstökin, sem atvinnurekendurnir hafa haft á verkalýðnum, eru ekki nægilega sterk, ljær Framsfl. ríkisvaldið til að þjóna atvinnurekendunum til þess að gera þennan þrældóm nægilega sterkan, og svo lætur forsrh. Framsfl. kaupa vopn handa lögreglunni, til þess að hægt sé að halda honum við, hvernig sem verkalýðurinn kynni að vilja standa á móti honum.

Þetta sama blað, Tíminn, gefur svo hljóðandi yfirlýsingu með miklum fjálgleik árið 1927, með leyfi hæstv. forseta:

„Dýrkendum samkeppni- og auðshyggjustefnunnar hefur verið hrundið af stóli, en til valda settir menn, sem áður höfðu haldið uppi andstöðu gegn fyrr nefndum öfgum og ófarnaðarstefnum.“

Þessi er lýsing Framsfl. árið 1927, að hann hafi steypt auðvaldinu af stóli, en ætli að skapa frjálst samfélag fyrir hinar vinnandi stéttir landsins. Nú níðist þessi sami flokkur á þeim mönnum í þjóðfélaginu til þess að geta hjálpað þeim stóru til að geta margfaldað auð sinn.

Ýmsir kunna að segja, að þessi gerbreyting og nú þessi algerða fjandsamlega afstaða Framsfl. til verkalýðsins ætti rætur sínar að rekja til þess, að verið sé að vinna fyrir bændur. Ég skal athuga það mál. Hefur Framsfl. gert eitthvað til þess að bæta verulega aðstöðu bænda í þjóðfélaginu, t.d. nú á þessum síðustu árum? Er efnahagsafkoma bænda tiltölulega betri nú, miðað við það, hvað afkoma þjóðarinnar í heild hefur batnað? Við ræddum um þetta í sambandi við launaþvingunarfrv., sem lá fyrir síðasta þingi. Hv. 2. þm. Skagf., búnaðarmálastjórinn, upplýsti þá, að heildartekjur bænda landsins væru um 30 millj. kr. Ég kom með útreikning, sem sýndi, að kjör bænda og verkamanna mundu vera nokkuð svipuð, kjör verkamanna að vísu nokkuð lakari, en miklu verri áður. Heildarafkoma þjóðarinnar hefur batnað stórlega, en afkoma bænda og verkamanna ekki batnað í neinu hlutfalli við það. Ég ætla aftur að vísa í Tímann og vitna í grein þar frá 28. marz þ.á. um það, hvernig aðstaða bændanna er nú eftir nýjustu aðgerðir hæstv. stj. og þar með Framsfl. í þessu sambandi. Þá skrifaði formaður í einu félagi ungra framsóknarmanna, Daníel Kristinsson, grein um, hvernig högum unga fólksins sé nú háttað. Þessi ungi framsóknarmaður sýnir fram á, að unga fólkið verði að flýja sveitirnar. Og vegna hvers? Vegna þess, að stórbændurnir í sveitunum haldi jarðnæðinu fyrir unga fólkinu og vilji ekki láta unga fólkið fá það til þess að búa á og í öðru lagi af því, að auðmennirnir í Reykjavík kaupi jarðirnar úti í sveitunum, oft með uppsprengdu verði, og hindri þannig unga fólkið í að eignast jarðirnar. Hann sýnir fram á, að það sé verið að reka unga fólkið úr sveitunum, sem vill fá að búa í sveit upp á að mega eiga jarðirnar sjálft og vinna á sinni eigin jörð. Hvað er Framsfl. að gera með þeirri afstöðu, sem hann hefur tekið með þessum gerðardómsl.? Hann er að hjálpa auðmönnunum til að margfalda auð sinn í kaupstöðunum og nota hann til þess að geta keypt jarðirnar í sveitunum,, húsin í bæjunum, smáfiskiskipin af smáútgerðarmönnunum, keypt allt, sem hér er saman komið. Framsfl. er því ekki að gera neitt fyrir, bændurna með þeirri afstöðu, sem hann hefur tekið til gerðardómsl. Hæstv. forsrh. hefur öðru hvoru haldið fram, að gerðardómsl. væru einn þátturinn í að koma vinnuafli til sveitanna. Ég hef bent á, hvernig fara á með það frjálsa vinnuafl, sem vill fara í vinnu í sveit, og unga fólkið, sem vill búa á jörðum sínum og rækta þær, en fær það ekki fyrir ofríki stórbændanna og auðmennanna, sem Framsfl. stendur með. Við þm. Sósíalistafl. fluttum á þingi í fyrra þáltill. um, að ríkið greiddi bændum nokkurn fjárstyrk, svo að þeim yrði fært að keppa um vinnuaflið við Bretavinnuna, og gera þeim fært að borga samsvarandi kaup og verkamenn fá í bæjum og kaupstöðum. Þessum till. var í engu sinnt. Þetta var styrkur til bænda. svo að þeir gætu orðið samkeppnisfærir um að fá nauðsynlegt vinnuafl til framleiðslu sinnar, og þetta var styrkur til verkamanna að því leyti, sem verkamönnum er nauðsynlegt, að landbúnaðarframleiðslan geti gengið, og því vilja þeir, að bændur séu samkeppnisfærir um að fá vinnuafl. Þessi styrkur var engin réttarskerðing, heldur eðlileg ráðstöfun þjóðfélagsins til að tryggja, að framleiðslan gæti gengið í friði, þannig að samboðið væri frjálsri þjóð, sem vill ekki beita kúgun við sínar stéttir. Í staðinn fyrir þetta þykir Framsfl. hlýða að framkvæma l. eins og gerðardómsl.

