27.04.1942
Neðri deild: 42. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 241 í B-deild Alþingistíðinda. (393)

2. mál, dómnefnd í kaupgjalds- og verðlagsmálum

*Einar Olgeirsson:

Ég held það megi segja, að atvinnulífið sé komið í öngþveiti vegna þessara Iaga. Á hverju sviðinu á fætur öðru, bæði meðal atvinnurekenda og í opinberum rekstri, ræða menn það sín á milli, á hvern hátt þeir eigi helzt að komast í kringum þessi lög eða brjóta þau svo, að sem minnst beri á því. Ég get upplýst það, að í bæjarráði Reykjavíkur og ýmsum stofnunum, sem bæjarstjórn Reykjavíkur kýs, r það, eitt aðaláhyggjuefni forráðamanna bæjarins, að þá vantar vinnuafl, og það hefur þegar verið gripið til þeirra ráða að brjóta þessi lög og hækka kaupið til þess að missa ekki fólkið. Eitt af viðfangsefnunum er það, hvernig skuli fá fólk til þess að vinna við hitaveituna, og eitt af alvarlegustu málum heilbrigðisstjórnarinnar er það, hvernig skuli fá fólk til spítalanna. Nú er svo komið, að fjöldi af sjúkrarúmum er auður, vegna þess að ekki fæst fólk til þess að starfa við spítalana. Það, að ekki er búið að loka sjúkrahúsunum hér í Reykjavík, er vegna þess, að starfsfólkinu hefur beinlínis verið leyft að taka að sér þvott af erlendum hermönnum, því að það hefur ekki fengizt til þess að vera öðruvísi. Svona eru aðferðirnar, sem verður að grípa til vegna þeirrar vitleysu, sem ríkisstjórnin er búin að gera með þessum lögum.

Ég vil nú spyrja: Hvaða ábyrgð ætla þingmenn að taka á sig viðvíkjandi atvinnu hér í sumar? Það þýðir ekki að tala um það með þjósti, eins og gert er hér í sumum blöðunum. Hverjir eru það, sem hindra, að fólkið fari í þessa vinnu, aðrir en þeir, sem hafa girt fyrir það með l.? Það er algert ábyrgðarleysi, ekki aðeins það að setja þessi l., heldur það, að þau skuli geta komizt eins langt og til 3. umr. hér í þinginu, og ég lýsi ábyrgðinni af setningu þessara l. á hendur þeim, sem samþykkja þau. Íslenzkur verkalýður er nú sem stendur of sterkur til þess að þurfa að beygja sig undir þessi þrælalög. Það er líka svo komið, að opinberar stofnanir neita að beygja sig undir þessi þrælalög, og svo getur ríkisstjórnin dregið þá alla saman fyrir dómstólana, en þótt hún geti kært einhverja af þessum mönnum, býst ég ekki við, að hún geti bjargað atvinnuvegunum. Sú ríkisstjórn og þeir ,þingmenn, sem samþykkja þessi lög, taka á sig ábyrgðina. Það er ekki hægt að halda atvinnuvegunum uppi með þrælalögum. Ekki nema með frjálsu samkomulagi við verkalýðinn í landinu. Þetta verða þm. að gera sér ljóst nú á þessari stundu, þegar frv. er komið til 3. umr.

Stjórn stærsta verkalýðsfélagsins í landinu hefur boðið samvinnu til þess að vinna að því að skipuleggja vinnuaflið hér á Íslandi í þágu ríkisstjórnarinnar og landvarnanna. Ríkisstjórnin hefur ekki svarað þessu. Hún hefur hrundið frá sér útréttri hendi verkalýðsins. Stjórnin hefur máske gert þetta í trausti þess, að með fjölmennri lögreglu og vopnakaupum sé hægt að halda landbúnaðinum uppi. Hv. þm. taka á sig ábyrgðina. Verkalýðurinn hefur gert skyldu sína, þegar hann er búinn að bjóða fram aðstoð sína, sem var vísað á bug. Enginn af þingmönnum Framsóknar- og Sjálfstæðisflokksins talar nema af fullkomnu ábyrgðarleysi um, hvers konar vandræði séu framundan. Verkalýðsfélögin bjóða til samvinnu um skipulagningu á vinnuaflinu, en enginn þessara þingmanna minnist á það.

Ráðstafanir hæstv. ríkisstjórnar hafa allar miðað að því að auka öll störf við óþarfa vinnu í landinu. Það hefur verið aukinn innflutningur á óþörfum vörum. Það hefur ekki verið byggt og meira og meira af húsnæði ríkis og bæja tekið í gersamlega óþarfan atvinnurekstur. Það hefur ekkert verið gert til þess að stemma stigu fyrir þessum óþarfa rekstri, sem er öllum til ills. Ekkert hefur verið gert, sem gæti miðað til þess að leiða vinnuaflið frá óþarfari störfunum til hinna þarfarl. Það hefur ekki verið snert við neinu sviði atvinnulífsins nema því að halda kaupi verkalýðsins niðri. Það er nauðsynlegt, að þetta komi greinilega fram og það aftur nú við þessa umr., vegna þess að í blöðum þeim, sem styðja ríkisstjórnina, er stöðugt klifað á þeim vandræðum, sem séu framundan, en aftur á móti reynt að gera ástandið sífellt verra og beinlinis lokað þeirri einu leið, sem til er, þ.e. samkomulag við verkalýðinn. Hverjir halda hv. þm., að haldi uppi atvinnulífinu í landinu? Ætta þeir að gera það, þegar þingi er lokið, eða láta blöðin gera það eða þá, sem starfa í Bretasjoppunum? Þeir hundsa þann eina aðila, sem gæti það. Og ekki aðeins það, heldur reka þeir snoppung í andlit hans með þessum lögum. Það er nauðsynlegt, að þeir geri sér ljóst, hverjar afleiðingar verk þeirra kunna að hafa.

