27.04.1942
Neðri deild: 42. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 240 í B-deild Alþingistíðinda. (392)

2. mál, dómnefnd í kaupgjalds- og verðlagsmálum

Frsm. minni hl. (Finnur Jónsson):

Það hefur verið svo við þessar umræður, að meiri hluti allshn. hefur varla eða ekki haldið uppi svörum fyrir frv. og ríkisstjórnin ekki látið sjá sig í deildinni, að undanteknum fjármálaráðherra, sem mun þó eiga minnst sjálfur í frv. af þeim, sem í ríkisstjórninni sitja.

Enda er það svo, að þann tíma, sem frv. hefur verið í gildi, hefur það komið í ljós, að lögin eru óframkvæmanleg, og af því mun það stafa, að frsm. meiri hluta allshn. hefur ekkert gert til þess að svara þeim fyrirspurnum, sem beint var til hans sem formanns meiri hluta nefndarinnar. Hann hefur algerlega gengið fram hjá því, sem ég hef lent á, að þessi löggjöf verður brotin á hverju heimili landsins, sem þarf á vinnuafli að halda, og þetta atriði er svo viðurkennt, að meira að segja hefur komið til mála að flytja brtt. við frv. um, að vinnufólk í sveit verði algerlega undanþegið gerðardómslögunum. Hvað því veldur, að sú tillaga er ekki komin frá nefndinni, veit ég ekki, nema ef það skyldi vera það, að ríkisstjórnin kunni betur við að vita, að þessi löggjöf sé meira almennt brotin en almennt haldin.

Ég vildi gjarna, ef forseti gæti hlutazt til um, að frsm. meiri hlutans yrði viðstaddur umræðurnar. (Forseti: Ég býst við, að þm. sé í næsta herbergi og heyri umræðurnar.)

Ég vildi spyrja frsm. allshn., hvort honum sé .ekki kunnugt um, að það sé rétt, sem haldið hefur verið fram, að á hverju einasta heimili á landinu, sem þarf á verkafólki að halda, verði ákvæði l. um það, að ekki megi borga hærra kaup á árinu 1942 en borgað var 1941, brotin. Ég vil spyrja hann, hvort hann hafi ekki reynslu um þetta. Ég býst við, að allir þm., sem þurfa á verkafólki að halda, viti þetta. Ég vil spyrja hann, hvað hann meini með því, að gerðardómurinn eigi að færa kaup til lagfæringar og samræmis. Ég upplýsti við fyrstu umr. þessa máls, að það er fjöldi fólks í landinu, sem hefur 1.20 og þaðan af lægra, já 1.10 og þaðan af lægra í kaup. Meinar hann ekki, að gerðardómurinn eigi að hækka þetta kaup? Ef hann gerir það ekki, eru ummæli hans um þetta tóm vitleysa. Því að það er vitað, að þessir menn hafa lægsta kaupið, hafa minnsta atvinnu, því að þeir eru á útkjálkunum, þar sem minnst eftirspurn er eftir vinnu.

Ég hef ekki hugsað mér að halda langa ræðu um þetta mál, en vil undirstrika það, að varnarleysi meiri hlutans og stjórnarinnar í þessu máli stafar af því, að þeir vita, að þessi löggjöf er brotin, áður en búið er að samþykkja hana hér á þinginu. Ríkisstjórnin ætlaði sér þá dul, að setja þessa löggjöf þvert ofan í vilja verkalýðsins í landinu, en er bú in að fá þann smjörþefinn af þessari lagasetningu, að hún er í raun og veru flúin frá henni. En sæmra væri henni að reyna að fá samkomulag við verkalýð landsins en að halda áfram í þráa og vitleysu að setja þessi lög, sem allir þm. vita, að eru brotin, áður en þau eru staðfest hér í þinginu.

Það hefur eitthvað verið talað um virðingu Alþingis. Ég geri ráð fyrir, að þm. sé sárt um hana. En hvað verður um virðingu Alþingis, ef það heldur áfram að setja lög, sem fyrir fram er vitað, að eru brotin af öllum þorra þjóðarinnar? Það er vitað, að þessi löggjöf var brotin, áður en þetta frv. var lagt fyrir þingið, og hvaða vit er í að halda áfram með aðra eins forsmán og þessi löggjöf er?

Ég vil ekki samgleðjast andstöðuflokkum Alþýðuflokksins með þetta mál, þó að ég viti, að þeim verður það til hins mesta tjóns, en ég vil þó segja það, að þótt ég vilji gjarna, að Alþýðuflokkurinn eflist á þessu máli, þá hefði ég þó heldur séð það, vegna minna góðu félaga í þessari deild og okkar góðu samvinnu, að þessi löggjöf hefði ekki orðið Alþingi til annarrar eins svívirðu eins og hún verður, ef hún verður staðfest.