Svo vil ég í þriðja lagi, að því er snertir afstöðu Framsfl. til framtíðarinnar, skilgreina nokkuð afstöðu hans til þessara l. Framsfl. hefur hvað eftir annað lýst yfir, að hann vilji vinna að því, að vinnandi stéttirnar eigi sjálfar framleiðslutækin, það sé eini rétti grundvöllurinn í frjálsu samfélagi manna. Nú er vitanlegt, að bændunum á Íslandi gengur fullerfiðlega að halda jörðum sínum, og enn þá er ekki komið lengra en svo, að helmingur íslenzkra bænda eru leiguliðar. Svo skulum við athuga, hvernig aðstaðan er fyrir þá, sem í kaupstöðunum eru, að eignast framleiðslutækin þar. Við vitum, að á venjulegum tímum, og venjulegir tímar þýða atvinnuleysi fyrir verkalýðinn, er litill kosiur fyrir verkamenn að safna fé til að kaupa framleiðslutækin eða eignast hlut í þeim. Það er aðeins undir einum kringumstæðum hugsanlegt, að þeir gætu slíkt, á þeim tímum, þegar eftirspurnin eftir vinnuafli er svo mikil, að þeir gætu með því að tryggja sér þá gott kaup og stöðuga vinnu, aflað sér svo mikils fjár, að þeir gætu orðið eigendur að einhverju af framleiðslutækjunum. Frá sjónarmiði Framsfl., sem segist vilja, að verkamenn eigi sjálfir framleiðslutækin, finnst manni eðlilegt, að verkamenn ættu að fá að nota aðstöðu sína á þessum tímum til þess að safna fé til að eignast framleiðslutækin. Nú eru slíkir tímar og slík tækifæri, og ef til vill koma þau ekki nema einu sinni með hverri kynslóð. Hvað gerir Framsfl. þá, þegar verkamenn fá tækifæri til að hafa talsvert fé aflögu, hafa næga vinnu og geta fengið kaup sitt hækkað í krafti sinna samtaka til þess að tryggja framtíð sína? Þá bannar flokkurinn að hækka kaupið og gefur til þess út sérstök l. með aðstoð helztu milljónamæringanna í landinu. Þá tryggir hann auðmönnunum, að þeir geti safnað tugum milljóna af stríðsgróða. Þeir geta ekki aðeins eignazt öll tæki, sem þeir skulduðu áður, heldur fá þeir til viðbótar möguleika til að kaupa mikið af þeim eignum og tækjum, sem fyrir eru hjá þjóðinni, og mikið af nýjum tækjum, þegar möguleikar eru til að fá slík tæki inn. Framsfl. styður þannig að því, að atvinnurekendurnir fái margföld völd og margfaldan auð, að nokkrir menn verði miklu ríkari og voldugri en dæmi eru til áður, og það á þeim eina tíma, sem hugsanlegt væri, að allur þorri landsmanna gæti eignazt nokkurt fé til að verða meðeigandi í framleiðslu þjóðarinnar. Allt, sem Framsfl. hefur talið, að hann vildi styðja á lýðræðislegan hátt, að vinnandi stéttirnar gætu sjálfar eignazt framleiðslutækin og tekið þau, allt þetta er eintóm blekking. Þegar þeir tímar koma. að verkamenn gátu fengið kaup sitt hækkað og eignazt eitthvað af þessum framleiðslutækjum, bannar Framsfl. þeim það og afhendir stríðsgróðamönnunum allt saman.