Ég vil nú snúa mér að því, sem frsm. allshn. sagði um andstöðuna í landvörnunum í sambandi við þetta mál. Hann minntist á, að útlendingarnir, sem hefðu þær með höndum, ættu að sjá um þær. Það væri nauðsynlegt, að verkalýðurinn sæi um það, sem þyrfti að vinna hér í landinu. Í því sambandi liggur næst að spyrja: Hefur ríkisstjórnin gert ráðstafanir til að fá þessa aðila til þess að sjá um slíkt, og hverjar undirtektir hefur sú tilraun fengið, ef hún hefur verið gerð? Það liggur engin skýrsla fyrir um það. Og enn fremur í hvaða tilgangi slík tilraun hafi verið gerð, ef hún hefur verið gerð. Hefur hún verið gerð af áhuga fyrir herstjórninni eða af áhuga fyrir því, að hægt verði að halda kaupi verkalýðsins niðri? Var slíkt í uppsiglingu, þegar viðskmrh. flutti ræðu sina á síðasta þingi um lögþvingaðan gerðardóm? Var ekki hægt að koma á jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar, nema herstjórnin sæi um það jafnvægi? Var það tilgangurinn að fá þá til þess, svo að hægt væri að halda kaupinu niðri? Ég spyr, því að það er nauðsynlegt, að þetta komi fram í umræðunum. Þetta var ekki til þess að bjarga atvinnuvegunum, heldur til þess að svipta verkamenn í þeirri aðstöðu, sem þeir höfðu, og halda kaupi þeirra niðri.

Hvernig stendur á því, að útlenda herstjórnin hefur áhuga fyrir því að hafa íslenzka verkamenn í þjónustu sinni? Það stendur svoleiðis á því, að það kaup, sem innlendir verkamenn fá, er miklu minna en það, sem þeir þyrftu að borga útlendingum. Það borgar sig fyrir herstjórnina að hafa innlenda verkamenn í þjónustu sinni. Ef hér sæti skynsöm ríkisstjórn, mundi hún fá verkamenn til þess að hækka kaupið, þangað til farið væri að flytja inn erlenda verkamenn. Auðvitað þyrfti að byggja yfir þá verkamenn, en það krefst aftur meiri vinnu. Hingað hafa verið teknir amerískir verkamenn, en það hefur aldrei verið gefið upp, hvaða kaup þeir hefðu, og það er af því, að það hefur verið svo hátt, að flesta íslenzka verkamenn mundi sundla, ef þeir vissu, hve hátt það er.

Íslenzkur verkalýður verður að nota sér þetta eina tækifæri, sem hann hefur fengið, til þess að tryggja sér nægilega vinnu í þessu þjóðfélagi, því að nú er það hægt, án þess að atvinnurekendastéttin geti veitt nokkra mótspyrnu, og hann verður að reyna að fá kjarabætur, því að allir vita, hvernig verkalýðnum gengur að fá kauphækkun á atvinnuleysistímum. Verkalýðurinn hefur því beina hagsmuni af því að stuðla að því, að það ástand haldist, sem skapar eftirspurn eftir vinnuaflinu. Þess vegna er eðlilegt, að hann standi á móti hvers konar tilraun til þess að svipta hann þessari aðstöðu. Þegar svo fara saman hagsmunir þjóðfélagsins og hagsmunir þessarar stéttar, er sjálfsagt fyrir verkalýðinn að standa fast um þetta, og þegar verkalýðurinn hefur boðizt til samstarfs um þetta mál og því hefur verið neitað, er það ekki honum að kenna, hvernig fer. Það er orðið ljóst, að þessi lög, sem hér um ræðir, eru að nokkru leyti gagnslaus, en að nokkru leyti hægt að nota þau til þess að beita harðvítugum aðferðum til þess að eyðileggja atvinnulíf þjóðarinnar. Það er bart, að fylgi við eina ríkisstjórn skuli verða þess valdandi, að menn eru reiðubúnir að samþykkja svona vitleysu, og það er hart, að sjálfstæði þingmanna skuli ekki vera svo mikið, að þeir treysti sér til þess að horfast í augu við staðreyndirnar.

Brtt. þær, sem hérna liggja fyrir frá n., eru yfirleitt lítils eða einskis virði, og það er ekki nema gott. Það eina, sem raunverulega getur hjálpað, eins og nú er komið, er, að þetta frv. sé fellt eða á annan hátt vísað frá og að ríkisstj. taki upp samninga við þann aðila, sem hún hefur mest fjandskapazt við í þessu máli, til þess í samvinnu við hann að leysa þau vandamál, sem nú steðja að.