Ég álít því, að Framsfl. hafi með afstöðu sinni til þessara gerðardómsl. sýnt á mjög sorglegan hátt, hversu gersamlega hann hefur brugðizt þeirri stefnu og þeim yfirlýsingum, sem hann hvað eftir annað hefur komið með, að hann vildi styðja að því að skapa þjóðfélag, þar sem efna hagurinn væri tiltölulega jafn. Hann hefur með því að gerast meðábyrgur um þessi gerðardómsl. þverbrotið allt þetta og stigið það stærsta skrefið, sem stigið hefur verið á Íslandi til að skapa fasitískt auðvald, sem getur drottnað yfir 9/10 hlutum þjóðarinnar með því sterka valdi, sem eignarhald á öllum framleiðslutækjum er, þegar þjóðin þarf á þeim að halda. Það voru möguleikar í sambandi við stríðsgróðann að stiga spor til atvinnulegs lýðræðis á Íslandi, svo framarlega sem verkalýðurinn, bændur og bjargálnamenn hefðu fengið tækifæri til að bæta kjör sín, hækka kaup sitt og öðlast þannig betri afkomu. Það var möguleiki til að nota stríðsgróðann á þennan hátt. Það var hægt að skapa meira atvinnulegt lýðræði og stíga a.m.k. nokkurt spor í áttina til þess. En það, sem gert var, var alveg þveröfugt. Það var stigið stærsta sporið, sem stigið hefur verið í áttina til meira pólitísks og atvinnulegs einræðis. Og sú stjórn, sem gerir það, hafði lofað, þegar hún komst til valda, að láta eitt ganga yfir alla þjóðina. Hún var með fagrar heitstrengingar, sem hún auglýsti í blöðum og útvarpi, að nú ætti að gera hlut þjóðfélagsþegnanna sem jafnastan, það mundi ekki verða þolað, eins og hæstv. forsrh. tók svo djúpt í árinni, að ein stétt gengi á hlut annarrar, heldur yrði eitt látið yfir alla ganga. Slíkir tímar sem þessir voru vel til þess fallnir að vinna að því, að allir yrðu jafnir. En þegar tækifærið kemur til þess að standa við fögru orðin, þá eru milljónamæringunum nýju úthlutuð einkaréttindi til að drottna yfir allri þjóðinni: Þá er sagt við verkamenn, bændur og smærri atvinnurekendur: „Þið megið ekki hækka verðið á vinnuafli ykkar eða ykkar vöru. Þið megið ekkert gera til að bæta kjör ykkar, nema n., sem stj. skipar leyfi það.“ Og svo er þessari n. með l. bannað að gera nokkuð verulegt í þá átt, um leið og auðmönnunum, sem drottna yfir útflutningnum, er tryggður réttur til að geta einir saman grætt. Allir þeir, sem selja vöru ! innlendum markaði, eru undirgefnir þessi I.

Þeim er bannað að hækka verð á vöru sinni. Þeim er bannað að fá hlutdeild í þeirri bættu afkomu, sem þjóðin hefur orðið aðnjótandi. Allt, sem hefur orðið til að bæta hag þjóðarinnar, á að renna til stórútgerðarvaldsins eins. Með þessum l. á að koma á atvinnulegu alræði útflutningsauðvaldsins hér á landi.

Það er því ekki að undra, þó að þessi lög spyrjist illa fyrir og finni fáa formælendur í þinginu. Og það er hart, að flokkur, sem hvað eftir annað hefur lýst því yfir, að hann vilji vernda lýðræðið og frelsið, skuli dirfast að bera fram önnur eins lög og þessi. Einmitt það, sem hefur verið álítið grundvöllur undir mannréttindunum, en það er að ráða sjálfur, hve maður selur vinnuafl sitt dýrt, er algerlega afnumið með þessum lögum. Enda hafa þau vakið meiri andúð heldur en nokkur önnur lög. Svo framarlega sem framfylgja ætti þessum l., yrði að fara í mál við annað hvert fyrirtæki og allan þorra af þeim verkamönnum, sem við þau vinna. Það er ekki hægt að halda í annað eins einræði og kúgun, nema með því, að stjórnin breyti algjörlega um vinnuaðferð, en það mun henni veitast full erfitt. Hatrið hjá fólkinu móti þessum lögum er svo almennt, að óhætt er að segja, að þau munu fremur öllu verða til þess að valda uppreisn í þjóðfélaginu. Það er því mjög undarlegt, að flokkur, sem sífellt hefur talað um friðsamlega þróun, skuli gefa út lög, sem stefna að því að valda uppþotum meðal fólksins, vegna þess, hve ranglát þau eru. Enda hefur ríkisstjórnin gert ráð fyrir ýmsum róstum í sambandi við framkvæmd l. Það hefur hún sýnt með vopnapöntunum, að hún vill ekki vera óviðbúin, ef til átaka kemur. Okkur þykir því leitt til þess að vita, að flokkur, sem stöðugt hefur þótzt vernda lýðræðið og halda uppi friði í landinu, skuli beita því versta ofbeldi, sem hægt er að hugsa sér. Það er ekki nóg, að þeir svipti fólki öllum mannréttindum, heldur gera þeir beinlínis tilraun til að eyðileggja þingræðið í landinu, þar sem þeir virða vilja og skoðanir Alþ. að vettugi. Á síðasta Alþ. kom vilji þess greinilega í ljós og afstaða þess var augljós í þessum málum, eftir að það hafði þá hafnað frv., sem kom fram í þessa átt. En við vitum, að það, sem gaf ríkisstjórninni kraft til að gefa út þessi brbl., var eftirfarandi: Alþ. hafði fellt svona lög, en stjórnin gaf út brbl. og vildi fá þau samþ. og komið á þing í krafti þess að geta handjárnað þm. Nú er svo komið, að meiri hluti þm. er í þjónustu ríkisins, og stjórnin ætlaði að kúga þá til þess að samþ. þessi lög, hver svo sem skoðun þeirra væri. Sú breyting hefur orðið á síðustu áratugum, að meiri hluti þm. eru nú launaðir starfsmenn ríkisins. En hvers konar ofsóknum er beitt gegn þeim mönnum, sem eru í andstöðu við ríkisstj., og þeir settir utangarðs hjá þjóðfélaginu? Þeir menn úr Sjálfstfl. og Framsfl., sem rísa gegn lögum þessum, vita, á hverju þeir eiga von. Og í krafti þess kúgunarvalds, sem ríkisvaldið er orðið, ekki aðeins gagnvart þjóðinni, heldur einnig gagnvart sjálfum þm., er þeim boðið að samþ. lög, sem þeir fyrir 4 mán. voru á móti. Það er augljóst, að með slíkri aðferð, verður Alþ. hrein skrípamynd. Það mundi ekki koma mér á óvart, þó að hæstv. forsrh., ef þessi lög verða samþ., segði við hv. þm.: „Hvað á ég að hugsa um ykkur, þm. góðir? Þið neituðuð í haust að samþ. svona lög, en nú greiðið þið hiklaust atkvæði með þessum brbl: Ég efast ekki um, að hann mundi spyrja á þessa leið. Nei, ef Alþ. ætlar að samþ. lög eins og þessi. þá er það að kveða upp dauðadóminn yfir sér. sjálft. Ég vona að umr. um þetta mál eigi eftir að leiða á ljós, að það sé til sterk andstaða gegn þessum málum. Viðvíkjandi þeim brtt,, sem fram hafa komið og teknar hafa verið aftur til 3. umr., vil ég segja það, að rétt hefði verið að ræða þær núna, til þess að það kæmi í ljós, hve sterkur vilji er innan Alþ. til að afmá þessi kúgunarlög.